Saturday, June 10, 2006

við erum komin á áfangastað!

Allt gekk vel, bræðurnir stóðu sig eins og hetjur á ferðalaginu. Stirnir týndist bara einu sinni, sem betur fer inni í flugvélinni til Kína svo ekki komst hann langt. Hann horfði þrisvar á Kjúlla litla á leiðinni og svaf í 3 tíma. Hugi horfði líka á Kjúlla litla og svo rifjaði ég upp gamla takta í Tetris og fleiri leikjum með honum, honum fannst mamma bara klár í tölvuleik. Hugi náði líka að sofa í rúma 3 tíma. Það var svolítið skrýtið að telja niður klukkutímana með Huga, "nú erum við hálfnuð, bara 6 klukkustundir eftir".

Ég keypti einnota myndavélar handa strákunum á Heathrow og strákarnir "dokumenteruðu" ferðalagið. Hugi stoppaði flugfreyju á vellinum og spurði hvort hann mætti taka mynd af henni eða kom henni í skilning um það. Konan var voða upp með sér og sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem einhver bæði hana um slíkt. Það verður fróðlegt að sjá sýn bræðranna á það sem fyrir augu bar á leiðinni.

Það fyrsta sem Hugi tók eftir er að honum finnst kínverjar vera feimnir. Það var mikil gleði að hitta Kjartan á flugvellinum og við tókum eftir því að fólk stoppaði til að horfa á samfundi feðganna og benti á þá. Þeir bræður eiga greinilega eftir að vekja eftirtekt hvar sem þeir fara.

Hugi og Stirnir eru búnir að fara í sund með Kjartani, sundlaugin er hérna í næsta húsi. Stirnir varð líka glaður að sjá boltaland inni á líkamsræktarstöðinni. Einnig er leikvöllur við húsið okkar þar sem er fullt af kínverskum krökkum núna, bræðurnir eru líka búnir að prófa hann og líkaði vel.

Íbúðin okkar er mjög fín og strákarnir eru ánægðir með herbergið sitt.

Það er 25 stiga hiti hjá okkur, mjög rakt og mistur. Kjartan segir að þetta sé með heitari dögum hingað til en hitastigið á eftir að fara hækkandi.

No comments: