Thursday, July 13, 2006

Önnur mynd úr berrassaðri sápukúluseríu.

Sundlaugarferðirnar eru daglegt brauð en nú er búið að bæta inn í prógrammið að undirrituð fer í ræktina fyrir sundið. Strákarnir þvælast í kringum mig og eru reknir af starfsfólkinu í leikherbergið en það er nú ekki örtröð þarna í salnum, ég hef verið ein hingað til. Það er ágætt að hita sig svona upp áður en við förum í laugina, ég helst alveg við í lauginni í klukkutíma.
Við hittum feðga í lauginni á miðvikudaginn og spjölluðum við þá. Maðurinn er ameríkani, kvæntur kínverskri konu og þau eiga tveggja og hálfs árs gamlan son. Hann er heimavinnandi húsfaðir, hefur lítið unnið þau fjögur ár sem hann hefur búið hér. Það var gaman að kynnast þeim og strákarnir léku sér mikið saman.
Það barst hingað taska í gær, í henni var meðal annars playmosjóræningjaskip, bækur og fleira að heiman. Hugi réðst í það verk að setja skipið aftur saman eftir ferðalagið en Stirnir sökkti sér í bókina Jólin okkar, Brian Pilkington myndskreytir gömlu vísurnar um jólasveinana. Við höfum því verið að rifja upp með honum vísurnar en hann kunni þetta mestallt utanað síðustu jól, hann er jólasveinanörd!
Verkefni dagsins er að kaupa skólatösku handa Stirni, krem á öll bitin en hann er þakinn bitum frá hné niður úr og svo ætla ég í klippingu á kínverskri hárgreiðslustofu. Ég vona að útkoman verði þannig að ég verði ekki með hauspoka næstu vikurnar.
Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Sætust!

Knús Steina