Sunday, September 10, 2006
Þá er helginni að verða lokið en eins og Hugi segir þá kemur laugardagur aftur á morgun vegna þess að nú taka við starfsdagar kennara í tvo daga og þarafleiðandi skólafrí.
Helgin byrjaði með afmælisveislu hjá Naomi félaga Stirnis, garðpartí. Ekki leit veðrið vel út í gærmorgun þegar við fórum af stað kl. níu, rigning og vindur. Næstum því íslenskt veður en slefaði í 20 gráðurnar .
Við fórum af stað með regnhlífarnar öll fjögur og vonuðum að það væri skjólsælt í garðinum. Þetta bjargaðist nú allt því það var skjól undir skyggni á staðnum, garðurinn nýttist því miður ekki að ráði vegna veðursins.
Fljótlega eftir komuna byrjuðu skemmtiatriðin. Trúður sem blés blöðrur og gerði fígúrur úr þeim gekk á milli barnanna. Hugi fékk sverð og var fljótlega kominn í bardaga við trúðinn, hann er ekkert sérstaklega feiminn. Stirnir hélt sig meira til hlés svona til að byrja með.
Þá var farið í það að berja í pinata, heila senjórítu sem pabbi afmælisbarnsins bar með sér frá Mexíkó í síðustu viku. Líklega hefur hann þurft að kaupa sæti fyrir ferlíkið. Hugi stóð sig vel í að berja á senjórítunni, lét höggin dynja. Stirnir gladdist þegar honum áskotnaðist sleikjó þegar senjórítan var öll.
Nú birtust fimleikamenn á hjólum, það var ekki laust við að maður óttaðist um þá á blautri stéttinni á hjólunum en þetta bjargaðist. Töframaður sem galdraði fram dúfur úr klút tók við og hélt athygli barnanna. Að lokum birtist maður með tvo púðluhunda sem léku listir sínar, hoppuðu í gegnum hringi og voru voðaleg krútt. Dagskráin var svo þétt að ekki gátu börnin leikið mikið. Punkturinn yfir i-ið var Barbíkaka og svo voru allir leystir út með gjöfum. Miklu föndurdóti sem kom sér vel þegar við fórum heim því það rigndi fram eftir degi.
Ég jesúsaði mig yfir hátíðahöldunum í tilefni fjögurra ára afmælis. Þarna var settur standardinn, ætli ég verði ekki að fá Lalla popp og kók í að event managera afmæli Huga í lok október. Spurning um að flytja inn skemmtikrafta...
Seinnipartinn fórum við mæðgin í leikvallarúnt hérna á svæðinu okkar og enduðum í sundi. Þar hittum við fyrir franska konu sem var að flytja hingað frá Filippseyjum. Hún var með 5 ára son og 2 ára dóttur, snarkrullhærða. Hugi sýndi mér dótturina og sagði að hún væri alveg eins og hann þegar hann var lítill. Nokkuð til í því. Við ætlum að vera í sambandi við þessa fjölskyldu, ég gat miðlað af minni reynslu, bent henni á næsta Carrefour og svona. Nú þykist ég vera orðin sjóuð en það er gaman að kynnast fólki sem býr hérna á sama stað.
Í dag stytti upp þó ekki sé enn orðið jafn hlýtt og var áður, það er mikill munur þegar hitinn fellur um 10 gráður á einu bretti. Við fórum í hádegismat með Atla og Yongjia, fengum hamborgara og pulsur handa krökkum. Þarna voru leiktæki fyrir krakka og allt morandi í expats með börnin sín.
Eftir matinn fórum við niður í bæ á Shanghæ biennalinn. Þemað er hyper design og nokkuð fín sýning. Strákarnir sáu margt flott og áhugavert. Það er alveg hægt að taka þá með á listsýningar enda hafa þeir báðir verið nemendur í Myndlistarskóla Reykjavíkur og opnað augu sín þar fyrir list.
Hugi fór heim með pabba en við Stirnir sátum eftir með Atla og Yongja og fórum á kaffihús listasafnsins.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment