Saturday, February 13, 2010

Eyja ammali

 

Í tilefni afmælis litla barnsins, Eyju sem er tveggja ára í dag, sunnudag ætla ég að splæsa í blogg, það hefur setið á hakanum mjög lengi.

Við erum ennþá á Íslandi, það er að segja hluti fjölskyldunnar, Kjartan er í Kína.  Við  höfum aðlagast íslenskum hversdagsleika nokkuð vel, strákarnir eru ánægðir í skólanum, eiga góða vini þar og sinna áhugamálum eins og tónlist, fimleikum og skátastarfi. Hugi er búinn að fara í tvær útilegur með skátunum og fékk klút og bronsmerki. Stirnir lærir á blokkflautu og kom fram með spilafélögunum í Stundinni okkar um jólin og söng jólalag. Það tók svolítinn tíma fyrir þá báða að venjast íslenskum skólatalsmáta aftur. Ég skildi ekki hvað Hugi meinti þegar hann kom heim einn daginn og sagðist hafa verið að bíta. Þá meinti hann bítta.

Lí fór aftur til Kína í nóvember. Hennar er sárt saknað og við erum í góðu sambandi við hana og notum skype til þess. Hún syngur jafnvel fyrir Eyju og spjallar við hana á kínversku. Lí fannst mjög merkilegt að þegar hún fór héðan voru hvítu íþróttaskórnir hennar enn hvítir og fínir þrátt fyrir göngutúra í þrjá mánuði um götur bæjarins. Í Sjanghæ, sagði hún að hvítir skór yrðu svartir eftir einn dag. Lí vinnur fyrir CCP í Kína núna, hún sér um morgunmat og hádegismat í mötuneyti skrifstofunnar og eflaust eru allir starfsmenn þar með matarást á henni.

Við Eyja sitjum ekki auðum höndum á daginn meðan strákarnir eru í skólanum. Við hittum vini á róló og líka í Hallgrímskirkju á miðvikudagsmorgnum. Þar hittast foreldrar og börn, spjalla og syngja. Eyja er sérstaklega hrifin af söngstundunum, dillar sér og fagnar á milli laga. Hún er mikil stemmningsmanneskja, hefur yndi af dansi og söng. Hún er farin að tala svolítið en mest talar hún með höndunum og út kemur meðfylgjandi orðaruna sem enginn skilur. Hún hefur bætt við íslenskuna en segir sum orð alltaf á kínversku. 

Nokkrar nýjar myndir frá heimilislífinu í Suðurgötunni:

IMG_6437  Eyja leikur sér með afmælisblöðrurnar sem voru blásnar upp í dag.

IMG_6427

 

IMG_6397

Hugi og Stirnir kíkja í tölvuna og Eyja með teikniborðið sem Lí sendi henni um jólin.

IMG_6367

Eyja borðar núðlur í hádeginu eins og öll kínversk börn og hún vill nota prjóna.

Dalla