Sunday, October 29, 2006
Föstudagurinn var óvenju viðburðaríkur og skemmtilegur. Við mættum 3 mömmur í bekkinn hans Stirnis og föndruðum með börnunum. Við gerðum drauga úr fótaförum barnanna og köngulær úr handaförunum þeirra. Við aðstoðuðum líka börnin við að skreyta graskerið en tilefnið var hrekkjavökuveisla í skólanum um kvöldið. Stirnir var mjög ánægður að hafa mig hjá sér, hann talaði íslensku við mig og vék ekki frá mér. Líklega er það hvíld fyrir hann að geta talað sitt móðurmál í skólanum þó ekki sé nema smástund.
Í föstudagsrokkinu á sal var Hugi kallaður upp sem eitt af afmælisbörnum síðustu vikna. Hann var glaður á sviðinu og naut þess að láta syngja fyrir sig sérstakan afmælissöng skólans. Lög sem eru sungin á þessum samkomum eru líka bless-lagið og velkomin-lagið en í svona alþjóðlegum skóla eru börn að kveðja og koma á öllum tíma ársins. Það er ekkert stílað inn á skólaárið þegar fyrirtæki senda starfsmenn sína erlendis eða vilja fá þá aftur heim. Við fengum einmitt þær fréttir á föstudag að ein bekkjarsystir Stirnis er líklega að fara frá Shanghæ fyrir jólin, sú fjölskylda er ánægð með að fá þó eins og hálfs mánaðar undirbúningstíma fyrir brottför.
Það var mikið um dýrðir á skólalóðinni um kvöldið, veðrið var mjög gott, viðraði vel til útiveru. Bræðurnir voru uppáklæddir, Stirnir köngulóarmaður og Hugi var með hníf í gegnum höfuðið og með blóðslettur á hvítri skyrtunni. Hann var ánægður með krullurnar þetta kvöld, sagði að þær kæmu sér vel til að fela spöngina sem heldur hnífnum saman.Ég var norn og Kjartan galdrakarl.
Hugi og Stirnir fóru í marga leiki eins og að setja hattinn á nornina, bíta í köngulóna og sprengja blöðrur með pílu og unnu nokkur verðlaun fyrir góða frammistöðu.
Hápunktur kvöldsins var draugaleg ganga eftir skólaganginum þar sem kennararnir voru grímuklæddir og ógnandi og eina lýsingin var ljósið frá graskerjum. Í lokin fengu bræðurnir sinn hvorn nammipokann.
Helginni höfum við eytt í rólegheitum hérna heimavið, sundferðir, hjólatúrar á svæðinu okkar og leikur inni við. Okkur Kjartani var boðið í partý í gærkvöldi og Daisy kom og passaði. Hún heyrði miklar framfarir á tali strákanna, hún hefur ekkert passað þá í rúman mánuð.
Við Kjartan skemmtum okkur vel, það voru margir frakkar í partýinu svo við gátum notað frönskukunnáttuna. En umræðuefnin eru týpísk til að byrja með: Hvað ertu búinn að vera lengi í Shanghæ, hvað verðurðu lengi, hvað ertu að gera, hvernig líkar þér...
Það er svosem ágætt að bera saman bækur sínar en stundum finnst mér ég vera eins og rispuð plata þegar ég svara þessum spurningum í hundraðasta skipti. En svona er þetta víst þegar maður er að kynnast fólki. Þarna fengum við líka þær fréttir að ein bekkjarsystir Huga er að flytja aftur til Singapore eftir rúmlega ársdvöl hér. Hún er írsk og foreldrar hennar eru hið besta fólk. Við höfum enda fengið þær ráðleggingar frá fólki sem hefur búið hér lengi að eignast frekar marga vini en einn góðan því það gæti komið sá dagur að þinn góði vinur færi heim aftur og þá stendurðu eftir á núllpunkti. Það er samt svolítið erfitt að vera svona skynsamur þegar kemur að vinskap, ég sé það ekki fyrir mér að ég fari að velja mér vini eftir lengd dvalar þeirra hérna.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Hæ, hæ og hó!
Sendi síðbúna afmæliskveðju til Huga:
Til hamingju með sjö ára afmælið Hugi minn!
Mér skilst að þú hafir haldið skemmtilega afmælisveislu og fengi mikið af börnum til þín. Ég vona að þú hafir skemmt þér vel.
Hugsa oft til ykkar og vona að þið hafið það gott.
Knús, knús og koss, koss.
Gunna frænka
Post a Comment