Monday, July 28, 2008

Aloha

Hérna heldur strandaskoðun áfram, við erum búin að prófa nokkrar og búin að finna okkar tvær uppáhalds, snorklströnd og öldu/leik-strönd. Við prófuðum nýja strönd í gær og þar voru aðeins sex aðvörunarskilti, varað við straumum, dýpi og heitum sandi meðal annars. Maður hefði haldið að svona strönd væri ekki vinsæl en þarna var eitthvað af fólki sem vill greinilega taka áhættu í lífinu, við þar á meðal.

Á eyjunni er skemmtilegt dýralíf, við sáum sæskjaldböku í morgun í briminu fyrir utan kletta þar sem við syntum í hraunlaug. Niður að hraunlauginni var brattur stígur og stundum sleipur en við Eyja komumst þetta, hún er örugg í burðarsjalinu og fær sér bara blund á ferðinni. Hérna eru líka villihænsn allsstaðar, frekar krúttlegt að sjá hænurnar á ferðinni með ungana sína. Ekki jafn krúttlegt þegar hanarnir byrja að gala nálægt húsinu snemma morguns en við erum alveg hætt að vakna við sólarupprás og sofum frameftir. Litlar eðlur eru líka við húsið og jafnvel inni í því, eigendurnir segja að þær gegni því hlutverki að borða moskítóflugur. Við erum nú samt nokkuð stungin, þær eru miskunnarlausar flugurnar því Eyja er með bit á skallanum.

Á laugardaginn fórum við upp í fjöllin, þurftum að keyra næstum allan hringinn kringum eyjuna því þaðan er hægt að komast upp í fjöllin. Við skoðuðum fallegt gil og sáum út yfir fjöllin og hafið. Kjartani fannst tilvalið að borða nestið við huggulega á. Við fórum þessvegna útaf aðalveginum og þræddum nokkuð svakalega vegi þangað og vorum vel hrist saman á leiðarenda. En þetta var alveg þess virði og við gengum um í skóginum og leituðum að sporum eftir villisvín en þau drepa víst fleiri en hákarlar hér um slóðir. Hugi sá Redwood tré en hann gerði verkefni um það tré í skólanum í hitteðfyrra og var ánægður með að hafa loksins séð það eigin augum.

Veðurfarið er svolítið sérstakt hérna. Á hverjum degi koma skúrir en þeir vara yfirleitt bara í tvær mínútur. Við upplifum það daglega að vera í sólbaði í rigningu.

Eyja heldur áfram að taka framförum. Henni tókst að velta sér yfir á magann á ströndinni í gær og er öll orðin sperrtari að okkur finnst.

Ég þakka góðar kveðjur frá Erlu, Erlu og Heklu, gaman að heyra frá ykkur og ég hitti Erlurnar í næstu Íslandsheimsókn eða í Kína ef þær eiga leið þangað. Heklu sé ég í Kína í ágúst.

Dalla

Friday, July 25, 2008

Sælan heldur áfram á Kauai eyju, með smá uppákomum þó.
Við ökum um á Ford jeppling hérna og allt gott um það að segja. Í fyrradag gleymdi bílstjórinn (Kjartan) parkljósunum á bílnum svo hann varð rafmagnslaus. Bílaleigan reddaði málunum og kom með nýjan bíl handa okkur . Í gærmorgun þegar við ætluðum af stað í strandferðina skreið stór og mikil könguló út úr loftkælingunni og fann sér felustað bakvið stýrið. Við reyndum að flæma hana burt sem tókst ekki. Kjartani leist ekki á blikuna að keyra af stað með kvikindið þarna milli handanna á sér en lét sig hafa það. Hann kipptist við nokkrum sinnum á leiðinni þegar hann hélt að köngulóin væri komin fram og ég hló taugaveiklunarhlátri en ég hafði þó ekki séð stærðina á köngulónni.
Við fórum á mjög fallega strönd sem var undir fjöllunum þar sem Jurassic park var tekin upp. Þarna voru frábærar aðstæður til að snorkla og við fórum öll út að skoða flotta og forvitna fiska.
Í gærkvöldi gúgglaði Kjartan köngulóna sem hann hafði séð og fann út úr því að hugsanlega gæti þetta verið hættulegt kvikindi, ef hún stingi gæti komið mikið sár sem ekki væri hægt að hindra í að yrði að svöðusári.
Hann hringdi því í bílaleiguna og bar sig aumlega og þar var brugðist vel við og við fengum þriðja bílinn í morgun. Okkur líður öllum betur í þessum bíl.
Við fórum á nýja strönd í dag, hún var líka skemmtileg með leikvelli nálægt. Strákarnir njóta þess að synda í sjónum og snorkla líka.

Hérna um daginn var verið að sýna Svamp Sveinsson í sjónvarpinu og þeir sem þekkja þættina vita að Svampur vinnur við að steikja Krabby paddy borgara. Hugi og Kjartan fundu uppskrift að þeim á netinu og steiktu svona í hádegismatinn við mikla ánægju Evu og Stirnis.

Eyja sneri sér frá maganum yfir á bakið í gær, hún ætlar að byrja á því að fara þá leiðina. Hún er alltaf jafn brosmild og úr aftursætinu heyrast hlátursrokur þegar við erum á ferðinni þegar bræðurnir tala við hana.

Dalla

Wednesday, July 23, 2008

Þá erum við búin að vera nokkra daga á Kauaieyju í fríi.
Ferðalagið hingað gekk vel, við flugum fyrst til Minneapolis og Hugi svaf og las næstum heila bók á leiðinni. Við Stirnir spiluðum lúdó og Eyja vakti mestallan tímann.
Það urðu fagnaðarfundir í Minneapolis þar sem við hittum Kjartan á flugvellinum. Við settumst niður og fengum okkur hamborgara í hamborgaralandinu og náðum svo flugi til Seattle. Þar gistum við eina nótt á flugvallarhóteli og flugum svo áfram til Kauai daginn eftir.
Hérna tók Hilmar á móti okkur á flugvellinum með bílaleigubíl og við ókum á Anini ströndina til hússins sem verður okkar í tvær vikur. Þar biðu okkar mæðgurnar Guðrún og Eva.
Eftir stuttan nætursvefn vöknuðum við alltof snemma og vorum komin niður á strönd klukkan hálfsex til að fylgjast með sólarupprásinni. Ströndin er lítil og sæt og tré slútta yfir hana, mjög hentug til klifurs. Á ströndinni tókum við eftir að Stirnir var rauður á líkamanum og Hugi líka en ekki jafn mikið. Þegar leið á daginn hvarf þessi roði ekki af strákunum svo Kjartan fór með strákana til læknis til að láta kíkja á þá. Læknirinn kom með þá tilgátu að þeir hefðu klifrað í mangótré og líkaminn brygðist svona við, einhverskonar ofnæmi. Þeir fengu lyf og eru orðnir betri.
Við Kjartan fórum á bændamarkað í innkaup, keyptum mangó, basilíku, salat og fleira. Hérna er mikil frjósemi, grænmeti og ávextir og annað hráefni til matargerðar girnilegt. Við höfumn eldað nokkra góða rétti, þar á meðal góðar steikur.
Við fundum skemmtilega strönd í nokkurra mínútna akstursfjarlægð þar sem eru skemmtilegar öldur. Hérnau öll börn og fullorðnir með brimbretti og ansi mikið brim á mörgum stöðum. Anini, okkar strönd er varin af kóralrifi og því er enginn öldugangur upp við ströndina. Kjartan og Hilmar eru búnir að fara út með krakkana á kajak en hér er góð aðstaða til siglinga.
Eyja stendur sig vel sem ferðalangur, hún tekur þroskastökk á nýjum stað. Núna er hún farin að lyfta rassinum á leikteppinu og mjakar sér pínulítið úr stað. Hún er dugleg að finna út hvenær er nótt og nær góðum nætursvefni sem undirrituð er þakklát fyrir.

Bestu kveðjur heim, Dalla

Wednesday, July 16, 2008

Þá er Íslandsdvöl að verða lokið, við kveðjum gott atlæti hjá ömmu og afa og höldum á vit ævintýra á Hawaii.

Hugi kom glaður heim úr sumarbúðum og hér beið glaður Stirnir eftir bróður sínum. Stirnir var nefnilega hálfvængbrotinn í fjarveru Huga, ég gerði mér grein fyrir því hversu háðir þeir eru hvor öðrum bræðurnir.
Við Stirnir fórum í bíltúr einn daginn og Eyja auðvitað með líka. Við fórum til Selfoss í sund en þaðan átti Stirnir góðar minningar úr ostarennibraut og fleiri rennibrautum. Eftir sundferðina fórum við til Stokkseyrar þar sem undirrituð gæddi sér á humarsúpu og Stirnir fékk samloku, okkur fannst maturinn mjög góður og spöruðum ekki lýsingarorðin. Ég þurfti að skipta á kúkableiu eftir matinn og Stirnir fór út að leika í sandkassanum við veitingastaðinn. Þegar aðgerðin var búin fór ég út að bíl og þar beið Stirnir grátbólginn því hann fann mig ekki.
Þá röltum við yfir á Veiðisafnið og skoðuðum gíraffa, ljón og fleiri dýr undir leiðsögn Palla Reynis sem er gamall vinnufélagi minn hjá Sjónvarpinu. Þetta er skemmtilegt safn og ekki síður gaman að sjá vopnin sem Palli mundar við veiðarnar.
Við ætluðum að kveðja Stokkseyri en þá langaði Stirni til að skoða draugasafnið. Við fengum draugasögur í eyrað og gengum inn í myrkrið. Í herbergi tvö stökk eitthvað fyrirbæri í veg fyrir okkur og ókennileg hljóð heyrðust. Þá var Stirni öllum lokið og hann byrjaði að skjálfa og vildi hætta við sem við gerðum. Hann segist ætla að gera aðra tilraun við draugasafnið þegar hann verður sjö ára.

Við erum búin að hitta marga vini og ættingja í þessari Íslandsferð. Ég held að þetta hafi bara verið nokkuð vel pródúserað hjá mér. Mörg skemmtileg kaffiboð og matarboð. Ég hlakka til að endurgjalda þau þegar ég kem aftur til Íslands í græna húsið á Suðurgötunni.

Takk fyrir samveruna, Dalla

Thursday, July 03, 2008

Kjartansbörnin mynduð af Jóru í garðinum hjá ömmu og afa

Þá erum við búin að vera tvær vikur á Íslandi, dvölin strax hálfnuð, þetta líður ansi fljótt.
Hugi og Stirnir voru ánægðir á reiðnámskeiðinu í síðustu viku, Stirnir reið Smartfara og Hugi var á Stormi. Þeir tóku miklum framförum að sögn kennaranna. Hugi færði Stormi gras úr ömmu og afagarði síðasta daginn og þeir tóku með sér nesti til að borða þegar áð var.
Hugi fór í bíó með afa sínum einn daginn og svo fóru þeir báðir bræðurnir í bíó með Gunnu og Eyrúnu frænkum sínum. Stirnir var reyndar leiddur hingað heim hálfsofandi eftir þá bíóferð.
Við heimsóttum Bubba sem var nýkominn úr sumarbúðum og Alla mamma Bubba sagði við Huga hvað hún Eyja væri fín. Hugi svaraði þá að hún væri orðin soldið feit, það sæist betur þegar hún væri allsber.

Bræðurnir gistu líka eina nótt á Þingvöllum hjá ömmu Catherine og afa Kristni, þeir reyndu að veiða í vatninu en ekki beit á hjá þeim.
Í gær heimsóttum við Ara Karl, Hildi og Davíð í Hafnarfjörðinn og þeim tókst öllum strákunum að detta í læk og bleyta sig, það var bara gaman.

Í síðustu viku var okkur boðið til föðursystur minnar Katrínar. Þar voru barnabörnin og börnin hennar samankomin, fullt af krökkum til að leika við og gaman.

Í næstu viku ætlar Hugi í sumarbúðir á Úlfljótsvatni, hann er vanur maður, var þar líka í fyrra. Núna ætla vinirnir Bubbi og Hugi þangað.

Dalla