Tuesday, March 27, 2007

Stirnir er 5 ára í dag! Hann er búinn að telja dagana í margar vikur og loksins er komið að stóra deginum. Afmælisveislan á sunnudaginn var frábær, við sátum úti í góðu veðri á O´Malleys og allir vinir afmælisbarnsins í Kína komu til að gleðjast með honum. Bekkjarfélagar, Boggi og Örn og Arthúr og Zoe nágrannar okkar, alls 16 krakkar og mikið fjör. Hoppukastalinn var vinsæll og svo var boðið upp á andlitsmálun og blöðrufígúrur og farið í leiki. Undir lokin var blásið á kerti á kökunni þegar búið var að syngja afmælissönginn á ensku, íslensku og kínversku.
Fyrr um morguninn kom Daisy færandi hendi hingað á Hongqiao lu með 2 kanínuunga handa bræðrunum. Þeir fengu nöfnin Jonni og Cookie, Stirnir á Jonna og Hugi Cookie. Þeir tóku miklu ástfóstri við kanínurnar og lýstu ást sinni á þeim, Hugi þó meira, Stirnir er pínulítið smeykur við Jonna. Ég fór með mömmu og pabba í gær og keypti búr handa þeim og strákarnir glöddust yfir nýja búrinu þeirra. En þegar við vöknuðum í morgun var Cookie dáinn í búrinu og Jonni hjúfraði sig hjá honum. Hugi var óhuggandi, svo mikið að hann komst ekki í skólann. Hann hefur sveiflast frá því í dag að vilja nýja kanínu og vilja enga, eitt það síðasta sem hann sagði í kvöld fyrir svefninn var að hann vildi bara eiga Mola því hann deyr aldrei.
Mamma og pabbi/amma og afi lentu í Shanghæ á föstudagsmorguninn eftir tíðindalítið ferðalag. Þau gista fyrstu dagana á hóteli vegna þess að við erum ekki með aukarúm hérna í íbúðinni, þau eru hérna bara í næstu götu. Þau lögðu sig aðeins eftir hádegið á hótelinu á föstudaginn og svo kom ég yfir til þeirra með strákana þegar þeir komu heim úr skólanum. Bræðurnir voru ekkert feimnir við ömmu og afa, hoppuðu á þeim eins og þeir hefðu séð þau síðast í gær. Þeim fannst bræðurnir hafa stækkað, kannski ekki skrítið eftir 10 mánaða fjarveru.
Á laugardagsmorgun fengum við lyklana að nýja húsinu og hittum þá nágranna okkar Svía sem búa við hliðina. Þau eiga 2 stelpur á sama reki og bræðurnir og álíka orkumiklar.
Í gær mánudag fórum við í skoðunarleiðangur, pöntuðum jakkaföt handa pabba á fatamarkaðnum og fengum okkur að borða í Xintiandi. Við löbbuðum svo í gegnum antíkmarkað á leið á gæludýramarkaðinn. Þar er hægt að fá engisprettur í litlum boxum og lifandi orma sem eru fuglamatur.
Nú erum við að pakka niður, flutningar á morgun, alltaf er maður jafn hissa hvað safnast í kringum mann. Mamma er betri en enginn í aðstoð við flutninga, ég veit ekki hvernig þetta gengi ef hún væri ekki hérna.
Daisy mætir í fyrramálið með bíl og flutningamenn og svo förum við af stað til Beijing annað kvöld með lestinni. Engar myndir í dag, búið að pakka niður diskinum, þær koma í næsta bloggi.
Dalla

Wednesday, March 21, 2007

Þá er spennan að magnast fyrir komu mömmu og pabba/afa og ömmu, flutninga og Beijing-ferð, allt þetta á einni viku. En ég anda mig í gegnum þetta allt með jógaönduninni sem ég lærði hjá Sigfríði í Heilsubót, hún kemur að góðum notum jafnt í fæðingum sem á öðrum spennustundum.
Hugi stóð sig vel síðasta föstudag á sviðinu. Hann var hetja leikritsins, galdraði risann Abiyoyo burt með galdrasprotanum sínum. Hann galdraði mikið og sagði eina setningu hátt og skýrt. Við Kjartan vorum með allar myndavélar á lofti og ekkert smá stolt af honum.



Hugi í galdrasveiflu á sviðinu



Stirnir úti í sal áður en sýningin hófst

Eftir samkomuna þurfti Kjartan að flýta sér aftur í vinnuna en ég fór í kaffi sem breyttist í pizzuveislu hjá Cathra og Troy og þremur börnum þeirra. Lorelei dóttir þeirra er í Stirnisbekk og þau eru miklir vinir því þau leiddust nánast alla leiðina heim til þeirra.




Á leiðinni með krakkaskarann





Hugi með Elenor

Helgin hélt svo áfram að vera skemmtileg og Hekla og Magnús komu yfir á laugardaginn með Bogga og Örn í ástralskt lambalæri. Strákarnir léku að venju og vilja helst ekki skilja, þeir fá ekki nóg af hvor öðrum. Kröfur um gistingu eru farnar að gerast háværar, kannski við prófum það næst. Við sátum saman framundir miðnætti og strákarnir sofnuðu einn af öðrum meðan við þessi fullorðnu töluðum saman. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld og við flissum ennþá öll af minningunni.
Á sunnudaginn heimsóttum við Atla og Yongjia í nýju íbúðina í franska hverfinu. Húsið er ansi tilkomumikið, eldgamalt og Atli lýsir því sem gotneskum kastala. Strákarnir urðu spenntir þegar þeir sáu húsið að utan, sögðu að það liti út eins og draugahús. Því miður gleymdist að taka mynd, reddum því seinna. En íbúðin er flott, svakalega hátt til lofts og rúmgott. Og ekki verra að þau verða í sama hverfi og við.

Seinnipartinn var okkur boðið aftur til Cathra og Troy, þau buðu upp á osta og rauðvín og annað góðgæti. Þarna voru líka tvenn frönsk hjón og krakkarnir voru 11 í allt, ekkert smá gaman. Við sátum hjá þeim frameftir kvöldi, við Kjartan erum ekkert að flýta okkur heim ef það er gaman og góður félagsskapur. En einhverntíma komust bræðurnir í rúmið og varð ekki meint af.
Dalla

Wednesday, March 14, 2007

Við pössuðum Yongjia á sunnudaginn eða hún okkur, spurning. Hún kom til okkar og aðstoðaði við að frelsa fiskana frá Hangzhou. Þeir fengu nýtt heimili í tjörninni hérna á milli húsanna.





Þarna er einn á nýja heimilinu sínu.

Við fórum og fengum okkur hádegismat saman og fórum svo heim að horfa á Doraemon teiknimynd á kínversku. Við gæddum okkur á súkkulaðiköku og biðum eftir að Kjartan birtist. Hann gerði það og það urðu fagnaðarfundir.

Ég var í síðasta kínverskutímanum mínum í bili í dag. Sami kennarinn hefur verið með hópinn frá því í september, Kang Bo. Yndisleg stelpa sem hefur hvatt okkur áfram, ég á eftir að sakna hennar. Ég á líka eftir að sakna samnemenda minna, Sophie frá Frakklandi og Bíen frá Sviss. Ég veit ýmislegt um þær eftir ótal samtöl okkar á bjagaðri kínversku. Uppáhaldsávöxtur Bíen er kíví og og miðsonur Sophie spilar golf.



Bíen, Kang Bo og Sophie, þetta er svona eiginkvennahópur. Mér var sagt að ég gæti farið inn í annan eiginkvenna (taitai) hóp í maí.



Í lok næstu viku koma mamma og pabbi/amma og afi í heimsókn og þá vil ég einbeita mér að því að lóðsa þau um borgina. Við ætlum að fara í langa helgarferð til Beijing/Peking og gera annað skemmtilegt. Við hlökkum til að fá þau til okkar.
Þau taka þátt í flutningum með okkur því við fáum lyklana sömu helgi og þau koma. Þá helgi verður líka haldið upp á stórafmæli, 5 ára afmæli Stirnis sem spyr á hverjum morgni hversu margir dagar séu í veisluna.
Dalla

Saturday, March 10, 2007

Við erum búin að vera án Kjartans í rúma viku, von á honum í dag. Hann fór til San Francisco með Atla og Horace og hitti þar fullt af CCP fólki. Stirnir sagði þegar hann vissi að Atli hefði farið með pabba hvort Yongjia (kærasta Atla) gæti ekki komið til okkar og gist hjá okkur, við gætum passað hana. Hún er svo mikil vinkona bræðranna að honum finnst að hún þurfi líka pössun eins og þeir.
Stirnir hefur verið fyrimyndarnemandi í bekknum sínum. Kennarinn er með stjörnukerfi, hvert barn er með 3 stjörnur og getur misst þær eina eða fleiri vegna óhlýðni eða slæmrar hegðunar. Þau byrja hvern dag með allar sínar stjörnur. Stirnir hefur ekki misst eina stjörnu allt skólaárið og ég var farin að halda að hann myndi bara halda því. En á miðvikudaginn fékk ég tölvupóst frá Mr. Flesher um það að Stirnir hefði misst eina stjörnu vegna þess að hann talaði svo mikið í hvíldartímanum, hann var áminntur þrisvar en lá greinilega mikið á hjarta og þagði ekki. Að lokum var hann settur við borð og sat þar og stjarnan féll.
Þegar þeir komu heim bræðurnir vildi ég ræða þetta mál við hann. Stirnir varð skömmustulegur yfir stjörnuhrapinu en Hugi kom fljótt til bjargar: "Mamma, ekki vera reið við hann, hann er bara fjögurra ára!" Ég var svosem ekkert reið en málið var látið niður falla og hann lofar góðri hegðun.
Ég er í góðu sambandi við kennara strákanna og Mr. Flesher sendir okkur oft myndir úr skólastarfinu og annað sniðugt. Honum fannst fyndið þegar Stirnir var að skoða bók með bekkjarfélögum í vikunni og benti á mynd og sagði:"This is a dinosaur toilet!" Ég veit ekki hvað var á myndinni en við erum búin að lesa ansi margar risaeðlubækur í vetur, strákarnir fara vikulega á bókasafnið í skólanum og iðulega eru það risaeðlubækur sem verða fyrir valinu þegar þeir velja sér bók til að taka með sér heim.
Í Stirnisbekk fá börnin að koma með leikfang eða annan hlut að heiman í svokallað Show and Tell. Jina kom með hundinn sinn á föstudaginn, hann Hong Hong og vakti það mikla lukku hjá börnunum.
Hugi var í íþróttatíma á fimmtudaginn og börnin áttu að sippa. Hann kom heim og sagðist ekki vera nógu góður í að sippa svo við drógum upp sippuband og hann byrjaði að æfa sig, fyrst inni, svo úti og svo aftur inni. Hann tók miklum framförum og sippaði fram að háttatíma og sofnaði með sippubandið í höndinni. Daginn eftir var hann stífur í bakinu eftir sippið og staulaðist fram úr rúminu en byrjaði strax að sippa meira og æfa sig.

Hver bekkur kemur fram einu sinni á föstudagssamkomum í salnum í skólanum. Þessar samkomur eru á tveggja vikna fresti í lok skóladags á föstudögum. Hljómsveit hússins Jiangsu blues band leikur undir samkomunni en það eru ýmis lög sungin, lag við að bjóða ný börn velkomin, kveðjulagið fyrir börnin sem eru að flytja burt og svo sérstakur afmælissöngur. Þá koma afmælisbörnin upp á svið. Svo er líka sérstakt danslag en þá er einhver hvattur til að dansa, kennari eða nemendur, þetta er svona seremónía, kallað er á viðkomandi og svo fer lagið í gang og þá er dansað "get down". Það er oft mikið fjör á þessum samkomum og foreldrar eru velkomnir á fjörið, ég hef alltaf komið og svo fæ ég far með skólabílnum heim með strákunum. Skólastjórinn spilar sjálfur á bassa í hljómsveitinni, tónlistarkennarinn á hljómborð og smábarnakennarinn á trommur.
Í næstu viku á Hugabekkur ásamt öðrum bekk að koma fram á sviðinu. Þau ætla að leika leikrit um Abiyoyo sem þau eru búin að vera að lesa, það fjallar um dreng og föður hans og fund þeirra við risann Abiyoyo. Hugi var búinn að segja mér frá því að hann ætti að gera "the funny part", ég veit nú ekki hver hann var. En ég fékk póst frá kennaranum hans á föstudaginn og þá hafði stúlkan sem átti að leika föðurinn þjáðst af sviðsskrekk og vildi hætta við. Þau prófuðu 5 krakka í hlutverkið og Hugi var kosinn bestur af krökkunum. Þannig að nú er hann kominn með hlutverk og á að koma með búning, frakka og hatt af pabba sínum svo hann líkist pabba. Huga finnst þetta lítið mál, hann segist eiga að segja nokkrar setningar og galdra með sprota sem hann bjó til í skólanum. Þetta sagði Ms. D kennarinn hans þegar hún sagði mér fréttirnar í tölvupósti:"It is so terrific that he now has such self-confidence in English."

Ég sjálf hef verið upptekin í vikunni líka, ég hitti Önnu forseta Íslendingafélagsins IShai tvo eftirmiðdaga, við vorum að spá í vefsíðu félagsins. Ég fór til hennar eftir kínverskuna, hún gaf mér hádegismat og svo settumst við við tölvuna. Það er gaman að hitta Önnu, við skemmtum okkur vel saman yfir þessu verkefni.
Ég hóaði saman foreldrum úr Hugabekk í morgunkaffi á kaffihúsi í vikunni. Það er mitt hlutverk sem "roomparent" að sjá um það. Mætingin var nú ekki góð, við sátum saman þrjár mömmur. En þessar tvær sem mættu ætla að sjá um næsta activity í bekknum og fá fleiri mömmur með sér. Morgunkaffið teygði úr sér því við fórum saman í matarinnkaup í Carrefour. Önnur mamman er nýflutt hingað frá Singapore og við hinar deildum reynslu okkar af matarinnkaupum með henni, hvaða mjólk er góð, hvaða jógúrt o.s.frv.
Ég hitti líka Lethe og Mihiri á hádegismat í vikunni, við fengum okkur hot pot, frá Sichuan, sterkan og góðan. Svo fórum við aftur í hárþvott á stofu og bættum við nuddi líka, mjög notalegt.
Við Christina frestuðum okkar vikulegu menningarreisu um borgina til föstudags. Hún kom yfir til mín og við gengum héðan upp í gegnum franska hverfið. Við kíktum í búðir og stoppuðum í hádegismat á tælenskum stað, fengum okkur vínglas með því það var að koma helgi.
Í gær laugardag fóru strákarnir í tónlistarskólann, Hugi byrjaði í síðustu viku og Stirnir fór í sinn fyrsta tíma í gær. Þetta er undirbúningur fyrir tónlistarnám, þau eru 7 saman í tímanum og kennt er bæði á ensku og kínversku, tveir kennarar.
Ég naut míns hvíldartíma á meðan og sat úti og las bók. Eftir tímann skoðuðu bræðurnir umhverfið, garðinn við skólann og klifruðu um allt. Ég spjallaði aðeins við kennarann þeirra um hvernig hefði gengið og hún var ánægð með einbeitinguna hjá þeim. Ben, sem vinnur þarna í skólanum var úti í garði með strákunum og elti þá um, hann var hræddur um að þeir meiddu sig í skoðunarleiðangrinum. Hann á engin börn og finnst þeir ansi uppátækjasamir. Ég er auðvitað hin rólegasta en mig grunar að Ben sé feginn þegar við yfirgefum svæðið.

Við fórum heim og biðum eftir heimsókn Magnúsar með Bogga og Örn. Magnús er búinn að vera grasekkill í viku eins og ég grasekkja. Þegar þeir komu fórum við beint í sund. Þar var mikið fjör að venju. Lífvörðurinn sem venjulega sinnir sínu starfi með bóklestri stóð upp til að áminna okkur um að leyfa fólki að synda á tveimur brautum, við tókum nefnilega alla laugina yfir. Eftir sundið fór Magnús með strákana í boltalandið á efri hæðinni og ég fór heim að elda mat. Þeir komu svo nokkurnveginn mátulega í lasagna, glorhungraðir eftir sundferðina. Strákarnir smella alltaf vel saman í leik og njóta þess að vera saman, það getur verið erfitt að slíta þá í sundur aftur. En það kom að kveðjustund eftir skemmtilega samveru og Hugi tók fram sippubandið þegar hann var búinn að kveðja strákana. Nokkrum mínútum síðar var hringt á bjöllunni hjá okkur, þá var það nágranninn niðri að biðja vægðar, hvort við gætum hætt að hoppa.
Dalla

Friday, March 02, 2007

Fyrsta vinnuvikan eftir frí hefur verið ljúf.
Við fundum okkur hús til leigu um síðustu helgi og skrifuðum undir samning í byrjun vikunnar. Við ætlum að flytja um næstu mánaðamót og hlakkar til að komast í íbúð þar sem við getum valið húsgögn eftir okkar smekk. Þetta er nýuppgert endaraðhús í franska hverfinu, skemmtilegt hverfi og líflegt.





Hver árgangur í skóla strákanna hefur safnað peningum til góðgerðastarfa með ýmsum hætti, annar bekkur var með kökubasar, kindergarten safnaði fötum og skóm og gaf til fátækra o.s.frv. Nú er komið að árgangi fyrsta bekkjar að láta gott af sér leiða í svokölluðu Community project. Ég fór á fund í skólanum á mánudag þar sem kona frá Shanghai Sunrise kynnti félagið sem safnar peningum til að styrkja fátæk börn til skólagöngu. Það er talið að 40.000 börn í Shanghai gangi ekki í skóla vegna fátæktar fjölskyldunnar. Skólarnir innheimta skólagjöld og þó þetta séu smápeningar í okkar augum geta fjölskyldur með undir 3.000 íkr í mánaðarinnkomu ekki séð af þeim peningum. Þar kemur Shanghai Sunrise til hjálpar.
Börnin í fyrsta bekk ætla að vinna sér inn peninga með því að aðstoða heima hjá sér, vinna ýmis smáverk og fá þannig vasapeninga sem renna til Shanghai Sunrise. Í lok verkefnisins fá börnin jafnvel að hitta börnin eða barnið sem þau styrkja til skólagöngu. Hugi tekur þátt í þessu og hann fer út með ruslið og les fyrir bróður sinn.

Í dag var vacky hairday í skólanum. Ég keypti ofursprey í hárið og þeir fóru bræðurnir með lokk upp í loftið af stað í morgun.





Ég fór inn í Stirnisbekk í morgun með tröllasögur og föndur. Krakkarnir voru öll flott um hárið og Mr. Flesher var með hártopp úr appelsínugulu garni og pípuhreinsara á víð og dreif til skrauts.



Stirnir var calendar helper dagsins. Þá segir hann: Í dag er föstudagur, í gær var fimmtudagur og á morgun er laugardagur! Svo syngja börnin um daga vikunnar. Þarna er Stirnir með Ms. Yuko sem er aðstoðarkennari.



Jina, Natasha, Naomi, Hanae og Mr. Flesher



Ian, Lucas og Danie



Undirrituð að störfum með límbyssuna

Eftir föndrið með fiðrildunum en bekkurinn er kallaður fiðrildabekkur fór ég í hádegismat með Lethe. Við fengum okkur mat frá héraði í Kína, Sichuan en þar er borðaður sterkur matur. Við borðuðum kjúkling með bambussprotum og chilipipar og tofu, mjög ljúffengt.
Svo prófaði ég nýjan hlut, við fórum á hárgreiðslustofu og létum þvo á okkur hárið. Það er algengt að gera þetta hérna en þá er hárið þvegið í stólnum, sjampó og smá vatn sett í þar og nuddað vel og lengi. Svo er hárið skolað í vaskinum og blásið á eftir. Þetta kostar svo mikið sem 10 RMB eða innan við 100 íkr. Þetta er kallað þurr þvottur, gan xi og sama orðið er notað yfir þurrhreinsun á fötum.



Þetta er sjálfsmynd af mér og hárgreiðsludömunni sem var nú ekki ánægð með myndatökuna.

Dalla