Monday, November 27, 2006

Hugi var mús og Stirnir bjalla í söngleik föstudagkvöldsins í skólanum þeirra. Þeir stóðu sig báðir mjög vel, sungu hástöfum og sýndu enga feimni á sviðinu. Upprennandi stjörnur.

Á laugardaginn fengum við bræðurna Bogga og Örn í heimsókn, það var mjög gaman. Við pössuðum þá m.a.s. í smátíma sem gekk mjög vel. Strákarnir ná vel saman í leik, bæði inni og úti. Við könnuðum svæðið okkar með þeim, fórum í boltalandið og á tvo leikvelli.
Hugi og Boggi smíðuðu geimflaugar úr pappa, þær voru flottar og vel skreyttar.
Magnús og Hekla og líka Atli og Yongjia eyddu kvöldinu hérna með okkur. Við pöntuðum okkur indverskan mat og höfðum það gott.
Ég held að ég sé komin í jólaskap, við settum smá jólatónlist á fóninn og ég bakaði smákökur, brauðbollur og súkkulaðiköku. Langt síðan ég hef bakað svona mikið en það var mjög gaman að bera fram nýjar bollur og súkkulaðiköku, ég var stolt húsmóðir.
Í gær, sunnudag tókum við smá forskot á aðventuna með dönsku vinum okkar/mínum Christinu og Anders og börnunum Oliver og Viktoriu. Ég hef farið með Christinu í nokkra rúnta um Shanghæ en Kjartan var næstum því að hitta þau í fyrsta skipti. Svona er þetta hérna, konurnar skipuleggja félagslífið fyrir kallana sem eru alltaf að vinna, svo verða þeir að gjöra svo vel og fylgja en þetta tókst allt mjög vel og Kjartan var ekki eins og illa gerður hlutur.
Þau buðu upp á svínasteik með brúnuðum kartöflum, nammi. Svo voru bakaðar pönnukökur og krakkarnir skáru út smákökur. Virkilega huggulegt á danska vísu og við Kjartan vorum farin að reyna okkur við dönskuna eftir smá rauðvín og bjór. Nokkrar myndir:


Í morgun fór ég í smá rölt með henni Sylvie nágrannakonu minni og Zoe litlu dóttur hennar. Ég leiddi þær í búð sem ég þekki og er einstaklega góð fyrir jólagjafainnkaup, tala ekki meira um það.
Eftir hádegið var ég með Hugabekk að aðstoða við samsetningu og skreytingar á piparkökuhúsi. Allir bekkirnir búa til sitt piparkökuhús og krakkarnir stóðu sig vel þó einhver hluti af namminu hafi líklega ratað eitthvert annað en á húsið.


Ég þurfti að hlaupa yfir í Stirnisbekk áður en húsið var tilbúið því ég var búin að lofa að vera gestalesari þar. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og hlustuðu vel meðan ég las um bók um óhamingjusama caboose en það er endavagninn á langri lest. Þau þekkja þetta hlutverk sjálf því eitt af störfum þeirra er að vera lineleader og annar er caboose á röðinni.
Hugi fór á sitt fyrsta playdate eftir skóla í dag, það tókst vel fyrir utan einhvern harm vegna þess að hann fékk ekki að velja sér blöðru. Við Stirnir fórum bara tvö ein heim með skólabílnum og svo fór ég að sækja Huga í leigubíl seinna.
Við erum búin að taka ákvörðun um jólafrí, við ætlum að fara til Tælands. Yongjia er búin að leggja mikla vinnu í að finna flugmiða til Bangkok og svo áfram til eyjarinnar Koh Samui. Við förum að kvöldi þess tuttugasta og annars til Bangkok og svo áfram til Koh Samui að morgni þess 25. Þannig að jólamaturinn í ár verður tælenskur .
Á Koh Samui eru fallegar strendur og draumurinn er að gista í kofa/húsi við ströndina. Eina vandamálið er að finna flug aftur til Bangkok en ef það gengur ekki er hægt að taka ferju.
En við ætlum semsagt að fara með Atla og Yongjia sem er bara frábært, þau eru okkar nánasta "fjölskylda" hérna.
Svo nú þarf að draga fram sumarfötin aftur, nýbúin að setja þau aftarlega í skápinn. Kjartan rak reyndar upp eitthvert harmakvein hérna áðan þegar hann sá hitastigið í Tælandi, hann er ekki mikið fyrir hita en hann verður þá bara á floti þennan tíma eða í köfun.
Dalla

Thursday, November 23, 2006


Magnús, Örn og Boggi í flatköku og pizzusnúðaveislu

Útileikur, Stirnir er í nýjum slökkviliðsmannabúningi

Prinsessan dansandi á múslimastaðnum

Borðhald á múslimastaðnum, strákarnir í dansi, þeir sáust varla við borðið

Við fengum góða heimsókn á sunnudaginn, Magnús og synir komu til okkar og eyddu eftirmiðdeginum með okkur. Strákarnir léku úti og inni og skemmtu sér vel. Fullorðna fólkið sat og spjallaði. Undir kvöld fórum við á veitingastaðinn múslimska þar sem prinsessan dansar. Atli, Yongjia og Clement slógust í för með okkur þangað. Strákarnir dönsuðu mikið og borðuðu lítið. Kveðjustundin var sár með miklum faðmlögum.
Ég fór á feikmarkaðinn um daginn, hinum upprunalega feikmarkaði var lokað í sumar og einhver angi af honum er í húsi núna við eina aðalverslunargötuna. Þarna er ýmislegt til sölu og á efstu hæðinni eru nær eingöngu básar með töskum. Við skoðuðum eftirlíkingar af Balenciaga og Chloetöskum meðal annars en inni í einum básnum hnippti sölumaðurinn í okkur, dró okkur að einni hillunni og opnaði hana. Þar fyrir innan var lítið leyniherbergi með enn fleiri töskum, Prada og fleiri merki voru þarna í hillum. Mér fannst eins og ég væri komin í fimmbækurnar, þar opnuðust oft leynigöng eða herbergi en þetta hafði ég aldrei upplifað áður. Sölumaðurinn leit í kringum sig áður en við vorum dregnar inn í dýrðina en ástæðan fyrir leyndinni er sú að það er mismikill glæpur að gera eftirlíkingar af merkjum. Löggan virðist taka hart á eftirlíkingum á Prada. Þegar við vildum út aftur þurftum við að bíða vegna þess að löggan var á kreiki.
Löggan tekur víst rassíur vegna eftirlíkinga og stolinna hluta. Stundum er hægt að fá mikið af vörum í búðum sem búið er að klippa miðana innan úr og eru þá jafnvel merkjavörur en þegar löggan er í rassíu hverfur allt góða stöffið skilst mér.
Það hefur rignt mikið hérna þessa vikuna og þá er ekki farið í frímínútur í skóla strákanna. Hugi segist ekki komast á klósettið þegar rignir, það er nú meiri vinnusemin að hleypa börnunum varla á klósettið.
Á afmælisdaginn borða Kínverjar núðlur svo lífið þeirra verði langt eins og núðla. Gott að vita þetta fyrir næsta afmæli!
Ég lærði hin ýmsu nöfn á ávöxtum í síðustu viku þar á meðal sem þýðir pera. getur líka þýtt að fara (burt) þessvegna gefa Kínverjar aldrei vinum sínum peru, það þýðir að þú ætlir að yfirgefa hann.
Kínverjar spá mikið í tölur og árið 2006 er gott ár, bæði til barneigna og brúðkaupa, það var víst mikil brúðkaupsalda þetta árið. Árið 2007 er ekki eins gott en árið 2008 á að vera gott. Mér skilst að á Íslandi sé dagsetningin 07.07.2007 orðin uppbókuð fyrir brúðkaup en í Kína vill enginn gifta sig þann dag. Dagsetningin 08.08.2008 gæti hinsvegar orðið vinsæl.
Borðið núðlur og ekki gefa peru,
Dalla

Sunday, November 19, 2006
Stirnir og Lucas

Butterfly-bekkurinn með Mr. Flesher kennaranum í ljósum fötum, Mr. Bali, Lethe og Natasha.

Lestin er að koma

Krakkarnir fengu að smakka ítalskar smákökur

Pizzugerðarmaður að störfum

Stirnir, Anthony og Lucas horfa á pizzuna

Ég er ekki hætt að blogga, skjárinn á tölvunni minni dó en ég fékk nýjan skjá svo ég get haldið áfram með framhaldssöguna.
Kjartan kom heim á miðvikudaginn og við vorum öll voðalega fegin að fá hann til baka. Hann kom með góðar sendingar frá Íslandi, flatkökur, hangikjöt, harðfisk, lakkrískonfekt, Nóakropp og tímarit.
Við fórum í tvær afmælisveislur hjá bekkjarsystrum Stirnis, eina á fimmtudaginn og aðra á laugardaginn. Báðar veislurnar voru haldnar á innileikvöllum. Kínverjar eru ansi klárir í svona leikvöllum, boltalönd, rennibrautir, trampólín og annað sem krakkarnir geta hamast á tímunum saman. Í annarri veislunni var farið í leiki líka, Hugi er ansi einbeittur í þeim. Hann gerir allt til að vinna og verður tapsár ef það tekst ekki.
Á föstudaginn fór ég með Stirnis bekk í vettvangsferð í stórmarkað. Krakkarnir hafa verið í búðarleik í bekknum undanfarnar vikur og nú lá leiðin í stóru búðina. Við tókum lestina eitt stopp og röltum svo um búðina. Krakkarnir fengu að velja sér drykki og kaupa þá sjálf með peningum. Við borðuðum hádegisverð á pizzastað og fengum að aðstoða við að setja ostinn á pizzurnar. Þetta var allt vel heppnað og börnin stóðu sig mjög vel á ferðalaginu.
Síðar um daginn sýndi Stirnir leikfang sem hann kom með að heiman í "Show and tell", hann valdi kúluna stækkanlegu og vakti mikla lukku, skreið inn í hana og gerði kúnstir. Mr. Flesher sagði að hann hefði slegið í gegn með kúluna. Stirnir er að taka stökk í að tala enskuna þessa dagana, ég heyrði það í ferðinni og kennarinn staðfestir það.
Dalla

Saturday, November 11, 2006

Nú erum við Kjartanslaus, hann er á Íslandi að sinna spilurum.
Ég byrjaði grasekkjustandið á að fara í andlitsbað og nudd með Lethe. Það var ljúft, það er hægt að fá sérstaklega góð tilboð á svona pökkum þegar maður kemur í fyrsta skipti. Við vorum reyndar sannfærðar um að kaupa einhverskonar áskrift en Lethe segir að það sé hættulegt því nuddstofur og snyrtistofur fara gjarnan á hausinn og þá situr maður eftir með verðlaust plagg.
Svo ráðið er það að prófa sem flest staði.
Á fimmtudaginn var kínverska að venju. Samtölin okkar þar eru orðin ansi fyndin, við erum farin að spyrja hvort annað hvað sé líklega langt frá heimili okkar til einhvers staðar. Við erum búin að læra nöfnin á hinum ýmsu stöðum, bíóhúsi, lestarstöð, flugvelli, búð, verslunarkjarna o.s.frv. Einnig erum við búin að læra á klukkuna svo við getum haldið uppi svona samtölum þó það sé erfitt þegar við lendum í aðstæðunum utan kennslustofunnar. Við erum farin að þekkjast nokkuð vel nemendurnir og ég er iðulega spurð af samnemendum mínum um syni mína, fjarlægðina í skólann þeirra og fjarlægðina í næstu Carrefourverslun. Þetta eru svona mínir staðir í borginni. Juan, Kólumbíumaðurinn, 26 ára er spurður um fjarlægðina á næsta bar, hversu oft í viku hann fari á barinn... Við erum miklar stereotýpur, ég húsmóðirin og hann ungi piparsveinninn.
Ég fór á flakk með Christinu í gær, við leikum túrista og gengur það vel. Í þetta skipti fórum við á efnamarkaðinn þar sem hægt er að láta sauma á sig föt eftir máli. Þarna er hægt að fá kasmírfrakka og annað fyrir veturinn fyrir ekki svo hátt verð. Ég þarf að draga Kjartan með mér og fata hann upp. Hans sýn af Kínadvölinni var sú að hann yrði í klæðskerasniðnum fötum alla daga en það hefur lítið farið fyrir svoleiðis í fataskápnum hans hingað til. Ég sá þarna ýmislegt sem hægt væri að láta sauma á hann. Christina lét sauma á sig kápu og pils, ég keypti mér kanínupelsjakka. Ekki slæmt að ganga um í honum þegar fer að kólna að ráði.
Í dag, laugardag hittum við Louca bekkjarfélaga Huga og fjölskyldu í Fuxing garði sem er í franska hverfinu. Strákarnir fóru í nokkur leiktæki og hoppukastala og skemmtu sér vel. Við fórum svo og fengum okkur að borða í Xintiandi, gamla hverfinu.
Nokkrar myndir frá deginum fylgja,
Dalla
Sunday, November 05, 2006

Helgin byrjaði á mikilli föndurhátíð í skóla strákanna, reyndar ekki í þeirra campus heldur öðrum campus sem er hérna nær okkur. Þarna var föndur frá ýmsum löndum og strákarnir máluðu búmerang/bjúgverpil, gerðu grímur frá Afríku og hatta og hljóðfæri frá Kóreu. Við komum heim aftur með fullan kassa af föndri. Afraksturinn sést á myndunum.
Jóra frænka sem grætur yfir hárinu getur líka metið eftir myndunum hvort táraflóðið haldi áfram eða stöðvist. Þetta vex!Seinnipartinn fengum við heimsókn, Atli , Yongjia og Clement komu yfir. Þegar kvöldaði og hungrið fór að sverfa að röltum við út á japanskan stað, allt sem þú getur borðað og drukkið fyrir tæpan þúsundkall á mann. Hugi raðaði í sig laxa-sashimi að venju, fólk þarf að hafa snögg viðbrögð ef það ætlar að fá bita þegar hann er á staðnum.

Yongjia fékk nýja hárgreiðslu þetta kvöld.

Í dag dró heldur til tíðinda í Shanghæ því við fórum á fund Íslendingafélagsins í borginni. Strákarnir voru mjög spenntir því við höfðum heyrt af tveimur strákum sem búa hérna. Gleðin varð mikil þegar það kom í ljós að þeir eru á svipuðum aldri og bræðurnir. Boggi er sex ára og Örn er þriggja ára. Þeir smullu saman um leið og við sáum strákana lítið meðan við borðuðum, þeir léku sér ofan á, undir og í kringum billjardborð sem var þarna á staðnum.
Ég dró síðan Heklu og Magnús, foreldrana með mér á barnvæna staðinn O´Malleys þar sem við gátum spjallað saman meðan strákarnir léku sér. Hekla og Magnús vinna bæði hjá Össuri og þau búa ekki svo langt frá okkur. Mér heyrðust Hugi og Boggi búnir að plana annan fund strax eftir skóla á morgun en ætli við hittumst ekki næstu helgi þegar Kjartan verður á Íslandi.
En eftir þennan fyrsta fund okkar með Íslendingum er undirrituð orðin ritari stjórnar og næst ætlum við að hittast á litlu jólum í byrjun desember. Það er ein fjögurra ára íslensk stelpa, Líf, líka í félaginu svo börnum fer ört fjölgandi.
Við mæðgin ræddum framtíðarplön á leigubílaferðum okkar um borgina. Kjartan var ekki með í för, hann var í keilu með starfsfólki CCP. En Hugi er ákveðinn í því að verða vísindamaður og gera tilraunir í framtíðinni og Stirnir ætlar að verða pabbi. Hugi kom með þá athugasemd að hann gæti ekki lifað á því að vera bara pabbi en við ræddum það að hann gæti þá líka orðið t.d. kennari, í leikskóla eða skóla og Hugi sættist á það.
Á leið frá Íslendingafundinum ræddum við um ættleiðingar vegna þess að Líf litla er ættleidd. Þetta fannst Huga mjög spennandi, hann gæti þá ættleitt barn án þess að eiga konu, en hann er harðákveðinn í því að fara í gegnum lífið konulaus. Þá datt honum líka í hug að hann gæti orðið leikskólakennari því þá gæti hann sinnt barninu allan daginn, heima og í skólanum.
Skemmtileg og viðburðarík helgi að baki. Kjartan fer til Íslands á miðvikudaginn, hann verður með gamla símanúmerið sitt ef einhver þarf að ná í hann. Við hin finnum okkur eitthvað skemmtilegt að gera á meðan. Værum samt alveg til í að skreppa smá heim en við hugsum bara heim.
Dalla

Friday, November 03, 2006


Hérna fylgir afgangurinn af krabbaveislumyndunum sem vildu ekki inn í síðasta bloggi.
Eldhússtemning með Atla og Yongjia og Stirnir og Atli horfa í pottinn... Yongjia þurfti svo að leiða okkur í gegnum átið, við kunnum ekkert að ná í gumsið. Krabbaát 102.
Þessa vikuna höfum við verið ansi mikið á þvælingi, akróbatasýningin á þriðjudaginn og svo fórum við út að borða á miðvikudagskvöldið en það gerum við nú venjulega ekki á skóladagskvöldum. En það var ekkert til í ísskápnum svo við urðum.
Við fórum á múslímskan veitingastað þar sem borinn er fram matur frá Norður-Kína, svæði þar sem múslimar búa. Okkur leið eins og við værum komin til Frakklands, starfsfólkið leit alls ekki út eins og Kínverjar frekar eins og NorðurAfríkubúar. En samt eru þetta Kínverjar.
Við fengum okkur lambakjöt sem var mjög gott. Það var borið fram í stóru stykki og við fengum afhenta einnota hanska til að rífa kjötið í okkur. Þarna er hægt að panta heilt lamb á aðeins 700 íslenskar krónur en við vorum nú ekki nógu gráðug til að leggja í það. Stirnir borðaði sérstaklega vel af lambinu og af uppáhaldsréttinum kínverska sem samanstendur að tómötum og eggi.
Þegar leið á máltíðina byrjaði fjörið því einn þjónanna spilaði á skemmtara og söng með. Stúlka og maður dönsuðu milli borða á smáplássi og áður en leið á löngu var Hugi kominn með í dansinn. Parið dró fleiri með sér á gólfið og það myndaðist frábær stemmning. Á tímabili vorum við öll fjölskyldan á dansgólfinu. Strákarnir dönsuðu lengi og tóku þátt í einhverskonar kóngadansi líka.
Stirnir sagði þegar hann kom heim að hann hefði dansað við prinsessu en stúlkan sem leiddi dansinn var í fallegum rauðum kjól og ekki ólík fallegri prinsessu.
Á leiðinni heim gengum við framhjá hárgreiðslustofu og í einhverju stundarbrjálæði ákvað ég að það væri gott að láta klippa strákana. Þeir fengu hárþvott til að byrja með og voru svo settir í stólana. Þá hringdi síminn minn, góð vinkona frá Íslandi var á línunni. Á meðan ég talaði voru strákarnir bókstaflega snoðaðir, þeir hafa aldrei verið svona stuttklipptir áður.
Hugi varð svo glaður þegar hann horfði í spegillinn og sá engar krullur. Hann er á því skeiði núna að hata krullurnar sínar. Hann grét reyndar fögrum tárum þegar við komum heim og hárið vildi ekki haldast slétt þó það væri svona stuttklippt.
Ég hugga mig við að hárið vex aftur. Ég hélt að kínverjarnir myndu hætta að spyrja hvort Stirnir væri stelpa en það gerist ekki. Þeim finnst hann vera stelpulegur áfram.
Í gær voru svo foreldraviðtöl í skólanum, nú er einn fjórði af skólaárinu búinn og við fengum einkunnir bræðranna í vikunni. Eins og gefur að skilja fær Hugi ekki háar einkunnir vegna mál og skilningsleysis en hann stendur sig vel í stærðfræði, íþróttum og tónlist sem hann elskar. Hann lærði texta við tvö lög fyrir sameinuðu þjóða daginn og hann pikkar upp nótur sem hann lærði á sílafón, skrifaði þær allar niður hérna um daginn. Kennarinn hans segir að hann taki miklum framförum núna, hún sér mikinn mun síðustu tvær vikur. Hann lærir 8 orð á viku, gerir ýmsar æfingar með þau alla vikuna í heimavinnu og tekur svo nokkurskonar stafsetningarpróf á fimmtudögum. Í lokin á hann líka að skrifa setningu og nota sem flest af þessum orðum. Setningin hans í gær var: "My brother is jumping with friends." Þetta bjó hann til alveg sjálfur og skrifaði líka sjálfur.
Að auki er hann í aukatímum í ensku með tveimur bekkjarsystrum, þar tekur hann góðum framförum en sú kennsla fer oft fram út um allan skóla. Kennarinn setur krakkana í aðstæður á leikvellinum, mötuneytinu o.s.frv.
Stirnir fær líka góða umsögn hjá sínum kennara. Hann tekur þátt í öllu og er góður við bekkjarfélaga sína. Þau eru með stjörnukerfi í bekknum, það er hægt að missa stjörnur fyrir óþekkt en það hefur ekki ennþá gerst hjá mínum manni. Bekkurinn er að læra um tilfinningar þessar vikurnar, þau ræða um það hvernig líðan kemur fram í svipbrigðum o.s.frv. Þau læra líka einn bókstaf í viku, fara í íþróttir, tónlistarkennslu og tölvutíma. Stirnir fékk sérstakt hrós fyrir tölvukunnáttuna og líka fyrir getu á íþróttasviðinu sem ég skil nú ekki alveg, mér hefur alltaf fundist hann svolítið klunnalegur. Kínverskukennarinn hrósar honum fyrir góðan framburð, hann er góður í eftirhermum sem kemur sér vel.
Svo verð ég að taka fram að sjálf fékk ég einkunnir í kínverskunáminu mínu, ég vissi nú ekki að það stæði til. Ég fékk mjög góðar einkunnir, Kjartan segir reyndar að þannig haldi þeir nemendum áfram í skólanum en ég tek hann ekki trúanlegan. Ég þarf helst að bæta mig í framburði, það eru nokkur hljóð sem eru mjög erfið og ég rugla saman.
Dagurinn í gær var þannig að Lethe passaði strákana meðan við Kjartan hittum kennara strákanna og svo fór ég í kínverskuna. Svo hitti ég gengið í Zongshangarði eftir kínverskuna, Tashi dóttir Lethe var auðvitað með í för. Stirnir sagði fyrr um morguninn að hann væri giftur Tashi. Ég spurði þá hvenær brúðkaupið hefði farið fram og svarið var "í gær".
En þau léku sér fallega saman krakkarnir og við fórum í siglingu þar sem Hugi var skipstjórinn að venju. Við enduðum daginn mæðginin á ferð í Carrefour þar sem Hugi var betri en enginn í að aðstoða og sækja vörur, hann valdi fimm tegundir af pasta og keypti sína frönsku pylsu (saucisson) sem ég hafði ekki keypt lengi.
Á leiðinni heim sofnaði Stirnir í leigubílnum en Hugi kom til hjálpar og vakti bróður sinn og hjálpaði mér upp með pokana, hann sýnir mikla ábyrgðartilfinningu og vilja til að hjálpa til, hann hefur þroskast við að verða 7 ára!
Í dag hitti ég Christinu dönsku kunningjakonu mína, við fórum í leiðangur í gömlu borgina en þar eru ótal litlar búðir með allskonar góssi. Við ætluðum nú aðallega að ganga um og skoða en gengum út með nokkra poka. Við keyptum te, ég fann tösku handa Kjartani fyrir litlu tölvuna hans og síðast en ekki síst keypti ég mér forláta silkumussu, græna með stórri mynd af páfugli. Kannski er ég komin með svona kínverskan smekk, það var a.m.k. gömul kínversk kona í búðinni sem hreifst svo af mussunni þegar ég mátaði hana að hún tróð sér í eina líka. Ég er orðin trendsetter fyrir gamlar kínverskar konur.
Þegar ég kom heim voru feðgarnir ekki sannfærðir um að ég hefði gert góð kaup, Kjartan setti upp skrýtinn svip og Hugi sagði að þetta væri ljótt, ástæðan var að mussan væri alltof græn.
Við Christina fengum okkur mat á thailenskum stað í hádeginu og þar rakst ég á foreldra úr Huga bekk, vá ég er farin að þekkja fólk á förnum vegi, aðeins tæplega 20 milljónir í borginni og örugglega ansi margir veitingastaðir. Nú get ég farið að kalla Shanghæ heimili mitt!
Góða helgi, Dalla Shanghai ren sem þýðir Shanghæbúi