Tuesday, October 31, 2006

Hugi mundi eftir einu sem hann saknar frá Íslandi, það eru pizzusnúðar. Við bökuðum einn skammt í gær eftir uppskrift sem ég fann á netinu, úr heimilisfræði í einhverjum skólanum. Ég var búin að fjárfesta í þurrgeri í einni af fjölmörgum ferðum mínum í stórmarkaði vegna kökubaksturs fyrir afmælisveisluna fyrir stuttu. Það er nefnilega þannig að það er hægt að finna ýmislegt hérna í búðunum en það er ekki endilega til þegar mann vantar það. Þetta getur kostað ferðir út um allan bæ í dýru, fínu útlendingabúðirnar.
En pizzusnúðarnir slógu í gegn, bræðurnir höfðu ekki mikla lyst á kvöldmat eftir snúðaátið. Ég sé það að ég gæti byrjað á stórbakstri á brauði og það yrði vinsælt, það er erfitt að finna gott brauð hérna. Kínverjar borða yfirleitt ekki brauð en samt sjást brauð hérna í flestum búðum en mörg þeirra eru sæt. Stirnir bað Daisy um að smyrja handa sér brauðsneið þegar hún var að passa eitthvert kvöldið og hún gerði það eftir leiðbeiningum frá Huga. Daisy vissi ekki hvernig ætti að útbúa brauðsneið, hún segist aldrei borða brauð.
Við fórum á akróbatasýningu í kvöld. Það var mjög gaman og strákarnir voru sérstaklega spenntir fyrir atriðunum þar sem karlmenn og börn komu við sögu. Þeir voru ekki hrifnir af dúllulegum atriðum eins og konur með diska á priki. Strákur sem klifraði upp á tíu stóla og stóð þar á annarri hönd sló í gegn. Sömuleiðis lokaatriðið sem voru menn á mótorhjólum inni í stórri stálkúlu sem brunuðu í hringi.
Ég læt fylgja nokkrar myndir af krabbaáti fyrir rúmri viku. Yongjia og Atli útbjuggu máltíð handa okkur, virkilega ljúffenga. Hairy crabs eða loðnir krabbar eru feitir og góðir á þessum tíma árs. Þeir fóru lifandi í pottinn greyin...

1 comment:

Anonymous said...

En hvað þessi krabbi er girnilegur! Nammi namm!!