Monday, July 03, 2006

Bræðurnir í pizzubakstri kvöldsins, hvor gerði sína pizzu.

Verkefni morgunsins var að skrá okkur þrjú sem komum seinna til landsins, þ.e.a.s. láta lögregluna vita af dvöl okkar. Við vorum með heimilisfang lögreglustöðvarinnar en höfðum ekki hugmynd hvar hún var, vissum þó að hún væri í hverfinu okkar. Við lentum á sérlega glaðlyndum leigubílstjóra sem skellihló þegar við sögðum honum heimilisfangið á áfangastaðnum vegna þess að þetta er mjög nálægt húsinu okkar. Það gladdi hann líka að við ættum erindi við lögguna og einnig kættist hann mikið við að heyra að við kæmum frá Bing dao, Íslandi. Þessi ferð með hláturmilda manninum var bara góð byrjun á deginum.
Kjartan fór í vinnuna en við hin keyptum okkur samlokur og drykki og stefndum að garði sem er hérna í hverfinu okkar. Eitthvað förlaðist mér með kortið og einnig langaði mig til að fara nýjar leiðir svo gönguferðin varð lengri en áætlað var. Við nutum aðstoðar vegfarenda til að finna garðinn en mér fannst gaman að labba minni götur og upplifa stemmninguna í hádeginu, fullt af pínulitlum stöðum sem bjóða upp á mat. Staðirnir eru margir eiginlega ekki meira en einn pottur í dyragætt. Það var líka mikið um að vera í sorpflokkun, fólk á þönum með heilu stæðurnar af pappa eða plasti eða öðru aftan á hjólunum sínum.
Bræðurnir voru orðnir ansi kvartsamir yfir hita, langri göngu og villtri mömmu sem vissi ekki neitt í sinn haus. Þeir voru farnir að hugsa heim til Íslands og vildu gefa frat í þetta heita Kína. Hugi ætlaði jafnvel að afneita okkur fjölskyldu sinni, skildi ekki hversvegna hann þyrfti að búa hér þó við gerðum það. En dramatíkin gleymdist þegar við römbuðum á áfangastað, við settumst þar undir tré og horfðum yfir tjörn þar sem syntu hvítir og svartir svanir. Því miður var myndavélin ekki með í för.
Næst stóð til að strákarnir tækju snúning á leiktækjum en þegar til kom voru þau svo heit í sólinni að hvorki gátu þeir tyllt hönd eða rassi á þau. Ég varð að gjöra svo vel að koma drengjunum heim í leigubíl, þeir tóku ekki í mál að labba af stað.
Ég var búin að lofa pizzubakstri í kvöld svo næsta verkefni eftir hvíld var að fara í búð og finna hveiti, ger og annað sem þarf til pizzugerðar. Það tókst bara vel en tók tíma undir kvörtunarkór bræðranna yfir langri búðarferð. Annað vandamál kom upp þegar heim var komið en ofninn sem virkaði vel þegar íbúðareigandinn kom hérna við í gær vildi ekki virka og sló alltaf út þegar við kveiktum á honum. Þannig að niðurstaðan var pönnupizzur á eldavélinni.
Dalla

No comments: