Monday, June 26, 2006

Stirnir er á "ekki taka mynd af mér" tímabilinu núna, svo þetta er svipurinn sem kemur þegar hann veit af því að það er verið að taka mynd af honum! Hann stendur sig þessvegna ekki vel í fyrirsætuhlutverkinu hjá kínverjum þessa dagana, felur sig bakvið rassinn á mér þeim til armæðu.

Þetta var bara ágætur mánudagur, skólinn gekk vel, Stirnir settist í fangið á kennaranum Mrs. Moore þegar hún var að lesa sögu fyrir hópinn svo hann er greinlega að færa sig upp á skaftið. Ég fylgdist með Huga í stórfiskaleik og fleiri leikjum á skólalóðinni og hann stendur sig vel, kennarinn útskýrir bara fyrir honum með bendingum og táknum og hann skilur til hvers er ætlast af honum.
Ég fékk nafnspjald hjá einni mömmunni í morgun með netfangi. Ég hef séð það að ég verð að fá mér nafnspjald, allar kellingar eru að skiptast á þessu. Algjört möst ef ég ætla að vera með í mömmuklíkunni.
Ég las grein í blaði um eiginkonur erlendra manna sem vinna í Shanghai (expats). Það er víst hægt að þekkja þær á því að þær eru með fullkomlega snyrtar hendur og líta út fyrir að vera mjög afslappaðar því þær eru líklega nýkomnar úr nuddi. Reyndar fjallaði greinin um það að þessi goðsögn um eiginkonurnar sem lifa eins og prinsessur sé ekki sönn því þær þurfi að hugsa um heimilið, börnin og fleira. En vandamálið sé að þeim tekst ekki að læra kínversku því þær séu í litlum tengslum við veröldina hérna, eru ekki úti á vinnumarkaðnum til dæmis. Þær hópa sig því saman.
Eiginmennirnir eru flestir að vinna mikið svo ekki fá þær stuðning frá þeim. Ég segi fyrir mitt leyti að þá þarf Kjartan oft að vinna á kvöldin vegna þess að þá er hann í sambandi við Ísland vegna tímamismunar, CCPmenn á Íslandi eru að mæta til vinnu þegar vinnudeginum ætti að vera að ljúka hér.
Við Kjartan stefnum á kínverskunám, hann er búinn að finna skóla hérna við hliðina, ætli hann byrji ekki og svo fer ég í ágúst þegar strákarnir byrja í skólanum. Mér finnst skrýtið að vera svona algjörlega mállaus. Ég þurfti að kaupa verkjalyf áðan og þurfti að leika höfuðverk í apótekinu og það gekk.
Ég fór með strákana út í mall hérna við hliðina á okkur seinni partinn, var að leita að söndulum fyrir mig og þurfti að fara í smá matarinnkaup líka. Ég var með bræðurna í kerrunni og tók því lyftuna milli hæða. Ég lenti hvað eftir annað í því að fólk tróð sér fram fyrir mig þegar ég var á leið inn í lyftuna og oft endaði það þannig að ég komst ekki með í lyftuna með kerruna. Biðraðamenning er semsagt ekki á háu stigi hérna, ég hefði haldið að svona fjölmenn þjóð væri þróuð að þessu leyti en hver virðist hugsa um sinn rass. Ég lendi líka í þessu í búðum, fólk sætir lagi að smeygja sér framfyrir. Þetta er það eina sem fer í taugarnar á mér í mínu daglega lífi hérna, samborgarar mínir eru yfirleitt mjög indælir og hjálplegir.
Þegar ég var með leikþáttinn í apótekinu tók ég eftir því þegar honum var lokið að strákarnir voru farnir að borða brauð, þá stóð kona þarna við hliðina og rétti þeim bita að brauði sem hún var sjálf að borða. Ég vona að þeir líti ekki út fyrir að vera illa nærðir hjá mér, það var eins og hún væri að gefa öndunum því hún rétti þeim alltaf meira og skoðaði þá vel meðan þeir voru að borða.
Ég ætla að forða mér yfir í annað herbergi, það er mýfluga hérna á sveimi í kringum mig.
Dalla

1 comment:

Anonymous said...

þú verður orðin ROSALEG í Actionary á notime leikur "Þórsmörk" og það verður giskað á það í fyrsta giski

kv.
Finnur CCP HQ