Monday, June 19, 2006

Ég ákvað að setja bara mynd af sjálfri mér inn í dag, allir fjölskyldumeðlimir nema undirrituð hafa birst á mynd. Ég sit þarna fyrir framan Haagen Dazs ísbúðina á HuZiaHuei. Á Parísarárum mínum afgreiddi ég ís á Haagen Dazs í latínuhverfinu, þetta var svona kvöld og helgarvinna fátæka námsmannsins. Hugi tók myndina.
Við fórum í skóla bræðranna í morgun. Okkur gekk illa að fá leigubíl en það tókst að lokum. Strákarnir eru að byrja á sumarnámskeiði í 2 vikur. Þeir verða hálfan daginn, frá hálfníu til tólf. Skólinn er lítill og krúttlegur, húsnæðið komið til ára sinna. Á sömu lóð er risastór kínverskur stúlknaskóli og eru stundum spiluð tónlist í hátölurum á íþróttavellinum og ýmsar tilkynningar líka. Stúlkurnar voru að æfa sig í badminton og blaki í morgun og flissuðu mikið. Ég sat úti og las, krimma sem gerist í Shanghai, takk Pétur fyrir bækurnar! Ekkert betra en að kynnast borg í gegnum glæpastarfsemi, ýmsar lýsingar á borginni og ýmsum réttum sem löggurnar gæða sér á.
Bræðurnir voru á einhverskonar enskunámskeiði en þeir ætla að skipta á morgun og fara á leikjanámskeið/fun camp.
Þegar strákarnir voru búnir tókum við leigubíl heim, höfðum ekki orku í lestina. Það verður heitara með hverjum deginum, þetta er sýnishorn af því hvernig þetta verður í júlí og ágúst.
Leigubílarnir eru með hvít einhverskonar teygjulök yfir sætunum og það fyrsta sem Stirnir gerði þegar hann kom upp í bílinn var að reka skóinn í sætið og skíta það út. Bílstjórinn var nú ekki ánægður með það og lét það í ljós. Ég lét það nú ekki slá mig út af laginu heldur tók við að þylja upp á kínversku hvert förinni væri heitið. Mér tókst bara vel til því heim komumst við.
Ekkert sést til sætisbelta í Shanghai-skum leigubílum svo við dinglum bara laus í aftursætinu. Mér er nú frekar illa við þetta en það er lítið að gera í því. Ég ætla að reyna að taka lestina með strákana á morgun, hún ætti að vera öruggari. Bara meira stress að koma þeim tveimur áfram í gegnum mannþröngina. Ég hef heyrt af því að verðirnir á lestarstöðvunum ýti á eftir fólkinu inn í lestina með stöngum á háannatíma, svona lárétt., Þú hlýtur að vera eins og sardína í dós þegar þeir þjappa svona rosalega. Vona að ég eigi ekki eftir að upplifa það.
En planið er að drengirnir verði sóttir í skólabíl þegar skólinn byrjar í ágúst, þar eiga að vera belti í sætunum.
Við tókum spíttbátinn aðeins út í dag og sigldum hérna á tjörninni. Við vorum frekar klaufsk og sigldum tvisvar inn í plöntur sem komnar eru í tjörnina og festum bátinn. Sem betur fer var maður í vöðlum að þrífa tjörnina og hann var í fullri vinnu við að bjarga bátnum fyrir okkur.
Ég fór svo í innkaup seinni partinn með Atla og Yongjia, fékk góða aðstoð frá þeim við matarinnkaupin. Ég fann ost sem strákunum þykir góður og fleira sem fellur að þeirra smekk. Hugi var svo vonsvikinn yfir samlokunni sem hann fékk með sér í skólann í morgun, hann vill Gottaost og Heimilisbrauð. Næsta verkefni er að finna rétta brauðið. Kínverjar borða ekki mikið af mjólkurvörum yfirleitt og ekki borða þeir heldur mikið að brauði ef ég dæmi eftir úrvalinu.
Við þurfum að breyta mataræðinu hægt og sígandi.
Dalla

1 comment:

Finnur said...

Makalaust gaman að lesa þetta blogg og gaman að lesa um ófeimnustu drengi í heimi :) vona að allir nái að aðlagast þessu nýa landi fljótt og vel.

Kveðja frá höfuðstöðvum CCP