Þá er dagur 2 liðinn, strákarnir sofnuðu ekki fyrr en kl. 2, bara framför síðan í gær en þá lognuðust þeir útaf í morgun við dagrenningu kl. 5. Þeir voru báðir búnir að sofa einhverja dúra að deginum og þetta endaði svona. En við snúum þessu við hægt og rólega, það tekur tíma að jafna út 8 tíma mismun, við erum á undan Íslandi.
Bræðurnir vöknuðu glaðir eftir hádegið, reyndar byrjaði Stirnir á því að gubba en það hefur líklega bara verið vegna þess að hann drakk volgt vatn en Kínverjarnir eru ekkert að kæla vatnið í hitanum og við ætluðum að reyna þetta líka. Við settum flösku inn í ísskáp til að koma í veg fyrir svona slys í framtíðinni.
Við fengum skemmtilega heimsókn en það voru Atli vinnufélagi Kjartans og Yongjia og með þeim í för var hvolpurinn Table. Þau færðu strákunum góða gjöf, digitalmyndavél og Hugi byrjaði að mynda í gríð og erg. Hann myndaði m.a.s. klósettið, þ.e.a.s. ofan í það en það voru ansi skemmtilegar myndir þarna hjá honum, nokkrar sjálfsmyndir líka.
Við kíktum svo út á leikvöll, Stirnir tók litabókina með, leit bara upp úr henni þegar kínversku smábörnin komu að kíkja á hann eða þegar hundar áttu leið hjá, þá rauk hann af stað að klappa þeim. Hugi þaut um svæðið, þeir fengu Gatorade bræðurnir til að hressa sig við og Hugi varð svo sprækur af þessu að hann gerði armbeygjur og þaut um allt.
Við fórum svo að láta taka myndir af okkur í líkamsræktarskírteinin okkar, það voru frekar fyndnar myndir af bræðrunum teknar í kassa, gervibros. Hugi ætlar í karatetíma í fyrramálið. Hann lýsti því yfir í dag að hann ætlar ekki að fara frá Kína fyrr en hann nær sér í svarta beltið. Stirnir hefur mestan áhuga á boltalandinu í líkamsræktinni, ætli ég skelli mér ekki í jóga eða pilates.
Við fórum síðan með leigubíl á markað til að kaupa fjarstýrðan bát sem breyttist svo í fjarstýrðan bíl þegar á staðinn var komið. Hugi valdi sem sagt kappakstursbíl og Stirnir valdi sér fígúrur úr Nemo. Þegar við birtumst á markaðnum sögðu sölumennirnir: Game boy, game boy! Strákarnir eru auðvitað í markhóp fyrir game boy og svo fengum við gylliboð um DVD og fleira.
Hugi valdi sér sandala því skórnir voru farnir að meiða hann á göngunni.
Eftir markaðsferðina vorum við orðin svöng, Atli og Yongjia voru ennþá með okkur og þau leiddu okkur á veitingastað. Þar var boðið upp á tofu með krabbakjöti, tómata með eggi, einhversskonar nautakjöt í raspi sem dýft var í majónes, maís og dumplings. Hugi sá mynd af dumplings fyrir utan veitingastað og spurði hvort þetta væru kálbögglar, vonandi kemur þetta í staðinn fyrir kálbögglana íslensku, þeir borðuðu allavega vel og Stirnir gat ekki hætt að lýsa yfir ánægju sinni með matinn. Við þurfum að venjast því að réttirnir eru bornir fram fyrir allt borðið og svo er maður með litla skál til að setja matinn í og borða upp úr. Strákarnir æfðu sig með prjónana og það gekk svona upp og niður. Hugi spurði reyndar þegar hann fékk prjónana í hendurnar: Hvar er garnið?
Niðurstaðan er góður dagur og glaðir strákar, miklu betra hljóð í þeim í dag en í gær þegar þeir voru alveg til í að fara strax aftur til Íslands.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment