Tuesday, June 13, 2006


Mikka mús sjónvarpið er komið í hús! Hugi sá svona tæki í BT fyrir brottför og linnti ekki látum fyrr en við foreldrarnir samþykktum kaup á því, það er svona rautt og gult með voðalega sæt eyru, sem eru hátalarnir. Helst vildi Hugi að ég sleppti öllum farangri og tæki bara þetta sjónvarp með. Að lokum samþykkti hann með semingi að sjónvarpið yrði keypt í Kína enda er það eflaust made in China eins og langflest. En það kom í hús í dag og mikil er gleðin hjá bræðrunum að horfa á mynd í þessu fína sjónvarpi.
Við fórum á stjá í dag og röltum í vinnuna til Kjartans. Hann vinnur í háhýsi í svona 10 mínútna göngufjarlægð, aðeins lengra ef maður ýtir kerru með tveimur strákum á undan sér. Við fundum þetta auðveldlega og tókum lyftu upp á 30. hæð. Þar tók Horace á móti okkur á skrifstofunni en hann er mikill barnavinur og gisti hjá okkur í desember á Suðurgötunni. Útsýnið er gott frá skrifstofunni og við sjáum heim til okkar.
Við hittum þarna konu vegna heilsutryggingar fjölskyldunnar og vonandi verður það mál frágengið á allra næstu dögum.
Í kvöld fórum við á stað sem heitir Litla, feita lambið á kínversku. Þar er borin fram súpa sem er sett í tveimur hólfum ofan í borðið og logar eldur undir. Annar hlutinn af súpunni er fullur af chilipipar en hinn hlutinn er ekki jafn sterkur. Svo er borið fram ýmislegt góðgæti sem við settum ofan í súpuna sem sýður á eldinum. Þá er að veiða upp það sem sett er ofan í og borða með bragðgóðri hnetusósu. Við settum til dæmis kjöt í þunnum sneiðum, pínulítil egg, surimi, smokkfisk, kjötbollur og fiskibollur, ýmisskonar skrýtna sveppi, rót af lótusblómi og ýmislegt grænmeti þarna ofan í og alltaf varð súpan bragðbetri. Strákarnir voru bara duglegir að borða, Hugi einbeitti sér að kjötbollunum og ég held að ansi mörg smáegg hafi farið upp í Stirni.
Það er svolítið sérstakt að sitja við svona rjúkandi pott í þessum hita en maturinn fór vel í okkur. Sem betur fer voru Atli og Yongjia með í för því maður þarf að kunna að panta sér mat á svona stað. Við förum örugglega aftur á Litla, feita lambið því staðurinn er aðeins í 100 metra fjarlægð frá okkur. Þið sjáið súpupottinn hér að ofan, dökki hlutinn er sá sterki, strákarnir borðuðu upp úr hinum hlutanum.

Dalla

No comments: