Tuesday, October 24, 2006





















Fulltrúar Íslands stóðu sig vel á degi Sameinuðu þjóðanna. Þeir báru íslenska fánann inn í salinn og stilltu honum upp með öðrum fánum á sviðinu. Undirrituð fékk smá kökk í hálsinn þegar hún horfði á þessa myndarpilta uppáklædda.
Dagskráin í salnum var bara skemmtileg, árgangarnir sungu eða dönsuðu. Ég sá nú ekki betur en Stirnir bærði varirnar í söngnum en Hugi söng hástöfum. Kennararnir dönsuðu afrískan dans, þeir taka sig ekki allir alvarlega. Krakkarnir höfðu gaman af fíflalátunum.
Í lokasöngnum söng Stirnir líka hástöfum, "friends are like diamonds and friends are like gold..." þeir hafa æft þennan söng hérna heima síðustu daga.
Eftir dagskrána varð Stirnir lítill í sér þegar ég ætlaði að kveðja, ég ákvað að fylgja honum í hádegismatinn og sjá í leiðinni hvernig hann borðar í skólanum. Þeir bræður koma alltaf heim úr skólanum hungraðir eins og úlfar. Kona þarna í mötuneytinu sagði mér að hann borðaði vel, sérstaklega af hrísgrjónum, skrýtnast fannst mér þó að boðið er upp á tómatsósu á hrísgrjónin, ekki sojasósu eins og hérna heima og bræðurnir elska.
Kveðjustundin varð erfið og endaði með því að Stirnir öskraði og var slitinn af mér af íþróttakennararanum, ég heyrði öskrin lengi. Ég borðaði með Lethe og Mihiri í hádeginu, fékk mér hvítvínsglas með matnum til að jafna mig eftir tilfinningaríka kveðjustund, það geri ég nú aldrei í hádeginu.
Bræðurnir komu svo kátir heim með skólabílnum seinnipartinn. Við pössuðum Arthúr í smástund og fórum svo út að leika. Við erum búin að baka smákökur fyrir morgundaginn, Hugi ætlar að bjóða upp á þær í nestistímanum. Þær eru ljótar en bragðast ágætlega vona ég.
Dalla

No comments: