Monday, October 09, 2006

Hong Kong ferðin var í alla staði mjög vel heppnuð!
Fyrsta daginn fórum við í rölt um Kowloon þar sem við gistum en Kowloon hverfið er á meginlandinu, samt er það hluti af Hong Kong. Við gengum gegnum garð og fórum á leikvöll og röltum svo meðfram sjónum og horfðum á skipin og yfir til Hong Kong eyjar. Um kvöldið borðuðum við á Víetnömskum stað og skoðuðum kvöldmarkað.


Daginn eftir tókum við neðanjarðarlestina í Disneyland, fallegur sólríkur dagur og mátulega heitt. Það voru einhverjar tafir í lestarkerfinu svo við Kjartan vorum stressuð yfir því að lenda í röð við innganginn í dýrðina. Stirnir reddar sér í lestunum, hann tekur sér stöðu helst fyrir framan góðlegar konur og tilkynnir: Me sit! Og yfirleitt virkar þetta, Hong Kongbúar eru kurteisir líklega vegna arfleifðar Breta og láta honum eftir sætið sitt, veit ekki hvort þetta myndi virka hjá honum í Shanghai.
Síðasti spölurinn var í Mikkalest, gluggarnir voru í laginu eins og Mikkalógóið, höfuðið. Þegar við nálguðumst innganginn vorum við nokkuð hissa því varla var hræða á ferli þarna við opnun kl. 9:30, við löbbuðum beint inn. Við settum stefnuna á Space mountain en þar hafði Hugi pantað ferð. Þetta er rússíbani og allan tímann eru farþegar í hálfmyrkri, aðeins smá skin frá stjörnum. Stirnir var tekinn með í ferðina og sat við hliðina á mér, ég veit nú ekki hvort okkar var hræddara. Ég hallaði mér að honum og reyndi að hughreysta hann í gegnum hávaðann sem fylgdi ferðinni. Þarna festum við kaup á fyndinni fjölskyldumynd. Augun í Huga eru jafn stór og í stærsta hundinum í sögunni eftir H.C. Andersen. Kjartan er spenntur, ég er á svipinn eins og ég hafi bitið í súra sítrónu og það rétt glittir í augun á Stirni upp úr vagninum.

Stirnir lýsti þessari ferð þegar leið á daginn sem hræðilegri og gerði miklar hreyfingar með höndunum sem táknuðu hraðann og beygjurnar, einnig fylgdu þónokkrir hljóðeffektar.




Við ákváðum að fara í rólegheit í næsta tæki, semsagt vagna þar sem við keyrðum rólega í gegnum hóp geimbófa vopnuð geislabyssu, við vorum að hjálpa Bósa ljósár í baráttunni við Surg. Þetta tæki var svo skemmtilegt að við fórum alls fjórum sinnum í það yfir daginn.


Svona leið dagurinn, það voru engar raðir sjáanlegar, það lengsta sem við þurftum að bíða voru 5 mínútur. Ég ætlaði ekki að trúa þessu hvað þetta var ljúft þegar við löbbuðum út kl. 7 um kvöldið. Þetta var önnur upplifun en við fengum í París fyrir rúmum tveimur árum í steikjandi hita, bíðandi í röðum endalaust.
En við sáum og gerðum ýmislegt. Við fórum í gegnum Hundraðekruskóg Bangsímons og félaga, keyrðum bíla, snérumst í bollum og hringekju, sigldum yfir hættulegt fljót þar sem flóðhestar og önnur dýr gerðu sig líkleg til að ráðast á bátinn. Undir lokin lentum við í sjálfheldu þar sem skotið var á okkur og það kviknaði í vatninu í kringum okkur. Svo skoðuðum við húsið hans Tarsans uppi í tré og fórum í þrívíddarbíó. Þar var sýnd mynd um Andrés önd og til að auka á upplifunina gengu yfir okkur vindhviður og það skvettist á okkur vatn. Við sáum líka Lion King leik og söngsýningu og fylgdumst með skrúðgöngu helstu sögupersónanna.
Hápunkturinn að Huga mati fyrir utan Space mountain (sem hann fór þrisvar í), var þegar við fórum á interaktíva sýningu þar sem Stitch var á skjá og krakkarnir sátu á gólfinu fyrir framan skjáinn. Stitch bað um að tala við strákinn í rauða bolnum, það var Hugi. Þá kom kona labbandi með hljóðnema til Huga. Hann svaraði spurningum Stitch um hvað hann héti og hvaðan hann væri eins og herforingi. Svo hjálpuðu krakkarnir Stitch að komast út úr völundarhúsi með því að kalla lit á dyrum sem hann átti að fara í gegnum. Áður en Stitch fór burt á geimflauginni sinni kallaði hann: "Nice meeting you Hugi, see you in Iceland!". Hugi bíður spenntur eftir því að Stitch komi til Íslands svo hann geti gert tilraunir með honum.

Við borðuðum hádegisverð á kínverskum veitingastað, vorum reyndar vöruð við þegar við gengum inn á staðinn að hann væri kínverskur, ekki búist við því að vesturlandabúar vilji borða Dim sum í hádegismat.
Bræðurnir stilltu sér upp til myndatöku með mörgum sögupersónum, Bósa ljósár, Bangsímon, Mínu og Mikka mús, Guffa og dreka. Þetta var bara ekkert mál því ekki þurftum við að bíða lengi á hverjum stað.




Á leið heim vorum við öll orðin fölleit eftir skemmtun dagsins. Við höfðum bara orku í að setjast inn á veitingastaðinn á hótelinu okkar og panta okkur þýskar pylsur og kartöflusalat sem var í boði á Oktoberfest hótelsins. Þessi Oktoberfest var auglýst allsstaðar en þegar við til kom gekk illa að panta af matseðlinum. Pylsurnar skiluðu sér seint og illa til okkar.

Á föstudaginn vorum við ennþá fölleit eftir alla skemmtunina svo við brugðum á það ráð að gefa Huga kók að drekka með morgunmatnum og Stirnir fékk súkkulaðimuffins eftir matinn. Þá færðist litur í kinnar og við gátum farið af stað til Lammaeyjar. Þá fórum við út á Hong Kong eyju í neðanjarðarlestinni og tókum ferju þaðan, einungis 30 mínútna ferð. Þar vorum við komin út í náttúru, engir vegir, bara göngustígar. Það var ótrúlega þægilegt að ganga um í rólegheitum, við fuglasöng og fiðrildi sem flögruðu í kringum okkur. Við gerðum okkur grein fyrir því að þetta höfum við ekki upplifað síðan við komum til Kína, allsstaðar er fólk, umferð og læti.
Við tylltum okkur á litla strönd þar sem við vorum næstum því einu gestirnir, þvílíkur munur frá ströndinni í Qingdao þar sem maður var við mann. Strákarnir undu sér vel í holugreftri og sandskúlptúragerð á milli þess sem þeir dýfðu sér í sjóinn. Stirnir er upprennandi strandljón sé ég, hann unir sér vel í sjóböðum. Hugi gróf mikla holu svo hann hvarf ofan í hana.
Við tókum ferjuna aftur til Hong Kong eyjar seinni partinn og lentum beint í borgarstressinu því við vorum að verða of sein, höfðum pantað okkur borð á veitingastað uppi á fjalli og þangað þurftum við að taka "tramma" upp. Þetta hafðist þrátt fyrir að við sætum föst í umferð í leigubíl í hálftíma.
Við fengum okkur góðan kvöldmat í fallegu umhverfi, sátum úti. Svo tókum við nokkrar myndir af okkur með útsýni yfir Hong Kong í bakgrunni, skýjakljúfarnir eru skrautlegir og flottir.
Við áttum smá orku sem við notuðum til að labba niður fjallið, reyndar á steyptum göngustíg.
Síðasta daginn fórum við í verslunarleiðangur fyrir Atla, núna eiga allir Nintendoleikjatölvu nema við Kjartan. Við settumst inn á kaffihús/bókabúð þar sem lítill kettlingur kúrði í einni bókahillunni. Það var við Times square sem er nú ekkert sérstaklega stórt, frekar þröngt svo maður gerir sér grein fyrir því að land er dýrt og óþarfi að eyða plássi í risatorg. En kosturinn við Hong Kong er tvímælalaust sá að það er auðvelt að komast út í náttúruna og svo er það líka kostur að allir tala ensku svo maður er ekki mállaus eins og hérna í Shanghæ.
Við tókum sporvagn í áttina að flugvellinum og skiptum svo yfir í hraðskreiðari lest. Ég mæli með ferð til Hong Kong, mig langar til að koma þangað aftur...
Í gær var okkur boðið í köku til fransk/hollenskrar fjölskyldu seinnipartinn. Yngri sonurinn er með Stirni í bekk og sá eldri er á Huga aldri. Þau búa í æðislegu húsi í franska hverfinu með stóran garð þar sem kanína og fullt af moskítóflugum halda til. Tvær aðrar frönskumælandi fjölskyldur voru þarna líka og þetta var virkilega huggulegt. Við sátum úti og spjölluðum fram að kvöldmat.
Dagurinn var nú ekki alveg búinn því við kíktum í afmæli til Atla fyrir svefninn. Það voru ansi þreyttir strákar sem fóru af stað í skólann í morgun eftir viðburðaríkt frí. Myndir koma fljótlega!
Dalla

1 comment:

Anonymous said...

Sæl Dalla. Þór hérna í Beijing

Hvað segirðu gott?

Ég er að fara til Shanghai 26. okt og verð í þrjá daga. Var að spá hvort þú vissir um góða staði til að heimsækja?

Kv. Þór

email: thormatt@gmail.com
síða: www.123.is/kina