Sunday, June 11, 2006


Hugi vaknaði snemma í morgun til að fara í karate. Hann var ánægður með tímann. Eftir tímann fóru karatefélgarnir í boltalandið og tóku smá stríð þar í hálftíma svo Hugi kom rauður og heitur heim. Kannski rekst hann á karatefélagana hérna á leikvellinum líka. Það voru víst bara 8 nemendur í tímanum og 3 kennarar svo hver og einn fékk athygli. Kennarinn sagði Kjartani að hann hefði bara staðið sig vel miðað við fyrsta tíma.
Hugi er líka mjög áhugasamur, er búinn að æfa sig í allan dag og gera ótal armbeygjur.
Við fórum í tívolí í dag, það var nú orðið hálf lúið þetta tívolí en strákarnir skemmtu sér vel. Þar var farið í draugahús, (Hugi var með lokuð augun allan tímann) klessubíla, vatnsrennibraut og ævintýraland (Joyland) þar sem var siglt í gegn og senur úr ævintýrum bar fyrir augu.
Við urðum ansi mikið vör við athyglina sem drengirnir fá hérna, nokkrir báðu um að fá að taka mynd af þeim og fengu jafnvel að taka þá í fangið fyrir myndatöku. Þeir létu sér nú bara vel líka. Krullurnar hans Huga eru merkilegar og margir strjúka honum um hárið, einnig sú staðreynd að þeir séu tveir bræðurnir því ekki hef ég ennþá séð par með fleiri en eitt barn. En allir eru mjög vingjarnlegir svo við bara brosum og reynum að svara spurningum sem við fáum um strákana. Þær voru reyndar fyndnar konurnar í ævintýralandinu í tívolíinu, þær ætluðu nú bara helst að eiga þá, þær ruku með þá burt og við Kjartan stóðum eftir.
Ég gleymdi að minnast á verðlagið í síðasta bloggi, það er ekki mjög dýrt að borða hérna, t.d. kostaði máltíðin í gærkvöldi aðeins 1400 krónur fyrir 4 fullorðna og 2 börn og þar var bjór innifalinn.
Stirnir verður ákveðnari í því með hverjum deginum að eiga alltaf heima í Kína, Hugi reynir að mótmæla þessu og segir honum að við getum það ekki, við verðum að fara heim til Íslands aftur. Stirni er alveg sama og heldur sínu striki.
Við erum byrjuð að læra að telja á kínversku og getum sagt takk og góðan daginn. Kjartan er nú klárari en þetta en hann kennir okkur það sem hann kann.
Meðfylgjandi mynd er af Stirni með síðustu íslensku kókómjólkina í bili, erum sem betur fer búin að finna sambærilega kínverska.

Dalla

1 comment:

Kristján Valur said...

þaðheldégnú.
Bestu kveðjur héðan, þetta ætti nú að blessast. Öruggast þó líklega að raka af og selja þessar krullur. Háskagóss.