Monday, June 12, 2006



Nú stendur Kjartan í ströngu, leikurinn kemur út í Kína í dag. Við höfum þessvegna ekki séð mikið af honum í dag en björguðum okkur alveg sjálf á meðan.
Við vorum nú bara heima við framan af degi, strákarnir léku sér í herberginu, kojan þeirra er góður leikstaður. Stirnir situr mikið í efri kojunni og litar í litabók, hann er mjög vandvirkur og fer helst ekki úr húsi án litabókarinnar.
Víð kíktum í garð síðdegis sem er hérna í götunni okkar, hann er nefndur eftir hverfinu okkar Xujiahui (Sjú djía hvey) en hverfið okkar er nefnt eftir manninum sem átti landið sem það er byggt á. Þessi maður vingaðist við kaþólskan biskup og tók kaþólska trú og þessvegna er kaþólsk kirkja hérna í næstu götu sem hann lét reisa.
Þetta er lítill garður en mjög skemmtilegur, margir að gera Tai chi æfingar og við rákumst á fólk sem gekk berfætt á smásteinum sem voru steyptir þannig að þeir nudduðu/stungust í iljarnar. Við tókum af okkur skóna og prófuðum þetta lika og þónokkrir fylgdumst með þessum aðförum og hvöttu okkur áfram. Ég var nú ansi sárfætt og fór bara einn hring með Stirni sem æjaði og óaði en Hugi stóð sig vel og fór marga hringi og hlaut mikið lof fyrir. Þarna eru líka líkamsræktartæki, ég skildi nú ekki alveg hvernig þau virkuðu öll, ég þyrfti að liggja á gægjum og fylgjast með vönum mönnum en við reyndum okkur nú samt í þeim.
Þá var komið að verslunarferð. Við fengum leiðbeiningar frá Kjartani um staðsetningu næstu kjörbúðar og skunduðum þangað. Þar varð heilmikið uppistand þegar við mættum á staðinn. Hugi var næstum því kyrktur sagði hann af einni afgreiðsludömunni hún faðmaði hann svo fast. Sölukonurnar töluðu heilmikið við mig, verst að ég skildi ekki neitt og leiðbeindu mér aðeins. Mér tókst að kaupa allskonar drykki handa strákunum, þeir hugsa mest um að drekka þessa dagana. Svo keypti ég í matinn, og hvað haldiði að það hafi verið, nú auðvitað vorrúllur með hrísgrjónum. Ég var bara stolt af sjálfri mér að geta bjargað mér svona ein og óstudd.
Þegar heim var komið kíktum við á leikvöllinn því var allt fullt af krökkum, allir komnir heim úr skólanum. Það eru allskonar tæki sem börnin koma með á leikvöllinn, bílar og trukkar sem ganga fyrir rafmagni. Hugi ágirnist svona bíl en það liggur fyrir nefnd hvort lagt verður í slík kaup. Við erum jú ekki með bílskúr, sumt af þessu er svo stórt að það myndi fylla herbergið þeirra. Hans helsta von núna er að tannálfurinn verði rausnarlegur því hann er með lausa tönn, sú fyrsta. Hvolpurinn Table kíkti svo í heimsókn með foreldrum sínum Atla og Yongjia, strákarnir knúsuðu hann og fengu að halda á honum. Ég set mynd með af honum, tekin af Huga en allar myndir eru teknar af Huga nema sú sem er af mér, Kjartani og Huga nýfæddum, þar er Jóra myndasmiðurinn. Verð að geta þess fyrir fjölskylduna að bræðurnir sofnuðu klukkan tíu svo þetta er allt að komast á rétt ról.
Bloggið kemur óvenju seint núna en ég gat ekki sett það inn fyrr því kínverjarnir eru með bann á sumum síðum og þar á meðal blogspot, ég verð að fara í gegnum íslenska netið til að blogga.

Dalla

No comments: