Tuesday, July 11, 2006

Sápukúluframleiðsla á svölunum, þessi mynd er tekin úr launsátri svo Stirnir geti ekki neitað myndatöku.

Morgunverkin voru hérna heima við, ég þurfti að vera heima til að bíða eftir sendingu, niðurstöðu læknisskoðunarinnar frá síðustu viku. Skýrslan kom í hádeginu og þar stendur: "Be in basically normal health status." Ég sé ekki betur en 35 atriði hafi verið athuguð í blóðprufunni. Þar sem er pláss fyrir starf stendur að ég fáist við "inoccupation", það er semsagt ekki neitt eins og margar heimavinnandi mæður kannast við.
Við mæðginin fórum í sund, bara í innilaugina, við fáum ekki budget í fíneríið hinu megin götunnar. Eftir sundið settumst við upp í leigubíl og ferðinni var heitið á skrifstofu eina til að greiða námskeiðsgjald fyrir vélmennanámskeið í næstu viku. Bræðurnir ætla semsagt á námskeið þrjá daga í næstu viku, 2 tíma í senn í vélmennagerð. Ég býst við að ég sitji námskeiðið líka vegna málleysis bræðranna. Þeir eru frekar spenntir fyrir þessu báðir tveir, geta ekki beðið.
En erðin var löng og erfið, mikil umferð og bílstjórinn fór löngu leiðina, hefði getað skellt sér upp á hraðbraut til að flýta fyrir. Stirnir sofnaði í bílnum og Hugi kvartaði yfir bílveiki. Þegar við áttum hundrað metra eftir í áfangastað kom svo gusan, í hendina á mér sem kallaði upp, bílstjórinn stöðvaði bílinn og gusa tvö kom á gangstéttina. Bílstjórinn var mjög almennilegur enda fór ekkert á hvíta teygjulakið sem þeir breiða yfir aftursætið, bara aðeins á hurðina. Stirnir hrökk upp við vondan draum og kom ansi ruglaður út úr bílnum. Ekki fékkst Hugi upp í bílinn aftur svo við röltum síðasta spölinn. Samtökin sem eru með þetta námskeið heita Active kidz http://www.activekidz.org ég fann þau á netinu og þau eru með margs konar námskeið, þó aðallega í íþróttum. Verst að flest fer fram langt heiman frá okkur, jafnvel í klukkutíma bílferð í burtu svo ekki förum við að leggja það á okkur.
En okkar beið annað verkefni eftir að hafa gengið frá innrituninni og það var að kaupa franska pylsu/saucisson handa Kjartani. Carrefour er þarna í nágrenninu, stákarnir voru nú ekkert áfjáðir að fara í matarinnkaup en voru svo bara hjálplegir við innkaupin þegar við vorum komin í gírinn. Við fundum pylsuna, m.a.s. tvær fyrir eina svo Hugi var mjög glaður þar sem hann elskar svona pylsur, frönsku genin. Stirnir varð glaður þegar hann fann vöfflur í pakka og Hugi reddaði rjóma. Við enduðum með fulla körfu svona eins og tíu innkaupapoka en það er ekkert óyfirstíganlegt þar sem við fórum með innkaupakerruna niður í kjallara og beint upp í leigubíl sem skilaði okkur upp að dyrum. Strákarnir hjálpuðu svo við pokaburð inn í lyftu.
Einhversstaðar í blaði var verið að ráðleggja fólki hvað væri hægt að gera skemmtilegt með vinum og ættingjum sem kæmu í heimsókn til Shanghai og var uppástungan sú að fara í Carrefour. Það er ekkert vitlaust því þar er margt að sjá og endalaust hægt að skoða úrvalið af mat/hráefni sem ég þekki ekki.
Hugi sofnaði svo með saucisson í annarri og Barbapapa í hinni en það er uppáhaldslesefnið fyrir svefninn þessa dagana.
Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Sæl Dalla min og drengir
Gaman að lesa um ævintýrin ykkar á fjarlægri strönd.
Var að koma heim úr ferðalaginu. Skrifa senn.
Hera