Wednesday, July 05, 2006

Það er boðið upp á grænar krullur í dag!

Ég byrjaði daginn á læknisskoðun vegna dvalarleyfis. Ég tók leigubíl út úr bænum á sérstakt sjúkrahús sem skoðar þá sem vilja búa í Shanghai. Þetta var þvílík færibandavinna hjá þeim, ég var send úr herbergi í herbergi og þetta tók ekki nema klukkutíma. Vigtuð og mæld, blóðprufur, sjónpróf, sónar, röngten á lungum, hjartalínurit og viðtal við lækni sem skoðaði mig og hlustaði. Svo fæ ég skýrslu í næstu viku um mitt heilsufarástand og þarnæst get ég gengið frá dvalarleyfinu.
Konan sem gerði sjónprófið hefur örugglega haldið að ég væri vitleysingur, þegar ég kom inn benti hún á munstrað blað og sagði: Numbers! Ég skildi ekki hvað hún átti við og fór að rýna betur í blaðið, þá voru tölur í mynstrinu sem ég sá ekki. Það rumdi í henni þegar hún prófaði vinstra augað því ekki sé ég vel með því en það hýrnaði yfir henni þegar hægra augað var athugað.
Daisy kom í dag og ég bar mig aumlega yfir ofninum sem virkar ekki á matartímum, á öðrum tíma dags virkar hann, það er eins og fólk sé að nota strauminn í blokkinni og þá slær út hjá okkur. Ekki nógu sniðugt að geta ekki notað ofninn á matartímum. Daisy segir mér að kínverjar eldi ekki mat í ofni, það útskýrir hvers vegna ofninn var ónotaður hérna. Þeir elda auðvitað á wokpönnu, ég á reyndar eina svoleiðis og nota hana líka en ég er samt háð því að henda mat inn í ofn.
Við fórum mæðginin og keyptum sunddót, heljarinnar höfrung handa Huga og skjaldbökukút handa Stirni. Hugi var voðalega montinn þegar hann labbaði með höfrunginn út í sundlaug en ég var frekar föl og lá við yfirliði eftir að hafa blásið hann upp.
Það hefur rignt með hléum í allan dag, vonandi var þá sól á Íslandi á meðan, veit ekki hvernig virkar með veðurfar á Kína og Íslandi, líklega er það ekkert tengt.
Kjartan er byrjaður í kínverskutímum, er í einkatímum til að byrja með. Hann hoppaði yfir kennsluna í framburði, hann var búinn að liggja yfir því áður og er orðinn nokkuð klár að lesa pinyin en það er hljóðskrift kínverskunnar.
Dalla

No comments: