Tuesday, June 27, 2006

Þetta er Hugi Kjartansson karatekappi í búningnum!

Dagurinn var tiltölulega tíðindalaus, skóli í morgun. Það gerði reyndar mikið þrumuveður þegar krakkarnir áttu að vera í frímínútum svo Stirnir fór í leikkastalann sem er með þaki. Þar er boltaland, rennibrautir, trampólín,rólur og allskonar göng á tveimur hæðum, frekar flott. Hugi var í íþróttasalnum í fótbolta og fékk víst boltann bæði í magann og hausinn en ekki hlaust neinn skaði af.
Hugi er búinn að læra að segja heimilisfangið okkar á kínversku svo hann ætlar að taka að sér að tilkynna leigubílstjóranum um áfangastað næst þegar við tökum leigubíl. Hann er líka með tölurnar upp að tíu á hreinu og segir góðan daginni, takk og bless eins og herforingi. Horace dáist að kunnáttunni hjá honum. Að auki er hann farinn að borða með prjónum, æfði sig með því að tína upp í sig hnetur um daginn og borðaði svo heila núðlusúpu með prjónunum. Mér skilst að takmarkið sé að verða kínverji. Hann vill líka láta sólina skína á sig svo hann verði dökkur eins og kínverji. Hann er líka duglegur við að borða kínverska matinn, við borðuðum tofu áðan sem var ljúffengt að hans mati. Litli bróðir var ekki sannfærður um ágæti tofu og var settur í rúmið með skömm. Hann er nammigrís eins og mamma segir Hugi og er ekkert allt of duglegur við matarborðið þessa dagana.
Ég þurfti að fara aðra ferð í apótekið í dag vegna þess að Stirnir er með særindi á viðkvæmum stað. Ég reddaði mér þannig að Yongjia talaði við apótekarann í gegnum símann og útskýrði málið því þetta hefði orðið of erfiður leikþáttur. En ég var nokkuð stolt þegar kom að því að borga því þá skildi ég hver upphæðin var.
Kjartan er búinn að vera lasinn hérna heima en í tölvusambandi samt sem áður. Ég er því í eilífum ferðum í búðir til að sækja drykkjarföng og það sem sjúklingurinn óskar eftir. Verkefni morgundagsins er að kaupa straubretti því Daisy óskar eftir því, það sem er hérna í íbúðinni er ónothæft. Jane og Craig sögðu okkur það um daginn að Daisy væri þeirra Ayi upphaflega en nú væru kröftum hennar dreift á meðal kunningja Craigs. Hún var víst yfirmaður hjá stóru flutningafyrirtæki áður en hún varð Ayi en fær víst betur borgaði í Ayi-starfinu. Hún er hörkudugleg og talar ágæta ensku, talar bara svolítið hátt eins og margra kínverja er siður. Oft heldur maður að fólk sé í hörkurifrildi á götum úti, þetta er sama tilfinning og ég fékk á Spáni áður en ég byrjaði að skilja spænskuna, hélt að allir væru að rífast en svo kom annað í ljós.
Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Hæhæ
Alveg frábært að fá að fylgjast með ykkur, kíki oft inn á síðuna en ákvað að nú væri kominn tími til að setja inn nokkrar línur. Ég hef því miður ekki verið dugleg á minni heimasíðu en þó eru komnar nokkrar nýjar myndir og smá texti. Unnar er duglegur að æfa sig að ganga þessa dagana. Hann tók 7 skref um helgina en er svo varkár að þetta mun taka hann góðan tíma. Það hefur verið frekar leiðinlegt veður það sem af er sumarsins hér (að vísu gott í dag) en vonum við að það rætist úr því um helgina og í næstu viku því við erum að fara í sumarbústað í Dýrafjörð og hlökkum mikið til að fara því við höfum aldrei komið á Vestfirðina. Vonum að allt gangi áfram vel hjá ykkur. kærar kveðjur,Vera og co