Friday, October 13, 2006
Hérna kemur myndin innan úr geimfjallinu í Disneylandi!
Vikan hefur verið annasöm. Kínverskutíminn á þriðjudag var lengri en venjulega og við lærðum heilmörg ný orð og fengum 3 heimaverkefni með okkur heim. Nú er ég farin að skrifa litla stíla, reyndar mjög einfalt, við kynnum okkur fyrir hvort öðru og segjum hvort öðru hve ánægjuleg sú kynni séu. Ég átti að koma með fjölskyldumyndir á fimmtudaginn, benda á myndirnar og segja: "Mætti ég kynna ykkur fyrir systur minni!"
Samnemendur mínir eru ágætasta fólk svo ég lýg engu þegar ég segi það vera ánægjulegt að kynnast þeim. Sophie, er kona um fertugt sem á þrjá stráka, hún fylgdi manninum sínum hingað. Delphine er um þrítugt, barnlaus og fylgdi sínum manni einnig hingað. Mennirnir þeirra vinna hjá sama fyrirtækinu, Alston sem smíðar neðanjarðarlestir fyrir Kínverja.
Juan er Kólumbíumaður sem hefur búið í Kína í nokkur ár en er fyrst núna að læra kínversku. Hann er með sitt eigið fyrirtæki sem flytur út fyllingar í brjóst og fleira tengt lýtalækningum til Kólumbíu og landa þar í kring. Hann segir að það sé ekki svo mikilvægt að konur séu með fullkomið andlit í heimalandinu en líkaminn þarf að vera fullkominn. Þessvegna eru systur hans fjórar og móðir allar með brjóst Made in China.
Við Delphine borðuðum saman eftir tímann á þriðjudag, fórum á kitsch stað, thailenskan, þar sem stúlkur dönsuðu á sviði.
Á miðvikudag var annar kungfu tíminn hjá strákunum. Þeir fengu afhentan búninginn, gulan með rauðbleikum líningum og belti. Það spannst upp mikil umræða hjá þeim eftir tímann hvort beltið væri rautt eða bleikt. Stirnir vildi halda því fram að það væri bleikt en það vildi Hugi ekki samþykkja. Reyndar fékkst Stirnir ekki í búninginn en hann ætlar að vera í honum næst. Bræðurnir eru ánægðir, kennarinn er skemmtilegur og þetta er ágætis hreyfing. Hérna er sýnishorn:
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment