Friday, June 16, 2006


Þarna sjáið þið starfsmenn CCP Asia! Kjartan, Horace og Atli.

Þá erum við búin að vera viku í Kína. Ég er eiginlega hissa hvað við höfum aðlagast vel, hélt að bræðurnir myndu vera ómögulegir og biðja um að fara heim á hverjum degi en sú er ekki raunin. Þeir eru svo heppnir að hafa hvorn annan sem félaga og eru nokkuð góðir saman. Reyndar er alltaf einhver metingur í gangi, þeir vilja fá hlutina á undan hinum, meira eða betra. Ég man nú eftir þessum hlutum úr minni æsku, þetta er alveg eðlilegt. Flestum stundum eru þeir bestu vinir og hlæja mikið saman.
Við vorum að ræða áðan hvort þeir ætluðu að eignast konu og börn þegar þeir yrðu fullorðnir. Það þótti þeim ekki spennandi hugmynd og niðurstaðan var sú að þeir ætla að búa saman bræðurnir. Við Kjartan eigum von á matarboði hjá þeim og þegar Hugi hafði farið yfir það sem hann lærði í heimilisfræði í vetur var ákveðið að boðið yrði upp á pizzu á pítubrauði. Uppskriftin er þannig að sett er pizzusósa á hliðina á pítubrauðið, ostur þar ofaná og svona fer þetta inn í ofn.
Reyndar uppgötvaði Hugi það að þeir bræður þyrftu jafnvel ekkert að flytja að heiman, þeir gætu bara búið áfram heima hjá okkur, það væri hentugra. Ekki vildi ég draga úr honum með það og sagði að það væri sjálfsagt.
Við fórum í smárölt um hverfið í kringum hádegið. Við mættum manni sem var að selja kirsuber í körfu. Hann sýndi strákunum ofan í körfuna og það var ekki aftur snúið. Þeir byrjuðu að troða upp í sig, þeir þekkja kirsuber vel úr garðinum hans afa Emils í Frakklandi og þykja lostæti. Ég man eftir Huga 18 mánaða með rauða kirsuberjatauma á bumbunni. Þegar hann kom aftur til afa tveimur eða þremur árum seinna fór hann beint að kirsuberjatrénu og byrjaði að raða upp í sig. Ég keypti semsagt kirsuber í poka sem karlinn vigtaði á vog. Þau voru kannski aðeins of súr en það er ánægjulegt að vita að kirsuberjatíminn er að byrja.
Þegar við komum aftur heim mættum við Atla, Horace og Kjartani á leikvellinum. Yongjia kom líka út með hundinn. Hugi sótti tennisbolta og Table fékk að spreyta sig í eltingaleik. Að áskorun Atla var nýi fjarstýrði báturinn prufukeyrður á tjörninni. Hann var rosa flottur, ekta spíttbátur. Strákarnir stýrðu honum eins og herforingjar og voru með áforfendur, börnin flykktust að til að fylgjast með. Við keyptum semsagt bát þegar við vorum búin að kaupa fjarstýrðan bíl. Við foreldrarnir látum plata okkur stanslaust þegar Hugi segir með andvarpi:"Við eigum svo lítið dót í Kína!"
En við erum að verða staðfastari, erum t.d. ekki búin að kaupa rafmagnsbílinn sem hægt er að sitja í ennþá, þrátt fyrir margar beiðnir.
Kvöldið hefur verið rólegt, við vorum úti á leikvelli fram í myrkur. Ég spjallaði aðeins við bandarísk hjón sem búa hérna með 2 dætur. Þau eru reyndar að flytja í hús með garði, skil það ekki alveg, leikvöllurinn hérna er svo frábær og þótt strákarnir séu ekki að leika við krakkana ennþá eru þeir að byrja að kannast við krakkana og fylgjast með þeim.
Ég gerði tilraun til að kynnast nágrönnunum áðan. Við uppgötvuðum það þegar við ætluðum að opna rósavínsflöskuna að við eigum engan tappatogara. Ég fór í dyrnar við hliðina og barði dyra, eitthvað heyrðist fyrir innan en ég skildi það ekki þannig að ég ætti að bera upp erindið í gegnum hurðina. Nágranninn hefur líklega verið að mæla mig út í gegnum gægjugatið og ekki litist á þessa konu með vínflöskuna því ekki var opnað. Í næstu dyrum opnuðu 2 kínverskar konur, þar var flóðlýsing inni, virkaði eins og þetta væri fyrirtæki, virtist ekki heimilislegt. Þær áttu ekki tappatogara og afsökuðu það mikið. Síðasta vonin var að Kjartan hafði séð gamlan, franskan mann með hund á hæðinni, ég reyndi þær dyr en hann var ekki heima.
Kjartan sá svo aumur á mér og fór út í búð og keypti tappatogara, en við hugsuðum til fína tappatogarans okkar sem við fengum í brúðkaupsgjöf en er víst einhversstaðar í kjallaranum á Suðurgötunni.
Gambei á föstudagskvöldi, Dalla

No comments: