Monday, January 28, 2008



Bræðrakærleikur



Stirnir og Ms. Yuko eru miklir vinir, hún var aðstoðarkennari í Fiðrildabekknum í fyrra.



Mr. Flesher, kennari Stirnis í Fiðrildabekknum tók myndirnar á leikvellinum

Sunday, January 27, 2008

Jólafríið náði langt inn í janúar í ár. Lí og Cindy, ayi við hliðina fóru einn daginn með krakkana í garð, annan dag heimsóttu bræðurnir Hadley, bekkjarsystur Huga.
Elsa bauð bræðrunum heim einn daginn til að leika við Ævar og Eddu og bauð upp á vöfflur. Stirni fannst allt vera íslenskt hjá Elsu, osturinn og brauðið líka og var ánægður með það. Reyndar kom þetta frá City shop, ekki alveg íslenskt.



Íslenskar vöfflur hjá Elsu

Skólinn byrjaði svo um miðjan janúar og allir voru glaðir að komast í rútínuna aftur. Strax fyrstu vikuna kom Stirnir fram á samkomu með bekknum sínum, hann var í hlutverki herra Gráðugs, Mr. Greedy. Hugi fékk að fara og horfa á bróður sinn og var hrifinn af frammistöðunni og kennari Stirnis sagði að hann hefði verið stjarna sýningarinnar.



Mr. Greedy í karakter



Á áhorfendabekkjunum með Didrik og Daniel

Feðgarnir í Kína hafa ýmislegt brallað saman. Í gær frétti ég af hnífakaupum en óskin var að geta tálgað sjálfir. Þeir fengu hnífa og byrjuðu á því að útbúa boga og örvar.
Kjartan segir að hann þurfi að fara að ritskoða heimaverkefni Huga. Hann leit yfir setningarnar hans eitt kvöldið en Hugi á að skrifa setningar með sérstökum orðum sem hann er að læra í stafsetningu. Ein setningin hljóðaði svona hjá Huga: My dad goes out with a lot of ladies. Spurning hvað Mrs. Snyder kennarinn heldur um þessa framkomu Kjartans, hún veit að ég er í burtu og kasólétt. Kjartan segir að Hugi geri í því að skrifa setningar til að stríða sér.

Ég er í góðu yfirlæti í Mosfellsbænum. Ég hitti vini og slaka á, er búin að fara þrisvar í bíó, algjört met. Ég var hrifin af Brúðguma Baltasars og nýjustu mynd Ang Lee sem gerist að hluta í Shanghæ. Svo fer ég í jóga hjá Sigfríði í Heilsubót, það er hefð að fara til hennar á meðgöngu. Ég vil þakka jógaiðkun fyrir auðveldar og hraðar fæðingar hingað til.
Læknaheimsóknir hafa verið þónokkrar, ég fer í sónar og mæðraskoðanir og er líka búin að hitta nýburalækni á vökudeildinni. Mér var boðið að skoða vökudeildina því við vitum að litlan fer þangað inn á gjörgæslu eftir fæðinguna. Það var mjög gott að hitta starfsfólkið þar og fara yfir hvernig ferlið gæti orðið þó erfitt sé að segja með vissu hvernig hlutirnir eiga eftir að ganga fyrir sig. Við megum búast við því að barnið þurfi aðstoð öndunarvélar og ýmsar rannsóknir munu fara í gang eftir fæðinguna, myndatökur, blóðprufur o.s.frv.
Læknar hafa ráðlagt okkur að vera raunsæ en bjartsýn og ég vil trúa því að við séum það.

Jóra myndaði mig á Freyjugötunni um daginn, í garði safns Einars Jónssonar. Á myndunum er ég komin tæpar 36 vikur á leið.







Feðgarnir koma til Íslands 1. febrúar og við teljum niður dagana, ég hér og þeir í Shanghæ. Bræðurnir hafa fengið inni í gömlu skólunum sínum hér, Hugi fer í 3.I í Vesturbæjarskóla hjá Ingunni og Stirnir hittir gamla félaga á Trölladyngju á Dvergasteini.

Dalla