Saturday, September 02, 2006Í gær laugardag áttum við Kjartan 17 ára samvistarafmæli. Fyrsti kossinn var á Gauki á Stöng í september 1989. Fyrst um sinn vorum við nú aðskilin í sitthvoru landinu, ég á Spáni og hann í Frakklandi en við héldum það ekki lengi út og undirrituð söðlaði um og flutti til Nice.
Það voru nú engin sérstök hátíðahöld í tilefni dagsins en hann var ljúfur. Okkur var öllum boðið í hádegismat á spænskan stað. Alan sem stjórnar Optic var svona rausnarlegur. Við fengum lágt borð á dýnum og með púðum við bakið, allir berfættir. Bræðurnir hoppuðu kringum borðið og Alan hafði á orði að þeir væru orkumiklir. En öll fengum við góðan mat og stemmningin róaðist þegar strákarnir fóru yfir á næsta bás og hoppuðu þar.
Eftir matinn röltum við yfir á írskan bar O´Malleys en þar er frábær aðstaða fyrir krakka. Gott útisvæði með leiktækjum og föndurhorn inni. Yongjia og Atli hittu okkur þarna og Yongjia stóð sig vel í að leika við Huga og Stirni, þeir hreint og beint elska hana.
Við komum ekki heim fyrr en um sexleytið og þá elduðum við þorsk sem ég fann í Carrefour um daginn. Hann var mjög góður og strákarnir borða vel af fiskinum. Hugi kvartar nefnilega yfir því að það sé allt of oft kjöt í matinn.
Hugi var mjög glaður þegar hann kom heim úr skólanum á föstudaginn, hann lék sér alla leiðina heim við strák sem býr hérna hinu megin við götuna. Hann verður svo glaður þegar hann nær sambandi við krakka þó það sé ekki nema í smástund. Í frímínútum í síðustu viku sagðist hann hafa verið að skoða snigla með stelpu. Upplagt á rigningardegi.
Hann er farinn að hugsa mikið um afmælið sitt og vill helst byrja að bjóða strax en afmælið er í lok október. Hann hefur áhyggjur af því að vera ekki búinn að eignast vini fyrir afmælið. En hann er búinn að bjóða nú þegar einum litlum tveggja ára sem við hittum oft í sundi, hann á amerískan pabba og kínverska mömmu sá.
Vikan er að verða bókuð hjá mér, ég held uppteknum hætti og fer í hádegismat með mömmum úr skólanum. Einnig er ýmis sjálfboðavinna hjá skólanum og fundir í sambandi við hana í vikunni, mér finnst bara fínt að hafa dagskrá og hlakka til að taka þátt.
Dalla

3 comments:

Anonymous said...

Félicitations Kjartan et Dalla, pour avoir tenu le coup ensemble envers vents et marées et produits deux beaux enfants!
Kristinn et moi, on vous bat d'une longueur, puisqu'on se connaît depuis 17-18 ans déjà!.. et on s'apprécie de + en +.
Les photos sont très chouette. Bonne continuation!
Grosses bises à vous 4
Amma leiðinlega

Anonymous said...

Til hamingju með daginn á laugardaginn, þið eruð þá bara einu ári yngri en ég og Björn minn.
(maí '88).
Bestu kveðjur frá Mosfellsbænum,
Thelma

Anonymous said...

TIl lukku bæði tvö. Þið gætuð verið orðin afi og amma:) Ef þetta hefði gengið hratt fyrir sig eins og á mínum bæ. Ég á aftur sjens í ömmuhlutverkið þegar ég fer á eftirlaun. Úti að labba með barnið í göngugrindinni.
Andvökukveðjur frá Ljósheimum
Hólmfríður