Thursday, September 07, 2006
Takk fyrir góðar kveðjur elsku vinir í tilefni afmælis, alltaf gaman að heyra frá ykkur!
Þetta "food fair" dæmi er að verða að miklu "nordisk samarbejde" því ég fór á fund á þriðjudaginn og hitti þar fyrir Christinu fá Danmörku og Björn og Elin frá Svíþjóð. Við ákváðum að slá saman og settum upp the nordic team. Við fengum líka í lið með okkur Jie sem er kínversk en gift norskum manni, hún bjó í Noregi í 15 ár. Síðan hafa gengið á milli póstar með hugmyndum svo allt er komið í full sving. Smörrebröd, nammi, pönnukökur og ýmislegt á matseðlinum. Ég var jafnvel að hugsa um að biðja vissan mann sem kemur til Shanghai í lok september að kippa með sér flösku af Brennivíni og hákarli. Ég frétti nefnilega að það yrði bar á staðnum svo við hljótum að geta boðið upp á snafsa með hákarlinum.
Í gær fórum við í fyrstu afmælisveisluna í Shanghæ. Við vorum á leið í sund og Hugi hljóp á undan að venju. Hann kom á móti okkur Stirni og var mikið niðri fyrir og sagði að það væri eitthvað að gerast í kaffiteríunni hjá sundlauginni. Þá var það lítill strákur sem átti eins árs afmæli og fullt af mömmum með börn í veislunni. Okkur var boðið í köku og strákarnir voru voðalega glaðir með að fara í afmæli. Á laugardaginn er Stirni boðið í afmæli hjá bekkjarsystur sinni og Hugi fær að fljóta með. Þetta er garðpartý og virðist vera mjög prófessjonal, við fengum afhenta dagskrá afmælisins og þar verður skrúðganga, töframaður og fleira.
Við fylgjumst með Rockstar hérna í Kína líka. Ég hitti einmitt indverska konu á leikvellinum sem nefndi Magna við mig þegar ég sagði Ísland, Magni er semsagt tekinn við af Björk og Sigurrós.
Við horfðum á þáttinn í gær með Huga, hann er á kristilegum tíma hérna. Hugi furðaði sig á því hversvegna það væru svo margar stelpur í áhorfendaskaranum. Ég sagði nú að stelpur væru oft hrifnar af rokkurum og hljómsveitargæjum. Þar sem hann er ákveðinn í því að eignast aldrei kærustu fannst honum það nú ekki merkilegt. En eftir sná umhugsun spurði hann pabba sinn: Gerðir þú rokk til að eignast kærustu?
Í kvöld fórum við Kjartan á einhverskonar foreldrafund í skóla strákanna. Bræðurnir fóru á tælenskan veitingastað með Atla og Yongjia. Þeir komu á eftir okkur Kjartani heim og virtust hafa skemmt sér mjög vel, Hugi tók myndir af gestu veitingastaðarins og Stirnir sofnaði eftir mikið hrísgrjónaát. Við Kjartan hittum Ms. D og Mr. Flesher og aðra foreldra, þau kynntu vetrarstarfið fyrir okkur. Allt lítur þetta mjög vel út.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment