Wednesday, June 14, 2006


Nú má ég segja frá heimsmetinu sem var sett á mánudaginn, daginn sem EVE online fór í loftið í Kína. Það var sett met í spilurum sem spiluðu samtímis í sama heiminum, nærri 27.000 manns. Og þetta gekk bara stóráfallalaust fyrir sig. Nærri 200.000 áskrifendur voru búnir að skrá sig síðast þegar ég vissi. Til hamingju CCP og Optic í Kína!
En í okkar litla heimi fórum við bara snemma af stað, vorum komin út í sundlaug fyrir hádegi. Þá vorum við svo óheppin að sundlaugin lokar í hádeginu vegna hreinsunar. Það er nefnilega alltaf verið að þrífa hérna í kringum okkur, mjög hreinlegt. Stöðugt er verið að taka upp rusl hérna á lóðinni,veiða laufblöð úr tjörninni með gosbrunninum og ég sá mann skúra hornin á blómakerjunum en þau eru vinsæll viðkomustaður hundanna á svæðinu. Ég gæti ekki ímyndað mér mann ganga um Vesturbæinn og þrífa vinsælu hornin hans Mola og félaga.
Stefnan var tekin á KFC en loforð hafði verið tekið af mér í gær um að þarna yrði borðaður hádegisverður. Ég fékk mér nokkurskonar tvister með kínversku yfirbragði því það var hnetusósa á honum, mjög bragðgott. Strákarnir fengu klassíska bita og leikfang með. Það varð mikill harmur þegar Stirnir fékk flottara dót að Huga mati svo ég var í því að þerra tár yfir matnum.
Ég gerði þau mistök að rölta framhjá einum af fjórum verslunarmiðstöðvum sem eru hérna í næstu götu og lét plata mig þangað inn. Ég slapp nú út aftur með einungis 2 blöðrupakka. En það var gaman að skoða dótið þarna, og ekki er það dýrt, við litum á hjól og það er nú ekki stór fjárfesting í þeim. Stirnir skoðaði skólatösku með Snoopymynd og hreifst mjög af henni, nú vill hann fá skólatösku fyrst hann á að byrja í alvöru skóla í ágúst, ekki annað sanngjarnt.
Við röltum af stað aftur í áttina heim og blésum upp blöðrur sem sprungu þó margar jafnharðan. Það byrjaði að hellirigna og strákarnir voru frekar fyndnir, Hugi mætti eldri manni með stóra regnhlíf og plantaði sér undir regnhlífina hjá manninum sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Eiginkona mannsins fékk svo Stirni sem félaga undir sína regnhlíf. Þau fengu algjört hláturskast því strákarnir hreyfðu sig ekki. Mér tókst þó að koma þeim áfram með mér að lokum.
Við ætluðum að stytta okkur leið en enduðum í lokaðri götu svo þegar við komum í sundlaugina vorum við rennandi blaut. Enda vorum við spurð að því hvort við værum að koma uppúr frekar en að fara ofaní.
Bræðurnir fengu ekki að fara með mér í kvennaklefann en ég fékk starfsmann til að fylgja þeim í gegnum karlaklefann. Fannst frekar skrýtið að skilja þá eftir mállausa hjá ókunnugum manni, en þetta er víst eitthvað sem ég þarf að venjast. Eldri maður sem talaði enga ensku fylgdi þeim svo uppúr og Hugi sagði mér að Stirnir hefði bara talað íslensku við hann, sem er nú bara flott.
Þegar við komum heim var hún Daisy okkar að ljúka störfum. Daisy er Ayi en það er orð yfir húshjálp/barnapíu. Flestir hérna hafa þessa hjálp og Daisy er okkar Ayi sem kemur þrisvar í viku, þrífur, þvær þvott og fleira. Hún var búin að kaupa rúmföt handa strákunum til skiptanna og hitti svo sannarlega í mark þar. Hugi fékk fótboltarúmföt og Stirnir fékk Snoopyrúmföt, Hugi lýsti því yfir að þetta væru bestu rúmföt sem hann hefði nokkurntímann átt. Ekki kom annað til mála en skipta yfir í nýja settið með hjálp Daisy. Hún er kínversk en talar ensku en margir kínverjar velja sér nafn sem þeir nota í samskiptum við útlendinga. Það stendur nú ekki til að Daisy fari að passa strákana en ég sé margar Ayi hérna á leikvellinum.
Kjartan og Atli fóru út að borða með samstarfsfélögum hjá Optic svo Yongjia kom yfir til okkar. Við ætluðum að panta mat og strákarnir vildu pizzu. Yongjia reddaði því svo nú veit ég hvar á að panta pizzu, nú er bara að ná því takmarki að panta hana á kínversku.
Kapallinn var að detta inn svo ég ætla að leggjast í sjónvarpsgláp, það kom nefnilega melding á skjáinn um daginn: Card blacklisted! Sem það er örugglega en fyrir eitthvert kraftaverk datt það aftur inn.
Dalla

No comments: