Monday, July 24, 2006

Loksins kemur ferðasaga helgarinnar, tölvan var upptekin í gærkvöldi.
Við lögðum snemma af stað að heiman, fórum í leigubíl á rútustöð sem staðsett er við brúarstólpa Nanpu brúar sem tengir saman Pudong (austur) og Puxi (vestan við ána Pu), við búum vestan við ána. Þarna var algjört kaos, leigubílstjórinn hleypti okkur út eiginlega á miðri götu en ferðafélagar okkar fundu okkur og leiddu okkur að rútunni. Klukkan 8:15 lagði rútan síðan að stað en einn ferðafélaga vantaði ennþá og vorum við í stöðugu símasambandi við hann. Hann reddaði sér með annarri rútu og kom loks út á höfn með mótorhjóli síðasta spottann í bátinn.
Stirni varð að orði þegar hann sá hafið: Það er eins og súkkulaði á litinn! Það var alveg satt, sjórinn var súkkulaðibrúnn.
Báturinn var lítil útgáfa af Herjólfi, það gladdi strákana þegar myndbandið með munkamyndum og söng var búið var settur diskur með Mr. Bean í gang, bjargaði alveg ferðinni og spurningar um hvenær við yrðum komin voru ekki svo margar.
Eyjan Putuoshan er fjölsótt af ferðamönnum en þeir koma þangað til að biðja, einnig er hægt að biðja um eina ósk og ef óskin rætist verður viðkomandi að koma aftur innan þriggja ára og þakka fyrir sig. Á eynni er 250 metra hátt fjall sem er eitt að fjórum heilögum fjöllum í Kína. Sagan segir að maður hafi ferðast með líkneski af Boddhishava (goddess of mercy) og verið á leið til Japan. Hann leitaði skjóls á Putuoshan vegna óveðurs en veðrinu linnti ekki svo það var talið merki um að líkneskið vildi vera áfram á eynni.
Á eynni er 33 metra há stytta af Boddhishava sem horfir út á hafið.
Fjölmörg musteri eru á þessari smáu eyju og munkar eru á ferð og flugi. Þessa sýn sáum við á ströndinni fyrsta daginn, einhverskonar athöfn sem við kunnum ekki skil á.
Við hentum af okkur inni á hóteli og lögðum af stað að leita okkur að hádegisverði. Við borðuðum á veitingastað við fallega strönd, fisk og ýmisskonar skelfisk en það eru sérréttir eyjunnar.

Fyrir utan veitingastaðina eru balar með lifandi fiskum og skeldýrum svo ekki er hægt að segja annað en að fiskurinn sé ferskur. Hugi beit það í sig þarna um kvöldið að hann vildi borða fiskauga sem hann gerði.
Bræðurnir voru glaðir við leik á ströndinni, þar voru margar holur eftir krabba og Stirnir fór í það verk að fylla þær allar. Við hótelið okkar var sjórinn líka súkkulaðibrúnn en snemma morguns á laugardaginn fórum við á hreina strönd og þar fengu strákarnir góða útrás í öldunum.

Bræðurnir höfðu nokkuð marga leikfélaga í ferðinni þó allir væru þeir fullorðnir, CCP fólkið var duglegt að leika við þá, sérstaklega Atli og Yongjia sem þeir hafa tekið miklu ástfóstri við. Fyrsta kvöldið átti að reyna við bjórdrykkju á hótelherbergi samtengdu okkar, mjög hentugt því Stirnir lognaðist út af yfir kvöldverðinum. Hugi var hrókur alls fagnaðar í "partýinu" og mér skilst að eftir að hann fór í háttinn hafi fjörið verið búið.

Daginn eftir var förinni heitið á aðra eyju sem heitir Tahoa. Þangað fórum við í hraðbát og þar var allt önnur stemmning en á Putuo shan. Hótelið okkar var staðsett í þjóðgarði, timburhús í miðjum skógi nálægt klettaströnd, mjög fallegt. Við fórum í göngu strax við komuna, bara við fjölskyldan, hinir fóru á ströndina. Þetta varð hálfgerð svaðilför því það dimmdi allt í einu og óveðursský hrönnuðust upp. Strákunum varð um og ó en við hvöttum þá áfram á göngunni.


Þarna í sjónum er klettur sem líkist skjaldböku.

Þegar byrjaði að rigna flýttum við för og náðum sæmilega þurr í hús.
Við hefðum alveg viljað vera lengur á þessari paradísareyju en á sunnudaginn var kominn tími á heimför sem varð nú flóknari en áætlað var. Við fórum á illa lyktandi ferju yfir á aðra eyju þar sem við þurftum að taka leigubíl á aðra höfn til að ná hraðbátnum til Putuo shan. Þar tókum við bátinn upp á meginlandið en það var svo vont í sjóinn að ælupokarnir komu að góðum notum. Ferðin var líka tvöfalt lengri heim vegna strauma.
Þegar við komum aftur heim til Shanghai hafði hitastigið lækkað um rúmar 10 gráður, líklega vegna rigningar.
Við fórum á brasilískan steikarstað um kvöldið til að vega upp á móti fiskátinu og þar var boðið meðal annars upp á nautatungu sem gladdi Huga. Hann hugsaði mikið til ömmu Ragnheiðar en nautatunga er einn af sérréttum hennar.
Dalla

2 comments:

Anonymous said...

Komið sæl,..við söknum ykkar og sendum hjartanlegar kveðjur! Matas hlakkar til að fá vinina heim;)

Anonymous said...

Þvílíkt ævintýri, geggjaðar myndir, ekki hefði maður trúað að vinir manns ættu eftir að flytja til Kína. Ég hef rosalega gaman af að segja vinum mínum frá þessu ævintýri ykkar, allir eru alveg gapandi yfir því að þið hafið haft kjark til að gera þetta, það eru ekki margir sem leggja út í svona ævintýri. Þið eruð langflottust. Kærar kveðjur,
Vera