Hugi mundi eftir einu sem hann saknar frá Íslandi, það eru pizzusnúðar. Við bökuðum einn skammt í gær eftir uppskrift sem ég fann á netinu, úr heimilisfræði í einhverjum skólanum. Ég var búin að fjárfesta í þurrgeri í einni af fjölmörgum ferðum mínum í stórmarkaði vegna kökubaksturs fyrir afmælisveisluna fyrir stuttu. Það er nefnilega þannig að það er hægt að finna ýmislegt hérna í búðunum en það er ekki endilega til þegar mann vantar það. Þetta getur kostað ferðir út um allan bæ í dýru, fínu útlendingabúðirnar.
En pizzusnúðarnir slógu í gegn, bræðurnir höfðu ekki mikla lyst á kvöldmat eftir snúðaátið. Ég sé það að ég gæti byrjað á stórbakstri á brauði og það yrði vinsælt, það er erfitt að finna gott brauð hérna. Kínverjar borða yfirleitt ekki brauð en samt sjást brauð hérna í flestum búðum en mörg þeirra eru sæt. Stirnir bað Daisy um að smyrja handa sér brauðsneið þegar hún var að passa eitthvert kvöldið og hún gerði það eftir leiðbeiningum frá Huga. Daisy vissi ekki hvernig ætti að útbúa brauðsneið, hún segist aldrei borða brauð.
Við fórum á akróbatasýningu í kvöld. Það var mjög gaman og strákarnir voru sérstaklega spenntir fyrir atriðunum þar sem karlmenn og börn komu við sögu. Þeir voru ekki hrifnir af dúllulegum atriðum eins og konur með diska á priki. Strákur sem klifraði upp á tíu stóla og stóð þar á annarri hönd sló í gegn. Sömuleiðis lokaatriðið sem voru menn á mótorhjólum inni í stórri stálkúlu sem brunuðu í hringi.
Ég læt fylgja nokkrar myndir af krabbaáti fyrir rúmri viku. Yongjia og Atli útbjuggu máltíð handa okkur, virkilega ljúffenga. Hairy crabs eða loðnir krabbar eru feitir og góðir á þessum tíma árs. Þeir fóru lifandi í pottinn greyin...
Tuesday, October 31, 2006
Sunday, October 29, 2006
Föstudagurinn var óvenju viðburðaríkur og skemmtilegur. Við mættum 3 mömmur í bekkinn hans Stirnis og föndruðum með börnunum. Við gerðum drauga úr fótaförum barnanna og köngulær úr handaförunum þeirra. Við aðstoðuðum líka börnin við að skreyta graskerið en tilefnið var hrekkjavökuveisla í skólanum um kvöldið. Stirnir var mjög ánægður að hafa mig hjá sér, hann talaði íslensku við mig og vék ekki frá mér. Líklega er það hvíld fyrir hann að geta talað sitt móðurmál í skólanum þó ekki sé nema smástund.
Í föstudagsrokkinu á sal var Hugi kallaður upp sem eitt af afmælisbörnum síðustu vikna. Hann var glaður á sviðinu og naut þess að láta syngja fyrir sig sérstakan afmælissöng skólans. Lög sem eru sungin á þessum samkomum eru líka bless-lagið og velkomin-lagið en í svona alþjóðlegum skóla eru börn að kveðja og koma á öllum tíma ársins. Það er ekkert stílað inn á skólaárið þegar fyrirtæki senda starfsmenn sína erlendis eða vilja fá þá aftur heim. Við fengum einmitt þær fréttir á föstudag að ein bekkjarsystir Stirnis er líklega að fara frá Shanghæ fyrir jólin, sú fjölskylda er ánægð með að fá þó eins og hálfs mánaðar undirbúningstíma fyrir brottför.
Það var mikið um dýrðir á skólalóðinni um kvöldið, veðrið var mjög gott, viðraði vel til útiveru. Bræðurnir voru uppáklæddir, Stirnir köngulóarmaður og Hugi var með hníf í gegnum höfuðið og með blóðslettur á hvítri skyrtunni. Hann var ánægður með krullurnar þetta kvöld, sagði að þær kæmu sér vel til að fela spöngina sem heldur hnífnum saman.Ég var norn og Kjartan galdrakarl.
Hugi og Stirnir fóru í marga leiki eins og að setja hattinn á nornina, bíta í köngulóna og sprengja blöðrur með pílu og unnu nokkur verðlaun fyrir góða frammistöðu.
Hápunktur kvöldsins var draugaleg ganga eftir skólaganginum þar sem kennararnir voru grímuklæddir og ógnandi og eina lýsingin var ljósið frá graskerjum. Í lokin fengu bræðurnir sinn hvorn nammipokann.
Helginni höfum við eytt í rólegheitum hérna heimavið, sundferðir, hjólatúrar á svæðinu okkar og leikur inni við. Okkur Kjartani var boðið í partý í gærkvöldi og Daisy kom og passaði. Hún heyrði miklar framfarir á tali strákanna, hún hefur ekkert passað þá í rúman mánuð.
Við Kjartan skemmtum okkur vel, það voru margir frakkar í partýinu svo við gátum notað frönskukunnáttuna. En umræðuefnin eru týpísk til að byrja með: Hvað ertu búinn að vera lengi í Shanghæ, hvað verðurðu lengi, hvað ertu að gera, hvernig líkar þér...
Það er svosem ágætt að bera saman bækur sínar en stundum finnst mér ég vera eins og rispuð plata þegar ég svara þessum spurningum í hundraðasta skipti. En svona er þetta víst þegar maður er að kynnast fólki. Þarna fengum við líka þær fréttir að ein bekkjarsystir Huga er að flytja aftur til Singapore eftir rúmlega ársdvöl hér. Hún er írsk og foreldrar hennar eru hið besta fólk. Við höfum enda fengið þær ráðleggingar frá fólki sem hefur búið hér lengi að eignast frekar marga vini en einn góðan því það gæti komið sá dagur að þinn góði vinur færi heim aftur og þá stendurðu eftir á núllpunkti. Það er samt svolítið erfitt að vera svona skynsamur þegar kemur að vinskap, ég sé það ekki fyrir mér að ég fari að velja mér vini eftir lengd dvalar þeirra hérna.
Dalla
Tuesday, October 24, 2006
Fulltrúar Íslands stóðu sig vel á degi Sameinuðu þjóðanna. Þeir báru íslenska fánann inn í salinn og stilltu honum upp með öðrum fánum á sviðinu. Undirrituð fékk smá kökk í hálsinn þegar hún horfði á þessa myndarpilta uppáklædda.
Dagskráin í salnum var bara skemmtileg, árgangarnir sungu eða dönsuðu. Ég sá nú ekki betur en Stirnir bærði varirnar í söngnum en Hugi söng hástöfum. Kennararnir dönsuðu afrískan dans, þeir taka sig ekki allir alvarlega. Krakkarnir höfðu gaman af fíflalátunum.
Í lokasöngnum söng Stirnir líka hástöfum, "friends are like diamonds and friends are like gold..." þeir hafa æft þennan söng hérna heima síðustu daga.
Eftir dagskrána varð Stirnir lítill í sér þegar ég ætlaði að kveðja, ég ákvað að fylgja honum í hádegismatinn og sjá í leiðinni hvernig hann borðar í skólanum. Þeir bræður koma alltaf heim úr skólanum hungraðir eins og úlfar. Kona þarna í mötuneytinu sagði mér að hann borðaði vel, sérstaklega af hrísgrjónum, skrýtnast fannst mér þó að boðið er upp á tómatsósu á hrísgrjónin, ekki sojasósu eins og hérna heima og bræðurnir elska.
Kveðjustundin varð erfið og endaði með því að Stirnir öskraði og var slitinn af mér af íþróttakennararanum, ég heyrði öskrin lengi. Ég borðaði með Lethe og Mihiri í hádeginu, fékk mér hvítvínsglas með matnum til að jafna mig eftir tilfinningaríka kveðjustund, það geri ég nú aldrei í hádeginu.
Bræðurnir komu svo kátir heim með skólabílnum seinnipartinn. Við pössuðum Arthúr í smástund og fórum svo út að leika. Við erum búin að baka smákökur fyrir morgundaginn, Hugi ætlar að bjóða upp á þær í nestistímanum. Þær eru ljótar en bragðast ágætlega vona ég.
Dalla
Það var ekki vitlaus hugmynd að hafa afmælisveislu á írskri krá. Okkur brá reyndar þegar við litum út um gluggann að morgni afmælisveisluhalda því það var byrjað að rigna eftir þriggja vikna þurrk. Þegar við komum á veislustaðinn var verið að tjalda yfir allan garðinn og blása upp hoppukastalann svo þetta reddaðist allt saman. Gestirnir streymdu að upp úr kl. 10, þetta var morgunveisla hjá okkur svo við höfðum staðinn út af fyrir okkur.
Krakkarnir gátu fengið andlits eða útlimamálningu til að komast í stemmningu. Síðan var farið í leiki, hoppað í kastalanum og nokkrir föndruðu sér pappírssnák. Stúlka frá staðnum sá um að stjórna leikjum, myndastyttuleik og Simon says...
Það var gaman að kynnast krökkunum og foreldrunum líka. Þetta er virkilega góður hópur og Hugi var hinn glaðasti með vel heppnað afmæli. Hann fékk fallegar gjafir sem hann hefur enn ekki komist yfir að skoða. Hann er þó búinn að setja saman legó, pússla og leika með ninjasverðið.
Bræðurnir sáu sjálfir um að skreyta kökuna, með sykurpúðum, froskahlaupi, Mikka mús hlaupi, smarties og lakkrís.
Á föstudaginn var ég í foreldrastarfi með Huga bekk ásamt einum pabbanum. Hann sýndi krökkunum myndir af hvirfilbyljum og bjó til hvirfilbyl í flösku. Ég föndraði með þeim rellur. Þetta tengist lærdómi barnanna um veður síðustu vikur og það var rosalega gaman. Þau voru svo áhugasöm og spennt fyrir því sem við gerðum með þeim að ég var alveg hissa. Hugi var frekar hissa á nýtilkominni föndurkunnáttu móður sinnar og spurði, "hvar lærðirðu eiginlega að búa til rellur mamma?"
En það vantaði ekki að hann var stoltur af mömmu sinni elsku kallinn. Ég þakka google fyrir aðstoðina með rellugerðina, allt er hægt að finna á netinu...
Dalla
Thursday, October 19, 2006
Síðasta helgi fór ekki bara í matarstefnuna. Við tókum lestina til Suzhou á sunnudeginum, vorum kannski svolítið sein af stað en náðum þó að skoða heilmikið þegar á staðinn var komið. Við slógumst í för með Atla og Yongjia en það er ómetanlegt að ferðast með þeim, ýmislegt virðist geta komið upp á í ferðalögum í Kína og nauðsynlegt að vera kínverskumælandi. Til dæmis fengum við okkur rúgbrauðsbíl á leigu með bílstjóra sem keyrði okkur á milli staða.
Í Suzhou byrjuðum við á því að ganga um garð friðsældar sem varð nú minna friðsæll við komu bræðranna þangað.
Við hittum fyrir dverg sem sat á stól og bauðst til þess að skrautskrifa nöfn bræðranna gegn vægri borgun. Hún gerði þetta snilldarvel, í stöfunum eru fiskar, fiðrildi og fönix meðal annars. Bræðurnir horfðu á hana hugfangnir og þegar hún var búin spurði Hugi: "Er hún barn eða álfur?"
Við fengum myndastopp við pagóðuna, Kjartan virðist nú ekki hafa tekið neinar myndir þar, hann var á myndavélinni.
Þvínæst fórum við í litla silkiverksmiðju, við sáum meðal annars hvernig púpan utan um silkiorminn er losuð og toguð í sundur í vatni og síðan strekkt á nokkurskonar boga. Hugi fékk að prófa og náði þessu með nokkurri lagni.
Þá fórum við í siglingu eftir síkjum Sushou en borgin er líka kölluð Feneyjar austursins. Borgin á sér 2500 ára gamla sögu og brýrnar yfir síkin eru margar, hundruða ára gamlar. Það var mjög fallegt að sigla um þegar rökkvaði og ljósin kviknuðu meðfram síkjunum.
Heimferðin var nokkuð skrautleg, við fengum ekki lestarmiða fyrr en seint um kvöldið þannig að eftir nokkra rekistefnu keyptum við okkur sæti í rúgbrauði til Shanghai, deildum því með öðru fólki á hraðferð.
Á mánudaginn bar það helst til tíðinda að strákarnir gerðust fyrirsætur. Bekkjarfélagi Stirnis býr á hóteli, í hótelherbergjum sem hefur verið breytt í íbúð. Mamma þessa stráks fékk nokkra krakka til að sitja fyrir á mynd fyrir jólabækling hótelsins. Hótelið heitir Ritz Carlton, fínt hótel í miðbænum. Strákarnir voru bara þægir, reyndar stóð sumum krökkunum ekki á sama þegar lifandi bangsi birtist með jólasveinahúfu og átti að vera með á myndinni. Ein lítil stelpa missti alveg kjarkinn.
Að launum fengu strákarnir smákökur og bangsa og svo var haldið með hersinguna á leikvöllinn sem er á áttundu hæð.
Spenna vikunnar einkennist af afmælisveislu Huga sem verður haldin á laugardagsmorgun. Sautján krakkar hafa boðað komu sína en við erum búin að panta barnvæna pöbbinn O´Malleys fyrir fjörið. Samhliða þessu erum við að sanka að okkur búningum fyrir hrekkjavökuna í næstu viku.
Undirrituð ætlar að stjórna föndri í Hugabekk á morgun, ég er vel undirbúin. Ef eitthvað gengur ekki upp verð ég tilbúin með eitthvað hálfklárað undir borði eins og tíðkast í Stundinni okkar.
Þannig að það er kökubakstur og föndur á morgun, það er eins og jólin séu komin. Reyndar fara þau að nálgast því ég ætla að senda jólagjafir heim til Íslands með Kjartani 8. nóvember svo það er ekki seinna vænna en að byrja innkaupin.
Nóg að gera að venju í Shanghæ, allir í stuði. Takk tengdó fyrir pakkann með flatkökum og þjóðbúningum fyrir strákana! Það er nefnilega dagur Sameinuðu þjóðanna á þriðjudag og þá verður dagskrá á sal í skóla strákanna. Þeir eiga að ganga inn með íslenska fánann, drengirnir og verða að vera sæmilegir til fara.
Dalla
Í Suzhou byrjuðum við á því að ganga um garð friðsældar sem varð nú minna friðsæll við komu bræðranna þangað.
Við hittum fyrir dverg sem sat á stól og bauðst til þess að skrautskrifa nöfn bræðranna gegn vægri borgun. Hún gerði þetta snilldarvel, í stöfunum eru fiskar, fiðrildi og fönix meðal annars. Bræðurnir horfðu á hana hugfangnir og þegar hún var búin spurði Hugi: "Er hún barn eða álfur?"
Við fengum myndastopp við pagóðuna, Kjartan virðist nú ekki hafa tekið neinar myndir þar, hann var á myndavélinni.
