Friday, June 30, 2006

Einn turnanna á XuJiaHui, svona sést hann heiman frá okkur, Kjartan kallar hann Lipstick tower.

Síðasti dagur á sumarnámskeiðinu í dag og svona líka skemmtilegur! Það voru vatnsleikir og krakkarnir áttu að mæta í sundfötum og söndulum. Það voru nokkrar stöðvar, á einni voru vatnsblöður, þar var skemmtilegt að setja blöðruna á stól og setjast síðan á hana og sprengja með miklum skvettugangi. Á annarri var hægt að sigla bátum sem þau bjuggu til í bala með vatni. Þau voru líka með fallhlíf sem allir krakkarnir halda í og svo var vatnsblaðra látin hoppa í miðjunni. Einnig var líka kapphlaup þar sem þau áttu að færa vatn úr einni fötu í aðra með því að fylla svamp af vatni og vinda ofan í hina fötuna. Bræðurnir voru hæstánægðir með þetta og Hugi var rennandi blautur eftir lætin, nokkrar blöðrur höfðu sprungið á honum greinilega.
Við kvöddum kennarana með söknuði en Mrs. Moore kennir á öðrum campus svo við sjáum lítið af henni í haust en kannski verður Ms. Laycock kennarinn hans Stirnis, hún kennir pre-kindergarten en það er bekkjarstigið sem hann fer í.
Ég er búin að vera að snuðra á göngunum meðan strákarnir voru á námskeiðinu og skoða verkefni sem krakkarnir voru að gera í vetur. Mér líst vel á skólann, verkefnin eru áhugaverð og vinnugleði virðist ríkja í þessum skóla. En við söknum samt líka Dvergasteins og Vesturbæjarskóla og frábæru kennaranna þar sem hafa hugsað um bræðurna af alúð.
Nú erum við þrjú komin í frí í 6 vikur þangað til skólinn byrjar um miðjan ágúst, ég þarf að finna eitthvað við að vera fyrir okkur sem verður ekki vandamál...
Seinni partinn kom Yongjia færandi hendi með Ísöld 2 handa strákunum. Þeir eru alltaf glaðir að sjá Yongjia og spyrja líka um Atla, þeir líta á þau sem mikla vini sína. Table litli er lasinn, eitthvað húðvandamál svo hann er geymdur heima þessa dagana. Það verður gaman þegar hann fer aftur á stjá.
Dalla

Thursday, June 29, 2006

Það var mikil framleiðsla á leirlistaverkum hérna síðdegis með Yongjia. Við plötuðum hana svo með okkur á sushistað hérna í næstu götu, "all you can eat". Þetta er ekki jafn raffineraður staður og færibandastaðurinn sem við fórum á í síðustu viku en mjög góður matur.
Þjónustustúlkurnar snerust í kringum strákana, þeir voru eins og stórstjörnur á staðnum, stundum stóðu þær þrjár yfir okkur og dáðust að þeim. Ein þeirra tók að sér að mata Stirni en hann var ekki sérstaklega hrifinn af réttum dagsins en þó lyftist á honum brúnin þegar eggin litlu komu á borðið á spjóti.
Hugi hinsvegar raðaði upp i sig sashimi, kolkrabba, laxi og fleiru, sushi ýmisskonar. Hann vakti enn meiri aðdáun þjónustustúlknanna þegar hann bað um kalt vatn á kínversku og þakkaði fyrir sig á sama tungumáli.
Það virðast margir halda að Stirnir sé stelpa, ekki er hann klæddur stelpulega, þeir eru oft eins klæddir bræðurnir. En kínverskar stúlkur eru feimnar að upplagi (eða "eiga" að vera það) og Stirnir er feimnari en stóri bróðirinn sem baðar sig í athyglinni og er þessvegna tekinn fyrir stelpu.
Þjónarnir voru farnir að hlaupa burt með strákana undir lok máltíðar, þá var feimnin horfin hjá Stirni, þeir heimsóttu víst eldhúsið og einhverja ranghala bakvið. Við vorum svo kvödd með virktum, lá við að allir á veitingahúsinu kveddu okkur, spurning samt hvort aðrir gestir voru ekki bara fegnir að sjá okkur fara því við fengum svo mikla athygli.
Dalla

Wednesday, June 28, 2006

Þessi mynd er nú hérna aðallega til að sýna krullurnar á Stirni, allir eru orðnir hrokkinhærðir í rakanum þó Hugi hafi nú alltaf vinninginn.

Við fórum í leiðangur eftir hádegið til að heimsækja amerískan skyndibitarisa, KFC virðist tröllríða Kína en nú fórum við til bróður hans, stóra M-sins. Maturinn braðgaðist eins og venjulega en það eru nú engin stórútgjöld í svona fjölskylduheimsókn, þetta kostaði heilar 430 krónur, fyrir okkur þrjú. Tíðindin voru helst sú að bræðurnir þurftu báðir á salerni, Hugi fór nú bara einn en þegar Stirnir þurfti líka, bað ég konu á næsta borði um að líta eftir Huga meðan við Stirnir brugðum okkur frá.
Þegar við komum út varð Huga að orði: "Það er ekkert kalt hérna í Kína!" Það voru orð að sönnu því 30 stiga hiti tók á móti okkur. Við fórum skrýtna leið heim og bræðurnir óttuðust á tímabili að við værum villt en ég sá grilla í háhýsi með stjörnukíki á þakinu sem er nú næsta hús við okkar svo við fundum rétta átt. Þeir höfðu eitthvað upp úr krafsinu í vegvillunni þegar við gengum nokkuð líflega verslunargötu, Hugi valdi sér jójó og Stirnir valdi sér Snoopylímmiða. Hugi er búinn að taka upp jójóæfingar og límmiðarnir lentu á hinum ýmsu stöðum, m.a. á nefinu á mér.
Ég sá líka að það er innrömmunarverkstæði hérna nálægt okkur, kannski ég fari með einhver listaverk bræðranna í innrömmun en það er stöðug framleiðsla á námskeiðinu, tígrisdýr, önd eða annað flott kemur heim á hverjum degi.
Meðan ég eldaði matinn skoðuðu feðgarnir mögulegar ferðir í sumarfríinu. Það myndaðist mikil spenna fyrir einum möguleika, við færum fréttir af því ef af verður.
Enskan síast strax aðeins inn hjá strákunum. Við vorum á leikvellinum í kvöld og þeir voru að leika sér á höfrungi sem sveiflast til og frá og söngluðu up and down, up and down.
Annars er ég búin að vera í líflegum og skemmtilegum bréfaskiptum og msn samskiptum við vini og vandamenn á Íslandi í dag, gaman að heyra frá ykkur elsku vinir!
Dalla

Tuesday, June 27, 2006

Þetta er Hugi Kjartansson karatekappi í búningnum!

Dagurinn var tiltölulega tíðindalaus, skóli í morgun. Það gerði reyndar mikið þrumuveður þegar krakkarnir áttu að vera í frímínútum svo Stirnir fór í leikkastalann sem er með þaki. Þar er boltaland, rennibrautir, trampólín,rólur og allskonar göng á tveimur hæðum, frekar flott. Hugi var í íþróttasalnum í fótbolta og fékk víst boltann bæði í magann og hausinn en ekki hlaust neinn skaði af.
Hugi er búinn að læra að segja heimilisfangið okkar á kínversku svo hann ætlar að taka að sér að tilkynna leigubílstjóranum um áfangastað næst þegar við tökum leigubíl. Hann er líka með tölurnar upp að tíu á hreinu og segir góðan daginni, takk og bless eins og herforingi. Horace dáist að kunnáttunni hjá honum. Að auki er hann farinn að borða með prjónum, æfði sig með því að tína upp í sig hnetur um daginn og borðaði svo heila núðlusúpu með prjónunum. Mér skilst að takmarkið sé að verða kínverji. Hann vill líka láta sólina skína á sig svo hann verði dökkur eins og kínverji. Hann er líka duglegur við að borða kínverska matinn, við borðuðum tofu áðan sem var ljúffengt að hans mati. Litli bróðir var ekki sannfærður um ágæti tofu og var settur í rúmið með skömm. Hann er nammigrís eins og mamma segir Hugi og er ekkert allt of duglegur við matarborðið þessa dagana.
Ég þurfti að fara aðra ferð í apótekið í dag vegna þess að Stirnir er með særindi á viðkvæmum stað. Ég reddaði mér þannig að Yongjia talaði við apótekarann í gegnum símann og útskýrði málið því þetta hefði orðið of erfiður leikþáttur. En ég var nokkuð stolt þegar kom að því að borga því þá skildi ég hver upphæðin var.
Kjartan er búinn að vera lasinn hérna heima en í tölvusambandi samt sem áður. Ég er því í eilífum ferðum í búðir til að sækja drykkjarföng og það sem sjúklingurinn óskar eftir. Verkefni morgundagsins er að kaupa straubretti því Daisy óskar eftir því, það sem er hérna í íbúðinni er ónothæft. Jane og Craig sögðu okkur það um daginn að Daisy væri þeirra Ayi upphaflega en nú væru kröftum hennar dreift á meðal kunningja Craigs. Hún var víst yfirmaður hjá stóru flutningafyrirtæki áður en hún varð Ayi en fær víst betur borgaði í Ayi-starfinu. Hún er hörkudugleg og talar ágæta ensku, talar bara svolítið hátt eins og margra kínverja er siður. Oft heldur maður að fólk sé í hörkurifrildi á götum úti, þetta er sama tilfinning og ég fékk á Spáni áður en ég byrjaði að skilja spænskuna, hélt að allir væru að rífast en svo kom annað í ljós.
Dalla

Monday, June 26, 2006

Stirnir er á "ekki taka mynd af mér" tímabilinu núna, svo þetta er svipurinn sem kemur þegar hann veit af því að það er verið að taka mynd af honum! Hann stendur sig þessvegna ekki vel í fyrirsætuhlutverkinu hjá kínverjum þessa dagana, felur sig bakvið rassinn á mér þeim til armæðu.

Þetta var bara ágætur mánudagur, skólinn gekk vel, Stirnir settist í fangið á kennaranum Mrs. Moore þegar hún var að lesa sögu fyrir hópinn svo hann er greinlega að færa sig upp á skaftið. Ég fylgdist með Huga í stórfiskaleik og fleiri leikjum á skólalóðinni og hann stendur sig vel, kennarinn útskýrir bara fyrir honum með bendingum og táknum og hann skilur til hvers er ætlast af honum.
Ég fékk nafnspjald hjá einni mömmunni í morgun með netfangi. Ég hef séð það að ég verð að fá mér nafnspjald, allar kellingar eru að skiptast á þessu. Algjört möst ef ég ætla að vera með í mömmuklíkunni.
Ég las grein í blaði um eiginkonur erlendra manna sem vinna í Shanghai (expats). Það er víst hægt að þekkja þær á því að þær eru með fullkomlega snyrtar hendur og líta út fyrir að vera mjög afslappaðar því þær eru líklega nýkomnar úr nuddi. Reyndar fjallaði greinin um það að þessi goðsögn um eiginkonurnar sem lifa eins og prinsessur sé ekki sönn því þær þurfi að hugsa um heimilið, börnin og fleira. En vandamálið sé að þeim tekst ekki að læra kínversku því þær séu í litlum tengslum við veröldina hérna, eru ekki úti á vinnumarkaðnum til dæmis. Þær hópa sig því saman.
Eiginmennirnir eru flestir að vinna mikið svo ekki fá þær stuðning frá þeim. Ég segi fyrir mitt leyti að þá þarf Kjartan oft að vinna á kvöldin vegna þess að þá er hann í sambandi við Ísland vegna tímamismunar, CCPmenn á Íslandi eru að mæta til vinnu þegar vinnudeginum ætti að vera að ljúka hér.
Við Kjartan stefnum á kínverskunám, hann er búinn að finna skóla hérna við hliðina, ætli hann byrji ekki og svo fer ég í ágúst þegar strákarnir byrja í skólanum. Mér finnst skrýtið að vera svona algjörlega mállaus. Ég þurfti að kaupa verkjalyf áðan og þurfti að leika höfuðverk í apótekinu og það gekk.
Ég fór með strákana út í mall hérna við hliðina á okkur seinni partinn, var að leita að söndulum fyrir mig og þurfti að fara í smá matarinnkaup líka. Ég var með bræðurna í kerrunni og tók því lyftuna milli hæða. Ég lenti hvað eftir annað í því að fólk tróð sér fram fyrir mig þegar ég var á leið inn í lyftuna og oft endaði það þannig að ég komst ekki með í lyftuna með kerruna. Biðraðamenning er semsagt ekki á háu stigi hérna, ég hefði haldið að svona fjölmenn þjóð væri þróuð að þessu leyti en hver virðist hugsa um sinn rass. Ég lendi líka í þessu í búðum, fólk sætir lagi að smeygja sér framfyrir. Þetta er það eina sem fer í taugarnar á mér í mínu daglega lífi hérna, samborgarar mínir eru yfirleitt mjög indælir og hjálplegir.
Þegar ég var með leikþáttinn í apótekinu tók ég eftir því þegar honum var lokið að strákarnir voru farnir að borða brauð, þá stóð kona þarna við hliðina og rétti þeim bita að brauði sem hún var sjálf að borða. Ég vona að þeir líti ekki út fyrir að vera illa nærðir hjá mér, það var eins og hún væri að gefa öndunum því hún rétti þeim alltaf meira og skoðaði þá vel meðan þeir voru að borða.
Ég ætla að forða mér yfir í annað herbergi, það er mýfluga hérna á sveimi í kringum mig.
Dalla

Sunday, June 25, 2006

Flott mynd sem ég fann, tekin fyrir helgi þegar veðrið var sem verst. Eldingunni slær þarna niður í Perluna sem við heimsóttum í dag. Plum season er byrjað hérna en þá getum við átt von á fellibyljum...
Dalla


Við slógumst í för með öðrum ferðamönnum í Shanghai og fórum niður á Bund á bökkum Huangpu árinnar, en þar eru margar flottar byggingar. Við sáum greinilega að þangað liggur leið ferðamanna því þetta er vinsæll viðkomustaður þeirra hérna í Shanghai.
Kjartan og Hugi standa þarna á Bund og hort er yfir til Pudong þar sem Perla Shanghai er staðsett, semsagt turninn þarna með kúlunum á. Við tókum ansi sýrða lest undir ána, vorum ein í litlum klefa og fyrir augu bar mikið ljósasjóv með hljóðeffektum. Á hluta leiðarinnar var eins og það væru draugar á brautinni, þá tók Hugi fyrir augun.
En við fórum upp í Perluna, fyrst í kúlu númer tvö sem þið sjáið á myndinni og svo upp í efstu kúlu í 350 metra hæð. Ég er greinilega í meðferð við lofthræðslunni og Kjartan og Hugi gera í því að stríða mér. Bentu mér á að við værum inni í kúlu svo ekkert væri undir fótunum á okkur. Þegar strákarnir lágu á rúðunni til að horfa niður sýndi Kjartan mér það líka að kíttið á rúðunni væri nú orðið lélegt, byrjað að detta af. En ég lifði þetta af og komst heil niður og án oföndunar.
Það er skrýtið með þessar moskítóflugur, strákarnir hafa alveg sloppið við bit en fótleggir okkar Kjartans eru þaktir bitum. Það hlýtur að vera veisla í hjónaherberginu á hverri nóttu hjá helv. flugunum en við erum svosem glöð yfir því að strákarnir skuli sleppa.
Dalla

Saturday, June 24, 2006

Myndin er úr lautarferðinni í gær, Ms. Laycock sem kennir Huga og Mrs. Moore sem kennir Stirni og hollensk mamma með vatnsflöskuna. Konan með sólhlífina í bakgrunni er mamma líka en það er nokkuð algengt að kínverskar konur gangi um með sólhlífar.

Laugardagurinn var rólegur framan af, strákarnir stripluðust hérna heima léku sér, lituðu og horfðu á barnatíma.
Atli kom seinnipartinn og við fórum með honum á írskan pöbb að hitta Craig og Jane. Craig er fyrrverandi vinnufélagi Atla en þau eru bresk hjónin. Við fengum okkur bjór og það var góð aðstaða fyrir krakkana þarna, leiktæki og svo fengu þeir bræður afhenta poka með litum, mynd til að lita og dóti svo þeir voru hæstánægðir. Það kemur alltaf síðdegisskúr þessa dagana og enginn smá skúr, algjört skýfall. Við vorum á hlaupum á milli borða, sátum fyrst hálf undir tjaldinu, fórum svo undir tjaldið þegar byrjaði að rigna en þá komu dropar í gegnum tjaldið svo við flúðum inn. Fólk kemur saman þarna til að horfa á HM en fyrsti leikur dagsins byrjar ekki fyrr en kl. 23 að okkar tíma. Þegar rúgbíleikur byrjaði á tjaldinu með tilheyrandi hávaða ákváðum við að skipta um stað og borða kvöldmat þar.
Við tipluðum á milli polla eða réttara sagt stórfljóta yfir í næstu götu þar sem við fengum borð á spænskum tapasstað. Sá staður er mjög fínn, góður matur og fallegt umhverfi. Staður handan götunnar heitir Dejá vu café og okkur Kjartani fannst þetta mjög Parísarlegt að sitja þarna og horfa út.
Ég fékk nokkur tips hjá Jane um hvað væri hægt að gera í Shanghai. Hún er nýbyrjuð að vinna nokkra daga í viku eftir að hafa svarað auglýsingu sem hljóðaði þannig: Leið húsmóðir sem vill komast út...
Dalla, ekki svo leið húsmóðir

Friday, June 23, 2006


Í morgun fórum við í lautarferð með skólanum, krakkar á þremur námskeiðum fóru þannig að líklega voru þetta rúmlega 30 krakkar. Við Kjartan fórum bæði með, ekki veitti af að hjálpa kennurunum að halda utan um hópinn. Við fórum með lestinni, reyndar bara eina stöð.
Áfangastaðurinn var Zongshan garður, ansi stór garður og skemmtilegur. Þarna eru leiktæki, pallur þar sem spiluð er tónlist og fólk dansar gömlu dansana, kallar að spila á einhverskonar strokhljóðfæri og bara stemmning.
Við breiddum úr okkur, borðuðum nesti og fórum í leiki. Hugi byrjaði að byggja tjald en tækin til þeirrar byggingar voru regnhlíf, sængurver og trélitir. Hann semsagt spennti út regnhlífina, lagði sængurverið yfir hana og festi niður með trélitunum sem hann rak niður eins og tjaldhæla. Það hefur aldrei vantað hugmyndaflug hjá þessum manni. Hann vildi nú endilega taka stóran pappakassa með líka en við gátum komið í veg fyrir það, ég vissi svosem hver þyrfti að bera þetta á endanum.
Við fjölskyldan ákváðum að vera lengur þegar lautarferðinni var formlega lokið og leigðum okkur bát. Hugi var stýrimaður og var orðinn nokkuð góður á þriðja hring, þetta var indælt að sigla þarna um.
Ég fór heim með strákana en Kjartan fór á lögreglustöð að sækja ýmis gögn og stimpla sem fyrirtæki í Kína þarf að hafa. Það virðist vera ansi flókið að stofna fyrirtæki hérna.
Dalla

Thursday, June 22, 2006

Strákarnir vöknuðu hressir kl. 6 í morgun, við tókum bara leigubíl í morgun, nenntum ekki í lestarferðina. Stirnir kyssti mig bless fyrir utan skólastofuna og gekk svo bara inn án þess að líta til baka. Hugi fór líka glaður á sitt námskeið.
Ég náði hálftíma blundi á bekk fyrir utan skólann með töskuna undir höfðinu, var nú samt hálfkrumpuð þegar strákarnir voru búnir. Kennari Stirnis sagði mér að hann hefði sungið með í söngstundinni. Þeir gerðu báðir trúða og Hugi gerði stærðfræðiverkefni líka.
Seinnipartinn fórum við í vinnuna til Kjartans að sækja hann. Við lentum í úrhelli á leiðinni heim, göturnar fylltust af vatni, algjört Nóaflóð. Það var gaman að labba heim í rigningunni, eldingunum og þrumunum. Hugi settist út á svalir þegar heim var komið til að fylgjast með eldingunum, rosa spennandi.
Hann Moli okkar er lasinn þessa dagana, við fáum þær fréttir frá Íslandi. Hann verður átta ára í júlí og er orðinn hjartveikur og með gláku í augunum. Hann er þó að hjarna við samkvæmt nýjustu fréttum, við hugsum til hans og vonum að honum líði betur.

Dalla

Wednesday, June 21, 2006

Stirnir og Kjartan á Pu Dong flugvelli. Pu er áin sem rennur hérna í gegn og dong er austur svo flugvöllurinn er austan við ána Pu.

Við fórum á sumarnámskeiðið í morgun eins og aðra daga. Allt gekk vel, Stirnir vildi hafa mig með en ég hvarf í frímínútunum og hann virtist ekki vera ósáttur við það.
Kennarinn hans Huga segir að hann sé greinilega félagslega sterkur, hann er farinn að hafa einhverskonar samskipti við krakkana. Hún segir líka að hann sé duglegur að lesa í andlit og skilji þá um hvað sé verið að tala. Hann segir þetta líka sjálfur, ég veit alveg hvað á að gera! Hann er strax farinn að pikka upp orð og segir þau hérna heima og spyr um merkingu ef hann er ekki viss. Við hjálpumst líka að við kínverskuna, hann minnir mig á hvernig á að biðja um ískalt vatn og fleira. Hann er líka mikill aðstoðarmaður á lestarferðalögum okkar, passar að rassinn á mér verði ekki eftir úti þegar lestin lokast o.s.frv.
Ég spjallaði við kennarann hans Stirnis í morgun, þau eru hérna bæði hjónin að kenna við skólann, þau koma frá Kanada. Hún virðist vera ánægð með aðbúnað kennaranna og sagði að skólinn taki vel á móti nýjum kennurum og hjálpar þeim að aðlagast. Mér finnst gott að heyra að starfsfólkið sé ánægt, það skilar sér örugglega í góðu starfi í skólanum. Hún sagði mér að heimilislæknirinn hennar hefði tilkynnt henni að hún væri að fara í gegnum "mid life crisis" þegar hún sagði honum frá Kínaflutningum. Spurning hvort við Kjartan séum líka í einhvers konar leit, ég vil nú ekki viðurkenna að við séum orðin miðaldra ennþá.
Yngstu krakkarnir á sumarnámskeiðunum ætla í lautarferði í garð í nágrenni skólans á föstudaginn og ég ætla að fara með. Kjartan ætlar jafnvel að koma líka.
Seinni partinn ákvað ég að fara að tékka á líkamsræktinni. Ég fór í pallatíma, ekki get ég sagt að það hafi vakið upp góðar minningar, aldrei þótti mér þetta pallapúl skemmtilegt. Afhverju þurfa kennarar líka alltaf að búa til einhverjar hrikalega flóknar rútínur í kringum þennan pall? Þeir eru örugglega svo leiðir á helv. pallinum að þeir þurfa að gera þetta flókið fyrir aumingja nemendurna. Hugi fylgdist með og fannst ég voða dugleg, hann fékk sér líka pall og fíflaðist á honum á milli þess sem hann var í leikherberginu með einum karatefélaganum.
Ég ætlaði að elda önd í kvöld, setja hana inn í ofn. Það kom í ljós þegar ég kveikti á ofninum að það sló allt út í eldhúsinu svo ekki fór öndin í ofninn. Ég varð ægilega fúl yfir þessu en náði að skera eitthvað utan af öndinni og steikja á pönnu svo strákarnir nöguðu andarlæri í kvöldmatinn.
Dalla

Tuesday, June 20, 2006

Hugi og Stirnir við eitt af ljónunum sem virðast passa margar byggingar hér, þeir segja að þau passi að draugarnir komi ekki inn í húsin.

Sumarnámskeiðið gekk betur í dag en í gær!
Við komumst áfallalaust á áfangastað með lestinni, Stirnir spyr mikið um öll bannskiltin í lestunum og á stöðvunum. Ég þyl þetta upp: Bannað að hrækja, bannað að reykja, bannað að henda rusli, bannað að hafa sprengju í tösku. Svo á að passa sig að klemma ekki puttana á milli þegar lestin lokast og vara sig á gatinu milli lestar og brautarpalls. Hann er nú farinn að kunna þetta núna en ef hann sér bannskilti á götu úti þarf ég alltaf að tilkynna hvert bannið er í það skiptið.
Strákarnir fóru í sitthvorn hópinn í dag. Hugi kvaddi mig eins og ekkert væri og gekk inn í hópinn, þau voru að skrifa og hann sagðist hafa skrifað á ensku, eitthvað summer, semsagt um sumarið.
Stirnir vildi hafa mig inni hjá sér og ég sat úti í horni og fylgdist með. Þau byrjuðu á samveru allur hópurinn og sungu lag um nöfn barnanna. Þá var val og Stirnir valdi einskonar sulluvask, fat með vatni og dóti ofaní. Hann prófaði sig svo áfram, fór í legó, matardót og teiknaði sjálfsmynd. Þá voru frímínútur og allir fóru út. Ég fylgdi krökkunum ekki inn aftur heldur hélt til á bekk fyrir utan með bókina mína. Hugi var líka í frímínútum á sama tíma og var byrjaður að elta strák, einhver apaleikur því hinn sagði monkey. Hann var voða glaður með þetta allt saman.
Þegar námskeiðinu lauk voru þeir báðir mjög glaðir og vilja ólmir fara aftur á morgun. Hugi sagðist hafa kynnst tveimur strákum, vonandi verða þeir góðir vinir, jafn góðir og Bubbi og fleiri en hann orðaði þetta fallega við Huga áður en hann fór til Shanghai: Vonandi eignastu jafn góðan vin og mig í Kína!
Við fórum líka heim með lestinni en héldum okkur inni við þangað til seinni partinn, það var of heitt fyrir útiveru. Þá fórum við á leikvöllinn, Stirnir vakti athygli þegar hann girti niður um sig á miðjum leikvellinum. Hann var leiddur út í gras til að pissa. Hugi fékk strák til að skylmast við sig. Ég spjallaði við kínverska konu sem býr hérna, hún er gift japana og var þarna með mömmu sinni og 5 mánaða syni. Hún var hissa á því að ég væri ein með drengina allan daginn, hvort ég hefði enga hjálp. Ég sagðist vera með Ayi til að þrífa en hún sagðist fá konu heim alla daga í fjóra klukkutíma til að þrífa hjá sér.
Hugi óskaði eftir sushi í kvöldmatinn svo við fórum á svona færibandasushistað hérna í nágrenninu. Strákarnir stóðu sig vel, borðuðu vel af fiski, ekki höfum við borðað mikinn fisk síðan við komum hingað svo þetta var kærkomin tilbreyting.
Við erum alltaf að æfa okkur í að telja á kínversku og Kjartan leggur fyrir okkur þrautir, segja 37 o.s.frv. Þegar við fórum niður í lyftunni áðan vorum við á leið niður á fyrstu hæð. Hugi benti á töluna 1 í lyftunni og sagði við konu sem var samferða okkur, í en það er einn á kínversku. Konunni fannst þetta frekar flott hjá honum. Hann kann að sjarmera drengurinn.
Það eru nú ekki bara konur sem veita þeim bræðrum athygli á götum úti, kallarnir eru líka spenntir fyrir þeim. Í dag voru tveir menn að reyna að taka mynd af þeim með símunum sínum á götu. Stirnir var nú ekki til í tuskið í þetta skipti en Hugi stillti sér upp með grettu og hálfgerða kryppu á bakinu. Allir vegfarendur voru farnir að horfa og benda á drenginn sem naut athyglinnar.
Takk fyrir falleg komment kæru lesendur!

Dalla

Monday, June 19, 2006

Ég ákvað að setja bara mynd af sjálfri mér inn í dag, allir fjölskyldumeðlimir nema undirrituð hafa birst á mynd. Ég sit þarna fyrir framan Haagen Dazs ísbúðina á HuZiaHuei. Á Parísarárum mínum afgreiddi ég ís á Haagen Dazs í latínuhverfinu, þetta var svona kvöld og helgarvinna fátæka námsmannsins. Hugi tók myndina.
Við fórum í skóla bræðranna í morgun. Okkur gekk illa að fá leigubíl en það tókst að lokum. Strákarnir eru að byrja á sumarnámskeiði í 2 vikur. Þeir verða hálfan daginn, frá hálfníu til tólf. Skólinn er lítill og krúttlegur, húsnæðið komið til ára sinna. Á sömu lóð er risastór kínverskur stúlknaskóli og eru stundum spiluð tónlist í hátölurum á íþróttavellinum og ýmsar tilkynningar líka. Stúlkurnar voru að æfa sig í badminton og blaki í morgun og flissuðu mikið. Ég sat úti og las, krimma sem gerist í Shanghai, takk Pétur fyrir bækurnar! Ekkert betra en að kynnast borg í gegnum glæpastarfsemi, ýmsar lýsingar á borginni og ýmsum réttum sem löggurnar gæða sér á.
Bræðurnir voru á einhverskonar enskunámskeiði en þeir ætla að skipta á morgun og fara á leikjanámskeið/fun camp.
Þegar strákarnir voru búnir tókum við leigubíl heim, höfðum ekki orku í lestina. Það verður heitara með hverjum deginum, þetta er sýnishorn af því hvernig þetta verður í júlí og ágúst.
Leigubílarnir eru með hvít einhverskonar teygjulök yfir sætunum og það fyrsta sem Stirnir gerði þegar hann kom upp í bílinn var að reka skóinn í sætið og skíta það út. Bílstjórinn var nú ekki ánægður með það og lét það í ljós. Ég lét það nú ekki slá mig út af laginu heldur tók við að þylja upp á kínversku hvert förinni væri heitið. Mér tókst bara vel til því heim komumst við.
Ekkert sést til sætisbelta í Shanghai-skum leigubílum svo við dinglum bara laus í aftursætinu. Mér er nú frekar illa við þetta en það er lítið að gera í því. Ég ætla að reyna að taka lestina með strákana á morgun, hún ætti að vera öruggari. Bara meira stress að koma þeim tveimur áfram í gegnum mannþröngina. Ég hef heyrt af því að verðirnir á lestarstöðvunum ýti á eftir fólkinu inn í lestina með stöngum á háannatíma, svona lárétt., Þú hlýtur að vera eins og sardína í dós þegar þeir þjappa svona rosalega. Vona að ég eigi ekki eftir að upplifa það.
En planið er að drengirnir verði sóttir í skólabíl þegar skólinn byrjar í ágúst, þar eiga að vera belti í sætunum.
Við tókum spíttbátinn aðeins út í dag og sigldum hérna á tjörninni. Við vorum frekar klaufsk og sigldum tvisvar inn í plöntur sem komnar eru í tjörnina og festum bátinn. Sem betur fer var maður í vöðlum að þrífa tjörnina og hann var í fullri vinnu við að bjarga bátnum fyrir okkur.
Ég fór svo í innkaup seinni partinn með Atla og Yongjia, fékk góða aðstoð frá þeim við matarinnkaupin. Ég fann ost sem strákunum þykir góður og fleira sem fellur að þeirra smekk. Hugi var svo vonsvikinn yfir samlokunni sem hann fékk með sér í skólann í morgun, hann vill Gottaost og Heimilisbrauð. Næsta verkefni er að finna rétta brauðið. Kínverjar borða ekki mikið af mjólkurvörum yfirleitt og ekki borða þeir heldur mikið að brauði ef ég dæmi eftir úrvalinu.
Við þurfum að breyta mataræðinu hægt og sígandi.
Dalla

Sunday, June 18, 2006

Þetta er ekki geimflaug heldur Marriotthótelið þar sem við drukkum þjóðhátíðarkaffið í gær á 38. hæð. Þarna efst uppi!

Engin 18. júní þynnka, bara vaknað til að fara í karate í morgun! Stirnir fylgdi okkur Huga og lék sér í leikherberginu í líkamsræktinni meðan stóri bróðir lærði spörk og fleira. Hugi fékk afhentan búning þegar hann mætti og þáði aðstoð kennarans við að klæðast honum. Ég var voðalega stolt af honum, hann stóð sig vel.
Við fórum í Vísindasafnið eftir hádegi. Tókum neðanjarðarlestina, þurftum að skipta einu sinni um línu. Strákunum tekst alltaf að snapa sér sæti í lestinni, fólk togar í þá og býður þeim sæti en við foreldrarnir húkum upp við stöng.
Þetta safn er svakalega flott. Bendi barnafólki og öðrum sem eru að íhuga heimsókn til Shanghai á það að þangað verðið þið að fara. Við fórum í gegnum leyndardóma jarðarinnar, sáum steina og steingervinga, eldgos og jarðskjálfta og hvernig olía er sótt ofan í jörðina. Við sáum líka vélmenni og eldflaugar og enduðum á því að fara á Imax - þrívíddarbíósýningu sem fjallaði um geimstöðvar. Það var frekar fyndið að sitja þarna, öll fjölskyldan með risastór gleraugu í bíóinu. Strákarnir réttu nokkrum sinnum út höndina til að snerta það sem fyrir augu bar.
Undirrituð fékk fyrstu kínversku magapínuna í gærkvöldi eftir blogg-skrif. Magapínan og ónotin endaðu með því að ítalski kvöldverðurinn fór í postulínið. Ekki urðu neinir eftirmálar, heilsan verið góð í dag.
Spennandi dagur á morgun, meira um það annað kvöld.
Dalla

Saturday, June 17, 2006



Þetta var frekar óhefðbundinn 17. júní hérna í Shanghai. Við fórum reyndar í áttina niður í bæ og það var fullt af fólki á götunum en það eina sem við gerðum til að minna okkur á lýðveldisdaginn voru helíumblöður sem strákarnir fengu. Hugi valdi sér hjarta með höndum og Stirnir valdi sér fugl sem hann kallaði skrímsli. Huga blaðra sveif á brott 5 mínútum eftir viðtöku og býsnaðist hann mikið yfir því að kínverjar væru ekki góðir í að festa band í blöðru. Það var nú enginn grátur en hann lýsti því yfir að hann hefði fengið verk í hjartað þegar hann horfði á eftir henni út í geiminn.
Stirnis blaðra lifði aðeins lengur, fór á veitingastað og var geymd inni í skáp þar á meðan við borðuðum kvöldmatinn. Á heimleiðinni þegar við vorum á leið framhjá búðinni þar sem blöðrurnar voru keyptar gaf bandið sig líka og blaðran sveit í áttina heim, og festist undir þakskyggninu.
Við löbbuðum heilmikið í dag, byrjuðum reyndar á því að fylgja Kjartani í klippingu svo hann er orðinn fínn um höfuðið. Strákarnir settust í stólana á hárgreiðslustofunni og hárgreiðslufólkið byrjaði að fikta í hárinu á þeim og spurði hvort þetta væru náttúrulegir liðir í okkur öllum. Ég hef nú ekki verið þekkt fyrir að vera hrokkinhærð en það koma krulla eða tvær í hárið á mér hérna í rakanum.
Eftir nokkra göngu fórum við inn á Marriott hótelið og settumst á barinn þar á 38. hæð. Litla mömmuhjartað sló hraðar þegar strákarnir dönsuðu við gluggarúðuna þarna uppi. Kjartan sagði þeim að koma við rúðuna og athuga hvort hún væri föst og þá tók ég andköf. Ég er orðin svo lofthrædd með árunum að þetta leist mér ekki á, þoldi varla að horfa á strákana við gluggann.
Það var samt fróðlegt að sitja þarna uppi og horfa yfir borgina. Reyndar er yfirleitt mistur (eða mengun) yfir borginni svo ekki er sérstaklega víðsýnt. Strákarnir komu auga á leiktæki í garði þarna fyrir neðan svo við héldum þangað eftir drykkinn, ísinn og samlokuna á Marriott.
Við enduðum daginn á ítölskum veitingastað hérna í nágrenninu, vorum svo heppin að fá borð úti á svölum sem var notalegt í kvöldhitanum. Atli og Yongjia hittu okkur á veitingastaðnum svo félagsskapurinn var góður.
Það er gaman að segja frá því að bræðurnir fá alltaf góðar móttökur á veitingastöðum, það er dekrað við þá af starfsfólkinu, enginn pirringur yfir því að fá oft háværa stráka sem eiga stundum erfitt með að sitja kyrrir. Alltaf er tekið á móti okkur með brosi.
Á leiðinni heim braust út mikill blöðrubardagi en strákarnir voru vopnaðir blöðrum, ansi löngum sem voru notuð sem sverð. Ekki hlutust nein meiðsl af þessu en margir í mannþrönginni fengu högg og þá undir beltisstað. Myndirnar eru teknar þegar bardaginn stóð yfir. Þreyttir strákar lognuðust út af eftir kvöldbaðið og hringingu heim þar sem afa var óskað til hamingju með það að vera heiðurslistamaður Mosfellsbæjar.
Dalla

Friday, June 16, 2006


Þarna sjáið þið starfsmenn CCP Asia! Kjartan, Horace og Atli.

Þá erum við búin að vera viku í Kína. Ég er eiginlega hissa hvað við höfum aðlagast vel, hélt að bræðurnir myndu vera ómögulegir og biðja um að fara heim á hverjum degi en sú er ekki raunin. Þeir eru svo heppnir að hafa hvorn annan sem félaga og eru nokkuð góðir saman. Reyndar er alltaf einhver metingur í gangi, þeir vilja fá hlutina á undan hinum, meira eða betra. Ég man nú eftir þessum hlutum úr minni æsku, þetta er alveg eðlilegt. Flestum stundum eru þeir bestu vinir og hlæja mikið saman.
Við vorum að ræða áðan hvort þeir ætluðu að eignast konu og börn þegar þeir yrðu fullorðnir. Það þótti þeim ekki spennandi hugmynd og niðurstaðan var sú að þeir ætla að búa saman bræðurnir. Við Kjartan eigum von á matarboði hjá þeim og þegar Hugi hafði farið yfir það sem hann lærði í heimilisfræði í vetur var ákveðið að boðið yrði upp á pizzu á pítubrauði. Uppskriftin er þannig að sett er pizzusósa á hliðina á pítubrauðið, ostur þar ofaná og svona fer þetta inn í ofn.
Reyndar uppgötvaði Hugi það að þeir bræður þyrftu jafnvel ekkert að flytja að heiman, þeir gætu bara búið áfram heima hjá okkur, það væri hentugra. Ekki vildi ég draga úr honum með það og sagði að það væri sjálfsagt.
Við fórum í smárölt um hverfið í kringum hádegið. Við mættum manni sem var að selja kirsuber í körfu. Hann sýndi strákunum ofan í körfuna og það var ekki aftur snúið. Þeir byrjuðu að troða upp í sig, þeir þekkja kirsuber vel úr garðinum hans afa Emils í Frakklandi og þykja lostæti. Ég man eftir Huga 18 mánaða með rauða kirsuberjatauma á bumbunni. Þegar hann kom aftur til afa tveimur eða þremur árum seinna fór hann beint að kirsuberjatrénu og byrjaði að raða upp í sig. Ég keypti semsagt kirsuber í poka sem karlinn vigtaði á vog. Þau voru kannski aðeins of súr en það er ánægjulegt að vita að kirsuberjatíminn er að byrja.
Þegar við komum aftur heim mættum við Atla, Horace og Kjartani á leikvellinum. Yongjia kom líka út með hundinn. Hugi sótti tennisbolta og Table fékk að spreyta sig í eltingaleik. Að áskorun Atla var nýi fjarstýrði báturinn prufukeyrður á tjörninni. Hann var rosa flottur, ekta spíttbátur. Strákarnir stýrðu honum eins og herforingjar og voru með áforfendur, börnin flykktust að til að fylgjast með. Við keyptum semsagt bát þegar við vorum búin að kaupa fjarstýrðan bíl. Við foreldrarnir látum plata okkur stanslaust þegar Hugi segir með andvarpi:"Við eigum svo lítið dót í Kína!"
En við erum að verða staðfastari, erum t.d. ekki búin að kaupa rafmagnsbílinn sem hægt er að sitja í ennþá, þrátt fyrir margar beiðnir.
Kvöldið hefur verið rólegt, við vorum úti á leikvelli fram í myrkur. Ég spjallaði aðeins við bandarísk hjón sem búa hérna með 2 dætur. Þau eru reyndar að flytja í hús með garði, skil það ekki alveg, leikvöllurinn hérna er svo frábær og þótt strákarnir séu ekki að leika við krakkana ennþá eru þeir að byrja að kannast við krakkana og fylgjast með þeim.
Ég gerði tilraun til að kynnast nágrönnunum áðan. Við uppgötvuðum það þegar við ætluðum að opna rósavínsflöskuna að við eigum engan tappatogara. Ég fór í dyrnar við hliðina og barði dyra, eitthvað heyrðist fyrir innan en ég skildi það ekki þannig að ég ætti að bera upp erindið í gegnum hurðina. Nágranninn hefur líklega verið að mæla mig út í gegnum gægjugatið og ekki litist á þessa konu með vínflöskuna því ekki var opnað. Í næstu dyrum opnuðu 2 kínverskar konur, þar var flóðlýsing inni, virkaði eins og þetta væri fyrirtæki, virtist ekki heimilislegt. Þær áttu ekki tappatogara og afsökuðu það mikið. Síðasta vonin var að Kjartan hafði séð gamlan, franskan mann með hund á hæðinni, ég reyndi þær dyr en hann var ekki heima.
Kjartan sá svo aumur á mér og fór út í búð og keypti tappatogara, en við hugsuðum til fína tappatogarans okkar sem við fengum í brúðkaupsgjöf en er víst einhversstaðar í kjallaranum á Suðurgötunni.
Gambei á föstudagskvöldi, Dalla

Thursday, June 15, 2006


Mikill innkaupadagur í dag! Við byrjuðum á leikvellinum, mér finnast vera að bætast við krakkar þar, kannski eru sumarfríin að byrja í skólunum og þá verða skólakrakkarnir meira heima við.
Við fórum í kjörbúðina okkar sem er hérna handan við hornið til að sækja okkur hádegismat. Það versta við þá búð er að við þurfum að ganga eins og 200 metra á hjólabraut, þar er semsagt engin gangstétt. Ég þarf sífellt að draga Stirni til mín og líka Huga því þeir gleyma sér og ráfa út á brautina og þá er voðinn vís, þarna fara um bæði reiðhjól og mótorhjól. Hjólafólkið hægir varla á sér og ekki stoppar það þó gangandi vegfarendur séu á ferli. Það liggur við að hjólafólkið sé hættulegra en bílarnir sem virðast þó koma úr öllum áttum. Ég lít oft í allar áttir þegar við förum yfir götu, Hugi er líka mjög passasamur en Stirnir er meira fiðrildi og fylgist ekki með okkur hinum, en við höfum hann bara í gjörgæslu. Það er skemmtilegt að sjá hvað er flutt á hjólunum eða á kerrum dregnum af hjólum, í dag sá ég tvo menn, annar var með hægindastól í eftirdragi og hinn var með heilan stóran sófa.
Innkaupaferðin var svosem tíðindalaus fyrir utan það þegar við vorum í grænmetishluta búðarinnar þá sat þar sölukona á kolli og borðaði hádegismatinn sinn. Hugi fór eitthvað að frýnast ofan í dolluna hjá henni og áður en ég vissi var hann kominn með brauð í hendurnar og hún setti feitan kjötbita úr dollunni inn í brauðið. Hann át þetta svo með bestu lyst. Ég þakkaði fyrir drenginn, en skammaðist mín nú frekar mikið, gat ekki séð að það væru margir kjötbitar í dollunni hjá henni.
Við höfðum greinilega ekki skoðað búðina nógu vel síðast því nú rákumst við á tanka með lifandi fiskum og froskum líka. Ætli þeir slægji þetta ekki fyrir mann í versluninni, varla þarf maður að fara með fiskinn spriklandi heim í poka.
Seinni partinn ákváðum við að fara í stærri innkaup og héldum í leigubíl í Carrefour sem er frönsk verslunarkeðja, sú stærsta víst í Kína. Við ætluðum að kanna hvað þar væri að fá. Þar er mikill sælkeramarkaður, ótal fiskategundir, froskar og skjaldbökur lifandi í tönkum . Franskir ostar og pylsur (saucisson) og annað góðgæti. Verðið á ostunum var nú hærra en heima á Íslandi svo við rétt tímdum að kaupa okkur einn Emmental (músaost). Í víndeildinni vorum við ávörpuð á frönsku, ætli það sé ekki venja að ávarpa útlendingana svona en við fengum ráð hjá kjallarameistaranum og fjárfestum í rósavíni, gott að drekka það í hitanum.
Þverhausarnir Hugi og Stirnir ætluðu nú ekki að fást til að fara í stuttbuxur og stuttermabol fyrstu dagana, fannst þeir ekki vera fullklæddir. Það var nú komið í gegn en Stirnir lýsti því yfir að aldrei myndi hann fara í skófatnað sem nefnist sandalar. Svo vel vildi til að í Carrefour fengust þessir fínu sandalar með ljósi sem blikkar þegar fast er stigið til jarðar. Þarna varð Stirnir loks áhugasamur og baráttan er unnin ;-)
Hitastigið hefur gælt við 30 stigin síðustu daga, ég sá á veðurspá að rakaprósentan væri 65 svo við erum ansi þvöl hérna á daginn.
En svo við höldum okkur við innkaupin þá lá leiðin næst í herradeildina. Kjartan hefur ekki verið mikið fatafrík í gegnum tíðina en nú var komið mál á að fjárfesta í styttri buxum á hann. Daisy nefndi víst við hann að þegar eiginkonan kæmi ætti hún að fara með hann í fataleiðangur, hún var víst orðin leið á að þvo af honum sömu bolina og buxurnar.
En þetta fór þannig fram að ég fann til buxur og Hugi færði Kjartani í mátunarklefann þangaði til hann kom og tilkynnti: "Mamma, ekki láta pabba máta meira, hann er að deyja úr hita."
Ekki vildi ég bera ábyrgð á dauða Kjartans en ég er ekki viss um að Daisy verði ánægð með magnið sem var keypt. Sjáum til...
Strákarnir hafa unað sér við byggingastarfsemi á milli verslunarferða. Kassinn utan af sjónvarpinu varð að geimflaug í morgun og seinni partinn breyttist hann í bíl. Ég aðstoða við að skera út og líma en þarna er Hugi alveg í essinu sínu. Við skoðuðum vefsíðuna hjá vísindasafninu hérna og Hugi varð spenntur þegar hann sá að krakkar mættu byggja þar. Hann vildi fara strax í dag en við stefnum á ferð þangað á laugardaginn.
Þið megið alveg senda inn komment! Gaman að vita hver er að lesa.
Myndin er frá ævintýralandinu súrrealíska á sunnudaginn.
Dalla

Wednesday, June 14, 2006


Nú má ég segja frá heimsmetinu sem var sett á mánudaginn, daginn sem EVE online fór í loftið í Kína. Það var sett met í spilurum sem spiluðu samtímis í sama heiminum, nærri 27.000 manns. Og þetta gekk bara stóráfallalaust fyrir sig. Nærri 200.000 áskrifendur voru búnir að skrá sig síðast þegar ég vissi. Til hamingju CCP og Optic í Kína!
En í okkar litla heimi fórum við bara snemma af stað, vorum komin út í sundlaug fyrir hádegi. Þá vorum við svo óheppin að sundlaugin lokar í hádeginu vegna hreinsunar. Það er nefnilega alltaf verið að þrífa hérna í kringum okkur, mjög hreinlegt. Stöðugt er verið að taka upp rusl hérna á lóðinni,veiða laufblöð úr tjörninni með gosbrunninum og ég sá mann skúra hornin á blómakerjunum en þau eru vinsæll viðkomustaður hundanna á svæðinu. Ég gæti ekki ímyndað mér mann ganga um Vesturbæinn og þrífa vinsælu hornin hans Mola og félaga.
Stefnan var tekin á KFC en loforð hafði verið tekið af mér í gær um að þarna yrði borðaður hádegisverður. Ég fékk mér nokkurskonar tvister með kínversku yfirbragði því það var hnetusósa á honum, mjög bragðgott. Strákarnir fengu klassíska bita og leikfang með. Það varð mikill harmur þegar Stirnir fékk flottara dót að Huga mati svo ég var í því að þerra tár yfir matnum.
Ég gerði þau mistök að rölta framhjá einum af fjórum verslunarmiðstöðvum sem eru hérna í næstu götu og lét plata mig þangað inn. Ég slapp nú út aftur með einungis 2 blöðrupakka. En það var gaman að skoða dótið þarna, og ekki er það dýrt, við litum á hjól og það er nú ekki stór fjárfesting í þeim. Stirnir skoðaði skólatösku með Snoopymynd og hreifst mjög af henni, nú vill hann fá skólatösku fyrst hann á að byrja í alvöru skóla í ágúst, ekki annað sanngjarnt.
Við röltum af stað aftur í áttina heim og blésum upp blöðrur sem sprungu þó margar jafnharðan. Það byrjaði að hellirigna og strákarnir voru frekar fyndnir, Hugi mætti eldri manni með stóra regnhlíf og plantaði sér undir regnhlífina hjá manninum sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Eiginkona mannsins fékk svo Stirni sem félaga undir sína regnhlíf. Þau fengu algjört hláturskast því strákarnir hreyfðu sig ekki. Mér tókst þó að koma þeim áfram með mér að lokum.
Við ætluðum að stytta okkur leið en enduðum í lokaðri götu svo þegar við komum í sundlaugina vorum við rennandi blaut. Enda vorum við spurð að því hvort við værum að koma uppúr frekar en að fara ofaní.
Bræðurnir fengu ekki að fara með mér í kvennaklefann en ég fékk starfsmann til að fylgja þeim í gegnum karlaklefann. Fannst frekar skrýtið að skilja þá eftir mállausa hjá ókunnugum manni, en þetta er víst eitthvað sem ég þarf að venjast. Eldri maður sem talaði enga ensku fylgdi þeim svo uppúr og Hugi sagði mér að Stirnir hefði bara talað íslensku við hann, sem er nú bara flott.
Þegar við komum heim var hún Daisy okkar að ljúka störfum. Daisy er Ayi en það er orð yfir húshjálp/barnapíu. Flestir hérna hafa þessa hjálp og Daisy er okkar Ayi sem kemur þrisvar í viku, þrífur, þvær þvott og fleira. Hún var búin að kaupa rúmföt handa strákunum til skiptanna og hitti svo sannarlega í mark þar. Hugi fékk fótboltarúmföt og Stirnir fékk Snoopyrúmföt, Hugi lýsti því yfir að þetta væru bestu rúmföt sem hann hefði nokkurntímann átt. Ekki kom annað til mála en skipta yfir í nýja settið með hjálp Daisy. Hún er kínversk en talar ensku en margir kínverjar velja sér nafn sem þeir nota í samskiptum við útlendinga. Það stendur nú ekki til að Daisy fari að passa strákana en ég sé margar Ayi hérna á leikvellinum.
Kjartan og Atli fóru út að borða með samstarfsfélögum hjá Optic svo Yongjia kom yfir til okkar. Við ætluðum að panta mat og strákarnir vildu pizzu. Yongjia reddaði því svo nú veit ég hvar á að panta pizzu, nú er bara að ná því takmarki að panta hana á kínversku.
Kapallinn var að detta inn svo ég ætla að leggjast í sjónvarpsgláp, það kom nefnilega melding á skjáinn um daginn: Card blacklisted! Sem það er örugglega en fyrir eitthvert kraftaverk datt það aftur inn.
Dalla

Tuesday, June 13, 2006


Mikka mús sjónvarpið er komið í hús! Hugi sá svona tæki í BT fyrir brottför og linnti ekki látum fyrr en við foreldrarnir samþykktum kaup á því, það er svona rautt og gult með voðalega sæt eyru, sem eru hátalarnir. Helst vildi Hugi að ég sleppti öllum farangri og tæki bara þetta sjónvarp með. Að lokum samþykkti hann með semingi að sjónvarpið yrði keypt í Kína enda er það eflaust made in China eins og langflest. En það kom í hús í dag og mikil er gleðin hjá bræðrunum að horfa á mynd í þessu fína sjónvarpi.
Við fórum á stjá í dag og röltum í vinnuna til Kjartans. Hann vinnur í háhýsi í svona 10 mínútna göngufjarlægð, aðeins lengra ef maður ýtir kerru með tveimur strákum á undan sér. Við fundum þetta auðveldlega og tókum lyftu upp á 30. hæð. Þar tók Horace á móti okkur á skrifstofunni en hann er mikill barnavinur og gisti hjá okkur í desember á Suðurgötunni. Útsýnið er gott frá skrifstofunni og við sjáum heim til okkar.
Við hittum þarna konu vegna heilsutryggingar fjölskyldunnar og vonandi verður það mál frágengið á allra næstu dögum.
Í kvöld fórum við á stað sem heitir Litla, feita lambið á kínversku. Þar er borin fram súpa sem er sett í tveimur hólfum ofan í borðið og logar eldur undir. Annar hlutinn af súpunni er fullur af chilipipar en hinn hlutinn er ekki jafn sterkur. Svo er borið fram ýmislegt góðgæti sem við settum ofan í súpuna sem sýður á eldinum. Þá er að veiða upp það sem sett er ofan í og borða með bragðgóðri hnetusósu. Við settum til dæmis kjöt í þunnum sneiðum, pínulítil egg, surimi, smokkfisk, kjötbollur og fiskibollur, ýmisskonar skrýtna sveppi, rót af lótusblómi og ýmislegt grænmeti þarna ofan í og alltaf varð súpan bragðbetri. Strákarnir voru bara duglegir að borða, Hugi einbeitti sér að kjötbollunum og ég held að ansi mörg smáegg hafi farið upp í Stirni.
Það er svolítið sérstakt að sitja við svona rjúkandi pott í þessum hita en maturinn fór vel í okkur. Sem betur fer voru Atli og Yongjia með í för því maður þarf að kunna að panta sér mat á svona stað. Við förum örugglega aftur á Litla, feita lambið því staðurinn er aðeins í 100 metra fjarlægð frá okkur. Þið sjáið súpupottinn hér að ofan, dökki hlutinn er sá sterki, strákarnir borðuðu upp úr hinum hlutanum.

Dalla

Monday, June 12, 2006



Nú stendur Kjartan í ströngu, leikurinn kemur út í Kína í dag. Við höfum þessvegna ekki séð mikið af honum í dag en björguðum okkur alveg sjálf á meðan.
Við vorum nú bara heima við framan af degi, strákarnir léku sér í herberginu, kojan þeirra er góður leikstaður. Stirnir situr mikið í efri kojunni og litar í litabók, hann er mjög vandvirkur og fer helst ekki úr húsi án litabókarinnar.
Víð kíktum í garð síðdegis sem er hérna í götunni okkar, hann er nefndur eftir hverfinu okkar Xujiahui (Sjú djía hvey) en hverfið okkar er nefnt eftir manninum sem átti landið sem það er byggt á. Þessi maður vingaðist við kaþólskan biskup og tók kaþólska trú og þessvegna er kaþólsk kirkja hérna í næstu götu sem hann lét reisa.
Þetta er lítill garður en mjög skemmtilegur, margir að gera Tai chi æfingar og við rákumst á fólk sem gekk berfætt á smásteinum sem voru steyptir þannig að þeir nudduðu/stungust í iljarnar. Við tókum af okkur skóna og prófuðum þetta lika og þónokkrir fylgdumst með þessum aðförum og hvöttu okkur áfram. Ég var nú ansi sárfætt og fór bara einn hring með Stirni sem æjaði og óaði en Hugi stóð sig vel og fór marga hringi og hlaut mikið lof fyrir. Þarna eru líka líkamsræktartæki, ég skildi nú ekki alveg hvernig þau virkuðu öll, ég þyrfti að liggja á gægjum og fylgjast með vönum mönnum en við reyndum okkur nú samt í þeim.
Þá var komið að verslunarferð. Við fengum leiðbeiningar frá Kjartani um staðsetningu næstu kjörbúðar og skunduðum þangað. Þar varð heilmikið uppistand þegar við mættum á staðinn. Hugi var næstum því kyrktur sagði hann af einni afgreiðsludömunni hún faðmaði hann svo fast. Sölukonurnar töluðu heilmikið við mig, verst að ég skildi ekki neitt og leiðbeindu mér aðeins. Mér tókst að kaupa allskonar drykki handa strákunum, þeir hugsa mest um að drekka þessa dagana. Svo keypti ég í matinn, og hvað haldiði að það hafi verið, nú auðvitað vorrúllur með hrísgrjónum. Ég var bara stolt af sjálfri mér að geta bjargað mér svona ein og óstudd.
Þegar heim var komið kíktum við á leikvöllinn því var allt fullt af krökkum, allir komnir heim úr skólanum. Það eru allskonar tæki sem börnin koma með á leikvöllinn, bílar og trukkar sem ganga fyrir rafmagni. Hugi ágirnist svona bíl en það liggur fyrir nefnd hvort lagt verður í slík kaup. Við erum jú ekki með bílskúr, sumt af þessu er svo stórt að það myndi fylla herbergið þeirra. Hans helsta von núna er að tannálfurinn verði rausnarlegur því hann er með lausa tönn, sú fyrsta. Hvolpurinn Table kíkti svo í heimsókn með foreldrum sínum Atla og Yongjia, strákarnir knúsuðu hann og fengu að halda á honum. Ég set mynd með af honum, tekin af Huga en allar myndir eru teknar af Huga nema sú sem er af mér, Kjartani og Huga nýfæddum, þar er Jóra myndasmiðurinn. Verð að geta þess fyrir fjölskylduna að bræðurnir sofnuðu klukkan tíu svo þetta er allt að komast á rétt ról.
Bloggið kemur óvenju seint núna en ég gat ekki sett það inn fyrr því kínverjarnir eru með bann á sumum síðum og þar á meðal blogspot, ég verð að fara í gegnum íslenska netið til að blogga.

Dalla

Sunday, June 11, 2006


Hugi vaknaði snemma í morgun til að fara í karate. Hann var ánægður með tímann. Eftir tímann fóru karatefélgarnir í boltalandið og tóku smá stríð þar í hálftíma svo Hugi kom rauður og heitur heim. Kannski rekst hann á karatefélagana hérna á leikvellinum líka. Það voru víst bara 8 nemendur í tímanum og 3 kennarar svo hver og einn fékk athygli. Kennarinn sagði Kjartani að hann hefði bara staðið sig vel miðað við fyrsta tíma.
Hugi er líka mjög áhugasamur, er búinn að æfa sig í allan dag og gera ótal armbeygjur.
Við fórum í tívolí í dag, það var nú orðið hálf lúið þetta tívolí en strákarnir skemmtu sér vel. Þar var farið í draugahús, (Hugi var með lokuð augun allan tímann) klessubíla, vatnsrennibraut og ævintýraland (Joyland) þar sem var siglt í gegn og senur úr ævintýrum bar fyrir augu.
Við urðum ansi mikið vör við athyglina sem drengirnir fá hérna, nokkrir báðu um að fá að taka mynd af þeim og fengu jafnvel að taka þá í fangið fyrir myndatöku. Þeir létu sér nú bara vel líka. Krullurnar hans Huga eru merkilegar og margir strjúka honum um hárið, einnig sú staðreynd að þeir séu tveir bræðurnir því ekki hef ég ennþá séð par með fleiri en eitt barn. En allir eru mjög vingjarnlegir svo við bara brosum og reynum að svara spurningum sem við fáum um strákana. Þær voru reyndar fyndnar konurnar í ævintýralandinu í tívolíinu, þær ætluðu nú bara helst að eiga þá, þær ruku með þá burt og við Kjartan stóðum eftir.
Ég gleymdi að minnast á verðlagið í síðasta bloggi, það er ekki mjög dýrt að borða hérna, t.d. kostaði máltíðin í gærkvöldi aðeins 1400 krónur fyrir 4 fullorðna og 2 börn og þar var bjór innifalinn.
Stirnir verður ákveðnari í því með hverjum deginum að eiga alltaf heima í Kína, Hugi reynir að mótmæla þessu og segir honum að við getum það ekki, við verðum að fara heim til Íslands aftur. Stirni er alveg sama og heldur sínu striki.
Við erum byrjuð að læra að telja á kínversku og getum sagt takk og góðan daginn. Kjartan er nú klárari en þetta en hann kennir okkur það sem hann kann.
Meðfylgjandi mynd er af Stirni með síðustu íslensku kókómjólkina í bili, erum sem betur fer búin að finna sambærilega kínverska.

Dalla

Saturday, June 10, 2006

Þá er dagur 2 liðinn, strákarnir sofnuðu ekki fyrr en kl. 2, bara framför síðan í gær en þá lognuðust þeir útaf í morgun við dagrenningu kl. 5. Þeir voru báðir búnir að sofa einhverja dúra að deginum og þetta endaði svona. En við snúum þessu við hægt og rólega, það tekur tíma að jafna út 8 tíma mismun, við erum á undan Íslandi.
Bræðurnir vöknuðu glaðir eftir hádegið, reyndar byrjaði Stirnir á því að gubba en það hefur líklega bara verið vegna þess að hann drakk volgt vatn en Kínverjarnir eru ekkert að kæla vatnið í hitanum og við ætluðum að reyna þetta líka. Við settum flösku inn í ísskáp til að koma í veg fyrir svona slys í framtíðinni.
Við fengum skemmtilega heimsókn en það voru Atli vinnufélagi Kjartans og Yongjia og með þeim í för var hvolpurinn Table. Þau færðu strákunum góða gjöf, digitalmyndavél og Hugi byrjaði að mynda í gríð og erg. Hann myndaði m.a.s. klósettið, þ.e.a.s. ofan í það en það voru ansi skemmtilegar myndir þarna hjá honum, nokkrar sjálfsmyndir líka.
Við kíktum svo út á leikvöll, Stirnir tók litabókina með, leit bara upp úr henni þegar kínversku smábörnin komu að kíkja á hann eða þegar hundar áttu leið hjá, þá rauk hann af stað að klappa þeim. Hugi þaut um svæðið, þeir fengu Gatorade bræðurnir til að hressa sig við og Hugi varð svo sprækur af þessu að hann gerði armbeygjur og þaut um allt.
Við fórum svo að láta taka myndir af okkur í líkamsræktarskírteinin okkar, það voru frekar fyndnar myndir af bræðrunum teknar í kassa, gervibros. Hugi ætlar í karatetíma í fyrramálið. Hann lýsti því yfir í dag að hann ætlar ekki að fara frá Kína fyrr en hann nær sér í svarta beltið. Stirnir hefur mestan áhuga á boltalandinu í líkamsræktinni, ætli ég skelli mér ekki í jóga eða pilates.
Við fórum síðan með leigubíl á markað til að kaupa fjarstýrðan bát sem breyttist svo í fjarstýrðan bíl þegar á staðinn var komið. Hugi valdi sem sagt kappakstursbíl og Stirnir valdi sér fígúrur úr Nemo. Þegar við birtumst á markaðnum sögðu sölumennirnir: Game boy, game boy! Strákarnir eru auðvitað í markhóp fyrir game boy og svo fengum við gylliboð um DVD og fleira.
Hugi valdi sér sandala því skórnir voru farnir að meiða hann á göngunni.
Eftir markaðsferðina vorum við orðin svöng, Atli og Yongjia voru ennþá með okkur og þau leiddu okkur á veitingastað. Þar var boðið upp á tofu með krabbakjöti, tómata með eggi, einhversskonar nautakjöt í raspi sem dýft var í majónes, maís og dumplings. Hugi sá mynd af dumplings fyrir utan veitingastað og spurði hvort þetta væru kálbögglar, vonandi kemur þetta í staðinn fyrir kálbögglana íslensku, þeir borðuðu allavega vel og Stirnir gat ekki hætt að lýsa yfir ánægju sinni með matinn. Við þurfum að venjast því að réttirnir eru bornir fram fyrir allt borðið og svo er maður með litla skál til að setja matinn í og borða upp úr. Strákarnir æfðu sig með prjónana og það gekk svona upp og niður. Hugi spurði reyndar þegar hann fékk prjónana í hendurnar: Hvar er garnið?
Niðurstaðan er góður dagur og glaðir strákar, miklu betra hljóð í þeim í dag en í gær þegar þeir voru alveg til í að fara strax aftur til Íslands.
Dalla
við erum komin á áfangastað!

Allt gekk vel, bræðurnir stóðu sig eins og hetjur á ferðalaginu. Stirnir týndist bara einu sinni, sem betur fer inni í flugvélinni til Kína svo ekki komst hann langt. Hann horfði þrisvar á Kjúlla litla á leiðinni og svaf í 3 tíma. Hugi horfði líka á Kjúlla litla og svo rifjaði ég upp gamla takta í Tetris og fleiri leikjum með honum, honum fannst mamma bara klár í tölvuleik. Hugi náði líka að sofa í rúma 3 tíma. Það var svolítið skrýtið að telja niður klukkutímana með Huga, "nú erum við hálfnuð, bara 6 klukkustundir eftir".

Ég keypti einnota myndavélar handa strákunum á Heathrow og strákarnir "dokumenteruðu" ferðalagið. Hugi stoppaði flugfreyju á vellinum og spurði hvort hann mætti taka mynd af henni eða kom henni í skilning um það. Konan var voða upp með sér og sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem einhver bæði hana um slíkt. Það verður fróðlegt að sjá sýn bræðranna á það sem fyrir augu bar á leiðinni.

Það fyrsta sem Hugi tók eftir er að honum finnst kínverjar vera feimnir. Það var mikil gleði að hitta Kjartan á flugvellinum og við tókum eftir því að fólk stoppaði til að horfa á samfundi feðganna og benti á þá. Þeir bræður eiga greinilega eftir að vekja eftirtekt hvar sem þeir fara.

Hugi og Stirnir eru búnir að fara í sund með Kjartani, sundlaugin er hérna í næsta húsi. Stirnir varð líka glaður að sjá boltaland inni á líkamsræktarstöðinni. Einnig er leikvöllur við húsið okkar þar sem er fullt af kínverskum krökkum núna, bræðurnir eru líka búnir að prófa hann og líkaði vel.

Íbúðin okkar er mjög fín og strákarnir eru ánægðir með herbergið sitt.

Það er 25 stiga hiti hjá okkur, mjög rakt og mistur. Kjartan segir að þetta sé með heitari dögum hingað til en hitastigið á eftir að fara hækkandi.

test