Saturday, July 08, 2006

Nú er mikil spenna hjá Huga, hann hefur heyrt af því að það gæti verið von á fellibyl í nótt, fellibylur sem er núna yfir Hong Kong gæti komið hingað uppeftir til okkar. Kjartan er búinn að segja honum af froskum og fiskum sem geti tekist á loft og rignt niður aftur. Ef eitthvað gerist í nótt á að vekja hann svo hann geti fylgst með þessu.

Við fórum í verslunarferð í gær með Yongjiaí japanska verslum í miðstöðinni hérna næst. Hugi er orðinn mjög áhugasamur um fatakaup og velur sjálfur stuttbuxur og boli. Stirnir er ekki jafn spenntur en valdi sér tvo boli svo hann yrði ekki útundan. Ég keypti bol og buxur á Kjartan líka, strákarnir völdu bol handa honum með fígúrum sem líkjast Barbapapa og voru hæstánægðir með það. Í kvöld sá ég svo aðalverslunargötuna með design kínverskum fötum, allt annað en fæst í verlsunarmiðstöðinni. Þannig að ég bendi vinum og fjölskyldu sem hyggja á Kínaheimsókn á það að ég er búin að finna staðinn. Gatan minnti mig m.a.s. á Newbury street í Boston, en það var þarna hóruhús inn á milli búðanna sem dró standardinn aðeins niður.
Feðgarnir fóru í sund í dag. Kjartan minnti Huga á það hvað hann væri duglegur að synda baksund eða var það þegar hann æfði með KR. Hugi tók sig til og synti 300 metra baksund, hafði greinilega engu gleymt.
Ég hef fengið athugasemdir um það að ég segi mikið frá bræðrunum en minna frá upplifunum okkar foreldranna. Kjartan ætlaði að skrifa líka inn á bloggið en hann hefur verið mjög upptekinn við vinnu svo það hefur ekki orðið af því.
Mér líður ágætlega hérna í Shanghai en verð samt að viðurkenna það að ég sakna vina og fjölskyldu og vinnufélaga heima á Íslandi. Ég er félagsvera og vön því að hafa nóg að gera, vinnan mín er erilsöm og vinnufélagarnir skemmtilegir, enda bransinn þekktur fyrir að það velst í hann skemmtilegt fólk ;-) Þannig að það eru mikil viðbrigði að eyða deginum í rólegheitum með strákunum og geta ekki rætt málin við fullorðið fólk. Ég er ekki að segja að það sé alslæmt en það væri ekki verra ef ég kæmist í samband við fólk sem er að gera svipaða eða ólíka hluti og ég hérna. Atli og Yongia eru betri en engin en þau eru upptekin við sína vinnu að deginum til.
Ég er að vonast til að kynnast einhverjum kellingum/mömmum þegar skólinn byrjar hjá strákunum í ágúst en kannski verður ekkert af því vegna þess að strákarnir verða sóttir í skólabíl og þá sit ég bara heima þegar þeir eru farnir í skólann. Ég er búin að bjóða fram krafta mína í foreldrafélaginu og vona að þeir geti nýst þar.
Við fórum á tælenskan stað í kvöld, borðuðum með Atla þar. Það var skál/ker með gullfiskum á gólfinu þegar við gengum inn og Hugi spurði hvort þetta væri súpa dagsins. Það var nóg að sjá þarna inni, eðlur festar upp um alla veggi og strákarnir fengu eðlur úr plasti afhentar. Innaf veitingasalnum var herbergi með stólum útskornum eins og fílar, málverk af sjávarsýn, broddgeltir á gólfinu, mjög kitsch. Strákarnir undu sér vel þarna inni við að skoða sig um. Stemmningin varð sérstök þegar Kjartan spurði mig hvort ég kannaðist við tónlistina. Þá var búið að setja DVD disk í tækið með tónlist og showi frá Rauðu Myllunni í París. Við Kjartan fórum á sýningu þar með idolhópnum í mars. Þar sem myndum frá Rauðu myllunni var varpað á vegg sat fjölskylda (expats/útlendingar í Shanghai) meðal annars unglingsstrákar, það hefur verið gaman að hafa berbrjósta konur fyrir augunum þegar þú ert úti að borða með mömmu þinni...
Góða nótt á laugardagskvöldi, Dalla

No comments: