Tuesday, September 26, 2006

Síðustu dagar hafa einkennst af læknaheimsóknum. Við erum búin að prófa allan skalann í Shanghæ.
Við fórum af stað með Yongjia á laugardagsmorgun til læknis, til að láta kíkja á fótvörtu á Stirni. Ég ætlaði að forðast það að borga 20.000 fyrir vörtutöku hjá fínu læknaklíníkinni hérna svo við ákváðum að fara til kínversks læknis. Við byrjuðum á spítala hérna mjög nálægt okkur. Þar var biðstofa full af ungbörnum og einn læknir á vakt svo okkur var sagt að það væri styttri bið á öðrum spítala.
Inn af biðstofunni voru börn í einhverskonar ungbarnasundi, þau höfðu kúta um hálsinn og svömluðu um í risastórum vöskum.
Þetta er semsagt kínverska ungbarnasundið.
Á næsta spítala var okkur vísað upp á hæðir til þess að komast að því að þar væri börnum ekki sinnt. Við gengum framhjá apóteki spítalans, öðru megin voru hefðbundin lyf en hinumegin voru ilmandi jurtir í pokum.
Við fundum barnaspítalann og gengum inn. Okkur var vísað í gegnum stóra biðstofu þar sem margt fólk var samankomið með börn, stór og smá. Hreinlætið virtist af skornum skammti og þarna var megn pissufýla. Við fórum áfram og út í garðinn og þar inn um aðrar dyr þar sem allt var tómt á stórri biðstofu, þetta var svokallað VIP room. Þar kostar 6 sinnum meira að hitta lækni þarna en hann virtist ekki mikið upptekinn því hann var kominn fram á biðstofu til að líta á Stirni fyrr en varði.
Það var skrýtin tilfinning að geta borgað fyrir hraða læknisþjónustu þar sem allir töluðu ensku meðan almúginn fátæki beið í pissufýlunni. Ekki frá því að ég væri með óbragði í munninum vegna minnar eigin stöðu.
Helgin var mjög róleg hjá okkur, Kjartan í Tókýó svo við héldum okkur í hverfinu. Við fórum í sund og í garðinn hérna við hliðina þar sem bræðurnir gengu á nuddsteinum og klifruðu á steinastyttum.



Hilmar frá CCP er hérna núna og við fórum nokkur út að borða með honum í gærkvöldi á hot pot staðinn okkar Litla, feita lambið. Þar er súpan í borðinu og við setjum út í hana kjöt og grænmeti og veiðum aftur upp úr til að borða.
Hugi var heima á mánudaginn og við fórum saman til læknis. Þá var farið í fínu klíníkina World link. Við fengum einhver svör við vandamálinu og læknirinn ætlar að fylgja Huga eftir þar. Hann þarf jafnvel að fara í meiri rannsóknir.
Kennari Huga er ánægð með hann, hún sagðist hafa lent í því um helgina að tala við kínverska verkamenn sem voru að gera við heima hjá henni og það hefði sko verið erfitt að vera svona mállaus á kínverska tungu. Þetta eru hennar ummæli um strákinn:
"Hugi has been marvelous and I am very proud of him. He sits in class all day with patience and good humor and joins in all our activities...it all is so difficult and he is handling it so well."
Dalla

No comments: