Friday, June 23, 2006


Í morgun fórum við í lautarferð með skólanum, krakkar á þremur námskeiðum fóru þannig að líklega voru þetta rúmlega 30 krakkar. Við Kjartan fórum bæði með, ekki veitti af að hjálpa kennurunum að halda utan um hópinn. Við fórum með lestinni, reyndar bara eina stöð.
Áfangastaðurinn var Zongshan garður, ansi stór garður og skemmtilegur. Þarna eru leiktæki, pallur þar sem spiluð er tónlist og fólk dansar gömlu dansana, kallar að spila á einhverskonar strokhljóðfæri og bara stemmning.
Við breiddum úr okkur, borðuðum nesti og fórum í leiki. Hugi byrjaði að byggja tjald en tækin til þeirrar byggingar voru regnhlíf, sængurver og trélitir. Hann semsagt spennti út regnhlífina, lagði sængurverið yfir hana og festi niður með trélitunum sem hann rak niður eins og tjaldhæla. Það hefur aldrei vantað hugmyndaflug hjá þessum manni. Hann vildi nú endilega taka stóran pappakassa með líka en við gátum komið í veg fyrir það, ég vissi svosem hver þyrfti að bera þetta á endanum.
Við fjölskyldan ákváðum að vera lengur þegar lautarferðinni var formlega lokið og leigðum okkur bát. Hugi var stýrimaður og var orðinn nokkuð góður á þriðja hring, þetta var indælt að sigla þarna um.
Ég fór heim með strákana en Kjartan fór á lögreglustöð að sækja ýmis gögn og stimpla sem fyrirtæki í Kína þarf að hafa. Það virðist vera ansi flókið að stofna fyrirtæki hérna.
Dalla