Monday, July 31, 2006

Þá eru bræðurnir búnir að fara á sína fyrstu tölvuleikjasýningu, China Joy. Kjartan sinnti spilurum og öðrum á sýningunni en við hin kíktum með Yongjia á staðinn. Þetta var hálfgert brjálæði, stærra og háværara en heimilissýningin í Laugardalnum í gamla daga. Fyrirtækin kynna sína leiki, Optic kynnti EVE meðal annars með breikdönsurum og líka voru nokkuð margar ungar stúlkur klæðlitlar á ferðinni þarna til að kynna leikina.
Sviðsmynd eins leiksins var kastali, Stirnir vildi skoða en þá dreif að okkur stúlkur í englabúningum sem vildu fá mynd með Huga (Cupid) eins og þær sögðu. Hugi tyllti sér með stúlkunum en svipurinn var nú ekki fallegur, hann opnaði ginið upp á gátt en þeim fannst hann bara krúttlegur og flissuðu.
Strákarnir prófuðu leik þar sem smábörn með bleiur eru í kappakstri. Þeir voru myndaðir í bak og fyrir og þetta fannst á vefsíðu í dag http://news.17173.com/content/2006-07-30/20060730151446333.shtml
Textinn segir að Hugi sé alvarlegur á fyrstu myndinni. Stirni eru lögð orð í munn á þeirri næstu og hann segist ætla kenna manninum hvernig eigi að spila þennan leik.
Við forðuðum okkur heim en fengum engan leigubíl svo við tókum boði manns sem vildi skutla okkur, ólöglegur leigubíll.
Síðustu dagar hafa verið rólegir, ástæða skrifleysis er heilsuleysi ritarans, ég hef glímt við pest síðan í síðustu viku en er orðin betri núna.
Bræðurnir fóru í prufutíma í jóga á laugardaginn, þeim líkaði vel enda þekkja þeir jógaástundun frá Dvergasteini, hjá Erlu. Þeir hafa áhuga á því að skrá sig á námskeið í jóga en við ætlum að sjá til hvort af verður.
Ég hef ekki undan að kaupa litabækur handa drengjunum, þeir sitja við og lita í akkorði. Ekki hægt að segja annað en að þeim fer fram og þeir eru orðnir ansi vandvirkir. Við fjárfestum í hjólum í síðustu viku svo nú geta þeir þeyst hérna um svæðið, það er ágætis aðstaða til hjólaiðkunar.
Ég set með eina mynd af mæðginum og Daisy.
Dalla

2 comments: