Thursday, November 22, 2007

Í síðustu viku fengu bræðurnir einkunnir og umsagnir, fjórar blaðsíður að venju. Þetta er allt mjög nákvæmt og fá bræðurnir góðar umsagnir, sérstakt hrós fengu þeir frá kínverskukennurunum fyrir áhuga og dugnað.
Ég sat hérna í sófanum um daginn og Stirnir og Karolina litla sænska nágrannastelpan voru að leika sér á gólfinu. Þau tala nú alltaf saman ensku en allt í einu skiptu þau yfir í kínversku eins og ekkert væri. Ég sat andaktug og hlustaði, þetta var nú fyndið og merkilegt að heyra Íslending og Svía leika saman á kínversku.

Stirni var boðið til athafnar með kennara og bekkjarfélögum frá síðasta vetri. Tilefnið var að þakka bekknum fyrir þeirra peningaframlag til bókakaupa í kínverskum skóla. Fiðrildin eins og þau voru kölluð bekkurinn gáfu ágóða af kaffihúsi sem þau settu upp í vor til skólans. Mr. Flesher, kennarinn þeirra sagði að þau hefðu fengið móttökur þjóðhöfðingja, 400 börn sátu á skólalóðinni þegar þau komu og fremst var búið að koma fyrir litlum stólum fyrir heiðursgestina. Við athöfnina var sungið og þeim færðar þakkir. Svo voru þau látin stimpla í bækurnar og loks fóru þau inn á bókasafn til að sjá bækurnar þar.


Stirnir og Ethan


Stirnir með butterflybros


Miss Yuko, Danie, Anna, Hanae og Natasha


Fiðrildi með Noah Flesher


Heiðursgestirnir sitja fremst


Stimplað af einbeitingu


Hérna er bókasafnið í skólanum


Kínverskir félagar sem njóta bókagjafarinnar

Um helgina fór Hugi á sinn fyrsta skátafund. Honum fannst nú ekkert voðalega gaman en ætlar að fara aftur á morgun og vonast eftir meira fjöri.
Magnús kom yfir með strákana á sunnudaginn og Anna kom líka. Kjartan tók okkur í kennslu í póker meðan börnin léku inni og úti.
Á þriðjudaginn voru foreldrafundir í skólanum og enginn skóli. Við Kjartan hittum Mrs. Salaman kennara Stirnis og heilsuðum upp á Mrs. Snyder, nýjan kennarara Huga. Huga líst vel á hana og okkur líka.
Á eftir hittum við Elsu í almenningsgarði með Ævar og Eddu. Við sigldum tvo hringi og krakkarnir fengu útrás í hoppukastala, ekki veitti af, það var spenna í mannskapnum að vera í fríi í miðri viku.


Fíflagangur í leigubíl


Aðdáendur hlæja að grettunum


Heilsast á milli báta


Elsa, Edda og Ævar


Hugi stýrir af öryggi undir brúna


Stirnir með brosgrettu


Líf á árbakkanum, tvær konur syngja saman og saxófónleikari spilar lag

Ég hef haldið áfram að njóta lífsins með góðum vinum. Við Elsa fórum í nudd, ég fékk sérstakt meðgöngunudd sem var mjög notalegt. Nuddarinn bauðst til að klippa á mér táneglurnar sem ég þáði með þökkum, það verk fer að verða erfitt vegna stækkandi bumbu. Við hittum svo Láru og Önnu á frönskum stað og byrjuðum skipulagningu aðventugleði Íslendinga í borginni.

Ég hitti líka Aurelie, franska vinkonu á öðrum frönskum stað, svona franskt þema þessa vikuna. Hún er að flytja heim til Frakklands eftir 8 ára dvöl í Kína. Þau hjónin komu hingað barnlaus en fara heim með tvo syni og eiga von á þriðja barninu á næsta ári, stúlku frá Kína. Þau ætla að búa í úthverfi Parísar og eru bæði kvíðin og hlakka til að fara aftur heim. Við hlógum og grétum yfir hádegisverðinum, þjónninn gat ekki hætt að afsaka sig þegar hann kom að okkur þar sem við sátum með tárin lekandi niður kinnarnar.

Í gær borðaði ég með Chen sem er frá Tævan, hún er mamma í Hugabekk, Hsuan Hsuan dóttir hennar var líka með Huga í bekk í fyrra. Chen sagði mér frá kínverskri sængurlegu sem stendur yfir í mánuð. Þá má móðirin ekki baða sig og á að liggja fyrir allan tímann. Hún á að borða sérstakan mat, heitan mat svokallaðan eins og engifer en engan kaldan mat eins og vatnsmelónu. Þetta er víst orðið svo þróað hérna í borginni að það er hægt að fá þennan mat sendan heim og þá er nóg að hita hann í örbylgjunni. Ég hélt að þetta væri gamaldags að fara eftir þessu en hún sagðist sjálf hafa gert þetta nokkurnveginn eftir bókinni eftir sínar barnsfæðingar. Hún fór víst ekki nógu vel eftir þessu eftir fyrri fæðinguna og var refsað með höfuðverkjum. Eftir að hún átti tvíbura fyrir tveimur árum gerði hún þetta eftir bókinni og hefur síðan losnað við höfuðverkina.
Tengdaforeldrar Chen hafa dvalið hjá þeim hjónum í tvo mánuði, heimili sonar þeirra er líka þeirra heimili. Þau fóru í vikunni og ég heyrði á henni að hún var fegin. Tengdamamman ráðskaðist með heimilishaldið, ákvað hvað ætti að vera í matinn o.s.frv.

Hérna heima læt ég Lí ráða því hvað hún hefur í matinn. Á föstudögum er pizzudagur hjá bræðrunum en við Kjartan borðum yfirleitt annað. Síðasta föstudag eldaði Lí núðlurétt með rækjum handa okkur tveimur, Kjartan var ekki heima. Rétturinn er frá Tævan, mjög góður og ég bað hana um að elda hann aftur í kvöld, föstudag. Henni finnst ég ekki borða nóg og er held ég að reyna að fá mig til að borða meira. Mér skilst að hún ætli að elda súpu líka, namm.

Dalla

Saturday, November 10, 2007

Síðasta helgi var fín hjá okkur. Hekla kom með Bogga og Örn í heimsókn á laugardeginum og vinirnir léku mikið, mest úti en líka inni. Þeir fengu lummur og kakómalt í kaffitímanum og hamborgara í kvöldmat og svo var þeim leyft að horfa á eina mynd. Indiana Jones var ansi skelfileg og Örn sem er minnstur nagaði neglurnar ákaft en vildi samt ekki missa af neinu.
Glitnir bauð til kvöldverðar á sunnudaginn, tilefni var sjávarútvegsráðstefna í bænum. Þeir eru alltaf svo rausnarlegir og bjóða öllum Íslendingum í borginni. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld, góður matur og félagsskapur. Einnig var sett saman hljómsveit fyrir kvöldið, Jónsi og Ómar Guðjónsson frá Íslandi, trommarinn úr Yes og tveir gamlir sem hafa spilað með Queen. Það varð ótrúleg stemmning, borðum var ýtt til hliðar í skyndi svo það væri hægt að dansa. Við dönsuðum við nokkur lög, ekki oft sem manni gefast tækifæri til þess.
Á þriðjudaginn hitti ég nýja lækninn minn, Dr. Ling. Mér líst mjög vel á hana, þetta er á öðrum spítala en ég fór á áður og aðstaðan öll virðist góð. Barnið var skoðað í sónar, mjög nákvæmlega og gerðar mælingar á vökvanum í kviðarholinu. Ég fékk svo disk til að senda til Huldu, míns læknis á Íslandi sem staðfesti að það væri ekki mikil breyting á vökvasöfnuninni. Barnið virðist vaxa eðlilega og legvatnið er ekki yfir eðlilegum mörkum. Dr. Ling hvetur mig til að eiga á Íslandi, það þýðir að ég fer til Íslands í byrjun janúar, 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Við erum ekki búin að ákveða hvernig framhaldið verður, hvort Kjartan kæmi með bræðurna í febrúar líka til Íslands er óákveðið. Óneitanlega eru völdin tekin af manni þegar heilsufarsmál eru annars vegar en við viljum vera þar sem aðstaðan verður best þegar barnið kemur í heiminn. Eins og er er ekkert að gera annað en að bíða og vona það besta. Mér tekst það bara nokkuð vel þessa dagana, hvíli mig vel og fer í leiðangra líka til að hitta góða vini.
Í gær fór ég með Heklu og Elsu í húsgagnaskemmu þar sem eru gömul kínversk húsgögn til sölu. Ég fór þangað líka í vor og keypti nokkra hluti. Ég keypti nú minna núna en samt smávegis. Hekla og Elsa gerðu góð kaup, við reyndum að vera harðar í prúttinu en kallinn sem afgreiddi okkur vildi lítið gefa eftir. Við vorum ansi þreyttar eftir tvo tíma í skemmunni, allt í þykku ryklagi og húsgögnunum staflað upp svo erfitt var að skoða þau.
En eftir harkið fórum við á tælenskan veitingastað til að safna kröftum. Ég er orðin fastagestur á tælenskum stöðum í borginni, ætli það sé ekki maturinn sem fylgi óléttunni í þetta skipti, í síðustu óléttu voru súrar gúrkur vinsælar. Ég fer oft ein í hádeginu og fæ mér grænt karrí eða annað góðgæti á tælensku stöðunum.
Eftir matinn kíktum við í tvær búðir sem selja húsbúnað. Þarna voru sömu hlutir til sölu og við vorum að prútta um áður en verðið var þrefalt eða fjórfalt hærra.

Í dag vildum við Kjartan fara og fá okkur snarl og kíkja í nokkrar búðir. Hugi vildi alls ekki koma með, hann er ekki fyrir búðaráp og svo vildi hann æfa sig í að vera einn heima. Að lokum samþykktum við að leyfa honum að reyna, hann skrifaði niður símanúmerið hans Kjartans og kvaddi okkur.


Feðgar bíða eftir leigubíl á Yongjia götu


Stirnir fékk ís með brownie og naut þess að borða


Feðgar í bakgötum Taikang götu


Hugi kom út á sokkaleistunum og sagði að hann gæti sko alveg verið einn heima, við vorum í burtu í tvo tíma.


Undirrituð fyrir utan hliðið okkar við heimkomuna

Hugi og Stirnir eru farnir að njóta kvenhylli. Stelpa í Hugabekk sagði mér um daginn að Hugi væri "the funniest boy in class!". Þegar ég var í Stirnisbekk um daginn var hann nýbúinn að skipta um sæti og sat hjá tveimur stelpum. Þær voru sposkar á svip þegar ég kom og sögðu mér að þær langaði til að kyssa Stirni. Hann var nú ekki til í tuskið en þær settu stút á munninn og sendu honum kossa.

Dalla

Thursday, November 01, 2007

Best að halda áfram þar sem ég var, semsagt í októberfríinu í byrjun október.
Við vorum bara heima í rólegheitum, Logi Bergmann og Steingrímur Þórðarson frá Stöð 2 heimsóttu okkur einn daginn og tóku viðtal við okkur. Umfjöllunin á að birtast í Íslandi í dag en ég veit ekki til þess að hún hafi birst enn, það er svo mikið að gerast í stjórnmálunum á Íslandi svo það er líklega ekki tími fyrir svona dægurmál.
Við Kjartan fórum í boð tvö kvöld í röð. Fyrra kvöldið var í boði Glitnis og íslens/kínverska viðskiptaráðsins í tilefni Special Olympics. Þetta var skemmtilegt kvöld, þrettán réttir bornir á borð, hver öðrum skrautlegri. Sushi var framreitt á klakabeði og undir klökunum blikkuðu ljós á hverjum diski. Heilsteiktir grísir marseruðu um salinn í fangi þjónustustúlkna og í augnastað var búið að setja rauð blikkljós, ljósin voru slökkt svo þetta var heilmikið sjónarspil, kínverskt og kitsch. Við sátum hjá Íslendingum búsettum í borginni og einnig voru þarna allir keppendur ólympíleikanna, sumir komnir með medalíur um hálsinn. Forsetinn og frú gengu um og heilsuðu upp á alla.
Daginn eftir fórum við fjölskyldan í garð í borginni. Fyrst var stoppað á KFC, einum af uppáhaldsveitingastað bræðranna og svo farið í leiktækin í garðinum. Þar var risavaxinn hoppukastali og fleira skemmtilegt.


Stirnir í hoppukastala


Hugi í hoppukastala


Pabbi og mamma mynduð af Huga


Uppáklædd fyrir forsetaboð

Annað boðið var í boði Össurar sem hélt upp á ársafmæli skrifstofunnar í Shanghæ. Þetta var formlegra boð en kínversk skemmtiatriði standa alltaf fyrir sínu. Þarna voru stúlkur sem minntu á Vanessa May ef einhver man eftir henni. Þær spiluðu á hljóðfæri, fiðlu, selló... voru klæddar í litla kjóla og sveifluðu hárinu með tilþrifum. Maturinn var mjög góður og félagsskapurinn sömuleiðis. Við Kjartan fórum m.a.s. á bar bæði kvöldin eftir kvöldverðina, Daisy stóð vaktina hérna heima með bræðrunum.
En nokkrum dögum seinna kvöddum við Daisy því við réðum til okkar nýja ayi/frænku eins og þær eru kallaðar hér. Daisy þurrkaði augun þegar hún kvaddi okkur, hún hefur aðstoðað okkur við svo margt en ég fann að ég þyrfti meiri aðstoð sem hún gat ekki sinnt. Daisy er upptekin kona, hún þrífur mörg heimili og nær þannig að hafa nokkuð góðar tekjur og getur ekki einbeitt sér að einu heimili. Hún er búin að kaupa sér tvær íbúðir og styður son sinn sem er í háskólanámi.
Lí heitir nýja ayi-in okkar og við fundum hana í gegnum Cindy sem er ayi hérna hjá nágrönnum okkar. Lí vinnur hjá okkur frá 11 til 7 á kvöldin og rekur eiginlega heimilið. Hún kaupir inn, eldar matinn, þrífur, sér um þvotta, borgar reikninga og sinnir útréttingum eins og að fara með í hreinsun og þvíumlíkt. Hún er hérna þegar strákarnir koma heim úr skólanum svo ég þarf ekki alltaf að flýta mér heim seinnipartinn. Hún passar líka fyrir okkur á kvöldin þegar þess þarf. Fyrstu vikuna skiptumst við Lí á að elda, hún eldar kínverskan mat og ég vestrænan. Strákarnir þurfa að venjast kínverska matnum en þetta er allt að koma. Hugi byrjaði að æfa sig með prjónana, þegar hann er ekki að borða mat æfir hann sig með því að týna upp í sig Cheerios. Við Kjartan erum hæstánægð með matinn hennar, hún er góður kokkur og hún eldar til dæmis kjúkling og tofu, rækjur og mikið af grænmeti. Við keyptum hrísgrjónasuðuvél og nú eru borin fram hrísgrjón í litlum skálum með matnum.

Í sömu viku og Lí byrjaði hjá okkur fórum við Kjartan í 20 vikna sónar. Þar kom í ljós að vökvasöfnun var í kvið fóstursins sem er óeðlilegt, einnig átti læknirinn í vandræðum með að finna nýru fóstursins en sagði að lokum að hann héldi að það hefði eitt lítið nýra. Læknirinn gat ekki gefið okkur meiri upplýsingar að svo stöddu, sagðist aldrei hafa séð svona áður og sendi okkur heim með þessar niðurstöður, næsta skref væri að fara í legvatnsstungu til að athuga með mögulega litningagalla.
Við fórum semsagt heim, höfðum hjólaði í sónarinn og ég sá nú varla út úr augum á heimleiðinni fyrir táraflóði. Kjartan fór á google til að leita meiri upplýsinga og ég grét áfram. Þær upplýsingar sem Kjartan fann voru ekki uppörvandi, vökvasöfnun getur bent til ýmissa alvarlegra galla eða sjúkdóma.
Við höfðum samband við fósturgreiningardeildina á Íslandi og skönnuðum inn myndirnar sem við fengum hér og spurðum ráða. Þar kannaðist læknir við þetta og svaraði okkur nokkrum klukkutímum seinna, hún ráðlagði líka að athuga með litningagalla og fleiri rannsóknir. Eftir samtal við lækninn ákváðum við seint daginn eftir að ég færi til Íslands sólarhring síðar til frekar rannsókna, við treystum læknunum betur þar.
Ég flaug til Íslands í gegnum London, þetta er eitt erfiðasta ferðalag sem ég hef farið í. Ég þurfti að skipta um flugvöll í London, fara frá Heathrow yfir á Stanstead sem þýddi tveggja tíma rútuferð. Þetta rétt náðist allt saman og ég lenti á Íslandi fyrir miðnætti á sunnudagskvöldi.
Strax á mánudagsmorgni mætti ég á fósturgreiningadeildina þar sem var beðið eftir mér til að gera fylgjusýnatöku. Læknirinn skoðaði fóstrið líka og staðfesti að það hefði tvö eðlileg nýru sem var mikill léttir. Strax daginn eftir komu bráðabirgðaniðurstöður úr fylgjusýninu sem sagði að ekki væri um litningagalla að ræða.
Sama dag fór ég í hjartaómun hjá hjartalækni sem fann vökvasöfnun við hjartað og einnig þykknun á hjartavöðva. Það breytti skilgreiningunni á vökvasöfnuninni í fósturbjúg en vökvasöfnun þarf að vera í tveimur líkamsholum til að vera skilgreind sem fósturbjúgur.
Á þriðja degi var gerð mjög nákvæm sónarskoðun, öll líffæri fóstursins mæld og blóðflæði í naflastreng og höfði athugað. Allt virtist eðlilegt, semsagt öll líffæri voru af réttri stærð miðað við meðgöngulengd. Ég hafði óttast það að það eina í stöðunni væri að framkalla fæðingu en í samráði við lækninn minn var afráðið að halda meðgöngunni áfram meðan engin alvarleg ástæða kæmi í ljós, fósturbjúgur er semsagt ekki sjúkdómur í sjálfu sér heldur getur hann orsakast af sjúkdómum, litningagöllum eða hjartagöllum og margt kemur til greina þar.

Viku síðar var gerð önnur sónarskoðun sem sýndi aukinn bjúg í kvið sem voru mikil vonbrigði. Ég var svo bjartsýn að bjúgurinn myndi jafnvel fara eins og er líka möguleiki á að gerist. En eins og er er ekkert hægt að gera, það verður bara að bíða og sjá hvernig hlutirnir þróast. Fóstrið sem er nú líklega orðið barn núna eftir tæpa 24. vikna meðgöngu hreyfir sig vel og læknarnir segja að það sé gott merki, því virðist líða vel.

Á Íslandi hitti ég fjölskyldu og vini sem tóku þátt í þessum rússibana með mér, ég þakka fyrir allan stuðning. Ég hafði ekki samband við alla vini, ég treysti mér bara ekki til þess, vonandi er mér fyrirgefið.
En eftir tveggja vikna dvöl á Íslandi ákvað ég í samráði við læknana að fara aftur heim til kallanna í Kína enda bara biðtími framundan. Í Shanghæ verð ég undir eftirliti og fer í reglulegar sónarskoðanir.
Í Shanghæ gekk allt vel hjá feðgunum í fjarveru minni. Lí stóð sig eins og hetja og rak heimilið, hún eldaði daglega, útbjó nesti fyrir bræðurna og passaði þá. Hún er hrifin af bræðrunum og sagði mér sögur af þeim þegar ég kom til baka. Stirnir vildi að hún læsi fyrir þá eitt kvöldið en hún sagðist ekki vera nógu góð í ensku til að gera það, þá var ákveðið að hún læsi á kínversku sem hún gerði.
Meðan ég var í burtu var haldið upp á dag Sameinuðu þjóðanna í skóla strákanna, íslensku krakkarnir fjórir, bræðurnir og Edda og Ævar héldu á íslenska fánanum í skrúðgöngu um skólalóðina.
Einnig kom Hugi fram með sínum bekk í músarlíki, hann er búinn að syngja fyrir mig lögin sem voru í atriðinu. Sama kvöld var Halloweenveisla í skólanum sem tókst vel.

Að morgni laugardagsins 27. október lenti ég aftur í Shanghæ með veislu í farangrinum. Ég tók með mér 40 SS pylsur og brauð frá Íslandi því við ætluðum að halda upp á 8 ára afmæli Huga þennan dag. Hekla vinkona okkar sá um bakstur á afmæliskökunni og Elsa og Árni komu með fullan diska af pönnukökum. Eins gott því það var rafmagnslaust í hverfinu um morguninn svo við óttuðumst jafnvel að ekki yrði hægt að blása upp hoppukastalann sem var búið að leigja. En rafmagnið kom á tveimur tímum fyrir veislu svo allt reddaðist.


Stirnir, Ebba, Hugi, Andrea og kínversk nágrannastúlka fylgjast með þegar kastalinn var blásinn upp


Ayi Li


Kastalinn verður svona stór!


Og hann varð svona stór


Hekla, Elsa, Árni og Kerstin nágrannakona okkar

Fredrik, Mathias og Elin sænsku nágrannarnir

Veðrið lék við okkur í veislunni og margir vinir komu til okkar. Það var mjög gaman að hafa veisluna heima í þetta skipti enda dreifðist fjöldinn, sumir voru úti að hoppa, aðrir inni að borða og einhverjir að leika uppi í herbergi.
Við sungum afmælissönginn á fjórum tungumálum, ensku, íslensku, sænsku og kínversku, sannarlega alþjóðlegt afmæli.

Nú er komin vika síðan ég kom til baka, ég slaka á hérna heima að mestu, hef farið aðeins í skóla strákanna, ég fór inn í Stirnisbekk til að tala um Ísland. Ég gaf bekknum lítinn lunda og fékk fallegt þakkarkort að launum. Stirnir fékk að gefa lundanum nafn og nefndi hann Moli.
Báðir kennarar bræðranna eru að hætta, því miður því við kunnum vel við þær báðar. Kennari Huga þarf að fara til Kanada strax í næstu viku til að leita sér lækninga og kemur ekki aftur til baka. Hann fær því forfallakennara þar til nýr kennari finnst. Kennari Stirnis flytur burt frá borginni með sínum manni í jólafríinu.
Ég er byrjuð að prjóna barnapeysu, hún er skærbleik svo það er víst ekkert leyndarmál hvort kynið er á ferðinni. Ég er nú ekki sú klárasta í prjónaskapnum, bölvaði yfir honum um daginn, Kjartan var alveg hissa og spurði hvort þetta ætti ekki að róa hugann. Bræðurnir sitja hjá mér og horfa á mig prjóna, þeir skoða líka myndirnar í blaðinu og ræða hvað sé flottast.
Í dag fékk ég hringingu frá skólanum, hjúkkunni. Þá hafði Hugi lent í samstuði á leikvellinum og fengið tennur inn í ennið og gat eftir. Hjúkrunarfræðingurinn límdi götin saman en Hugi vildi að ég kæmi til að sækja sig, hann var eitthvað lítill í sér eftir slysið. En hann var að vissu leyti stoltur líka þegar hann leit í spegil og sagðist vera eins og Harry Potter núna.
Við Elsa fórum í fyrsta jólagjafaleiðangurinn í vikunni, alltaf gott að vera byrjuð á því.

Dalla