Friday, November 03, 2006
Hérna fylgir afgangurinn af krabbaveislumyndunum sem vildu ekki inn í síðasta bloggi.
Eldhússtemning með Atla og Yongjia og Stirnir og Atli horfa í pottinn... Yongjia þurfti svo að leiða okkur í gegnum átið, við kunnum ekkert að ná í gumsið. Krabbaát 102.
Þessa vikuna höfum við verið ansi mikið á þvælingi, akróbatasýningin á þriðjudaginn og svo fórum við út að borða á miðvikudagskvöldið en það gerum við nú venjulega ekki á skóladagskvöldum. En það var ekkert til í ísskápnum svo við urðum.
Við fórum á múslímskan veitingastað þar sem borinn er fram matur frá Norður-Kína, svæði þar sem múslimar búa. Okkur leið eins og við værum komin til Frakklands, starfsfólkið leit alls ekki út eins og Kínverjar frekar eins og NorðurAfríkubúar. En samt eru þetta Kínverjar.
Við fengum okkur lambakjöt sem var mjög gott. Það var borið fram í stóru stykki og við fengum afhenta einnota hanska til að rífa kjötið í okkur. Þarna er hægt að panta heilt lamb á aðeins 700 íslenskar krónur en við vorum nú ekki nógu gráðug til að leggja í það. Stirnir borðaði sérstaklega vel af lambinu og af uppáhaldsréttinum kínverska sem samanstendur að tómötum og eggi.
Þegar leið á máltíðina byrjaði fjörið því einn þjónanna spilaði á skemmtara og söng með. Stúlka og maður dönsuðu milli borða á smáplássi og áður en leið á löngu var Hugi kominn með í dansinn. Parið dró fleiri með sér á gólfið og það myndaðist frábær stemmning. Á tímabili vorum við öll fjölskyldan á dansgólfinu. Strákarnir dönsuðu lengi og tóku þátt í einhverskonar kóngadansi líka.
Stirnir sagði þegar hann kom heim að hann hefði dansað við prinsessu en stúlkan sem leiddi dansinn var í fallegum rauðum kjól og ekki ólík fallegri prinsessu.
Á leiðinni heim gengum við framhjá hárgreiðslustofu og í einhverju stundarbrjálæði ákvað ég að það væri gott að láta klippa strákana. Þeir fengu hárþvott til að byrja með og voru svo settir í stólana. Þá hringdi síminn minn, góð vinkona frá Íslandi var á línunni. Á meðan ég talaði voru strákarnir bókstaflega snoðaðir, þeir hafa aldrei verið svona stuttklipptir áður.
Hugi varð svo glaður þegar hann horfði í spegillinn og sá engar krullur. Hann er á því skeiði núna að hata krullurnar sínar. Hann grét reyndar fögrum tárum þegar við komum heim og hárið vildi ekki haldast slétt þó það væri svona stuttklippt.
Ég hugga mig við að hárið vex aftur. Ég hélt að kínverjarnir myndu hætta að spyrja hvort Stirnir væri stelpa en það gerist ekki. Þeim finnst hann vera stelpulegur áfram.
Í gær voru svo foreldraviðtöl í skólanum, nú er einn fjórði af skólaárinu búinn og við fengum einkunnir bræðranna í vikunni. Eins og gefur að skilja fær Hugi ekki háar einkunnir vegna mál og skilningsleysis en hann stendur sig vel í stærðfræði, íþróttum og tónlist sem hann elskar. Hann lærði texta við tvö lög fyrir sameinuðu þjóða daginn og hann pikkar upp nótur sem hann lærði á sílafón, skrifaði þær allar niður hérna um daginn. Kennarinn hans segir að hann taki miklum framförum núna, hún sér mikinn mun síðustu tvær vikur. Hann lærir 8 orð á viku, gerir ýmsar æfingar með þau alla vikuna í heimavinnu og tekur svo nokkurskonar stafsetningarpróf á fimmtudögum. Í lokin á hann líka að skrifa setningu og nota sem flest af þessum orðum. Setningin hans í gær var: "My brother is jumping with friends." Þetta bjó hann til alveg sjálfur og skrifaði líka sjálfur.
Að auki er hann í aukatímum í ensku með tveimur bekkjarsystrum, þar tekur hann góðum framförum en sú kennsla fer oft fram út um allan skóla. Kennarinn setur krakkana í aðstæður á leikvellinum, mötuneytinu o.s.frv.
Stirnir fær líka góða umsögn hjá sínum kennara. Hann tekur þátt í öllu og er góður við bekkjarfélaga sína. Þau eru með stjörnukerfi í bekknum, það er hægt að missa stjörnur fyrir óþekkt en það hefur ekki ennþá gerst hjá mínum manni. Bekkurinn er að læra um tilfinningar þessar vikurnar, þau ræða um það hvernig líðan kemur fram í svipbrigðum o.s.frv. Þau læra líka einn bókstaf í viku, fara í íþróttir, tónlistarkennslu og tölvutíma. Stirnir fékk sérstakt hrós fyrir tölvukunnáttuna og líka fyrir getu á íþróttasviðinu sem ég skil nú ekki alveg, mér hefur alltaf fundist hann svolítið klunnalegur. Kínverskukennarinn hrósar honum fyrir góðan framburð, hann er góður í eftirhermum sem kemur sér vel.
Svo verð ég að taka fram að sjálf fékk ég einkunnir í kínverskunáminu mínu, ég vissi nú ekki að það stæði til. Ég fékk mjög góðar einkunnir, Kjartan segir reyndar að þannig haldi þeir nemendum áfram í skólanum en ég tek hann ekki trúanlegan. Ég þarf helst að bæta mig í framburði, það eru nokkur hljóð sem eru mjög erfið og ég rugla saman.
Dagurinn í gær var þannig að Lethe passaði strákana meðan við Kjartan hittum kennara strákanna og svo fór ég í kínverskuna. Svo hitti ég gengið í Zongshangarði eftir kínverskuna, Tashi dóttir Lethe var auðvitað með í för. Stirnir sagði fyrr um morguninn að hann væri giftur Tashi. Ég spurði þá hvenær brúðkaupið hefði farið fram og svarið var "í gær".
En þau léku sér fallega saman krakkarnir og við fórum í siglingu þar sem Hugi var skipstjórinn að venju. Við enduðum daginn mæðginin á ferð í Carrefour þar sem Hugi var betri en enginn í að aðstoða og sækja vörur, hann valdi fimm tegundir af pasta og keypti sína frönsku pylsu (saucisson) sem ég hafði ekki keypt lengi.
Á leiðinni heim sofnaði Stirnir í leigubílnum en Hugi kom til hjálpar og vakti bróður sinn og hjálpaði mér upp með pokana, hann sýnir mikla ábyrgðartilfinningu og vilja til að hjálpa til, hann hefur þroskast við að verða 7 ára!
Í dag hitti ég Christinu dönsku kunningjakonu mína, við fórum í leiðangur í gömlu borgina en þar eru ótal litlar búðir með allskonar góssi. Við ætluðum nú aðallega að ganga um og skoða en gengum út með nokkra poka. Við keyptum te, ég fann tösku handa Kjartani fyrir litlu tölvuna hans og síðast en ekki síst keypti ég mér forláta silkumussu, græna með stórri mynd af páfugli. Kannski er ég komin með svona kínverskan smekk, það var a.m.k. gömul kínversk kona í búðinni sem hreifst svo af mussunni þegar ég mátaði hana að hún tróð sér í eina líka. Ég er orðin trendsetter fyrir gamlar kínverskar konur.
Þegar ég kom heim voru feðgarnir ekki sannfærðir um að ég hefði gert góð kaup, Kjartan setti upp skrýtinn svip og Hugi sagði að þetta væri ljótt, ástæðan var að mussan væri alltof græn.
Við Christina fengum okkur mat á thailenskum stað í hádeginu og þar rakst ég á foreldra úr Huga bekk, vá ég er farin að þekkja fólk á förnum vegi, aðeins tæplega 20 milljónir í borginni og örugglega ansi margir veitingastaðir. Nú get ég farið að kalla Shanghæ heimili mitt!
Góða helgi, Dalla Shanghai ren sem þýðir Shanghæbúi
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment