Sunday, June 17, 2007

Við erum komin heim!

Ferðalagið gekk vel hjá okkur mæðginum. Strákarnir horfðu stjarfir á
myndir í 11 klukkutíma af 12 í Kínafluginu, þeir lognuðust loksins
útaf síðast klukkutímann. Það reyndist mér erfitt að vekja þá til að
koma þeim inn í flugstöðina en hafðist að lokum.
Við borðuðum pizzu, dönsuðum og hlógum vegna svefngalsa á Heathrow.
Svo fórum við og fjárfestum í sólgleraugum fyrir Íslandsferðina, þið
sjáið að við erum bjartsýn á gott veður meðan við stoppum.
Bræðurnir sváfu alla leiðina til Íslands, Hugi áréttaði það samt áður
en hann sofnaði að ég þyrfti að vekja hann við komuna. Þeir tóku
fyrsta skrefið á íslenskri grundu með viðhöfn og önduðu að sér
íslensku "hreinu" lofti á bílastæðinu við Leifsstöð.
Við stoppuðum og læddumst inn í garðinn á Suðurgötunni og lýstum yfir
ást okkar á húsinu og garðinum, Hugi kyssti grasið, tilfinningarnar
voru svo miklar.
Við gátum nú ekki sofnað strax eftir tæplega sólarhringslangt ferðalag
en það tókst að lokum um tvöleytið eftir miðnætti.

Í gærmorgun vöknuðum við snemma og Hugi rak okkur Stirni í föt því
hann vildi komast strax í Neslaugina. Við vorum með þeim fyrstu ofan í
laugina og klukkutíma seinna komu Hildur og Pétur með Ara Karl líka
ofaní og urðu fagnaðarfundir. Eftir sund var pylsa næst á dagskrá og
svo bíó í boði Ara Karls en við höfðum ekkert farið í bíó í Kína. Við
hlógum mikið að Shrek 3, við mælum með henni. Þá var farið í kakó á
Mokka, án Stirnis sem lognaðist útaf í bílnum. Þar spurði Hugi hvað
væri næst á dagskránni, hann vildi greinilega gera allt á fyrsta degi
sem við vorum á góðri leið með að ná.

Við erum hérna í góðu yfirlæti hjá tengdamömmu á Grjótagötunni, höfum
risið út af fyrir okkur. Í gærkvöldi buðu Björk og Þiðrik okkur í mat.
Stirnir var borinn þangað sofandi og út aftur sofandi, Hugi sofnaði
mínútu eftir komuna þangað. Unnur Maren þriggja ára frænka bræðranna
var stórhrifin af heimsókninni, hún stússaðist í kringum þá þar sem
þeir lágu meðvitundarlausir á dýnu í herberginu hennar.

Í morgun 17. júní var ræs klukkan hálffimm sem við var að búast.
Stefnan er tekin á skrúðgöngu frá Hagatorgi og svo í miðbæjarþvöguna.
Dalla

Thursday, June 14, 2007

Hugi vaknaði í morgun og kallaði upp um leið og hann opnaði augun: Á morgun förum við til Íslands! Loksins er að koma að þessu, ég held að við séum búin að telja daga í tvo eða þrjá mánuði.
Í vikunni fóru Grade 1 bekkirnir að heimsækja kínverskan skóla fyrir börn farandverkamanna eða þeirra sem eru ekki frá Shanghai. Kerfið virkar þannig að ef þú ert ekki frá borginni þarftu að greiða hærri skólagjöld en borgarbúar. Margir aðkomumenn eiga ekki peninga til að greiða gjöldin sem eru nokkuð há og setja börnin sín því í sérstaka skóla sem eru ódýrari. Þar geta verið 60 börn í bekk og námsbækur eru af skornum skammti og börnin eiga mörg hver ekki skólatösku og annað sem þarf við lærdóm. En börnin í fyrsta bekk í SCIS söfnuðu peningum með því að vinna húsverk heima hjá sér og þiggja greiðslu frá foreldrunum. Þessir peningar fóru í að kosta einn dreng til náms, foreldrar hans eru með lágar tekjur, faðirinn með lifrarkrabbamein og móðirin atvinnulaus. Að auki fór afgangurinn til að kaupa bækur í bókasafn skólans sem þau heimsóttu, mér skildist að þau hefðu getað keypt heilt bókasafn fyrir peningana. Í skólanum var vel tekið á móti þessum velgjörðarmönnum og kínversku börnin sýndu dans og sungu fyrir þessa nýju vini sína. Huga fannst þetta mjög merkilegt og þarna gerði hann sér grein fyrir því í hvað peningarnir fóru.
Síðustu skóladagarnir hafa verið skemmtilegir, engin heimavinna síðustu vikuna sem gladdi Huga mikið. Á þriðjudaginn var listadagur, kennararnir settu upp stöðvar á skólalóðinni fyrir fyrstubekkinga. Leirað, blásnar sápukúlur, málað og fleira.
Nokkrar myndir frá deginum, ég hafði umsjón með leirnum:


Bekkjarfélagar vinna að lágmynd


Leirhornið

Í dag var stuttur skóladagur því klukkan hálftíu byrjaði samkoma á sal. Fimmtubekkingar sem skipta nú yfir á annað skólastig sögðu frá skólastarfinu í vetur og sungu lag. Þvínæst tók við atriði þar sem allir kennaranir settust upp á svið þar sem var búið að útbúa einskonar lestarvagn. Lestin stoppaði fyrst á Hongqiao road en þangað flyst skólinn í ágúst, þessum skóla verður lokað. Flestir kennararnir fóru úr við Hongqiao en nokkrir héldu áfram út á flugvöll. Þar var tilkynnt brottför til Kairó, Parísar, Brussel, Seattle þar til allir voru farnir. Svo voru skólastjórahjónin kvödd sérstaklega, þau eru að flytja aftur til Bandaríkjanna eftir 5 ára dvöl í Shanghai. Mr. McKamey er sjarmerandi kall, spilar á bassa og hefur húmor fyrir sjálfum sér. Mrs. McKamey hefur kennt öðrum bekk, svona móðurleg týpa sem börnin elska. Tvö börn úr öllum bekkjum komu upp á svið og sögðu hversvegna þau myndu sakna þeirra hjóna, þetta var mjög hjartnæmt og margir hvarmar voru tárvotir við þessa athöfn. Þvínæst söng Mr. McKamey írskt lag, nokkuð sorglegt og þá grét held ég allur salurinn. Þau eru svo sannarlega elskuð þetta fólk af sínum nemendum, kennurun og foreldrum. Það er mikil eftirsjá af þeim.
Að lokum stilltu allir sér upp á skólaganginum og þau hjón gengu í gegn og kvöddu, þau grétu eins og aðrir. Á svona degi eru margir að kveðja Shanghai, fólk flytur annaðhvort heim eða eltir annað starf fjarri heimalandinu. Himnarnir grétu líka í dag því það hellirigndi í allan dag.

Í minningabók um veturinn skrifaði Hugi: I remember on Earth day when I was on the stage. I was dressed ina big box. I even had a mask. And when I was on the stage every one was lafing.

Ms. D skrifar í umsögn um Huga: It is quite amazing that Hugi entered Grade 1 with no knowledge of English and six months later he was writing in his journal some information about the history of Germany.
Stirnir fær líka góða umsögn frá Mr. Flesher:I will miss Stirnir and his wonderful laugh, silly smiles, curiosity and great sense of humor. I wish him continued success in school and in life. I am very proud of his growth this year.

Í fyrramálið, föstudagsmorgun leggjum við í hann kl. 8:30 út á flugvöll. Þar tekur við 12 tíma flug til London, ætli við náum ekki að horfa á nokkrar bíómyndir á þeirri leið, þær verða að eigin vali þar sem hvert sæti hefur sinn skjá. Við verðum að bíða í 5 klukkustundir í London eftir Íslandsvélinni og lendum á Íslandi kl. 23:10 á föstudagskvöldi. En þá verður klukkan orðin 7:10 á laugardagsmorgni í Kína. Þannig að þetta er tæplega sólarhringslangt ferðalag, úff.
Við hlökkum til að sjá ykkur,
Dalla

Monday, June 11, 2007

Þarsíðustu helgi fengum við bræðurna Bogga og Örn yfir í gistingu. Þeir sofnuðu allir fjórir saman í rúmi eftir mikinn leik og eina sjóræningjamynd. Boggi og Hugi eru ákveðnir í því að verða sjóræningjar þegar þeir verða stórir og ætla að vera góðir í kúng fú líka. Þeir vilja ekki kannast við það að sjóræningjar séu vondir. Stirnir og Örn verða líklega einhverskonar dýrafræðingar. Þeir hafa mikinn áhuga á skordýrum, liggja hérna yfir trjábeðum og leita að ormum og allskonar pöddum. Stirnir gengur oft hérna um seinnipartinn boginn í baki og sest svo niður og rótar þegar hann sér hreyfingu í moldinni. Hann kemur iðulega inn að biðja um krukkur fyrir gæludýrin eins og hann kallar þau.
Hekla og Magnús stoppuðu hjá okkur á sunnudeginum og fengu lambalæri, kínverskt sem bragðaðist bara vel. Svo fórum við af stað í enn eina veisluna, lokaveislu í skólanum að þessu sinni. Það var rigningarlegt allan daginn en ekkert rigndi. Veislan var vel heppnuð, kólumbísk hljómsveit spilaði og skólahljómsveitin Jiangsu Blues Band var með sitt síðasta gigg, skólastjórinn er að flytja aftur til Bandaríkjanna. Við Hugi dönsuðum heilmikið og Hugi lýsti því yfir að það væri gaman að dansa en hann vildi samt ekki fara í dansskóla. Stirnir var með skordýrakrukkuna með sér og svipaðist um eftir margfætlum á skólalóðinni.
Á þriðjudaginn var field day í skólanum, einskonar leikjadagur, leikir allan daginn á leikvellinum. Ég bauð fram aðstoð með öðrum foreldrum og lenti í því verkefni snemma morguns að fylla vatnsblöðrur. Um tíuleytið þegar flestir voru komnir af stað í leikina kom algjört úrhelli svo allir þurftu að hlaupa í skjól en urðu samt rennblautir. Leikjadeginum var aflýst sem voru mikil vonbrigði. En í lok skóladags fóru allir út í reiptog á fótboltavellinum sem var smá sárabót.
Í vikunni var Stirnisbekkur að undirbúa matsölu sem þau voru með á föstudaginn í hádeginu. Þau bökuðu smákökur með þremur mömmum, þar á meðal undirritaðri, bjuggu til pastasósu, útbjuggu matseðla og skreyttu kokkahúfur. Börnin tóku sjálf niður pantanir og útbjuggu matinn á kaffihúsinu með aðstoð foreldra. Þetta var mikil upplifun fyrir þau og Stirnir beið spenntur alla vikuna eftir föstudeginum. Hugi fékk að koma og fá sér pizzu hjá Stirni sem þjónaði honum til borðs, hann fékk kók með og ís í eftirrétt.
Á laugardaginn var lokaveisla í Hugabekk, skipulögð af mér sem roomparent. Við hittumst í sundlaug í miðbænum, ein af fáum útisundlaugum. Krakkarnir og nokkrir þeirra fullorðnu syntu og léku sér og svo borðuðum við saman hádegismat af hlaðborði. Þetta var vel heppnað og Ms. D var ánægð með veisluna og gjafir sem er hefð að færa kennurum hérna. Hún fékk albúm með ljósmyndum og listaverkum barnanna og I-pod shuffle. Hérna eru svipmyndir:


Mömmur og Ms. D á bakkanum

Ms. D skoðar albúmið frá börnunum

Séð yfir sundlaugina á Ambassy Court

Stirnir hitti bekkjarsystur sína Anna Li

Hugi í leik með Kean og Champion

Í gær sunnudag byrjuðum við daginn í afmælisveislu hjá Callum bekkjarfélaga Huga. Síðan fórum við út í Hongqiao (Hafnarfjörð) og Hugi tók kúng fú próf ásamt hópi barna. Hann stóð sig mjög vel, hélt sér í brú í 30 sekúndur og hreyfingarnar voru fínar hjá honum.

Halda í 30 sekúndur


Lentur á dýnunni í stellingu


Hópurinn með kennurum og kúng fú master í bláu

Eftirmiðdeginum eyddum við hjá Láru og dætrum, Liv og Björk. Þar sátum við í garðinum og sötruðum kampavín meðan börnin léku sér, algjör sæla. Það er fyndið að Christina vinkona mín er nágrannakona Láru svo Hugi og Oliver léku saman og Viktoria dóttir Christinu er orðin góð vinkona Livar. Stirnir leitaði að skordýrum að venju en kættist mikið þegar honum áskotnaðist skál og brú hjá Láru fyrir skjaldbökur sem eru hérna í fóstri hjá okkur. Hann sleppti ekki pokanum með skálinni fram að brottför.
Í morgun fór ég að kaupa húsgögn með Cathra. Hún er sérfræðingur í húsgagnakaupum og fór með mig í vöruhús fullt af gömlum kínverskum húsgögnum. Ég gerði góð kaup og prúttaði svolítið en hætti þegar Cathra sagði mér að ég væri að fá mörg húsgögn fyrir lægra verð en einn skápur annarsstaðar. Þarna var líka lítill kettlingur sem ég hefði alveg vilja taka með mér, Stirnir hefði orðið glaður.

Að lokum tilvitnanir í bræðurna, Stirnir sagði þetta í nestistímanum í morgun í skólanum: “I’m almost never coming back here, I am going to Iceland in 4 days”.

Hugi skrifar dagbók daglega í skólanum og þetta var síðasta færslan hans:
I am going to Iceland after nine days. It takes one day and one night to get there. And when I´m there I´m going to summer camp, over there you can ride horses. And when it´s night time we have a show. And then we go to sleep in our tents on 11:00. And then we take a bath. And then we eat. And then we drive boats. And there is a trampolen. And there is a lake close to the trampolen. And after summer I´m going back to China.
Þetta er hans stafsetning sem er nú bara nokkuð góð, enda fékk hann allt rétt í stafsetningarprófi fyrir skömmu.

Ég verð að segja það að við hlökkum mikið til þess að eyða sumrinu á Íslandi en við hlökkum líka til að koma aftur til Kína í okkar litla hús sem er okkar heimili.
Takk fyrir að lesa, Dalla.

Friday, June 01, 2007

Í næstu viku er komið ár síðan við fluttum til Kína. Tíminn hefur verið bæði lengi og fljótur að líða en eitt er víst að við hlökkum öll til að koma til Íslands í sumarfrí. Við komum þann 15. júní, ég og strákarnir, Kjartan kemur í lok mánaðarins. Við teljum dagana til heimkomu og ég er byrjuð að pakka í huganum, nú er að muna að taka vetrarfötin með svo okkur verði ekki of kalt.
En þá er að segja frá síðustu dögum en þessar síðustu vikur fyrir sumarfrí einkennast af brjáluðu félagslífi, afmælisveislur og aðrar veislur um helgar, stundum 2 til 3 viðburðir á dag. Mig hefði ekki órað fyrir því að við gætum kynnst svona mörgu góðu fólki hérna, en við njótum þess að skemmta okkur með nýjum vinum, við erum félagsverur.
Á föstudagskvöld voru vortónleikar yngri nemenda SCIS. Strákarnir fóru í kung fu að venju eftir skóla og svo röltum við og fengum okkur pizzu. Ég nennti ekki að fara með þá heim í leigubíl og svo fljótlega aftur af stað, umferðin er slæm seinnipartinn og það getur verið erfitt að fá leigubíl. Sumir leigubílstjórar hreinlega bruna framhjá okkur þegar þeir sjá strákana, nenna ekki að taka börn í bílinn.
Við komum aftur í skólann og strákarnir fóru til síns kennara meðan við fundum okkur sæti í samkomusalnum. Tónleikarnir voru fínir hjá krökkunum, þau eru orðin svo vön því að koma fram á sviðinu eftir veturinn, stundum finnst mér þetta vera hálfgerður Fame-skóli, börnin eru alltaf uppi á sviði. Árgangur Huga söng lag þar sem komu fram rapparar, kúrekar, ballerínur og fleira. Hugi var í kúrekabúningi og sveiflaði ímyndaðri snöru af nákvæmni meðan hann söng. Árgangur Stirnis söng um daglegar athafnir eins og að fara á fætur og í sturtu og léku látbragð með. Stirnir átti að koma í kúl fötum, hann var sætur í skyrtu og gallabuxum.





Á laugardaginn kom Magnús í heimsókn með Bogga og Örn. Strákarnir léku úti, Magnús bjó til boga og örvar handa þeim og við stóðum hjá þeim til að forða slysum, þeir skildu það ekki alveg strákarnir að það mætti ekki skjóta í átt að öðrum. Magnús var graekkill þessa helgi og hann bauð Huga og Stirni næturgistingu.
Við Kjartan fórum í leikhús að sjá uppsetningu fransks áhugaleikfélags á farsa. Við fórum með Cathra og Troy. Fyrir hlé taldi Kjartan alla ljóskastara, sofnaði í smástund og ég verð að segja að ég dottaði líka. Maður á næsta bekk hraut. Bæði var leikritið hræðilega leiðinlegt og leikararnir lélegir. Í hléinu stakk einhver upp á því að við stingjum af og við vorum ekki lengi að taka vel í þá tillögu.
Við fórum á japanskan stað sem sérhæfir sig í túnfiski og krabba og maturinn var mjög góður. Sashimi með misfeitum túnfiski var ljúffengt.
Á eftir fórum við á bar en Cathra og Troy fóru heim á skynsamlegum tíma. Við Kjartan vildum nýta okkar fyrstu næturpössun í ár og héldum áfram, hittum Atla á klúbbi og svo á bar eftir það.
Við vorum rétt komin á fætur daginn eftir þegar Magnús skilaði strákunum heim, fullkomin þjónusta, sótt og keyrt. Strákarnir voru búnir að vera vakandi síðan klukkan fimm um morguninn, þeirra fyrsta verk var víst að kveikja á tónlist Björgvins Halldórssonar. Þeir voru rosalega ánægðir með gistinguna og Magnús kvartaði ekki yfir félagsskap strákanna fjögurra.
Næst á dagskrá var veisla á O´Malleys, einhverskonar þakkarveisla bekkjarins hans Stirnis fyrir veturinn með Mr. Flesher og Ms. Yuko aðstoðarkennara. Stemmningin á O´Malleys þennan dag var ansi brjáluð, hundaeigendur mega koma með dýrin á sunnudögum svo þarna hlupu um hundar af öllum stærðum. Inni hittast þeir sem leita að fólki til að ættleiða gæludýr og þennan dag var mjög heitt og rakt svo við vorum eiginlega að leka niður í garðinum, algjör suðupottur. Meðan við borðuðum skeit einn hundurinn svona tvo metra frá borðinu okkar og skítalyktin lagðist yfir. Áður en eigandinn náði að þrífa upp skítinn kom Eleanor hlaupandi í átt að skítnum, þetta var svona í slow motion, við kölluðum öll til að vara hana við en hún hljóp áfram og með annan fótinn beint í hlassið. Þetta var eftirminnilegur hádegisverður en ég held að við hvílum okkur á þessum annars ágæta stað.
Bræðrunum var boðið í afmæli hjá Jago bekkjarfélaga Huga, á veitingastað í úthverfi. Þarna var mikið hlaðborð matar og blöðrutrúður sem bjó til fígúrur úr blöðrum. Þegar hlé varð á dagskránni klifruðu börninn upp um alla veggi, ég hélt að veitingastaðurinn yrði ekki svipur hjá sjón, en þegar allt ætlaði að fara illa birtist töframaður sem náði athygli barnanna. Hann töfraði fram dúfur úr hatti sínum og fékk svo Stirni sem aðstoðarmann. Þá dró hann fram eins og lítinn höggstokk og lét Stirni halda á banana sem sneiddist niður í bita í höggstokknum. Þegar bananinn kláraðist vildi töframaðurinn setja höndina á Stirni í gegn og skera á en Stirnir var ekki til í það og lét sig hverfa. Þá var beðið um annan sjálfboðaliða sem var enginn annar en Hugi sem setti höndina í gegn og beið sinna örlaga með bros á vör. Höndin skarst ekki af fyrir einhverja töfra en Hugi hné niður á leikrænan máta þegar allt var yfirstaðið.
Þegar við kvöddum fengu strákarnir fulla poka af dóti, það er yfirdrifið hvað afmælisgestir eru leystir út með miklum gjöfum en kom sér vel að hafa pokann að skoða á leiðinni heim.
Veislum dagsins var ekki lokið því okkur Kjartani var boðið í grill hérna neðar í götunni. Þar búa Magali og Emanuel, franskt par, foreldrar Hanae í Stirnisbekk. Þetta var 20 manna veisla og mikið gaman, Magali er listakokkur, gott grillkjöt og meðlæti að frönskum hætti, kúskús, ratatouille og gratin dauphinois. Við Kjartan ræddum það á heimleiðinni hvað við höfum kynnst ólíku fólki hérna.
Reyndar lenti ég líka í umræðum við íþróttakennarann í afmælinu fyrr um daginn þar sem við ræddum um skólasamfélagið. Þetta er að mörgu leyti skrítið samfélag, varla engir einstæðir/einstakir foreldrar og allir í góðum stöðum. Við þekkjum reyndar fleiri en eina fjölskyldu sem hefur lent í því að fyrirvinnan hefur misst vinnuna fyrirvaralaust og framtíðin kannski alveg óviss um lengri tíma. Margir eiga sér ekkert heimili í heimalandinu og eiga kannski varla lengur heimaland eftir langa dvöl erlendis.
Á þriðjudaginn var vettvangsferð með Hugabekk upp í sveit á stað þar sem er ræktað lífrænt grænmeti. Okkur var boðið upp á tómata og gúrkur við komuna, krakkarnir borðuðu þetta eins og sælgæti. Við skoðuðum grænmetið í gróðurhúsum, grasker, eggaldin og gulrætur og fengum að planta fræjum. Að lokum máttu börnin tína tvær gúrkur hvert og ráða hvort þau tækju þær heim eða gæfu þær tveimur geitum á túni. Geiturnar voru ofaldar þennan dag!






Á miðvikudaginn komu þær fréttir hingað heim að Stirnir hefði verið óhlýðinn í skólanum. Hann og Ian bekkjarfélagi hans voru að leika með púða í skólastofunni og hættu því ekki þegar þeir voru beðnir um það. Þetta endaði illa því Stirnir datt á blómapott og fékk stóra kúlu á hausinn. Að auki missti hann 2 stjörnur og refsingin var sú að þurfa að sitja á bekk í frímínútum í stað þess að leika.
Í lok dagsins óhlýðnuðust þeir félagar Stirnir og Ian aftur og misstu þriðju stjörnuna. Mr. Flesher kvað upp að þeir ættu að taka út sína refsingu í frímínútum daginn eftir.
Stirnir rakti raunir sínar við Huga eftir skóla og Hugi bauðst til að sitja hjá honum meðan hann tæki út refsinguna. Þetta finnst mér vera gott merki um þeirra bræðrakærleik, þeir mega varla af hvor öðrum sjá.
Dalla