Þessi mynd er nú hérna aðallega til að sýna krullurnar á Stirni, allir eru orðnir hrokkinhærðir í rakanum þó Hugi hafi nú alltaf vinninginn.
Við fórum í leiðangur eftir hádegið til að heimsækja amerískan skyndibitarisa, KFC virðist tröllríða Kína en nú fórum við til bróður hans, stóra M-sins. Maturinn braðgaðist eins og venjulega en það eru nú engin stórútgjöld í svona fjölskylduheimsókn, þetta kostaði heilar 430 krónur, fyrir okkur þrjú. Tíðindin voru helst sú að bræðurnir þurftu báðir á salerni, Hugi fór nú bara einn en þegar Stirnir þurfti líka, bað ég konu á næsta borði um að líta eftir Huga meðan við Stirnir brugðum okkur frá.
Þegar við komum út varð Huga að orði: "Það er ekkert kalt hérna í Kína!" Það voru orð að sönnu því 30 stiga hiti tók á móti okkur. Við fórum skrýtna leið heim og bræðurnir óttuðust á tímabili að við værum villt en ég sá grilla í háhýsi með stjörnukíki á þakinu sem er nú næsta hús við okkar svo við fundum rétta átt. Þeir höfðu eitthvað upp úr krafsinu í vegvillunni þegar við gengum nokkuð líflega verslunargötu, Hugi valdi sér jójó og Stirnir valdi sér Snoopylímmiða. Hugi er búinn að taka upp jójóæfingar og límmiðarnir lentu á hinum ýmsu stöðum, m.a. á nefinu á mér.
Ég sá líka að það er innrömmunarverkstæði hérna nálægt okkur, kannski ég fari með einhver listaverk bræðranna í innrömmun en það er stöðug framleiðsla á námskeiðinu, tígrisdýr, önd eða annað flott kemur heim á hverjum degi.
Meðan ég eldaði matinn skoðuðu feðgarnir mögulegar ferðir í sumarfríinu. Það myndaðist mikil spenna fyrir einum möguleika, við færum fréttir af því ef af verður.
Enskan síast strax aðeins inn hjá strákunum. Við vorum á leikvellinum í kvöld og þeir voru að leika sér á höfrungi sem sveiflast til og frá og söngluðu up and down, up and down.
Annars er ég búin að vera í líflegum og skemmtilegum bréfaskiptum og msn samskiptum við vini og vandamenn á Íslandi í dag, gaman að heyra frá ykkur elsku vinir!
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment