Tuesday, September 26, 2006

Síðustu dagar hafa einkennst af læknaheimsóknum. Við erum búin að prófa allan skalann í Shanghæ.
Við fórum af stað með Yongjia á laugardagsmorgun til læknis, til að láta kíkja á fótvörtu á Stirni. Ég ætlaði að forðast það að borga 20.000 fyrir vörtutöku hjá fínu læknaklíníkinni hérna svo við ákváðum að fara til kínversks læknis. Við byrjuðum á spítala hérna mjög nálægt okkur. Þar var biðstofa full af ungbörnum og einn læknir á vakt svo okkur var sagt að það væri styttri bið á öðrum spítala.
Inn af biðstofunni voru börn í einhverskonar ungbarnasundi, þau höfðu kúta um hálsinn og svömluðu um í risastórum vöskum.
Þetta er semsagt kínverska ungbarnasundið.
Á næsta spítala var okkur vísað upp á hæðir til þess að komast að því að þar væri börnum ekki sinnt. Við gengum framhjá apóteki spítalans, öðru megin voru hefðbundin lyf en hinumegin voru ilmandi jurtir í pokum.
Við fundum barnaspítalann og gengum inn. Okkur var vísað í gegnum stóra biðstofu þar sem margt fólk var samankomið með börn, stór og smá. Hreinlætið virtist af skornum skammti og þarna var megn pissufýla. Við fórum áfram og út í garðinn og þar inn um aðrar dyr þar sem allt var tómt á stórri biðstofu, þetta var svokallað VIP room. Þar kostar 6 sinnum meira að hitta lækni þarna en hann virtist ekki mikið upptekinn því hann var kominn fram á biðstofu til að líta á Stirni fyrr en varði.
Það var skrýtin tilfinning að geta borgað fyrir hraða læknisþjónustu þar sem allir töluðu ensku meðan almúginn fátæki beið í pissufýlunni. Ekki frá því að ég væri með óbragði í munninum vegna minnar eigin stöðu.
Helgin var mjög róleg hjá okkur, Kjartan í Tókýó svo við héldum okkur í hverfinu. Við fórum í sund og í garðinn hérna við hliðina þar sem bræðurnir gengu á nuddsteinum og klifruðu á steinastyttum.Hilmar frá CCP er hérna núna og við fórum nokkur út að borða með honum í gærkvöldi á hot pot staðinn okkar Litla, feita lambið. Þar er súpan í borðinu og við setjum út í hana kjöt og grænmeti og veiðum aftur upp úr til að borða.
Hugi var heima á mánudaginn og við fórum saman til læknis. Þá var farið í fínu klíníkina World link. Við fengum einhver svör við vandamálinu og læknirinn ætlar að fylgja Huga eftir þar. Hann þarf jafnvel að fara í meiri rannsóknir.
Kennari Huga er ánægð með hann, hún sagðist hafa lent í því um helgina að tala við kínverska verkamenn sem voru að gera við heima hjá henni og það hefði sko verið erfitt að vera svona mállaus á kínverska tungu. Þetta eru hennar ummæli um strákinn:
"Hugi has been marvelous and I am very proud of him. He sits in class all day with patience and good humor and joins in all our activities...it all is so difficult and he is handling it so well."
Dalla

Wednesday, September 20, 2006

Best að byrja á veðurfréttum. Veðrið hefur verið yndislegt síðan á sunnudag, 25 stiga hiti og gola og nokkuð sólríkt. Svona á september að vera, ekki þessi rigning sem var í síðustu viku.
Kjartan flýgur í áttina að fellibyl á morgun, hann fer til Tókýó en þar hefur fellibylur gengið yfir og annar eða sá sami á leiðinni aftur. Stirnir kom með fína mynd heim úr skólanum um daginn. Þar var hann sjálfur staddur og sólin skein, það rigndi og hvirfilbylir voru á víð og dreif um myndina, þessir fínu spíralar eins og Kjartan stúderaði í Frakklandi á sínum tíma.
Meðan ég er að tala um Stirni kom það skýrt fram um daginn hvað hann er mikill mömmustrákur. Hugi var að gera sig líklegan til að príla á svölunum. Stirnir varaði við því, hann gæti dáið ef hann dytti: "Þá sérðu mömmu aldrei aftur!". Það er það versta sem gæti gerst, að hann sæi aldrei mömmu aftur.
Við Hugi lentum í því að týna Stirni í gær þegar við komum heim úr sundi. Við héldum að hann hefði hlaupið á undan okkur heim að húsinu en hann var ekki þar þegar við komum heim. Við leituðum í báðum stigunum, kölluðum og enginn Stirnir fannst. Við fórum út og ég talaði við vörð á minni bjöguðu kínversku, þar komu orðin litli bróðir og stóri bróðir sér vel. Hann benti upp í húsið eins og hann hefði séð Stirni fara inn. Þarna bar að kínverskumælandi útlending sem hjálpaði mér að láta vörðinn skilja að ég hefði týnt litla bróður, dídí. Vörðurinn kallaði upp þessar fréttir til annarra varða og við Hugi rukum aftur að sundlauginni til að leita af okkur allan grun. Ekki bætti úr skák að ég var nýbúin að lesa frétt á mbl um barnsrán í Kína. Hugi brast í grát á leiðinni og sagðist ekki vilja að Stirnir dæi.
Þegar við komum aftur í laugina var allt með kyrrum kjörum og enginn dídí sjáanlegur. Konan í afgreiðslunni kannaðist ekki við það að Stirnir væri þar. Þegar ég var að tala við hana heyrði ég grát, þá stóð Stirnir allur útgrátinn bak við vegg. Hann hefur líklega orðið eftir og grátið þegar hann fann okkur ekki. Enginn skipti sér greinilega af honum. Við Hugi urðum svo fegin að því verður ekki lýst. Í millitíðinni var ég búin að hringja í Kjartan sem var á leiðinni heim sem hringdi í Horace samstarfsmann sinn sem hringdi í mig til að aðstoða við túlkun við verðina.
Huga varð að orði þegar við vorum á leið heim öll þrjú að ef Stirnir myndi deyja myndi hann líka vilja deyja. Hann er kannski svolítið dramatískur... en bróðurástin er sterk.
Hugi var stoltur þegar hann kom heim úr skólanum í dag. Hann var spurður út úr í landafræðigrógrammi sem hann er í, það heitir Passport club. Hann fékk vegabréf (plat) og heimskort og á að læra landafræði heima, foreldrar sjá um þetta prógramm. Hann átti að læra nöfn heimsálfanna þennan mánuðinn og stóðst þetta próf, benti á álfurnar eins og herforingi. Hann fékk stimpil og frímerki í vegabréfið sitt að launum.
Hann er farinn að nota enskuna meira, ég heyri það sérstaklega þegar hann talar við Arthúr hinn franska hérna heima. Frasar eins og: This is cool, it´s great, it´s easy, look at me og fleiri bunast upp úr honum.
Stirnir fræddi mig um það hvernig maður segir bók á ensku áðan. Hann kom heim með geisladisk um daginn með lögum sem krakkarnir syngja í skólanum. Hann settist niður og söng hástöfum með fjórum lögum og gerði hreyfingar með.
Ég fór á fyrirlestur í skóla strákanna í dag, fyrir foreldra sem eru nýkomnir til Shanghai. Það var þýsk kona sem talaði en ég var nú ekkert sérstaklega hrifin. Hún virtist hafa kvartað og grátið fyrstu vikurnar og mánuðina, algjört fórnarlamb. Svo kom þar fram að við ættum að búa mönnunum okkar hlýlegt heimili því þeir ynnu svo mikið og undir álagi. Að auki vilja kínverskar konur ná sér í útlendinga svo við þurfum að passa kallana líka. Það sem bjargaði þessari konu var að hafa samband við Lifeline Shanghai sem hún er nú orðin fyrirlesari hjá og fá ráð hjá þeim.
Ég fann mig ekki í þessu, mér finnst ég ekki vera fórnarlamb, ég valdi sjálf að koma hingað og lít á þetta sem góða reynslu fyrir alla fjölskylduna.
Við settumst niður yfir hádegismat eftir fundinn, dönsk kona og sænsk og ein amerísk líka. Það var mjög gott að tala við þær. Elin, sú sænska er búin að vera hérna í 1 ár og hafði miklu að miðla til okkar Christinu sem erum báðar nýkomnar. Við vorum allar konur með karríer áður en við komum hingað en núna erum við eiginkonur eins og ég sagði í fyrri pistli. Elin talaði einmitt um það að fyrst hefði henni fundist hún þurfa að segja fólki hver hennar starfsvettvangur væri en svo komst hún að því að flestar konur yfirgefa sitt starf til að fylgja eiginmönnunum hingað. Og verða þá eiginkonur, mæður, expats, taitais sem er eiginlega móðgunarorð fyrir okkur kellurnar sem förum í nudd, handsnyrtingu og annað dekur til að láta dagana líða.
Ég hitti líka par á fundinum, þau eru frá New York, hún myndlistarmaður og hann kvikmyndagerðarmaður, þau eru búin að ferðast um heiminn með börnin sín tvö í eitt ár og ætla að dvelja í Shanghai næsta árið. Hún er búin að fá inni í galleríi fyrir sýningu og bauð mér að koma, það er í gallerísgötu norðarlega í Shanghai. Við Christina ætlum að fara í næstu viku og skoða þessa götu.
Daisy, mín elskulega ætlar að vinna fyrir Sylvie mömmu Arthurs og Zoe líka. Hún er nefnilega að missa flesta kúnnana sína burt frá Kína í október og það kemur sér vel að vera með tvö heimili í sama húsinu.
Ég þarf víst að setjast yfir mandarínið/kínverskuna í kvöld, ég verð spurð út úr í fyrramálið, engin miskunn. Ég man a.m.k. vel hvernig á að segja litli bróðir og stóri bróðir, dídi og gége.
Dalla

Sunday, September 17, 2006


Það hefur rignt eiginlega alla vikuna, loksins í dag sunnudag fór sólin að skína aftur. Það var þónokkur vindur svo við nýttum tækifærið og fórum út með flugdreka sem flaug nú ekki langt, vindurinn virtist koma úr öllum áttum.
Ég byrjaði í kínverskutímum á þriðjudaginn, var með franskri stúlku í tímanum sem mér líst mjög vel á. Kennarinn er indæl ung kona sem hvetur okkur áfram en fyrst um sinn erum við að stúdera framburð og tónana sem eru fjórir: Upp, niður, flatur og upp, niður og aftur upp á sama hljóðinu. Þetta gengur svona ágætlega, mér finnst ekki erfitt að bera þetta fram nema nokkur hljóð sem eru erfið.
Á fimmtudaginn bættist við áströlsk kona í litla hópinn okkar og kona á skrifstofu skólans sagði að það gæti bæst við enn ein wife/eiginkona í næstu viku. Það lítur út fyrir að allar konur í kínverskutímum í Shanghai séu eiginkonur manna í vinnu hér. Þetta er semsagt nýi titillinn minn, eiginkona.
Á miðvikudaginn fór ég í morgunkaffi með mæðrum úr Stirnis bekk, það eru mjög fínar konur þarna. Við mættum sjö af ellefu. Við spjölluðum heilmikið.
Á eftir tók Lethe mig með sér í innkaup, við fórum í risastórmarkað fyrir utan bæinn og á matarmarkað líka. Það var margt að sjá á þessum matarmarkaði, mikið af sjávardýrum og lyktin ansi sterk. Kjartan sagði að ég sæi meira af Kína en hann þegar ég sagði honum frá ferðinni. Hann situr inni á skrifstofu meðan ég skoða mig um. Eftir þetta innkaupastúss bauð Lethe mér heim þar sem mamma hennar eldaði ofan í okkur hádegismat. Hún bar fram steikt lótusblóm með kjötfarsi/hakki á milli, eggja og tómatarétt sem er uppáhaldið hans Stirnis og líka svínarétt. Það var gaman að fara í heimahús og borða þessa kínversku rétti sem maður hefur smakkað á veitingastöðum en ég hafði ekki smakkað lótusblómaréttinn áður.
Við höfum hitt frönsku krakkana nágranna okkar á hverjum degi síðan á mánudag. Við fórum í heimsókn til þeirra og svo hittum við þau úti á leiksvæðunum. Strákunum kemur vel saman, það er kraftur í Arthúri eins og Huga og þeir hlæja mikið saman allir þrír. Við kíktum upp til þeirra á föstudaginn og fengum lánaða barbapapateiknimynd en Hugi og Stirnir höfðu aldrei séð lifandi myndir af barbapapa, bara gömlu bækurnar mína síðan ég var lítil. Þeir elska þær bækur.
Á föstudagsmorgun skipulagði ég morgunkaffi með foreldrum úr Huga bekk. Mætingin var nú ekki eins góð og í Stirnis bekk, bara 5 af 15. En þetta er fínar konur, tvær frá Taivan, önnur þeirra starfaði sem fréttapródúsent í heimalandinu. Ein þeirra er kínversk en hefur búið í Bandaríkjunum og önnur er japönsk gift Svía.
Við náðum bara vel saman en ég hafði varla hitt þær áður. Ein þessara kvenna á unga tvíbura auk dóttur sem er með Huga í bekk. Hún hefur tvær Ayi á heimilinu allan sólarhringinn til að aðstoða við húsverk og barnaumönnun og börnin sofa inni hjá sitthvorri Ayi-inni. Hún þarf þessvegna ekki að vakna til barnanna. Hún talaði um það hvílíkur lúxus það væri að geta veitt sér þetta. Í heimalandinu gat hún einungis fengið húshjálp til að þrífa hjá sér einu sinni í viku fyrir sömu upphæð og að hafa tvær konur á heimilinu allan sólarhringinn. Svona líf efast ég um að geta stillt mig inn á.
Næst ætlum við að hittast í hádegismat, þá ætti að vera auðveldara fyrir þær mæður sem eru útivinnandi að koma líka.
Á föstudagskvöldið fórum við Kjartan út að borða með foreldrum í bekknum og kennara Stirnis. Kjartan var nú ekki spenntur fyrir því að þekkja engan en þetta varð mjög skemmtilegt kvöld. Þarna komu m.a. hjónin sem bjuggu á Íslandi fyrir tíu árum, frekar skrýtið að vera spurður af kínverja hvað maður segi gott. Þau trúlofuðu sig á Íslandi og bera því sterkar tilfinningar til landsins.
Hundurinn Table er í pössun hjá okkur þessa dagana. Hann pissar á bleiu á svölunum, það finnst bræðrunum frekar fyndið. Hann er nú búinn að gera nokkur skammarstrik hérna inni í kúk og pissmálunum en honum fer fram. Hann hefur tekið ástfóstri við mig og sefur við lappirnar á mér núna.
Moli okkar á Íslandi fór í stóra aðgerð á mánudag og lifði hana af. Vegna veiks hjarta var það tvísýnt hvort hann þyldi skurðaðgerð. Amma Ragnheiður og afi Jóhann eru með hann í gjörgæslu og við fáum fréttir af honum daglega eða jafnvel oft á dag. Hann er að skríða saman og verður vonandi í fullu fjöri þegar við hittum hann aftur.
Helgin var róleg hjá okkur, við héldum okkur heima vegna rigningar í gær. Í dag fórum við á sushistað í hádeginu og Hugi borðaði yfir sig. Stirnir smakkaði litla kolkrabba, spurning hvort honum varð illt í maganum af þeim en hann gubbaði þegar við vorum á hundagöngu seinnipartinn. Hann hafði nú alveg lyst á fiski í kvöldmatinn svo þetta hefur verið tilfallandi.
Dalla

Monday, September 11, 2006Það eru svo viðburðarríkir dagar núna að það þýðir ekkert annað en að blogga. Við fórum af stað í morgun í garð hérna vestan við Shanghai. Við vorum í för með Lethe og Natasha dóttur hennar og Mihiri og Teoni dóttur hennar. Við byrjuðum á siglingu og Hugi var skipstjórinn að venju á okkar fleyi. Þetta var heilmikil sigling, nokkuð stórt vatn þarna og síki sem hægt var að sigla eftir og þurfti nokkra lagni hjá skipstjóranum þegar siglt var undir brýr.
Á eftir fóru börnin nokkrar ferðir í tívolítækjum. Mömmurnar stýrðu ferðinni í klessubílunum því ekki náðu börnin niður. Mikið fjör hjá öllum.
Við borðuðum hádegismat saman og fórum svo hvert í sína áttina, rétt náðum heim áður en byrjaði að rigna.
Mér datt í hug að hringja í Sylvie, frönsku konuna sem við hittum á laugardaginn og bjóða henni í heimsókn með börnin Arthur 5 ára og Zoe 2 ára. Hugi var svo spenntur fyrir heimsókninni að það dugði ekkert minna en að baka köku og skreyta hana. Svo biðu þeir bræður úti á svölum eftir því að Arthur kæmi heim úr skólanum en svo heppilega vill til að þau búa í sama húsi og við, bara 32 hæðum ofar. Heimsóknin tókst bara mjög vel og strákarnir náðu vel saman, mikil læti og stofan í hálfgerðri rúst en allir voru glaðir. Við enduðum á því að fara niður á leikvöll sem er útbúinn hálfgerðum æfingahring fyrir börn og Hugi og Arthur tóku vel á því þar.
Huga fer fram í enskunni, wait for me sagði hann og ýmislegt sem ég hef ekki heyrt áður hjá honum.
Sylvie er mjög indæl, við tölum saman á frönsku og dettum stundum inn í ensku. Ekki slæmt ef ég get haldið frönskunni minni aðeins við þegar tengdamamma er svona víðs fjarri.
Við erum búin að ákveða heimsókn til systkinanna strax á morgun.
Dalla

Sunday, September 10, 2006Þá er helginni að verða lokið en eins og Hugi segir þá kemur laugardagur aftur á morgun vegna þess að nú taka við starfsdagar kennara í tvo daga og þarafleiðandi skólafrí.
Helgin byrjaði með afmælisveislu hjá Naomi félaga Stirnis, garðpartí. Ekki leit veðrið vel út í gærmorgun þegar við fórum af stað kl. níu, rigning og vindur. Næstum því íslenskt veður en slefaði í 20 gráðurnar .
Við fórum af stað með regnhlífarnar öll fjögur og vonuðum að það væri skjólsælt í garðinum. Þetta bjargaðist nú allt því það var skjól undir skyggni á staðnum, garðurinn nýttist því miður ekki að ráði vegna veðursins.
Fljótlega eftir komuna byrjuðu skemmtiatriðin. Trúður sem blés blöðrur og gerði fígúrur úr þeim gekk á milli barnanna. Hugi fékk sverð og var fljótlega kominn í bardaga við trúðinn, hann er ekkert sérstaklega feiminn. Stirnir hélt sig meira til hlés svona til að byrja með.
Þá var farið í það að berja í pinata, heila senjórítu sem pabbi afmælisbarnsins bar með sér frá Mexíkó í síðustu viku. Líklega hefur hann þurft að kaupa sæti fyrir ferlíkið. Hugi stóð sig vel í að berja á senjórítunni, lét höggin dynja. Stirnir gladdist þegar honum áskotnaðist sleikjó þegar senjórítan var öll.
Nú birtust fimleikamenn á hjólum, það var ekki laust við að maður óttaðist um þá á blautri stéttinni á hjólunum en þetta bjargaðist. Töframaður sem galdraði fram dúfur úr klút tók við og hélt athygli barnanna. Að lokum birtist maður með tvo púðluhunda sem léku listir sínar, hoppuðu í gegnum hringi og voru voðaleg krútt. Dagskráin var svo þétt að ekki gátu börnin leikið mikið. Punkturinn yfir i-ið var Barbíkaka og svo voru allir leystir út með gjöfum. Miklu föndurdóti sem kom sér vel þegar við fórum heim því það rigndi fram eftir degi.
Ég jesúsaði mig yfir hátíðahöldunum í tilefni fjögurra ára afmælis. Þarna var settur standardinn, ætli ég verði ekki að fá Lalla popp og kók í að event managera afmæli Huga í lok október. Spurning um að flytja inn skemmtikrafta...
Seinnipartinn fórum við mæðgin í leikvallarúnt hérna á svæðinu okkar og enduðum í sundi. Þar hittum við fyrir franska konu sem var að flytja hingað frá Filippseyjum. Hún var með 5 ára son og 2 ára dóttur, snarkrullhærða. Hugi sýndi mér dótturina og sagði að hún væri alveg eins og hann þegar hann var lítill. Nokkuð til í því. Við ætlum að vera í sambandi við þessa fjölskyldu, ég gat miðlað af minni reynslu, bent henni á næsta Carrefour og svona. Nú þykist ég vera orðin sjóuð en það er gaman að kynnast fólki sem býr hérna á sama stað.
Í dag stytti upp þó ekki sé enn orðið jafn hlýtt og var áður, það er mikill munur þegar hitinn fellur um 10 gráður á einu bretti. Við fórum í hádegismat með Atla og Yongjia, fengum hamborgara og pulsur handa krökkum. Þarna voru leiktæki fyrir krakka og allt morandi í expats með börnin sín.
Eftir matinn fórum við niður í bæ á Shanghæ biennalinn. Þemað er hyper design og nokkuð fín sýning. Strákarnir sáu margt flott og áhugavert. Það er alveg hægt að taka þá með á listsýningar enda hafa þeir báðir verið nemendur í Myndlistarskóla Reykjavíkur og opnað augu sín þar fyrir list.
Hugi fór heim með pabba en við Stirnir sátum eftir með Atla og Yongja og fórum á kaffihús listasafnsins.
Dalla

Friday, September 08, 2006

Bara smá fyrir helgina. Við vorum í föstudagsgalsa mæðginin í hjónarúminu fyrir háttatíma áðan. Þá verður Huga að orði: Við Stirnir erum orðnir svo miklu betri vinir eftir að við komum til Kína. Og svo aðeins seinna: Það er gott að ég eignaðist bróður!
Ég tek undir þetta. Það hefði eiginlega verið ómögulegt að fara með eitt barn hingað, þeir hafa stutt hvorn annan í sumar og í gegnum skólann. Þeir fara glaðir af stað saman á morgnana og koma saman heim.
Nú er sjálfstæðið að aukast hjá þeim, ég má ekki lengur koma niður og taka á móti þeim. Þeir vilja hringja á bjölluna, koma sjálfir upp og dingla hérna uppi. Hugi leiðir veginn og heldur á töskunum þeirra.
Góða helgi, Dalla.

Thursday, September 07, 2006Takk fyrir góðar kveðjur elsku vinir í tilefni afmælis, alltaf gaman að heyra frá ykkur!
Þetta "food fair" dæmi er að verða að miklu "nordisk samarbejde" því ég fór á fund á þriðjudaginn og hitti þar fyrir Christinu fá Danmörku og Björn og Elin frá Svíþjóð. Við ákváðum að slá saman og settum upp the nordic team. Við fengum líka í lið með okkur Jie sem er kínversk en gift norskum manni, hún bjó í Noregi í 15 ár. Síðan hafa gengið á milli póstar með hugmyndum svo allt er komið í full sving. Smörrebröd, nammi, pönnukökur og ýmislegt á matseðlinum. Ég var jafnvel að hugsa um að biðja vissan mann sem kemur til Shanghai í lok september að kippa með sér flösku af Brennivíni og hákarli. Ég frétti nefnilega að það yrði bar á staðnum svo við hljótum að geta boðið upp á snafsa með hákarlinum.
Í gær fórum við í fyrstu afmælisveisluna í Shanghæ. Við vorum á leið í sund og Hugi hljóp á undan að venju. Hann kom á móti okkur Stirni og var mikið niðri fyrir og sagði að það væri eitthvað að gerast í kaffiteríunni hjá sundlauginni. Þá var það lítill strákur sem átti eins árs afmæli og fullt af mömmum með börn í veislunni. Okkur var boðið í köku og strákarnir voru voðalega glaðir með að fara í afmæli. Á laugardaginn er Stirni boðið í afmæli hjá bekkjarsystur sinni og Hugi fær að fljóta með. Þetta er garðpartý og virðist vera mjög prófessjonal, við fengum afhenta dagskrá afmælisins og þar verður skrúðganga, töframaður og fleira.
Við fylgjumst með Rockstar hérna í Kína líka. Ég hitti einmitt indverska konu á leikvellinum sem nefndi Magna við mig þegar ég sagði Ísland, Magni er semsagt tekinn við af Björk og Sigurrós.
Við horfðum á þáttinn í gær með Huga, hann er á kristilegum tíma hérna. Hugi furðaði sig á því hversvegna það væru svo margar stelpur í áhorfendaskaranum. Ég sagði nú að stelpur væru oft hrifnar af rokkurum og hljómsveitargæjum. Þar sem hann er ákveðinn í því að eignast aldrei kærustu fannst honum það nú ekki merkilegt. En eftir sná umhugsun spurði hann pabba sinn: Gerðir þú rokk til að eignast kærustu?
Í kvöld fórum við Kjartan á einhverskonar foreldrafund í skóla strákanna. Bræðurnir fóru á tælenskan veitingastað með Atla og Yongjia. Þeir komu á eftir okkur Kjartani heim og virtust hafa skemmt sér mjög vel, Hugi tók myndir af gestu veitingastaðarins og Stirnir sofnaði eftir mikið hrísgrjónaát. Við Kjartan hittum Ms. D og Mr. Flesher og aðra foreldra, þau kynntu vetrarstarfið fyrir okkur. Allt lítur þetta mjög vel út.
Dalla

Saturday, September 02, 2006Í gær laugardag áttum við Kjartan 17 ára samvistarafmæli. Fyrsti kossinn var á Gauki á Stöng í september 1989. Fyrst um sinn vorum við nú aðskilin í sitthvoru landinu, ég á Spáni og hann í Frakklandi en við héldum það ekki lengi út og undirrituð söðlaði um og flutti til Nice.
Það voru nú engin sérstök hátíðahöld í tilefni dagsins en hann var ljúfur. Okkur var öllum boðið í hádegismat á spænskan stað. Alan sem stjórnar Optic var svona rausnarlegur. Við fengum lágt borð á dýnum og með púðum við bakið, allir berfættir. Bræðurnir hoppuðu kringum borðið og Alan hafði á orði að þeir væru orkumiklir. En öll fengum við góðan mat og stemmningin róaðist þegar strákarnir fóru yfir á næsta bás og hoppuðu þar.
Eftir matinn röltum við yfir á írskan bar O´Malleys en þar er frábær aðstaða fyrir krakka. Gott útisvæði með leiktækjum og föndurhorn inni. Yongjia og Atli hittu okkur þarna og Yongjia stóð sig vel í að leika við Huga og Stirni, þeir hreint og beint elska hana.
Við komum ekki heim fyrr en um sexleytið og þá elduðum við þorsk sem ég fann í Carrefour um daginn. Hann var mjög góður og strákarnir borða vel af fiskinum. Hugi kvartar nefnilega yfir því að það sé allt of oft kjöt í matinn.
Hugi var mjög glaður þegar hann kom heim úr skólanum á föstudaginn, hann lék sér alla leiðina heim við strák sem býr hérna hinu megin við götuna. Hann verður svo glaður þegar hann nær sambandi við krakka þó það sé ekki nema í smástund. Í frímínútum í síðustu viku sagðist hann hafa verið að skoða snigla með stelpu. Upplagt á rigningardegi.
Hann er farinn að hugsa mikið um afmælið sitt og vill helst byrja að bjóða strax en afmælið er í lok október. Hann hefur áhyggjur af því að vera ekki búinn að eignast vini fyrir afmælið. En hann er búinn að bjóða nú þegar einum litlum tveggja ára sem við hittum oft í sundi, hann á amerískan pabba og kínverska mömmu sá.
Vikan er að verða bókuð hjá mér, ég held uppteknum hætti og fer í hádegismat með mömmum úr skólanum. Einnig er ýmis sjálfboðavinna hjá skólanum og fundir í sambandi við hana í vikunni, mér finnst bara fínt að hafa dagskrá og hlakka til að taka þátt.
Dalla