Thursday, October 19, 2006

Síðasta helgi fór ekki bara í matarstefnuna. Við tókum lestina til Suzhou á sunnudeginum, vorum kannski svolítið sein af stað en náðum þó að skoða heilmikið þegar á staðinn var komið. Við slógumst í för með Atla og Yongjia en það er ómetanlegt að ferðast með þeim, ýmislegt virðist geta komið upp á í ferðalögum í Kína og nauðsynlegt að vera kínverskumælandi. Til dæmis fengum við okkur rúgbrauðsbíl á leigu með bílstjóra sem keyrði okkur á milli staða.

Í Suzhou byrjuðum við á því að ganga um garð friðsældar sem varð nú minna friðsæll við komu bræðranna þangað.



Við hittum fyrir dverg sem sat á stól og bauðst til þess að skrautskrifa nöfn bræðranna gegn vægri borgun. Hún gerði þetta snilldarvel, í stöfunum eru fiskar, fiðrildi og fönix meðal annars. Bræðurnir horfðu á hana hugfangnir og þegar hún var búin spurði Hugi: "Er hún barn eða álfur?"

Við fengum myndastopp við pagóðuna, Kjartan virðist nú ekki hafa tekið neinar myndir þar, hann var á myndavélinni.
Þvínæst fórum við í litla silkiverksmiðju, við sáum meðal annars hvernig púpan utan um silkiorminn er losuð og toguð í sundur í vatni og síðan strekkt á nokkurskonar boga. Hugi fékk að prófa og náði þessu með nokkurri lagni.
Þá fórum við í siglingu eftir síkjum Sushou en borgin er líka kölluð Feneyjar austursins. Borgin á sér 2500 ára gamla sögu og brýrnar yfir síkin eru margar, hundruða ára gamlar. Það var mjög fallegt að sigla um þegar rökkvaði og ljósin kviknuðu meðfram síkjunum.


Heimferðin var nokkuð skrautleg, við fengum ekki lestarmiða fyrr en seint um kvöldið þannig að eftir nokkra rekistefnu keyptum við okkur sæti í rúgbrauði til Shanghai, deildum því með öðru fólki á hraðferð.
Á mánudaginn bar það helst til tíðinda að strákarnir gerðust fyrirsætur. Bekkjarfélagi Stirnis býr á hóteli, í hótelherbergjum sem hefur verið breytt í íbúð. Mamma þessa stráks fékk nokkra krakka til að sitja fyrir á mynd fyrir jólabækling hótelsins. Hótelið heitir Ritz Carlton, fínt hótel í miðbænum. Strákarnir voru bara þægir, reyndar stóð sumum krökkunum ekki á sama þegar lifandi bangsi birtist með jólasveinahúfu og átti að vera með á myndinni. Ein lítil stelpa missti alveg kjarkinn.
Að launum fengu strákarnir smákökur og bangsa og svo var haldið með hersinguna á leikvöllinn sem er á áttundu hæð.
Spenna vikunnar einkennist af afmælisveislu Huga sem verður haldin á laugardagsmorgun. Sautján krakkar hafa boðað komu sína en við erum búin að panta barnvæna pöbbinn O´Malleys fyrir fjörið. Samhliða þessu erum við að sanka að okkur búningum fyrir hrekkjavökuna í næstu viku.
Undirrituð ætlar að stjórna föndri í Hugabekk á morgun, ég er vel undirbúin. Ef eitthvað gengur ekki upp verð ég tilbúin með eitthvað hálfklárað undir borði eins og tíðkast í Stundinni okkar.
Þannig að það er kökubakstur og föndur á morgun, það er eins og jólin séu komin. Reyndar fara þau að nálgast því ég ætla að senda jólagjafir heim til Íslands með Kjartani 8. nóvember svo það er ekki seinna vænna en að byrja innkaupin.
Nóg að gera að venju í Shanghæ, allir í stuði. Takk tengdó fyrir pakkann með flatkökum og þjóðbúningum fyrir strákana! Það er nefnilega dagur Sameinuðu þjóðanna á þriðjudag og þá verður dagskrá á sal í skóla strákanna. Þeir eiga að ganga inn með íslenska fánann, drengirnir og verða að vera sæmilegir til fara.
Dalla

No comments: