Tuesday, October 24, 2006
Það var ekki vitlaus hugmynd að hafa afmælisveislu á írskri krá. Okkur brá reyndar þegar við litum út um gluggann að morgni afmælisveisluhalda því það var byrjað að rigna eftir þriggja vikna þurrk. Þegar við komum á veislustaðinn var verið að tjalda yfir allan garðinn og blása upp hoppukastalann svo þetta reddaðist allt saman. Gestirnir streymdu að upp úr kl. 10, þetta var morgunveisla hjá okkur svo við höfðum staðinn út af fyrir okkur.
Krakkarnir gátu fengið andlits eða útlimamálningu til að komast í stemmningu. Síðan var farið í leiki, hoppað í kastalanum og nokkrir föndruðu sér pappírssnák. Stúlka frá staðnum sá um að stjórna leikjum, myndastyttuleik og Simon says...
Það var gaman að kynnast krökkunum og foreldrunum líka. Þetta er virkilega góður hópur og Hugi var hinn glaðasti með vel heppnað afmæli. Hann fékk fallegar gjafir sem hann hefur enn ekki komist yfir að skoða. Hann er þó búinn að setja saman legó, pússla og leika með ninjasverðið.
Bræðurnir sáu sjálfir um að skreyta kökuna, með sykurpúðum, froskahlaupi, Mikka mús hlaupi, smarties og lakkrís.
Á föstudaginn var ég í foreldrastarfi með Huga bekk ásamt einum pabbanum. Hann sýndi krökkunum myndir af hvirfilbyljum og bjó til hvirfilbyl í flösku. Ég föndraði með þeim rellur. Þetta tengist lærdómi barnanna um veður síðustu vikur og það var rosalega gaman. Þau voru svo áhugasöm og spennt fyrir því sem við gerðum með þeim að ég var alveg hissa. Hugi var frekar hissa á nýtilkominni föndurkunnáttu móður sinnar og spurði, "hvar lærðirðu eiginlega að búa til rellur mamma?"
En það vantaði ekki að hann var stoltur af mömmu sinni elsku kallinn. Ég þakka google fyrir aðstoðina með rellugerðina, allt er hægt að finna á netinu...
Dalla

No comments: