Thursday, July 06, 2006

Stofustemmning að kvöldi, skjaldbakan og höfrungurinn hvíla sig eftir erfiðan dag í sundlauginni.

Nú er svo gaman að fara í sund að ég var drifin af stað fyrir hádegi. Mér finnst laugin reyndar vera nokkuð köld fyrir minn smekk en ég læt mig hafa það. Ég reyni bara að hreyfa mig og ærslast með strákunum.
Við löbbuðum út á XuJiaHui eftir sundið, við fórum í könnunarleiðangur að leita að bíóinu sem er á efstu hæð í einni verslunarmiðstöðinni. Það kom í ljós að eina barnamyndin sem er verið að sýna núna er Ísöld 2 á kínversku og sýningin var ekki fyrr en kl. hálfsjö.
Við löbbuðum lengri leiðina heim með ís-stoppi og vatns-stoppi. Konurnar í drykkjarbúðinni voru voðalega almennilegar, þetta er nú bara svona 2 fermetrar í dyragætt. Við sýndum þeim boli strákanna en á þeim er mynd frá Jökulsárlóni, þeim fannst mikið til þeirra koma. Ég er farin að skilja þegar fólk spyr mig hvort bræðurnir séu tvíburar og er komin með ágætis táknmál til að útskýra að svo sé ekki.
Stirnir er ákveðinn í því að verða kínverji og segir þá, þegar ég verð orðinn kínverji ætla ég að gera hitt eða þetta. Hugi finnur mikið til með fátæku fólki og vill alltaf gefa betlurum pening. Það er nú ekki mikið um betl í hverfinu okkar, betlararnir halda sig frekar þar sem ferðamenn eru fleiri.
Nú er jólasveinninn settur í gang hérna við hliðina á mér. Það er 40 sentimetra hár jólasveinn sem syngur og dansar þegar kveikt er á honum. Strákarnir kveikja á honum nokkrum sinnum á dag og dansa og syngja með. Ég er búin að setja jólakrans niður í skúffu sem hékk inni á öðru baðherberginu. Jólaskrautið semsagt fylgdi íbúðinni og var enn uppivið þó við höfum fengið íbúðina afhenta í april. Ég sé að það eru fleiri sem halda jólaskrautinu því í gluggum íbúðar á jarðhæð í næsta húsi eru jólasveinamyndir.
Dalla

No comments: