Stirnir og Kjartan á Pu Dong flugvelli. Pu er áin sem rennur hérna í gegn og dong er austur svo flugvöllurinn er austan við ána Pu.
Við fórum á sumarnámskeiðið í morgun eins og aðra daga. Allt gekk vel, Stirnir vildi hafa mig með en ég hvarf í frímínútunum og hann virtist ekki vera ósáttur við það.
Kennarinn hans Huga segir að hann sé greinilega félagslega sterkur, hann er farinn að hafa einhverskonar samskipti við krakkana. Hún segir líka að hann sé duglegur að lesa í andlit og skilji þá um hvað sé verið að tala. Hann segir þetta líka sjálfur, ég veit alveg hvað á að gera! Hann er strax farinn að pikka upp orð og segir þau hérna heima og spyr um merkingu ef hann er ekki viss. Við hjálpumst líka að við kínverskuna, hann minnir mig á hvernig á að biðja um ískalt vatn og fleira. Hann er líka mikill aðstoðarmaður á lestarferðalögum okkar, passar að rassinn á mér verði ekki eftir úti þegar lestin lokast o.s.frv.
Ég spjallaði við kennarann hans Stirnis í morgun, þau eru hérna bæði hjónin að kenna við skólann, þau koma frá Kanada. Hún virðist vera ánægð með aðbúnað kennaranna og sagði að skólinn taki vel á móti nýjum kennurum og hjálpar þeim að aðlagast. Mér finnst gott að heyra að starfsfólkið sé ánægt, það skilar sér örugglega í góðu starfi í skólanum. Hún sagði mér að heimilislæknirinn hennar hefði tilkynnt henni að hún væri að fara í gegnum "mid life crisis" þegar hún sagði honum frá Kínaflutningum. Spurning hvort við Kjartan séum líka í einhvers konar leit, ég vil nú ekki viðurkenna að við séum orðin miðaldra ennþá.
Yngstu krakkarnir á sumarnámskeiðunum ætla í lautarferði í garð í nágrenni skólans á föstudaginn og ég ætla að fara með. Kjartan ætlar jafnvel að koma líka.
Seinni partinn ákvað ég að fara að tékka á líkamsræktinni. Ég fór í pallatíma, ekki get ég sagt að það hafi vakið upp góðar minningar, aldrei þótti mér þetta pallapúl skemmtilegt. Afhverju þurfa kennarar líka alltaf að búa til einhverjar hrikalega flóknar rútínur í kringum þennan pall? Þeir eru örugglega svo leiðir á helv. pallinum að þeir þurfa að gera þetta flókið fyrir aumingja nemendurna. Hugi fylgdist með og fannst ég voða dugleg, hann fékk sér líka pall og fíflaðist á honum á milli þess sem hann var í leikherberginu með einum karatefélaganum.
Ég ætlaði að elda önd í kvöld, setja hana inn í ofn. Það kom í ljós þegar ég kveikti á ofninum að það sló allt út í eldhúsinu svo ekki fór öndin í ofninn. Ég varð ægilega fúl yfir þessu en náði að skera eitthvað utan af öndinni og steikja á pönnu svo strákarnir nöguðu andarlæri í kvöldmatinn.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment