Sunday, July 16, 2006

Frá verslunarferðinni á föstudaginn með Yongjia, Stirnir grenjar á myndavélina. Við vorum að skoða gamlar videoupptökur af bræðrunum frá Frakklandi um daginn. Þar er Hugi fjögurra ára eins og Stirnir núna og er á ekki taka mynd af mér tímabilinu.

Daisy passaði strákana í gærkvöldi. Allt gekk vel en Hugi var ekki par hrifinn af því fyrirfram að vera í pössun. Hann undirbjó sig með því að fara á salernið áður en við fórum, hann vildi ekki biðja Daisy um aðstoð þar. Stirnir þurfti víst að nota salernið fyrir númer tvö og Hugi sagðist hafa komið Daisy um skilning um það með táknmáli að Stirnir þyrfti aðstoð. Þeir voru bara glaðir í morgun með pössunina og Hugi hafði á orði að Daisy væri alltaf brosandi. Svo þessi tilraun tókst og hægt að reyna aftur þegar þess þarf.

Við Kjartan fórum út að borða með tveimur pörum, Troy og Eva, hann er breti og hún kínversk og Adam og Cheryl en hann er ameríkani og hún bresk. Hún er í sömu sporum og ég, var að flytja til Shanghai á föstudaginn en hún hefur búið í Hong Kong frá barnæsku. Þau eiga ekki barn en Troy og Eva eiga þriggja ára dóttur. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld og félagsskapurinn góður. Við byrjuðum á því að borða á kínverskum stað í hverfi sem heitir Xintiandi og er mjög skemmtilegt. Þar er einungis hægt að ganga um, engir bílar. Í hverfinu eru uppgerð shikumen hús sem voru byggð sem íbúðarhús á miðri 19. öld, shikumen þýðir steinhlið og fyrir innan steinhliðin voru litlir innri garðar. Húsin voru byggð við þröng stræti og nú eru þarna veitingahús, gallerí og þess háttar starfsemi.
Við borðuðum meðal annnars önd sem við fengum niðurskorna og svo pökkuðum við andarbita, grænmeti og sósu inn í einhverskonar litla pönnuköku. Mjög ljúffengt!
Eftir matinn röltum við yfir á stað þar sem hljómsveitir spila live. Þetta voru víst aðallega filippeyskar hljómsveitir sem tóku aðallega coverlög en líka kínversk lög inn á milli. Kínverskir áheyrendur virka frekar passívir, þeir klappa ekki með, syngja og dansa. Ég held ég geti sagt að okkar borð hafi verið háværast og það var sko dansað í kringum borðið. Cheryl brá sér aðeins upp á svið í dans með einum söngvaranum, það sýnir vel hverskonar stuðpía hún er. Annars voru búningar hljómsveitarmeðlima oft kostulegir, mér fannst ég hafa dottið aftur í tímann. Netabolir voru meðal þess sem stúlkurnar skörtuðu. Atriði þar sem stúlka (a la Vanessa Mae) spilaði á fiðlu við undirleik af bandi og skók sig með var með sérstakari atriðum.
Drykkjarföngin sem boðið er upp á er tunna af bjór á borðið og svo sá ég marga með könnur og viskýflösku á borðunum. Þá er grænt te í könnunum og svo er viskýinu blandað út í . Kínverjar drekka mikið te og það er mikið úrval af te sem svaladrykkir. Við Kjartan erum alveg dottin inn í þessa tedrykki, þeir eru mjög svalandi. Okkur hafði þó ekki dottið í hug að blanda áfengi samanvið te.
En við vorum ekki hætt því við kíktum aðeins á næturklúbb með Cheryl og Adam, tókum allan pakkann fyrst pössunin gekk vel. Smá dans fyrir svefninn var alveg málið.
Við Kjartan fórum í ræktina í gærmorgun, hann píndi mig áfram, ég kann nefnilega ekkert á svona tæki og var örugglega að lyfta of léttu. En núna veit ég betur og hef verið með strengi í dag, við tókum frí í dag en mætum aftur til leiks á morgun.
Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Elsku Dalla,
Við Ari sitjum hér loks og lesum bloggið ykkar. Spennandi ferðalög sem þið hafið farið í, það er ekki spurning að við þurfum að kíkja til ykkar í kaffi, og leggja jafnvel saman land undir fót. Óskaðu Huga til hamingju með tannleysið og þeim báðum góðs gengis í skólanum - þeir eru flottir í búningnum. "Okkur langar til þess að fara og heimsækja ykkur og vera á sama hóteli og þið" - orðrétt skilaboð frá ara sem byrjar á stóru deildinni á morgun.
Heyrumst - Hildur og Ari Karl