Þvínæst fórum við í litla silkiverksmiðju, við sáum meðal annars hvernig púpan utan um silkiorminn er losuð og toguð í sundur í vatni og síðan strekkt á nokkurskonar boga. Hugi fékk að prófa og náði þessu með nokkurri lagni.
Þá fórum við í siglingu eftir síkjum Sushou en borgin er líka kölluð Feneyjar austursins. Borgin á sér 2500 ára gamla sögu og brýrnar yfir síkin eru margar, hundruða ára gamlar. Það var mjög fallegt að sigla um þegar rökkvaði og ljósin kviknuðu meðfram síkjunum.
Heimferðin var nokkuð skrautleg, við fengum ekki lestarmiða fyrr en seint um kvöldið þannig að eftir nokkra rekistefnu keyptum við okkur sæti í rúgbrauði til Shanghai, deildum því með öðru fólki á hraðferð.
Á mánudaginn bar það helst til tíðinda að strákarnir gerðust fyrirsætur. Bekkjarfélagi Stirnis býr á hóteli, í hótelherbergjum sem hefur verið breytt í íbúð. Mamma þessa stráks fékk nokkra krakka til að sitja fyrir á mynd fyrir jólabækling hótelsins. Hótelið heitir Ritz Carlton, fínt hótel í miðbænum. Strákarnir voru bara þægir, reyndar stóð sumum krökkunum ekki á sama þegar lifandi bangsi birtist með jólasveinahúfu og átti að vera með á myndinni. Ein lítil stelpa missti alveg kjarkinn.
Að launum fengu strákarnir smákökur og bangsa og svo var haldið með hersinguna á leikvöllinn sem er á áttundu hæð.
Spenna vikunnar einkennist af afmælisveislu Huga sem verður haldin á laugardagsmorgun. Sautján krakkar hafa boðað komu sína en við erum búin að panta barnvæna pöbbinn O´Malleys fyrir fjörið. Samhliða þessu erum við að sanka að okkur búningum fyrir hrekkjavökuna í næstu viku.
Undirrituð ætlar að stjórna föndri í Hugabekk á morgun, ég er vel undirbúin. Ef eitthvað gengur ekki upp verð ég tilbúin með eitthvað hálfklárað undir borði eins og tíðkast í Stundinni okkar.
Þannig að það er kökubakstur og föndur á morgun, það er eins og jólin séu komin. Reyndar fara þau að nálgast því ég ætla að senda jólagjafir heim til Íslands með Kjartani 8. nóvember svo það er ekki seinna vænna en að byrja innkaupin.
Nóg að gera að venju í Shanghæ, allir í stuði. Takk tengdó fyrir pakkann með flatkökum og þjóðbúningum fyrir strákana! Það er nefnilega dagur Sameinuðu þjóðanna á þriðjudag og þá verður dagskrá á sal í skóla strákanna. Þeir eiga að ganga inn með íslenska fánann, drengirnir og verða að vera sæmilegir til fara.
Dalla
Tuesday, October 17, 2006
Matarstefnan mikla var á laugardaginn, matur frá mörgum löndum í boði foreldra, það eru börn og foreldrar frá 28 löndum í skólanum.
Veðrið var yndislegt, eiginlega of hlýtt ef eitthvað var. Það jók söluna á barnum svo innkoman var víst fín þar. Við norðurlandabúarnir stóðum vaktina með sænskt nammi, tunnbröd með laxi og kanilsnúða, danskt smurbrauð, norskar vöfflur með sultu og íslenska harðfiskinn, Brennivínið og hákarlinn. Salan fór hægt af stað í hákarlinum en hugrakkur karlmaður reið á vaðið og þegar leið á daginn streymdu að fleiri hugrakkir til að prófa. Ég held að einungis tvær konur hafi prófað samsetninguna, hákarl og Brennivín. Undir lokin sögðust karlarnir vera búnir að prófa hákarlinn og fóru beint í snafsinn.
Kjartan og Atli voru góðir viðskiptavinir og bræðurnir Hugi og Stirnir nöguðu harðfisk með smjöri.
Stemmningin var mjög fín, jazzhljómsveit spilaði, töframaður galdraði fram dúfur úr klútum og dansarar frá Malasíu tróðu upp.
Mr. Flesher, kennari Stirnis sem sést þarna með Magali og Aurélie mömmum í Stirnis bekk, sagði mér að eftir helgina hefði ennþá verið lykt af gömlum hákarli á leikvellinum. Ég á að sjá um eftirmiðdagshressinguna fyrir bekkinn í næstu viku, kannski ég sendi inn afganginn af hákarlinum til að hefna mín á honum.
Stirnir fékk andlitsmálningu í lok dagsins og valdi að vera monkeyboy, Yongjia kallar þá bræður monkeyboys.
Dalla
Friday, October 13, 2006
Hérna kemur myndin innan úr geimfjallinu í Disneylandi!
Vikan hefur verið annasöm. Kínverskutíminn á þriðjudag var lengri en venjulega og við lærðum heilmörg ný orð og fengum 3 heimaverkefni með okkur heim. Nú er ég farin að skrifa litla stíla, reyndar mjög einfalt, við kynnum okkur fyrir hvort öðru og segjum hvort öðru hve ánægjuleg sú kynni séu. Ég átti að koma með fjölskyldumyndir á fimmtudaginn, benda á myndirnar og segja: "Mætti ég kynna ykkur fyrir systur minni!"
Samnemendur mínir eru ágætasta fólk svo ég lýg engu þegar ég segi það vera ánægjulegt að kynnast þeim. Sophie, er kona um fertugt sem á þrjá stráka, hún fylgdi manninum sínum hingað. Delphine er um þrítugt, barnlaus og fylgdi sínum manni einnig hingað. Mennirnir þeirra vinna hjá sama fyrirtækinu, Alston sem smíðar neðanjarðarlestir fyrir Kínverja.
Juan er Kólumbíumaður sem hefur búið í Kína í nokkur ár en er fyrst núna að læra kínversku. Hann er með sitt eigið fyrirtæki sem flytur út fyllingar í brjóst og fleira tengt lýtalækningum til Kólumbíu og landa þar í kring. Hann segir að það sé ekki svo mikilvægt að konur séu með fullkomið andlit í heimalandinu en líkaminn þarf að vera fullkominn. Þessvegna eru systur hans fjórar og móðir allar með brjóst Made in China.
Við Delphine borðuðum saman eftir tímann á þriðjudag, fórum á kitsch stað, thailenskan, þar sem stúlkur dönsuðu á sviði.
Á miðvikudag var annar kungfu tíminn hjá strákunum. Þeir fengu afhentan búninginn, gulan með rauðbleikum líningum og belti. Það spannst upp mikil umræða hjá þeim eftir tímann hvort beltið væri rautt eða bleikt. Stirnir vildi halda því fram að það væri bleikt en það vildi Hugi ekki samþykkja. Reyndar fékkst Stirnir ekki í búninginn en hann ætlar að vera í honum næst. Bræðurnir eru ánægðir, kennarinn er skemmtilegur og þetta er ágætis hreyfing. Hérna er sýnishorn:
Monday, October 09, 2006
Hong Kong ferðin var í alla staði mjög vel heppnuð!
Fyrsta daginn fórum við í rölt um Kowloon þar sem við gistum en Kowloon hverfið er á meginlandinu, samt er það hluti af Hong Kong. Við gengum gegnum garð og fórum á leikvöll og röltum svo meðfram sjónum og horfðum á skipin og yfir til Hong Kong eyjar. Um kvöldið borðuðum við á Víetnömskum stað og skoðuðum kvöldmarkað.
Daginn eftir tókum við neðanjarðarlestina í Disneyland, fallegur sólríkur dagur og mátulega heitt. Það voru einhverjar tafir í lestarkerfinu svo við Kjartan vorum stressuð yfir því að lenda í röð við innganginn í dýrðina. Stirnir reddar sér í lestunum, hann tekur sér stöðu helst fyrir framan góðlegar konur og tilkynnir: Me sit! Og yfirleitt virkar þetta, Hong Kongbúar eru kurteisir líklega vegna arfleifðar Breta og láta honum eftir sætið sitt, veit ekki hvort þetta myndi virka hjá honum í Shanghai.
Síðasti spölurinn var í Mikkalest, gluggarnir voru í laginu eins og Mikkalógóið, höfuðið. Þegar við nálguðumst innganginn vorum við nokkuð hissa því varla var hræða á ferli þarna við opnun kl. 9:30, við löbbuðum beint inn. Við settum stefnuna á Space mountain en þar hafði Hugi pantað ferð. Þetta er rússíbani og allan tímann eru farþegar í hálfmyrkri, aðeins smá skin frá stjörnum. Stirnir var tekinn með í ferðina og sat við hliðina á mér, ég veit nú ekki hvort okkar var hræddara. Ég hallaði mér að honum og reyndi að hughreysta hann í gegnum hávaðann sem fylgdi ferðinni. Þarna festum við kaup á fyndinni fjölskyldumynd. Augun í Huga eru jafn stór og í stærsta hundinum í sögunni eftir H.C. Andersen. Kjartan er spenntur, ég er á svipinn eins og ég hafi bitið í súra sítrónu og það rétt glittir í augun á Stirni upp úr vagninum.
Stirnir lýsti þessari ferð þegar leið á daginn sem hræðilegri og gerði miklar hreyfingar með höndunum sem táknuðu hraðann og beygjurnar, einnig fylgdu þónokkrir hljóðeffektar.
Við ákváðum að fara í rólegheit í næsta tæki, semsagt vagna þar sem við keyrðum rólega í gegnum hóp geimbófa vopnuð geislabyssu, við vorum að hjálpa Bósa ljósár í baráttunni við Surg. Þetta tæki var svo skemmtilegt að við fórum alls fjórum sinnum í það yfir daginn.
Svona leið dagurinn, það voru engar raðir sjáanlegar, það lengsta sem við þurftum að bíða voru 5 mínútur. Ég ætlaði ekki að trúa þessu hvað þetta var ljúft þegar við löbbuðum út kl. 7 um kvöldið. Þetta var önnur upplifun en við fengum í París fyrir rúmum tveimur árum í steikjandi hita, bíðandi í röðum endalaust.
En við sáum og gerðum ýmislegt. Við fórum í gegnum Hundraðekruskóg Bangsímons og félaga, keyrðum bíla, snérumst í bollum og hringekju, sigldum yfir hættulegt fljót þar sem flóðhestar og önnur dýr gerðu sig líkleg til að ráðast á bátinn. Undir lokin lentum við í sjálfheldu þar sem skotið var á okkur og það kviknaði í vatninu í kringum okkur. Svo skoðuðum við húsið hans Tarsans uppi í tré og fórum í þrívíddarbíó. Þar var sýnd mynd um Andrés önd og til að auka á upplifunina gengu yfir okkur vindhviður og það skvettist á okkur vatn. Við sáum líka Lion King leik og söngsýningu og fylgdumst með skrúðgöngu helstu sögupersónanna.
Hápunkturinn að Huga mati fyrir utan Space mountain (sem hann fór þrisvar í), var þegar við fórum á interaktíva sýningu þar sem Stitch var á skjá og krakkarnir sátu á gólfinu fyrir framan skjáinn. Stitch bað um að tala við strákinn í rauða bolnum, það var Hugi. Þá kom kona labbandi með hljóðnema til Huga. Hann svaraði spurningum Stitch um hvað hann héti og hvaðan hann væri eins og herforingi. Svo hjálpuðu krakkarnir Stitch að komast út úr völundarhúsi með því að kalla lit á dyrum sem hann átti að fara í gegnum. Áður en Stitch fór burt á geimflauginni sinni kallaði hann: "Nice meeting you Hugi, see you in Iceland!". Hugi bíður spenntur eftir því að Stitch komi til Íslands svo hann geti gert tilraunir með honum.
Við borðuðum hádegisverð á kínverskum veitingastað, vorum reyndar vöruð við þegar við gengum inn á staðinn að hann væri kínverskur, ekki búist við því að vesturlandabúar vilji borða Dim sum í hádegismat.
Bræðurnir stilltu sér upp til myndatöku með mörgum sögupersónum, Bósa ljósár, Bangsímon, Mínu og Mikka mús, Guffa og dreka. Þetta var bara ekkert mál því ekki þurftum við að bíða lengi á hverjum stað.
Á leið heim vorum við öll orðin fölleit eftir skemmtun dagsins. Við höfðum bara orku í að setjast inn á veitingastaðinn á hótelinu okkar og panta okkur þýskar pylsur og kartöflusalat sem var í boði á Oktoberfest hótelsins. Þessi Oktoberfest var auglýst allsstaðar en þegar við til kom gekk illa að panta af matseðlinum. Pylsurnar skiluðu sér seint og illa til okkar.
Á föstudaginn vorum við ennþá fölleit eftir alla skemmtunina svo við brugðum á það ráð að gefa Huga kók að drekka með morgunmatnum og Stirnir fékk súkkulaðimuffins eftir matinn. Þá færðist litur í kinnar og við gátum farið af stað til Lammaeyjar. Þá fórum við út á Hong Kong eyju í neðanjarðarlestinni og tókum ferju þaðan, einungis 30 mínútna ferð. Þar vorum við komin út í náttúru, engir vegir, bara göngustígar. Það var ótrúlega þægilegt að ganga um í rólegheitum, við fuglasöng og fiðrildi sem flögruðu í kringum okkur. Við gerðum okkur grein fyrir því að þetta höfum við ekki upplifað síðan við komum til Kína, allsstaðar er fólk, umferð og læti.
Við tylltum okkur á litla strönd þar sem við vorum næstum því einu gestirnir, þvílíkur munur frá ströndinni í Qingdao þar sem maður var við mann. Strákarnir undu sér vel í holugreftri og sandskúlptúragerð á milli þess sem þeir dýfðu sér í sjóinn. Stirnir er upprennandi strandljón sé ég, hann unir sér vel í sjóböðum. Hugi gróf mikla holu svo hann hvarf ofan í hana.
Við tókum ferjuna aftur til Hong Kong eyjar seinni partinn og lentum beint í borgarstressinu því við vorum að verða of sein, höfðum pantað okkur borð á veitingastað uppi á fjalli og þangað þurftum við að taka "tramma" upp. Þetta hafðist þrátt fyrir að við sætum föst í umferð í leigubíl í hálftíma.
Við fengum okkur góðan kvöldmat í fallegu umhverfi, sátum úti. Svo tókum við nokkrar myndir af okkur með útsýni yfir Hong Kong í bakgrunni, skýjakljúfarnir eru skrautlegir og flottir.
Við áttum smá orku sem við notuðum til að labba niður fjallið, reyndar á steyptum göngustíg.
Síðasta daginn fórum við í verslunarleiðangur fyrir Atla, núna eiga allir Nintendoleikjatölvu nema við Kjartan. Við settumst inn á kaffihús/bókabúð þar sem lítill kettlingur kúrði í einni bókahillunni. Það var við Times square sem er nú ekkert sérstaklega stórt, frekar þröngt svo maður gerir sér grein fyrir því að land er dýrt og óþarfi að eyða plássi í risatorg. En kosturinn við Hong Kong er tvímælalaust sá að það er auðvelt að komast út í náttúruna og svo er það líka kostur að allir tala ensku svo maður er ekki mállaus eins og hérna í Shanghæ.
Við tókum sporvagn í áttina að flugvellinum og skiptum svo yfir í hraðskreiðari lest. Ég mæli með ferð til Hong Kong, mig langar til að koma þangað aftur...
Í gær var okkur boðið í köku til fransk/hollenskrar fjölskyldu seinnipartinn. Yngri sonurinn er með Stirni í bekk og sá eldri er á Huga aldri. Þau búa í æðislegu húsi í franska hverfinu með stóran garð þar sem kanína og fullt af moskítóflugum halda til. Tvær aðrar frönskumælandi fjölskyldur voru þarna líka og þetta var virkilega huggulegt. Við sátum úti og spjölluðum fram að kvöldmat.
Dagurinn var nú ekki alveg búinn því við kíktum í afmæli til Atla fyrir svefninn. Það voru ansi þreyttir strákar sem fóru af stað í skólann í morgun eftir viðburðaríkt frí. Myndir koma fljótlega!
Dalla
Fyrsta daginn fórum við í rölt um Kowloon þar sem við gistum en Kowloon hverfið er á meginlandinu, samt er það hluti af Hong Kong. Við gengum gegnum garð og fórum á leikvöll og röltum svo meðfram sjónum og horfðum á skipin og yfir til Hong Kong eyjar. Um kvöldið borðuðum við á Víetnömskum stað og skoðuðum kvöldmarkað.
Daginn eftir tókum við neðanjarðarlestina í Disneyland, fallegur sólríkur dagur og mátulega heitt. Það voru einhverjar tafir í lestarkerfinu svo við Kjartan vorum stressuð yfir því að lenda í röð við innganginn í dýrðina. Stirnir reddar sér í lestunum, hann tekur sér stöðu helst fyrir framan góðlegar konur og tilkynnir: Me sit! Og yfirleitt virkar þetta, Hong Kongbúar eru kurteisir líklega vegna arfleifðar Breta og láta honum eftir sætið sitt, veit ekki hvort þetta myndi virka hjá honum í Shanghai.
Síðasti spölurinn var í Mikkalest, gluggarnir voru í laginu eins og Mikkalógóið, höfuðið. Þegar við nálguðumst innganginn vorum við nokkuð hissa því varla var hræða á ferli þarna við opnun kl. 9:30, við löbbuðum beint inn. Við settum stefnuna á Space mountain en þar hafði Hugi pantað ferð. Þetta er rússíbani og allan tímann eru farþegar í hálfmyrkri, aðeins smá skin frá stjörnum. Stirnir var tekinn með í ferðina og sat við hliðina á mér, ég veit nú ekki hvort okkar var hræddara. Ég hallaði mér að honum og reyndi að hughreysta hann í gegnum hávaðann sem fylgdi ferðinni. Þarna festum við kaup á fyndinni fjölskyldumynd. Augun í Huga eru jafn stór og í stærsta hundinum í sögunni eftir H.C. Andersen. Kjartan er spenntur, ég er á svipinn eins og ég hafi bitið í súra sítrónu og það rétt glittir í augun á Stirni upp úr vagninum.
Stirnir lýsti þessari ferð þegar leið á daginn sem hræðilegri og gerði miklar hreyfingar með höndunum sem táknuðu hraðann og beygjurnar, einnig fylgdu þónokkrir hljóðeffektar.
Við ákváðum að fara í rólegheit í næsta tæki, semsagt vagna þar sem við keyrðum rólega í gegnum hóp geimbófa vopnuð geislabyssu, við vorum að hjálpa Bósa ljósár í baráttunni við Surg. Þetta tæki var svo skemmtilegt að við fórum alls fjórum sinnum í það yfir daginn.
Svona leið dagurinn, það voru engar raðir sjáanlegar, það lengsta sem við þurftum að bíða voru 5 mínútur. Ég ætlaði ekki að trúa þessu hvað þetta var ljúft þegar við löbbuðum út kl. 7 um kvöldið. Þetta var önnur upplifun en við fengum í París fyrir rúmum tveimur árum í steikjandi hita, bíðandi í röðum endalaust.
En við sáum og gerðum ýmislegt. Við fórum í gegnum Hundraðekruskóg Bangsímons og félaga, keyrðum bíla, snérumst í bollum og hringekju, sigldum yfir hættulegt fljót þar sem flóðhestar og önnur dýr gerðu sig líkleg til að ráðast á bátinn. Undir lokin lentum við í sjálfheldu þar sem skotið var á okkur og það kviknaði í vatninu í kringum okkur. Svo skoðuðum við húsið hans Tarsans uppi í tré og fórum í þrívíddarbíó. Þar var sýnd mynd um Andrés önd og til að auka á upplifunina gengu yfir okkur vindhviður og það skvettist á okkur vatn. Við sáum líka Lion King leik og söngsýningu og fylgdumst með skrúðgöngu helstu sögupersónanna.
Hápunkturinn að Huga mati fyrir utan Space mountain (sem hann fór þrisvar í), var þegar við fórum á interaktíva sýningu þar sem Stitch var á skjá og krakkarnir sátu á gólfinu fyrir framan skjáinn. Stitch bað um að tala við strákinn í rauða bolnum, það var Hugi. Þá kom kona labbandi með hljóðnema til Huga. Hann svaraði spurningum Stitch um hvað hann héti og hvaðan hann væri eins og herforingi. Svo hjálpuðu krakkarnir Stitch að komast út úr völundarhúsi með því að kalla lit á dyrum sem hann átti að fara í gegnum. Áður en Stitch fór burt á geimflauginni sinni kallaði hann: "Nice meeting you Hugi, see you in Iceland!". Hugi bíður spenntur eftir því að Stitch komi til Íslands svo hann geti gert tilraunir með honum.
Við borðuðum hádegisverð á kínverskum veitingastað, vorum reyndar vöruð við þegar við gengum inn á staðinn að hann væri kínverskur, ekki búist við því að vesturlandabúar vilji borða Dim sum í hádegismat.
Bræðurnir stilltu sér upp til myndatöku með mörgum sögupersónum, Bósa ljósár, Bangsímon, Mínu og Mikka mús, Guffa og dreka. Þetta var bara ekkert mál því ekki þurftum við að bíða lengi á hverjum stað.
Á leið heim vorum við öll orðin fölleit eftir skemmtun dagsins. Við höfðum bara orku í að setjast inn á veitingastaðinn á hótelinu okkar og panta okkur þýskar pylsur og kartöflusalat sem var í boði á Oktoberfest hótelsins. Þessi Oktoberfest var auglýst allsstaðar en þegar við til kom gekk illa að panta af matseðlinum. Pylsurnar skiluðu sér seint og illa til okkar.
Á föstudaginn vorum við ennþá fölleit eftir alla skemmtunina svo við brugðum á það ráð að gefa Huga kók að drekka með morgunmatnum og Stirnir fékk súkkulaðimuffins eftir matinn. Þá færðist litur í kinnar og við gátum farið af stað til Lammaeyjar. Þá fórum við út á Hong Kong eyju í neðanjarðarlestinni og tókum ferju þaðan, einungis 30 mínútna ferð. Þar vorum við komin út í náttúru, engir vegir, bara göngustígar. Það var ótrúlega þægilegt að ganga um í rólegheitum, við fuglasöng og fiðrildi sem flögruðu í kringum okkur. Við gerðum okkur grein fyrir því að þetta höfum við ekki upplifað síðan við komum til Kína, allsstaðar er fólk, umferð og læti.
Við tylltum okkur á litla strönd þar sem við vorum næstum því einu gestirnir, þvílíkur munur frá ströndinni í Qingdao þar sem maður var við mann. Strákarnir undu sér vel í holugreftri og sandskúlptúragerð á milli þess sem þeir dýfðu sér í sjóinn. Stirnir er upprennandi strandljón sé ég, hann unir sér vel í sjóböðum. Hugi gróf mikla holu svo hann hvarf ofan í hana.
Við tókum ferjuna aftur til Hong Kong eyjar seinni partinn og lentum beint í borgarstressinu því við vorum að verða of sein, höfðum pantað okkur borð á veitingastað uppi á fjalli og þangað þurftum við að taka "tramma" upp. Þetta hafðist þrátt fyrir að við sætum föst í umferð í leigubíl í hálftíma.
Við fengum okkur góðan kvöldmat í fallegu umhverfi, sátum úti. Svo tókum við nokkrar myndir af okkur með útsýni yfir Hong Kong í bakgrunni, skýjakljúfarnir eru skrautlegir og flottir.
Við áttum smá orku sem við notuðum til að labba niður fjallið, reyndar á steyptum göngustíg.
Síðasta daginn fórum við í verslunarleiðangur fyrir Atla, núna eiga allir Nintendoleikjatölvu nema við Kjartan. Við settumst inn á kaffihús/bókabúð þar sem lítill kettlingur kúrði í einni bókahillunni. Það var við Times square sem er nú ekkert sérstaklega stórt, frekar þröngt svo maður gerir sér grein fyrir því að land er dýrt og óþarfi að eyða plássi í risatorg. En kosturinn við Hong Kong er tvímælalaust sá að það er auðvelt að komast út í náttúruna og svo er það líka kostur að allir tala ensku svo maður er ekki mállaus eins og hérna í Shanghæ.
Við tókum sporvagn í áttina að flugvellinum og skiptum svo yfir í hraðskreiðari lest. Ég mæli með ferð til Hong Kong, mig langar til að koma þangað aftur...
Í gær var okkur boðið í köku til fransk/hollenskrar fjölskyldu seinnipartinn. Yngri sonurinn er með Stirni í bekk og sá eldri er á Huga aldri. Þau búa í æðislegu húsi í franska hverfinu með stóran garð þar sem kanína og fullt af moskítóflugum halda til. Tvær aðrar frönskumælandi fjölskyldur voru þarna líka og þetta var virkilega huggulegt. Við sátum úti og spjölluðum fram að kvöldmat.
Dagurinn var nú ekki alveg búinn því við kíktum í afmæli til Atla fyrir svefninn. Það voru ansi þreyttir strákar sem fóru af stað í skólann í morgun eftir viðburðaríkt frí. Myndir koma fljótlega!
Dalla
Subscribe to:
Posts (Atom)