Monday, October 02, 2006

Þriðji dagur í dag af níu frídögum. Októberfríið er mikilvægt hérna, margir fá frí og heimsækja fjölskylduna sem oft býr annarsstaðar í Kína. Kínverjar fá víst ekki oft frí enda lokar Kína aldrei eins og Atli segir, það er enginn munur á sunnudögum og öðrum dögum hérna.
Þessa dagana eru tunglkökur (mooncakes) allsstaðar til sölu, hérna er þjóðsagan um tilurð þeirra, maður var fenginn til að skjóta niður 9 aukatungl sem birtust á himninum, hann átti svikula eiginkonu ... http://chinesefood.about.com/od/mooncake/a/moonfestival.htm
Eigandi íbúðarinnar okkar birtist um daginn með fullan kassa af kökum handa okkur, fallega gert af honum. Daisy var stödd hérna og hún dásamaði kökurnar. Þessar voru með grænu bauna fyllingu og ég smakkaði dýrðina. Ekki get ég sagt að þetta séu góðar kökur enda fékk Daisy kassann afhentan, ég hef sjaldan neitað kökum en þetta gat ég ekki borðað.
Það er ekki auðvelt að ferðast innan Kína núna, öll flug eru bókuð, við ákváðum að vera í Shanghæ þessa frídaga, héldum líka að við værum föst því við vorum sein að athuga með ferðir. En í dag gáfumst við upp, það hefur rignt síðan á laugardag og við fundum okkur flug til Hong Kong á miðvikudag. Við ætlum að eyða fimmtudeginum í Disneylandi, skoða okkur um og koma til baka á laugardag. Bræðurnir eru spenntir og við líka.
Í síðustu viku byrjaði Hugi í Kung fu tímum, þjálfunin er í íþróttahúsinu strax eftir skóla svo þá taka þeir bræður ekki skólabílinn heim, heldur kem ég og sæki þá. Stirni leist svo vel á að hann langaði til að vera líka með. Það var auðsótt mál, stúlkan sem skráði niður nöfn sagði að fjögurra ára mættu vera með. Hugi var stórhrifinn eftir fyrsta tímann, hann sparkaði kennarann niður, reyndar í gegnum dýnu og var stoltur af því. Stirnir sparkaði Huga niður eftir tímann
Það er svosem lítið að frétta, Atli er hérna hjá okkur, við ætlum að hafa DVDkvöld eftir pizzuát. Hugi er farinn inn í rúm að lesa um Frans sem er nú nokkuð líkur honum, smágerður, krullhærður og með sterkar skoðanir á lífinu. Uppáhaldið er Frans fer í sumarbúðir en Hugi kom fram með þá ósk um daginn að fara í sumarbúðir næsta sumar á Íslandi. Eru þær til fyrir 7-8 ára?
Dalla

No comments: