Tuesday, August 29, 2006Skólabíllinn og bræðurnir í aksjón, þessar myndir eru teknar áður en þeir fengu kínversku herraklippinguna, ég þarf að smella af þeim aftur. Úr leyni á Stirni því hann þrjóskast enn við í fyrirsætustörfum.
Ég fékk símtal kl 8:30 í morgun, var kölluð út í verkefni, shopping með Lethe. Ég brást vel við og var mætt á staðinn klukkutíma síðar. Uppskar nokkra hluti, Kjartan brosir þegar ég kem heim með pokana, ennþá... Ég hef tekið expathlutverkið nokkuð alvarlega undanfarið, shopping, nudd... á bara eftir að fara í hand og fótsnyrtingu og þá er þetta fullkomið.
En það er ekki leiðinlegt að hafa félagsskap á daginn. Lethe er fyndin týpa, hefur ekki unnið í þónokkur ár, hún notar búðarferðirnar til að halda sér í formi segir hún. Hún er fróðleiksnáma um verslunarvölundarhús Shanghaiborgar og ég sýg upp fróðleikinn og nýt hennar aðstoðar ef þarf að þrefa um verð. Hún er alin upp í Shanghai, þar sem hennar hús og hverfi stóð er nú risaverslunarmiðstöð. Skrýtið að eiga bara minningar um æskustöðvarnar, geta ekki heimsótt þær. Það eru margir í sömu sporum og hún, mikið hefur verið rifið og byggt nýtt hérna síðastliðin ár og áratugi.
Hugi var að segja mér um daginn hvað væri leiðinlegt við það að vera í Kína og þá nefndi hann helst að hann ætti enga vini hér, þeir urðu eftir á Íslandi. Ég sagði að ég væri í sömu sporum og hann, mínir vinir urðu líka eftir á Íslandi. En hann benti á að ég hefði Atla og Yongjia sem er alveg satt, en þeim kynntist ég hér. Það er skrýtið að vera svona á byrjunarreit og vera að leita sér að félagsskap, mér finnst stundum eins og ég sé orðin barn aftur. Viltu vera memm?
Það góða er að margir eru í sömu sporum og við hérna, fólk er að mynda ný tengsl og finna sig á nýjum stað, þetta er mikill lærdómur fyrir okkur.
Í bekknum hans Huga eru krakkar frá Írlandi, Hong Kong, Japan, Kóreu, Malasíu, Ameríku, Frakklandi, Svíþjóð og Taiwan. Hann verður ríkari eftir að hafa kynnst þessum krökkum. Í síðustu viku var bekkurinn að gera verkefni um nöfn og taka viðtöl við hvert annað um uppáhaldslit, ávöxt o.s.frv. Í þessari viku eru þau að læra um afmælisdaga og mánuði.
Ég hitti Ms. D, kennara Huga í dag til að ræða hlutverk mitt sem "room parent". Í því felst að skipuleggja dagskrá fyrir foreldrana þegar Ms. D vill fá þá inn í bekkinn til aðstoðar. Mér líst vel á þetta verkefni, flott fyrir pródúsentinn, vonandi verða foreldrarnir jafn meðfærilegir og skemmtilegir og idolbörnin mín síðasta vetur!
Ég náði mér í kvef í gær, ég var svo mikið á ferðinni, í loftkældum lestum og á göngu í hitanum inni á milli, fullkomin uppskrift að loftkælingarkvefi. Það er mjög rakt þessa dagana, eiginlega ómögulegt að vera útivið. Ég ferðast um með blævæng sem Yongjia færði mér og hann bjargar mér oft frá köfnun finnst mér.
Í næstu viku stefni ég á að byrja í kínverskunáminu, vonandi hef ég tíma á milli búðarferða, kaffimorgna með mömmum og annarra starfa. Ég verð að segja það að ég gleðst yfir því að hafa nóg að gera, þó ekki of mikið, allt er gott í hófi.
Dalla

Sunday, August 27, 2006

Þriðja skólavikan að byrja á morgun, rosalega líður tíminn hratt. Bráðum erum við búin að vera hérna í 3 mánuði.
Ég sótti Huga í skólann á föstudagsmorgun, hann var með hlustarverk og hjúkrunarfræðingurinn hringdi í mig. Hann grét og hélt um eyrað en leið nú betur þegar ég kom. Líklega bara hlustarverkur eftir langa sundferð á fimmtudeginum sem lagaðist þegar leið á daginn.
Við fórum saman eftir hádegi á föstudagssamveru í skólanum sem verður á tveggja vikna fresti í lok skóladags. Skólastjórinn og fleiri kennarar spila í hljómsveit og halda uppi fjöri, Stirni fannst þetta rokk skemmtilegt sagði hann. Bræðurnir sátu með sínum bekk og foreldrarnir aftast. Allir nýir nemendur og kennarar voru kallaðir upp á svið og kennararnir látnir dansa þar við undirleik og söng. Einnig fer hver bekkur upp á svið og hneigir sig og fær klapp að launum. Þegar líður á skólaárið fá bekkirnir stærra hlutverk á samkomunni. Það var líka sungið fyrir afmælisbörn sumarsins, sérstakur SCIS afmælissöngur. Við lærðum líka slagorð eða hvað maður á að kalla það skólans en það er Gooooooo dragons!!! og hendurnar opnast eins og drekamunnur og skella svo saman í lokin. Nemendur hafa þetta viðurnefni, drekar.
Ég fékk að sitja í skólabílnum á heimleiðinni, börnin voru greinilega þreytt, þrjú þeirra sofnuðu á leiðinni.
Kennarinn hans Huga sagði að hann hefði átt góðan dag í skólanum á fimmtudaginn. Kennari Stirnis segir að hann sé farinn að taka meira þátt í kennslustundum og jafnvel reyna að tjá sig á ensku. Það finnst mér gott eftir rúma viku í skólanum.
Í gær fór ég með strákana á hárgreiðslustofu, lubbinn hefur vaxið mikið í sumar og þeir treystu mér ekki í verkið. Við fórum bara á stofu hérna í næstu götu, ekta kínverska. Það var vel tekið á móti bræðrunum og þeir voru lagðir til við vaskinn og hárið þvegið. Þeir eru ekki vanir að fá hárþvott þegar þeir fara í klippingu en þeim fannst þetta bara gott. Í stólnum voru þeir með nokkrar herramannsbækur sem þeir skoðuðu meðan verið var að klippa þá. Útkoman er mjög fín, þeir eru hæstánægðir sjálfir. Ég ætlaði nú ekki að trúa því þegar ég var að borga, klippingin fyrir þá báða kostaði tæpar 200 ikr. Ekki hægt að segja annað en að hárgreiðslustofur hérna eru ekki okurbúllur, nema þá þær sem eru stílaðar inn á útlendinga. Þegar ég fór í klippingu borgaði ég svona 1800 fyrir það en hárgreiðslumaðurinn bauð mér upp á maska í hárið sem mér fannst bara góð hugmynd þangaði til hann sagði mér hvað hann kostaði, aðeins 13.000 ikr, nei takk!
Við hjónin fórum út á laugardagskvöldið, Daisy káta kom og passaði. Við fórum á veitingastað sem heitir People 6 en People 7 er líka í Shanghai og hinir í Japan og Taiwan. Þetta er mjög flottur staður, það er ekki auðvelt að komast inn á staðinn, smá trikk. Ég kom á eftir Kjartani, Atla og Ryan og ég stóð og veifaði á þá inn um gluggann til að biðja þá um hjálp við að komast inn. Þeir létu mig bara finna út úr þessu og það tókst að lokum. Salernið er völundarhús og allt í speglum, við Yongjia fundum það þó en á People 7 staðnum er víst svo flókið að komast inn á salernið að liggur við undirmigu.
Matseðillinn er kínverskt nouvelle cuisine, mjög góður matur og skemmtilegur félagsskapur líka. Á eftir fórum við á bar sem heitir Zapatas, fullt af expats/útlendingum þar og eightiestónlist á fóninum. Þar er dansað uppi á barnum líka og Ryan og Atli skelltu sér upp og ég prófaði líka með þeim. Við fórum líka á skemmtistaðagötuna Tongrengötu, á tvo staði þar. Þannig að ég fékk smá innsýn í næturlíf Shanghæborgar sem Kjartan var búinn að prófa áður en ég kom á staðinn.
Nú eru strákarnir sofnaðir, Hugi inni í tjaldi í herberginu, hann saknar þess mikið að hafa ekki farið í útilegu í sumar. Ég þarf að herða upp hugann og fara í langferð á morgun til PuDong að sækja vegabréfin okkar með dvalarleyfinu, ég fresta því endalaust, nenni ekki að sitja þarna og bíða.
Dalla

Wednesday, August 23, 2006

Kókómjólkurmálið stóra er orðið stærra! Kennarinn hans Stirnis er sammála mér í því að bjóða ekki upp á sykurdrykki með hádegismatnum, eða fyrir hann eins og börnin eru að gera, fylla sig af kókómjólk áður en þau smakka matinn. Hann benti mér á að benda skólastjóranum á þetta sem ég gerði í tölvupósti. Honum fannst þetta ekki vera vandamál, ég ætti að geta kennt mínu fjögurra ári barni að velja rétt, taka vatn framyfir kókómjólkina. Ef hann myndi láta breyta matseðlinum þannig að hann yrði hollari myndu aðrir foreldrar kvarta, hann er greinilega ekki að nenna að svara þreytandi foreldrum eins og undirritaðri. En ég læt þá bara þar við sitja að setja Stirni í kókómjólkurstraff í skólanum. Ein mamman sagði við mig í morgun að henni væri sama þó hin börnin drykkju bjór með matnum bara ef hún gæti fengið sitt barn til að borða matinn og drekka enga kókómjólk. Við tékkum á því hvað aðrir foreldrar í bekknum segja, hart fyrir þau greyin að vera með djúsið fyrir augunum en mega ekki fá, kannski bara þau tvö í straffi við borðið.
Ég fór á kaffimorgun hjá foreldrafélaginu í morgun. Hitti nokkrar nýjar mömmur. Þar af eina kínverska sem bjó á Íslandi í eitt ár fyrir rúmum tíu árum, hún trúlofaði sig þar. Maðurinn hennar líka kínverskur bjó víst í nokkur ár á Íslandi. Þessi kona vinnur hjá stærsta ríkisrekna fjölmiðlabatterí í Shanghai, sjónvarpsstöðvar og allur pakkinn. Engir útlendingar eru í vinnu þarna en ég get kannski fengið að kíkja á þetta, það væri áhugavert að sjá.
Ég skráði mig sem room-parent í Huga bekk, þá aðstoða ég kennarann að einhverju leyti, veit ekki alveg hvað felst í mínu hlutverki. Skilst að ég gæti t.d. lesið fyrir bekkinn. Hugi varð glaður þegar ég sagði honum þetta, hann sagði að þá yrði einn kennari sem talaði íslensku.
Stirnir var spekingslegur hérna í gærmorgun. Hann kom til mín og tilkynnti: Mamma, ég held að það sé ekki góð hugmynd að þú hittir mig í skólanum! Ég heilsaði nefnilega upp á hann þar á mánudaginn og hann grét þegar ég fór, eitthvað sem hann gerir ekki hérna á morgnana þegar við kveðjumst. Í morgun passaði ég mig á því að láta hann ekki sjá mig en hann var úti í frímínútum þegar ég kom á staðinn. Hann var voða duglegur sá ég að hlaupa til þegar hringdi inn og stilla sér upp í röð með börnunum í sínum bekk.
Hugi lýsti yfir óánægju sinni með það að hann kæmi alltaf fyrstur í skólann í sínum bekk, enginn kennari kominn. Ég hafði samband við kennarann og komst að því að hann var að mæta 20 mínútum fyrr en hin börnin, ekki furða að honum leiðist að sitja einn á morgnana og bíða. Ég fékk fram breytingar á skólabílnum, þeir verða sóttir tíu mínútum seinna núna, 7:35 í stað 7:25 áður. Það er nóg að gera hjá mér að rekast í þessum erindum á daginn, skrifa tölvupóst og hringja í skólann. En ég vil endilega koma öllum óskum strákanna á rétta staði ef eitthvað er hægt að laga þá geng ég á eftir þvi.
Stirnir er með samskiptabók okkar kennarans í töskunni sinni og þangað kemur hann skilaboðum til okkar og öfugt. Mr. Flesher er duglegur að láta mig vita hvernig Stirni líður, hvort hann borðar, er þreyttur o.s.frv Eitthvað sem maður fékk beint í æð á Íslandi en þarf kannski að leita frekar eftir hér, þetta venst eins og annað.
Næsta event foreldrafélagsins er food fair en þá útbúa foreldrar mat frá sínu heimalandi og bjóða upp á á básum á skólalóðinni. Það er selt inn á staðinn og þetta er helsta tekjulind félagsins fyrir árið. Ég fór að örvænta, sé mig ekki fyrir mig eina með einhvern stand frá Íslandi með hákarl eða annað góðgæti. En mér skilst að ég gæti farið í samflot með öðru landi, bara spurning við hvern ég vil vingast. Ef einhverjar tillögur að mat, sem ég gæti fengið hráefnið í hérna í Shanghai koma upp í hugann þá má endilega senda mér póst eða komment.
Sjésjé, Dalla

Monday, August 21, 2006Helgin var bara ágæt, rólegur laugardagur heimavið, strákarnir vildu bara vera heima að leika. Við sátum með Atla á svölunum um kvöldið og drukkum vín og bjór. Líklega of mikið því, heilsan var ekki nógu góð á sunnudeginum.
Við fórum þó, með Atla með okkur niður í bæ og settumst á Barbarossa, stað í miðjum garði á People´s square og borðuðum hádegismat. Á eftir röltum við um garðinn og strákarnir fjórir prófuðu klessubíla og önnur leiktæki.
Strákarnir voru bara sáttir við að fara í skólann í morgun. Ég fór líka í skólann á eftir strákunum, á fund hjá foreldrafélaginu sem bauð nýja foreldra velkomna. Stjórn félagsins fór yfir dagskrána og þar má meðal annars finna kvöldverð á miðjum vetri sem foreldrafélagið býður kennurum til og þakkar þannig fyrir þeirra störf. Mér skilst að það sé mikið fjör þetta kvöld. Þetta finnst mér góð hugmynd, að hitta kennarana í öðru umhverfi og skemmta sér með þeim. Einnig verður sérstakt prógramm fyrir þá sem eru nýfluttir til borgarinnar, þeir fá góð ráð og farið verður yfir þær tilfinningasveiflur sem geta fylgt því að flytja á nýjan og framandi stað. Svo verða kaffimorgnar og miklu fleiri viðburðir á skólaárinu. Ég tók að mér að sjá um hæfileikasýningu barnanna sem verður í apríl. Þá sýna börnin ýmis atriði, mér skilst að hálfur skólinn hafi troðið upp síðasta vetur.
Ég kíkti á Stirni í hádegismatnum og leist nú ekki alveg á það sem ég sá. Á borðinu hjá börnunum er boðið upp á drykki, kókómjólk og sykursafa. Það fyrsta sem ég sá Stirni gera var að þamba heila kókómjólk og svo snerti hann ekki á matnum. Þetta hefur hann greinilega verið að gera síðustu daga og kemur svo sársvangur heim úr skólanum. Maturinn var nú heldur ekki upp á marga fiska, pínulítill skammtur, tveir bitar af pylsu, hrísgrjón, einn biti af grænmeti sem var svo lítið að ég greindi það ekki og einn melónubiti. Ég ræddi málið við eina mömmuna í Stirnis bekk, við vorum frekar svekktar yfir þessum mat. Við vorum sammála um að það ætti ekki að bjóða uppá kókómjók fyrir matinn og bara ekki yfirleitt með matnum. Við ætlum að ræða við aðra foreldra og athuga hvort það náist ekki samstaða um að fjarlægja sykurdrykkina af borðinu og hafa bara vatn á borðinu. Þá myndu börnin kannski borða matinn sinn.
Ég fór síðan í hádegismat með Lethe og Mihiri, Lethe er kínversk, mamma í Stirnis bekk, hún er gift Ástrala og Mihiri er indversk og á dóttur í fyrsta bekk. Það var voða gaman að borða með þeim, indælar konur. Eftir matinn fórum við á markað sem selur barnaföt og leikföng og þar fékk ég málningarsvuntur og stígvél á strákana.
Bræðurnir komu svo heim úr skólanum og höfðu frá mörgu að segja, þeir berjast um orðið. Þeir voru glaðir og svangir að venju.
Dalla

Friday, August 18, 2006

Föstudagskvöld og skólastrákarnir eru sofnaðir.
Þeir verða glaðari með hverjum deginum í skólanum finnst mér. Hugi segir frá þegar hann kemur heim, hann fór í tölvur og tónlistartíma í dag, tónlistarkennarinn virðist vera klár að spila á trommur.
Stirnir segir að það sé gaman að leika í skólanum. Hann vill ekki borða hádegsimatinn þar, segir að hann sé ógeð, vill ekki einu sinni smakka. Hann borðar bara nestið og kemur sársvangur heim seinnipartinn. Hugi borðar matinn og lætur vel af honum.
Ég held áfram mínum verslunarferðum til að safna saman græjum fyrir skólann, ég finn hvergi málningarsvuntur. Kennnarinn sagði að strákarnir gætu notað gamla skyrtu af mér eða Kjartani en það er nú ekki beint það sem maður flytur með sér á milli landa, gamlar skyrtur.
Ég fór í IKEA í gær en þar voru allar svuntur uppseldar. Mér fannst ég næstum komin heim í IKEA, kannaðist við mig þar, ekki jafn framandi umhverfi og hérna í kringum mig. Ég nældi mér í kjötbollur, frosnar og bauð upp á í kvöld með sósu, þær féllu í góðan jarðveg.
Einnig er ég að svipast um eftir stígvélum en regntímabilið hlýtur að vera liðið því ekki sé ég stígvél neinsstaðar. Vonandi fer þessum fellibyljum að linna, manntjón hefur verið mikið. Í dag var hvasst í borginni, Yongjia sagði að það væru leifar af fellibyl að ganga yfir.
Við höfum haldið áfram að fara í sund fyrir kvöldmat, það eru margir krakkar í sundi á þessum tíma og einn sundkennarinn er ofan í líka og leikur við krakkana, mikið fjör.
Ég hef nú lítið álit á sundlaugarvörðunum hérna, þeir snúa oftast baki að lauginni, lesa bók eða eru í símanum. Í gær var einn þeirra að klippa á sér neglurnar á sundlaugarbarminum, oj segir pempían ég! Kjartan var einu sinni í sundi og enginn vörður sjáanlegur. Þegar hann birtist gekk hann að lauginni og skimaði ofan í hana til að athuga hvort einhver lægi á botninum líklega. Sá væri nú löngu dauður á meðan vörðurinn brá sér frá.
Ég var stödd í búð í dag og þar stóð afgreiðslumaðurinn fyrir framan búðarborðið og klippti á sér neglurnar, það er snyrtilegt að vera með vel klipptar neglur en óþarfi að gera þetta á vinnustaðnum. Annars eru margir kínverskir karlmenn með langar neglur eða þá eina mjög langa nögl á litlafingri. Ég fæ hroll bara við að skrifa þetta, ég hlýt að vera með einhverja naglafóbíu.
Góða helgi, Dalla.

Wednesday, August 16, 2006

Fyrsti skóladagurinn í Kína liðinn og bræðurnir sofa, þeir voru ansi þreyttir í kvöld eftir heilan skóladag.
Skólabíllinn sótti okkur kl. 7:35, lítið rúgbrauð sem rúmar 7 börn, bara huggulegt. Ég fékk að fljóta með en fékk nú ekki góðar kveðjur frá skólastjóranum við komuna á skólalóðina. Hann sagði að þau vildu nú frekar að börnin gerðu þetta alveg sjálf frá fyrsta degi. Ayi/frænka er með börnunum í bílnum og fylgir þeim áleiðis í kennslustofurnar, ég varð nú ekki vör við að hún væri með lista yfir kennslustofur barnanna en ég sýndi henni hvar Stirnir verður staðsettur og ég býst við að Hugi reddi sér sjálfur.
Mér tókst að koma Stirni fljótt og vel inn í stofuna áður en hann færi að biðja mig um að vera áfram enda fékk ég skýr skilaboð um það í gær hjá kennararanum hans um að það vildi hann ekki. Hugi fór sjálfur í sína stofu og ég fylgdi á eftir til að sjá hann fara inn.
Ég fór í megainnkaup í Carrefour, Stirni vantaði ýmislegt fyrir skólann, teppi fyrir næðistundina, tannbursta og tannkrem, slopp fyrir málningarvinnu og annað sem ég er að finna til, er ekki búin enn. Mér tókst að fylla örugglega 20 poka og tók svo leigubíl heim.
Eftirmiðdagurinn fór svo í það að merkja skólafötin, smá tiltekt og líta á klukkuna. Fimmtán mínútum fyrir áætlaðan komutíma skólabílsins var ég komin út á tröppur. Bræðurnir voru brosmildir við komuna en Stirnir sagði að skóladagurinn væri langur. Hugi sagði fyrst að það hefði verið lítið að gera, kannski ekki nema von svona fyrsta daginn. Á morgun fer hann í íþróttir og það brýtur upp daginn hjá honum.
Hann var ekki sáttur við það að fá heimavinnu eftir fyrsta daginn og það var þónokkur grátur áður en hún var gerð, sem var svo lítið mál þegar til kom. Hann var neikvæður út í skólann en ég held að það sé tilfallandi, hann er að stíga upp úr veikindum og er orkulítill og það hefur sitt að segja. Hann verður örugglega jákvæðari á morgun.
Stirnir sagði fátt um sinn dag, vildi engum spurningum svara. Hugi sagðist hafa séð hann í matsalnum og veifað honum en sagði að Stirnir hefði verið of feiminn til að svara kveðjunni.
Við fórum í sund fyrir kvöldmatinn sem var mjög hressandi, það voru margir krakkar í lauginni og fjör. Bræðurnir lognuðust svo út af eftir kvöldmatinn.
Það er byrjað að rigna eftir tveggja vikna hlé, rigningin er kærkomin, hún kælir loftið og hreinsar. Verst að hún hefur líka áhrif á skilyrðin á kapalsjónvarpinu okkar.
Dalla

Tuesday, August 15, 2006

Kvöldstemmning í Qingdao, útsýni frá hótelsvölunum.
Ég gleymdi alveg að minnast á það að Stirnir safnaði nokkrum nýjum bannskiltum í sarpinn þar. Til dæmis var skilti á flugvellinum sem bannaði það að taka krabba með í handfarangri.
Stirnir hélt því fram líka að það væru skilti á götum Qingdao sem bönnuðu það að leggjast í götuna, við vitum ekki alveg hvaða skilti hann las þessa merkingu út úr.

Við fórum í skólann í dag til að hitta kennara strákanna, Ms. D kennir Huga, hún er viðkunnanleg kona. Ég heyrði að hún hefði farið í fallhlífastökk í sumarleyfinu, hún er nú samt á virðulegum aldri.
Hugi merkti hólfið sitt og við fengum upplýsingar um kennsluna. Hann verður í aukatímum í ensku til að byrja með og svo lærir hann líka mandarín/kínversku. Fyrir utan venjulegar kennslustundir fer hann í tölvukennslu, tónmennt og íþróttir. Það eru 15 krakkar í bekknum hans, við hittum eina ameríska stelpu en ég veit ekki hverra þjóða aðrir bekkjarfélagar eru.
Kennari Stirnis heitir herra Flesher, líka viðkunnanlegur maður sem er að kenna sitt fjórða ár í þessum skóla. Stirnir var hrifinn af sinni skólastofu enda nóg af dóti þar, bræðurnir undu sér við að strauja, byggja og púsla meðan ég blandaði geði við aðrar mömmur. Ég nældi mér í nokkur nafnspjöld og dreifði mínu. Það virðist vera grundvöllur hjá mömmum í Stirnis bekk að hittast í kaffi á morgnana og ég er glöð yfir því.
Stirnir verður ekki í neinum aukatímum í ensku, á bara að læra með hinum. Hann fer í tíma í mandarín líka.
Mömmurnar sem ég talaði við voru kínverskar en giftar, önnur þeirra ástrala og hin ameríkana. Einnig hitti ég franska mömmu sem á strák sem er með Stirni í bekk og annan í fyrsta bekk eins og Hugi, bara ekki í sama bekk. Við ræddum það að hittast kannski og leyfa strákunum að leika.
Mér sýndist meirihlutinn í bekknum vera stelpur, hann er nú vanur því frá leikskólanum að vera í kvennaveldi og kann því vel. Í bekknum hans eru 11 krakkar. Hvor kennari er með aðstoðarmann með sér mestallan tímann.
Mér fundust Hugi og Stirnir vera ánægðir með þetta allt saman, Hugi var þungur á brún til að byrja með en svo lyftist á honum brúnin. Það verður gaman fyrir þá að vera í samneyti við krakka. Það eina sem ég hef áhyggjur af er skólabíllinn, þeir verða sóttir upp að dyrum og skilað líka. En í skólanum eiga þeir að koma sér sjálfir í sínar stofur skilst mér. Ég ætla að reyna að snapa mér far í fyrramálið með bílnum og fylgjast með hvernig þetta fer fram. Vonandi verður Stirnir sáttur við að skilja við mig, kennarinn hans er ekki hrifinn af því að foreldrar séu að "flækjast fyrir" til að byrja með. Seinna meir geta foreldrar komið inn og aðstoðað, jafnvel lesið fyrir krakkana og hjálpað til í vettvangsferðum.
Heilsan fer batnandi hjá bræðrunum, þeir eru kannski ekki í sínu besta formi en við höldum að það sé mikilvægt að vera í skólanum fyrstu dagana. Matarlystin er að koma til baka og Hugi raðaði í sig salati og sveppasúpu áðan. Stirnir hélt því fram að hann borðaði ekki sveppi sem er nú ekki satt.
Dalla

Monday, August 14, 2006

Það eru ennþá veikindi á heimilinu, strákarnir voru skárri á laugardaginn en versnaði aftur í gær. Þeir hósta út í eitt og eru báðir með hita.
Kjartan fór með þá til læknis í dag meðan ég fór að stússast í dvalarleyfismálum fyrir okkur mæðginin. Bræðurnir eru komnir á lyfjakokteil, sýklalyf, hóstamixtúru og slímlosandi. Læknirinn sagði að þetta ætti að virka fljótt sem ég vona að það geri því við eigum að fara á morgun í skólann að hitta kennarana þeirra. Á miðvikudaginn byrjar síðan skólinn.
Læknirinn sagðist búast við Kjartani aftur með strákana í vetur, það væri eðlilegt að þeir veiktust í samneyti við krakkana í skólanum. Bræðurnir hafa nú verið hraustir yfirleitt, við vonum að þessar hrakspár læknisins standist ekki.
Helgin var róleg vegna veikindanna. Ég fór í innkaup á laugardagsmorguninn, ekkert til á heimilinu og sneri til baka með fulla innkaupakörfu og nokkra poka hangandi utan á mér. Kjartan leit á mig þreytta og sveitta og pantaði handa mér nudd, klukkutíma síðar var ég sest upp í leigubíl á leið í nuddið.
Ég fór í tveggja tíma meðferð, fyrst heilnudd kínverskt en þá fór ég í náttföt einhverskonar og var nudduð í gegnum teppi að auki. Nuddarinn þrýsti mikið á mig og þetta var mjög notalegt. Síðan var ég leidd niður í herbergi með nokkrum lazy boy stólum þar sem verið var að nudda fætur fólks. Fyrst fór ég í heitt fótabað og svo tók við fótanudd. Þetta var svo þægilegt að ég náði örugglega að dotta og slefa smá líka. Vona að ég hafi ekki hrotið líka.
Ég geispaði mikið á leið heim í leigubílnum en ég var alveg endurnærð eftir þessa meðferð.
Dalla

Friday, August 11, 2006

Þá er komið að ferðasögu frá Qingdao en fyrst vil ég byrja á því að þakka fyrir allar afmæliskveðjur í tölvupósti, mér þykir vænt um hvað margir hafa munað eftir afmælinu mínu!
Við flugum til Qingdao á laugardaginn, ferðin var tíðindalaus, bræðurnir eru orðnir mjög ferðavanir. Okkur féllust eiginlega hendur við komuna á hótelið, við löbbuðum út á svalir og ströndin blasti við en aldrei höfum við séð jafnþéttsetna strönd, það var eins og við værum lent á mauraþúfu. Það er reyndar ekki rétt að segja þéttsetna því flestir virtust standa á sandinum og fólk stóð langt út í sjó.
Við fylgdumst með ströndinni fram á kvöld og alveg fram í myrkur og ekkert virtist mannþröngin láta á sig fá þó dimmt væri orðið, alltaf voru jafn margir á ströndinni.
Daginn eftir var aðeins þolanlegra á ströndinni og við skruppum í sjóbað um morguninn, þessi mynd er tekin þann dag:


Bræðurnir undu sér vel við leik í sandinum. Reyndar var ég hissa á því að sólargeislar næðu á þá því á tímabili var mikil mannþröng í kringum þá, fólk stóð og fylgdist með leik þeirra og dáðist að þeim. Ég lá í sólbaði skammt frá og vitjaði þeirra í flæðarmálinu. Ég spurði Huga hvort það væri ekki allt í lagi og hann svaraði yfirvegaður að fólkið væri bara að fylgjast með, vanur maður.
Við Kjartan vorum hálfáttavillt þarna í byrjun, við erum kannski ekki vön því að þurfa að redda okkur sjálf, höfum ferðast með kínverjum áður sem hafa aðstoðað við að finna veitingastaði, panta mat o.s.frv. Okkur gekk illa að finna veitingastaði fyrst í stað, þeir voru ekki við ströndina. Það er ekki hægt að segja að hérna sé þessi evrópska stemmning sem við erum vön, veitingastaðir og kaffihús við ströndina með notalegum terrössum. Við söknuðum þeirrar stemmningar og vorum á tímabili að hugsa um að reyna að finna hótel þar sem mannfjöldinn væri ekki svona svakalegur en það varð nú ekkert af því.
Kjartan fann upplýsingablað á hótelinu og eftir það gekk okkur betur að finna út úr veitingastöðum og afþreyingu. Við fórum á einhverskonar sædýrasafn og sáum hákarla, krókódíla og margskonar fiska. Við röltum eftir strandlengjunni og horfðum á hafið, sáum krabba og fylgdumst með endalausum brúðarmyndatökum við ströndina. Qingdao virðist vera staðurinn sem fólk kemur til að fá brúðarmyndatöku. Það er svolítið fyndið að ljósmyndararnir virðast vera svipaðar týpur, þeir eru einu mennirnir sem maður sér með sítt hár hérna. Flestir eru með þessa stuttu herraklippingu en ég hef séð nokkuð marga ljósmyndara að störfum og það sést utan á þeim við hvað þeir starfa.
Við vorum búin að fá leigubílstjóra til að keyra okkur upp í Laoshan fjall á miðvikudaginn og ætluðum að ganga þar um og skoða okkur um. En þann dag vöknuðu bræðurnir með háan hita, beinverki og hálsbólgu. Kjartan sendi bílstjóranum afboðun á kínversku og fékk löng skilaboð til baka sem Kjartani tókst að þýða með aðstoð símans. Hann sagði að bræðurnir ættu að drekka vatn og borða melónu til að ná heilsu aftur.
Við eyddum semsagt deginum á hótelherberginu, bræðurnir lágu fyrir og báru sig illa. Þeir hafa aldrei verið svona samtaka í veikindum áður.
Á fimmtudeginum ákváðum við að gera aðra tilraun með fjallið og bílstjórinn sótti okkur kl. 9. Við byrjuðum á því að sækja lyf í apótek og héldum síðan í átt að fjallinu. Þá urðu bræðurnir samtaka aftur í gubbi, Hugi náði út úr bílnum en Stirnir gubbaði á buxurnar. Hann fór á fjallið á nærbuxunum.
Okkur Kjartani leist nú ekki á þetta að draga þessa sjúklinga upp á fjall en við vissum af því að það væri hægt að fara upp með kláfi og það bráði aðeins af bræðrunum eftir gubbið svo við létum slag standa.

Ferðin í kláfinum gekk bara vel og upp komumst við. Við gengum aðeins eftir stíg í fjallinu en sölubásar byrgðu sýn og ég hafði ekki undan að bægja frá mér mönnum sem vildu bera mig í burðarstól. Þetta var ansi túristískt að okkar mati, við höfðum séð fyrir okkur fjallaferð úti í náttúrunni. Kjartan hefur gefið út þá yfirlýsingu að næsta ferð verði farin til Tíbet eða Nepal.
Á heimleið frá fjallinu stoppuðum við á veitingastað með bílstjóranum okkar, þarna var boðið upp á sjávarfang í vatnsbúrum og Kjartan fór í það að velja hádegismatinn. Hann valdi fisk einn sem var tekinn og honum slengt í gólfið, settur upp á vigt, var 1,4 kíló og svo inn í eldhús.
Þetta var afmælisdagur undirritaðrar, fiskurinn bragðaðast vel og líka skeljarnar.

Eftir matinn fengum við reikninginn og þá var nú upphæðin ansi há, Kjartan rak augun í það að fiskurinn hafði þyngst um kíló og var ekki sáttur við það. Honum tókst þó að lækka reikninginn eftir mikla rekistefnu, hann er orðinn nokkuð góður eftir nokkurra vikna kínverskulærdóm!
Það var reyndar fyndið þegar Kjartan og bílstjórinn voru að tala saman í framsætinu á leigubílnum, þeir sendu skilaboð á milli sín í símunum. Svo var bílstjórinn með frasabók líka, til dæmis notaði hann frasann "If you don´t mind I´d rather have some tea" þegar við fórum upp í kláfinum. Okkur þykir líklegt að þetta sé algeng afsökun í Kína.
En bræðurnir hafa endurskírt Qingdao, nú gengur hún undir nafninu Lasnaborg í Gubbulandi.

Við flýttum för heim, komum heim í gær, okkur leist ekkert á það að eyða helginni á bjórhátíð, mannfjöldinn hefur líklega tvöfaldast á ströndinni við það.
Hugi og Stirnir voru glaðir að koma heim og þeir eru að skána, þetta er meira kvef í þeim núna.
Skólinn byrjar í vikunni og við erum búin að fá áætlun skólarútunnar, þeir verða sóttir kl. hálfátta og skilað heim kl. 15:45.
Dalla

Friday, August 04, 2006


Óveður á Taohua eyju í síðustu ferð.

Þá erum við ferðbúin, sundföt og sólarvörn komin ofan í tösku.
Tönn númer tvö datt í morgun, hún fer með okkur í boxi. Hugi vonast til að það verði sjónvarp í flugvélinni, þannig sé það í öllum kínverskum flugvélum.
Dalla

Tuesday, August 01, 2006Þá er skólabúningurinn kominn í hús. Við gerðum okkur ferð mæðginin í dag til að sækja hann og fengum afhenta stuttermaboli og stuttbuxur fyrir sumarið og svo vetrarútgáfuna, síðbuxur og síðermaboli ásamt flíspeysu.
Stirni leist illa á það fyrirfram að þurfa að vera í búningi í skólanum, ég held að hann hafi haldið að þetta væri einhverskonar súpermanbúningur. Þegar hann mátaði hinsvegar búninginn vildi hann ekki úr honum. Hugi lýsti því yfir að bolurinn væri mjúkur og notalegur svo ég býst ekki við miklum vandræðum þegar hann þarf að skrýðast honum daglega.
Eina vandamálið er að buxurnar virðast tolla illa um bumbuna á bræðrunum eða réttara sagt bumbuleysið heldur þeim illa uppi. Stirnir missti buxurnar margoft niður um sig í dag, hann var nú líka að gera sér það að leik. Ég þarf að finna lausn á þessu, má ekki vera of flókið svo þeir geti leyst fljótt frá sér þegar þess þarf.
Hugi er að velta upp þeim áhyggjum þessa dagana að hann sér hræddur við að fara í skólann vegna lítillar kunnáttu í ensku. Það vefst nú ekki fyrir honum að gera sig skiljanlegan við Yongjia svo ég skil ekki þessar áhyggjur. Honum gekk líka mjög vel á sumarnámskeiðinu, það komu ekki upp nein tungumálavandamál þar. Kennararnir í skólanum eru þaulvanir því að taka á móti mállausum krökkum á enska tungu svo þetta eru óþarfa áhyggjur hjá honum.
Við erum búin að panta okkur ferð til Quingdao/Tsingtao á laugardaginn og ætlum að dvelja fram á sunnudag 13. ágúst. Við verðum á hóteli við strönd svo það verður strandlíf og skoðunar ferðir í bland.
Dalla