Tuesday, June 20, 2006

Hugi og Stirnir við eitt af ljónunum sem virðast passa margar byggingar hér, þeir segja að þau passi að draugarnir komi ekki inn í húsin.

Sumarnámskeiðið gekk betur í dag en í gær!
Við komumst áfallalaust á áfangastað með lestinni, Stirnir spyr mikið um öll bannskiltin í lestunum og á stöðvunum. Ég þyl þetta upp: Bannað að hrækja, bannað að reykja, bannað að henda rusli, bannað að hafa sprengju í tösku. Svo á að passa sig að klemma ekki puttana á milli þegar lestin lokast og vara sig á gatinu milli lestar og brautarpalls. Hann er nú farinn að kunna þetta núna en ef hann sér bannskilti á götu úti þarf ég alltaf að tilkynna hvert bannið er í það skiptið.
Strákarnir fóru í sitthvorn hópinn í dag. Hugi kvaddi mig eins og ekkert væri og gekk inn í hópinn, þau voru að skrifa og hann sagðist hafa skrifað á ensku, eitthvað summer, semsagt um sumarið.
Stirnir vildi hafa mig inni hjá sér og ég sat úti í horni og fylgdist með. Þau byrjuðu á samveru allur hópurinn og sungu lag um nöfn barnanna. Þá var val og Stirnir valdi einskonar sulluvask, fat með vatni og dóti ofaní. Hann prófaði sig svo áfram, fór í legó, matardót og teiknaði sjálfsmynd. Þá voru frímínútur og allir fóru út. Ég fylgdi krökkunum ekki inn aftur heldur hélt til á bekk fyrir utan með bókina mína. Hugi var líka í frímínútum á sama tíma og var byrjaður að elta strák, einhver apaleikur því hinn sagði monkey. Hann var voða glaður með þetta allt saman.
Þegar námskeiðinu lauk voru þeir báðir mjög glaðir og vilja ólmir fara aftur á morgun. Hugi sagðist hafa kynnst tveimur strákum, vonandi verða þeir góðir vinir, jafn góðir og Bubbi og fleiri en hann orðaði þetta fallega við Huga áður en hann fór til Shanghai: Vonandi eignastu jafn góðan vin og mig í Kína!
Við fórum líka heim með lestinni en héldum okkur inni við þangað til seinni partinn, það var of heitt fyrir útiveru. Þá fórum við á leikvöllinn, Stirnir vakti athygli þegar hann girti niður um sig á miðjum leikvellinum. Hann var leiddur út í gras til að pissa. Hugi fékk strák til að skylmast við sig. Ég spjallaði við kínverska konu sem býr hérna, hún er gift japana og var þarna með mömmu sinni og 5 mánaða syni. Hún var hissa á því að ég væri ein með drengina allan daginn, hvort ég hefði enga hjálp. Ég sagðist vera með Ayi til að þrífa en hún sagðist fá konu heim alla daga í fjóra klukkutíma til að þrífa hjá sér.
Hugi óskaði eftir sushi í kvöldmatinn svo við fórum á svona færibandasushistað hérna í nágrenninu. Strákarnir stóðu sig vel, borðuðu vel af fiski, ekki höfum við borðað mikinn fisk síðan við komum hingað svo þetta var kærkomin tilbreyting.
Við erum alltaf að æfa okkur í að telja á kínversku og Kjartan leggur fyrir okkur þrautir, segja 37 o.s.frv. Þegar við fórum niður í lyftunni áðan vorum við á leið niður á fyrstu hæð. Hugi benti á töluna 1 í lyftunni og sagði við konu sem var samferða okkur, í en það er einn á kínversku. Konunni fannst þetta frekar flott hjá honum. Hann kann að sjarmera drengurinn.
Það eru nú ekki bara konur sem veita þeim bræðrum athygli á götum úti, kallarnir eru líka spenntir fyrir þeim. Í dag voru tveir menn að reyna að taka mynd af þeim með símunum sínum á götu. Stirnir var nú ekki til í tuskið í þetta skipti en Hugi stillti sér upp með grettu og hálfgerða kryppu á bakinu. Allir vegfarendur voru farnir að horfa og benda á drenginn sem naut athyglinnar.
Takk fyrir falleg komment kæru lesendur!

Dalla

No comments: