Wednesday, January 31, 2007

Kjartan frétti það frá Íslandi að síðasta blogg væri þunglyndislegt og ráðið væri að fara með mig oftar út að dansa. En það verður ekkert þungt blogg í dag því það hefur verið vorfílingur í Shanghai síðustu daga. Sólin skín og hitinn fór í 13 gráður, alveg upplagt veður fyrir göngutúra.
Ég dreif mig af stað klukkan rúmlega níu í morgun, labbaði í morgunkaffi til Somu frá Indlandi en hún bauð öllum bekkjarfulltrúum til sín. Þetta var gott40 mínútna labb og og ég átti fínt spjall við nokkrar mömmur og drakk te.
Svo rölti ég til Kjartans á skrifstofuna og við fórum saman í hádegismat, löbbuðum þangað líka. Á leiðinni í skólann til strákanna kom ég við í dvd búð og keypti seríu af Deadwood en við Kjartan erum dottin í þessa þætti, þetta er svona Sopranos útgáfa af villta vestrinu, glæpir, hórur og svik.
Stirnir fór á leikjanámskeiðið en við Hugi biðum úti. Ég treysti mér ekki til að labba heim með strákana svo við tókum leigubíl. Mér leið vel eftir útiveruna, örugglega rúmlega tveggja tíma ganga að baki og mér líður næstum eins og ég búi í smábæ en ekki í stórborg, allt er innan seilingar á tveimur jafnfljótum.
Bræðurnir fengu afhentar einkunnir í síðustu viku, heilar 5 blaðsíður hvor þar sem eru nákvæmar umsagnir um þá. Ég set hérna smá brot af þessum umsögnum, ég má til, ég er stolt af þeim.

Mr. Flesher um Stirni:
Stirnir´s English skills and communication abilities have progressed
rapidly and are very impressive. I am very proud of him and his
amazing progress.
Stirnir continues to be a great and active participant, helping to
create a caring community in the classroom. Stirnir does very well
with the "Butterfly helper" jobs in the class, his manners and using
the "magic words". Stirnir also listens and shares very well. Stirnir
resolves many conflicts with classmates and expresses feelings well.
He continues to be very friendly and to be kind and helpful. Stirnir
continues to joke and have fun through out the day.

Ms. D um Huga:
Hugi has made tremendous progress in acquiring English the last two
monts. He has been able to interact with his peers both on the
playground and in the classroom and is happily developing friendships.
His joy (and ours) in being able to communicate is evident in his happy smile.
Science:
He loved the experiments. He and his partner were the first to discover
that they could make a water fountain using compression and pressure.
He is an enthusiastic scientist and likes trying to make new
discoveries.

Í síðustu viku fékk Hugi 100 RMB með sér í skólann til að kaupa sér eitthvað á kökubasar eldri bekkja. Hann kom með 20 RMB til baka og sagðist hafa keypt mjög góða vöffllu og popp fyrir peninginn. Mér fannst þetta nú heldur dýrt en hann sagði mér glaður að hann hefði gefið Johani og Jago vinum sínum með sér. Mamma Jagos hringdi í mig daginn eftir og spurði hvort ég hefði sent Huga með pening því Jago hefði komið heim með 20 RMB úr skólanum. Þá hafði Hugi deilt bæði góðgerðunum og afganginum með vinum sínum, Johan fékk víst líka 20 RMB.

Nú er byrjað að skreyta fyrir kínverska nýárið sem gengur í garð um miðjan febrúar. Það er glaðbeitt svín sem prýðir skreytingarnar því það er ár svínsins sem tekur við af ári hundsins. Það er víst mikilvægt að klæðast rauðum fötum yst sem innst á þínu ári, enda eru rauð nærföt mjög áberandi í verslunum núna. Það ber þér gæfu að klæðast rauðu en ef þú gerir það ekki getur það fært ógæfu. Þeir sem eru fæddir á ári svínsins eru fæddir árin 1935, 1947, 1959, 1971, 1983, 1995 og auðvitað 2007. Þetta miðast við að vera fæddur þá eftir áramótin kínversku sem eru yfirleitt í febrúar. Ég sé ekki betur en tengdapabbi og Jóra systir mín séu fædd á svínaárinu.
Dalla

Thursday, January 25, 2007

Það er eitthvað janúarandleysi í gangi þessa dagana, einhver doði sem ég reyni þó að rífa mig upp úr. Síðasta vika var sérstaklega listræn hjá undirritaðri. Ég fór með Christinu á Shanghai Museum og við skoðuðum gamla leirmuni, brons og klæðnað hinna ýmsu þjóðflokka. Svo fórum við í bókabúðagötuna og keyptum okkur erlendar bækur. Það er svo sniðugt hérna að hafa sérstakar götur fyrir ýmislegt, hérna rétt hjá okkur er til dæmis gatan sem selur eldhús og baðinnréttingar. Engin þörf á að þeytast bæjarhluta á milli þegar á að fara að endurnýja.
Sylvie bauð mér einn morguninn að slást í för með sér og fjórum frönskum frúm. Það er alltaf gaman að koma í franskan félagsskap, frakkarnir eru alltaf soldið spes en ég hef gaman af því að tala frönskuna. Við fórum að sjá skúlptúrasýningu, heljarmikla Auguste Rodin sýningu sem var mjög falleg. Hún var haldin í skúlptúramiðstöð sem leit út eins og gömul verksmiðja, mjög flott. Verst að það var eiginlega kaldara þarna inni en úti svo tærnar voru kaldar eftir að hafa rölt um sýningarsalina. Við horfðum líka á mynd um myndhöggvarann sem var mjög fróðleg.
Þessi óformlegi félagsskapur er duglegur að fara á listsýningar og ég ætla að reyna að slást í för með þeim þegar það skarast ekki á við kínverskutímana mína.
Við fórum aftur út við hjónin á föstudaginn, í þetta skipti til að hitta Noah Flesher, kennarann hans Stirnis og nokkra foreldra úr bekknum. Við fórum á uppáhaldsstað Noah, spænskan tapasstað en hann kjaftaði því að hann væri kominn með kærustu sem vinnur þarna á staðnum.
Þetta var mjög skemmtilegt kvöld, við veltumst um af hlátri en töluðum nú varla um börnin okkar. Enda er það nú ekki tilgangurinn að ræða þau og þeirra frammistöðu. Ég veit nú varla hver tilgangurinn er með þessum kvöldverðum en það er gaman að kynnast þessu fólki. Einn pabbinn er til dæmis umboðsmaður Tiger Woods í Asíu og konan hans fór á kostum þegar hún lýsti því þegar hún fer með mömmu og aðra fjölskyldumeðlimi Tigers í verslunarleiðangra í Shanghai. Hún fór víst einu sinni með þá gömlu í perlubúð og þegar eigandinn frétti hver sú gamla væri þá skellti hann bara búðinni í lás og opnaði peningaskápana til að sýna aðalgóssið. Hann fékk víst hálfa milljón dollara upp úr því.
Við fórum síðan á skemmtistað á eftir með einu frönsku pari og Atla og Ryan sem bættust í hópinn. Ég dansaði alveg í tíu mínútur en það er með því lengsta sem ég hef dansað í þessari borg.
Um helgina var okkur boðið í mat til Heklu, Magnúsar og sona. Þar urðu fagnaðarfundir með strákunum og okkur líka. Við fengum þennan fína grillmat og ég var leyst út með kjaftablöðum frá Íslandi. Við hittum líka Árna hjá þeim sem ætlar að flytja til borgarinnar í haust með sína fjölskyldu svo Íslendingahópurinn fer stækkandi.
Við erum að setja niður dagskrá með strákunum fyrir utan skólann. Stirnir er byrjaður á einskonar leikjanámskeiði eftir skóla á miðvikudögum. Hugi byrjar líka á námskeiði eftir skóla á sömu dögum en hann ætlar að læra um vélmennagerð með legó. Eitthvað svipað og við fengum innsýn í í sumar. Stirnir hafði líka áhuga á vélmennanámskeiðinu en hann er of ungur.
Við heimsóttum tónlistarskóla í síðustu viku því Hugi lýsti yfir miklum áhuga á tónlistarnámi. Þetta er voða sætur skóli í franska hverfinu, tengdur jazzklúbbi. Við fengum að koma inn í tíma hjá Nicola sem er með einskonar forskólakennslu. Börnin læra um rytma, nótur og fá að spila á hljóðfæri, kannski svolítið svipað og hjá Nönnu og Elfu í Kramhúsinu. Bræðurnir voru ansi fjörmiklir þarna í skólanum en náðu að einbeita sér í tímanum, kennarinn var hrifinn af því hvað Stirnir náði taktinum fljótt. Þeir ætla báðir að byrja á námskeiði í lok febrúar og bíða spenntir eftir því. Hugi segist vilja læra á gítar seinna meir.
Ég finn það þessa dagana að mig vantar meira prógramm, mér finnst kínverskunámið ganga hægt svo stundum er ég við það að missa móðinn. Ég ætla að hugsa um það að finna mér jafnvel annað námskeið. Ég heyri það á öðrum konum hérna að þetta er erfiður tími, einhversstaðar heyrði ég það að þetta væri niðursveiflan hjá expatanum, hvað kallast þetta á íslensku, fólk sem er sent burt frá föðurlandinu til búsetu vegna vinnu sinnar. Allt er svo nýtt og spennandi í byrjun en þegar nýjabrumið fer af heimkynnunum og allt sem var svo sniðugt og öðruvísi í byrjun verður bara pirrandi. Ég get kannski ekki sagt að ég sé eitthvað pirruð yfir Kína eða kínverjum, það er bara búið að vera grátt hérna að undanförnu sem hefur áhrif á sálarlífið.
Við Christina erum duglegar að hressa okkur við, höfum ekki um neitt annað að hugsa á daginn en um eigið rassgat. Í vikunni fórum við í göngu um franska hverfið, kíktum í búðir og skoðuðum mannlífið. Eftir hollan hádegismat enduðum við í fótanuddi áður en við fórum í skólann að hitta börnin. Við vorum endurnærðar,örugglega vegna þess að sólin skein þennan dag svo við gátum rekið nefið upp í sólina.
Hérna eru nokkrar myndir frá þessum degi, síðar nærbuxur sem hanga til þerris (þetta virðist vera mjög vinsæll undirfatnaður, það selja allar búðir föðurland núna og ég sé það í sundlauginni að margar konur klæðast því) og einn af þessum veitingastöðum í dyragætt sem selja gufusoðna dumplings og buns.

Sunday, January 14, 2007

Á föstudagskvöldið fórum við hjónin út að borða með Atla. Daisy passaði strákana og þegar ég fór af stað voru þau þrjú í hláturskasti á gólfinu að leika með vélmenni.Það er ekki leiðinlegt að láta Daisy passa sig, hún leyfir bræðrunum að vaka frameftir kvöldi og lætur allt eftir þeim. Það gerir kannski ekki mikið til, hún passar þá ekki oft, hún tekur við ömmu og afa hlutverkinu í eftirlátsemi í fjarveru þeirra.
Við fórum á mjög flottan japanskan stað, teppanyaki en þá eldar kokkurinn við borðið. Við vorum flott á því og pöntuðum okkur matseðil með kobekjöti. Það er kjöt af nautum sem eru alin upp í myrkri, þau fá bjór út í fæðuna og eru nudduð, upp úr gini sagði Atli en ég á eftir að fá það staðfest. Við fengum heil 100 grömm hvert af kjötinu og þetta var meyrasta kjöt sem ég hef nokkurntíma smakkað, algjört lostæti.
Kokkurinn okkar var eldri maður frá Filippseyjum sem hafði búið út um allan heim, eldaði m.a. í Rússlandi og Líbanon. Núna er hann farinn að huga að því að setjast í helgan stein heima á Filippseyjum.
Á laugardaginn var Huga boðið í afmæli, það var dagskrá fyrir stóru krakkana þar svo Stirnir var ekki velkominn fyrr en í lok afmælisins. Það varð svolítið mál úr þessu, þeir eru svo samrýndir, Hugi vildi líka hafa Stirni með. En Hugi fór í afmælið og við hin þrjú fórum í göngutúr um franska hverfið.
Það er gaman að ganga þar um, ekki jafn mikil bílaumferð og annarsstaðar. Við kíktum við í nýju skrifstofuhúsnæði CCP sem verður tilbúið næstu daga. Það er á mjög skemmtilegum stað og í sama húsi er búið að opna vínbúð og innan tíðar á að opna þarna franskt brasserie. Það er spurning hvort Kjartan sýni sig eitthvað hérna heima eftir að skrifstofan flytur þangað.
Stirnir beygði stundum af á göngunni þegar hann hugsaði til Huga í afmælinu.

En tók gleði sína á ný þegar hann komst í fjörið í boltalandinu.
Hugi var alsæll í afmælinu, krakkarnir settu saman vélmenni og fóru svo að leika.
Dalla

Wednesday, January 10, 2007

Mig langar til að setja inn síðustu myndirnar frá ferðinni, síðasta daginn okkar á Samui, við fórum í siglingu út í eyjar. Þar var okkur hent í sjóinn til að snorkla. Við fórum öll útí, og við Kjartan og Hugi kíktum niður á fjörugt fiskalífið. Stirnir dólaði bara hjá okkur í björgunarvesti.


Snorkl-staðurinnStirnir spurði hvort þessi eyja flyti á sjónum, það er satt, það lítur út fyrir að hún fljóti.

Þvínæst var siglt að fallegri eyju þar sem er fallegt lón. Við klifum upp mikla stiga í hlíðinni og niður aftur hinu megin. Harðsperrur í lærunum sögðu allsvakalega til sín daginn eftir stigaklifrið, ég staulaðist um.
Lónið uppi á eyjunni


Á næstu eyju borðuðum við hádegismat og svo rérum við út á kanóum. Við rérum í kringum eyju sem var mjög gaman. Það voru klettar úti í sjó í kringum eyjuna og við rérum á milli þeirra sumsstaðar.


Eyjan sem við rérum í kringum er í bakgrunni


Um kvöldið sendum við aftur upp ljós með óskum fyrir nýja árið. Hugi óskar sér af innlifun með lokuð augun. Þegar nýja árið gekk í garð sagði hann, jæja, þá er árið búið nú getum við farið aftur heim til Íslands! Þeir hugsa mikið heim til Íslands þessa dagana. Stirnir segist alltaf vera á Íslandi þegar hann dreymir, á Dvergasteini, leikskólanum hans. Þar dreymir hann Lillu og aðra góða vini segir hann.
Þetta var frábær dagur og góður endir á Thailandsdvölinni.

Núna í þessari viku tók hversdagsleikinn við, bræðurnir fóru í skólann á mánudaginn og ég í kínverskuna í gær. Ég hélt ég væri búin að gleyma öllu en það var nú ekki svo slæmt. Við byrjuðum á upprifjun sem var mjög gott, því miður hef ég ekki getað æft mig nógu mikið í tali og þessvegna gleymast hlutirnir.
Í dag var Hugi heima vegna höfuðverkjar í morgun. Hann hresstist þegar leið á morguninn og hann verkstýrði mér í smíði kassa sem á er loftnet og ljósapera áföst. Í þennan kassa ætlar hann að ná eldingum sem mynda þá orku inni kassanum sem hann ætlar m.a. að nota til að komast upp til stjarnanna. Þetta var mikil smíði hjá okkur og hann var ánægður með árangurinn. Kassinn er núna úti á svölum og hann vonast eftir þrumum og eldingum í nótt.
Ég fór í gegnum herbergi bræðranna í vikunni og setti ýmislegt dót í poka, margt brotið eða smádrasl sem fyllir herbergið. Áður en ég komst með pokann út í rusl fór Hugi að frýnast ofan í hann. Það fór svo að hann dró margar fjársjóði þaðan upp og ég fékk skammarræðu fyrir að ætla að henda hinu og þessu. Mamma, sagði hann, veistu ekki að ég nota þetta þegar ég er að byggja!
Það er satt hjá honum, ég þarf að galdra nær daglega fram úr skápum byggingarefni, spotta, kassa og margt fleira sem fellur að hans óskum.
Við mæðginin fórum á kínverska spítalann í bólusetningar seinnipartinn, þeir áttu að fá endurnýjun á lifrarbólgu A og B. Hérna tíðkast ekki að bólusetja gegn lifrarbólgunni í einni sprautu heldur skipta þeir þessu niður svo við þurfum að koma aftur eftir mánuð. Ég þarf að finna stað til að láta bólusetja sjálfa mig, það gat ég ekki fengið gert á barnaspítalanum. Konurnar voru mjög hjálplegar í bólusetningadeildinni og töluðu fína ensku.
Eftir sprauturnar lá leiðin út á götu í leigubílaleit. Fyrir framan spítalann eru sniðugir sölumenn sem selja lítil leikföng og blöðrur handa börnum sem standa sig vel. Stirnir valdi sér lítinn hund sem getur dansað og gelt, hann minntist á það að hann minnti sig á Mola. Hugi valdi sér einhvern staut sem gefur frá sér tónlist og ljósasýningu. Sölumennirnir eru flinkir hérna því þarna eru líka blómasölumenn svo þarna er allt sem gesti vanhagar um. Ég sá það um daginn í götu fyrir utan fæðingarsjúkrahús, voru bara verslanir sem selja meðgöngufatnað og bleyjur, allt fyrir barnið. Sérstaklega hentugt fyrir pabba sem eru sendir út af örkinni í leiðangur eftir nauðsynjavörum.
Þegar við komum heim komu fram óskir um gæludýr frá þeim bræðrum. Huga langar í apa og Stirni langar í moldvörpu.
Dalla

Sunday, January 07, 2007

Gleðilegt ár og takk fyrir samfylgdina á því gamla!

Við komum heim úr fríinu aðfaranótt fimmtudagsins. Það var mikið sjokk að koma heim úr 30 stiga hita í ískalda íbúðina, það tók sólarhring að hita íbúðina aftur.
Við slöppuðum vel af í Thailandi, fyrstu dagana í Bangkok gistum við öll 6, við fjölskyldan og Atli og Yongjia hjá vinafólki Atla, Ben og Yani. Þau leigja mjög stóra íbúð svo það fór vel um alla. Það fór ekki mikið fyrir jólaskrauti hjá þeim svo fiskabúrið stóra var notað sem jólatré.
Við náðum nú ekki að skoða Bangkok mjög vel en við gengum um og keyptum okkur kókoshnetusafa af götusala. Við komumst að því í matarinnkaupum fyrir aðfangadagskvöld að það má ekki kaupa vín eftir hádegi fyrr en klukkan 17 síðdegis. Thailendingar eru miklir búddistar og við nánast hverja byggingu er altari.


Við elduðum hangikjöt á aðfangadagskvöld, borðhaldið var fremur óhefðbundið, Ben var með tölvuna við matarborðið og það voru ekki til nógu margir matardiskar svo Atli borðaði jólamatinn upp úr plastdallinum undan laufabrauðinu.
Pakkaopnun tók ekki langan tíma, pakkarnir voru ekki svo margir en strákarnir voru mjög ánægðir með gjafirnar sínar sem vöktu líka lukku hjá okkur fullorðna fólkinu.Eldsnemma að morgni jóladags fórum við í flug til Koh Samui, rúmlega klukkutímaferð frá Bangkok.
Flugstöðin á eyjunni er ansi flott, engir veggir á henni.
Það varð svolítið mál að fá bíl til að flytja okkur á hótelið, það voru engir venjulegir leigubílar við flugstöðina, bara fólk sem bauð allt of hátt verð. Það virðist vera eitthvað samsæri í gangi því leigubílstjórar vildu ekki taka okkur upp í bílinn. Við náðum verðinu eitthvað svolítið niður en vorum samt frekar ósátt. Það kom í ljós að samgöngur á eyjunni eru frekar frumstæðar, þeir græða vel sem eru í þeim bransa. Annars var verðlag lágt á mat og drykk.
Við komuna á hótelið kom í ljós að við fengjum ekki þau herbergi sem við höfðum beðið um. Atli og Yongjia tóku af skarið og leigðu sér vespu til að leita að betra hóteli. Þetta endaði allt vel eftir smá rekistefnu og samsæriskenningar um hóteleigendur líka.
Við fengum inni á mjög fínu hóteli við ströndina, við vorum í herbergjum/húsum í garðinum, á jarðhæð með verönd og gengum nokkur skref í sundlaugina og veitingastaðinn og þaðan beint niður á strönd. Strákarnir nutu sín vel í garðinum, þeir voru svo heppnir að fá háfa frá Kertasníki sem voru ætlaðir til fiðrildaveiða. Þeir náðu nú engu fiðrildi en við náðum fiskum, frosk og engisprettu.

Undirrituð hélt áfram að slökkva þorstanum í hinum ýmsu kókoshnetum...

Flesta daga lágum við á ströndinni, strákarnir ærsluðust í flæðarmálinu en við þurftum að hafa auga með þeim því það var svo aðdjúpt. En öldurnar voru skemmtilegar og þeir veltust um og fóru kollhnísa. Þeir afrekuðu það einn daginn að grafa holu í sandinn og aðra við hliðina og gera svo göng á milli. Hugi skreið á milli holanna, náðist því miður ekki á mynd.
Við ströndina voru líka nuddkonur með aðstöðu í spa í undir stráþaki. Ég ætlaði einn daginn að hafa það náðugt og fá nudd hjá þeim en bræðurnir báðir eltu mig og vildu líka nudd. Þeir fengu nudd og naglaklippingu að auki. Ég fékk svo fótsnyrtingu og handsnyrtingu svo ég var með eldrauðar neglur um áramótin.
Einn daginn fórum við að skoða apa sem eru notaðir til að sækja kókoshneturnar upp í tré. Kókoshneturnar hanga í einskonar bandi og aparnir snúa þeim þangað til þær detta niður. Apinn er að snúa kókoshnetuna úr höndinni á Huga þarna.

Í sömu ferð fórum við á fílabak. Við þurftum að fara upp í lítinn turn til að komast á bak og sátum hátt uppi. Fílarnir fóru miklar torfærur í gegnum skóg og fengu sér í svanginn á leiðinni.

Atli var svo óheppinn að missa veskið sitt í fílaferðinni en leiðsögumaðurinn, mikið skógarbarn fann það aftur í runnagróðri, ótrúlegt.
Á gamlárskvöld var mikil hátíð á hótelinu, allt blómum skrýtt og kvöldverður við sundlaugarbakkann. Skemmtiatriðin fóru fram á litlu sviði við sundlaugina og voru í meira lagi skrautleg. Í fyrstu kom starfsfólk hótelsins fram, dansaði og söng. Dagskráin varð svo súrrealískari þegar leið á kvöldið, þessi "dama" dansaði við Hava nagíla.

Þegar gestir voru hvattir til að taka þátt í leikjum við litlar undirtektir hljóp mikið kapp í íslenska borðið. Kjartan vann kappdrykkju, sturtaði í sig bjór á mettíma, Hugi vann þar sem hann átti að velta sítrónu með því að slá í hana með gúrku sem hékk á milli fótanna. Atli og Yongjia unnu blöðruhlaup en var ekki dæmdur sigurinn, líklega vegna þess að það var orðið áberandi hvað við vorum sigurviss.
Við Hugi tókum þátt í blöðruhoppi, áttum að sprengja blöðrur andstæðinganna og stóðum uppi sigurvegarar. Þarna sjást mikil tilþrif.


Árið var svo sprengt burt á ströndinni og við sendum upp ljós í bréfaloftbelg með óskum fyrir nýja árið.