Sunday, September 17, 2006
Það hefur rignt eiginlega alla vikuna, loksins í dag sunnudag fór sólin að skína aftur. Það var þónokkur vindur svo við nýttum tækifærið og fórum út með flugdreka sem flaug nú ekki langt, vindurinn virtist koma úr öllum áttum.
Ég byrjaði í kínverskutímum á þriðjudaginn, var með franskri stúlku í tímanum sem mér líst mjög vel á. Kennarinn er indæl ung kona sem hvetur okkur áfram en fyrst um sinn erum við að stúdera framburð og tónana sem eru fjórir: Upp, niður, flatur og upp, niður og aftur upp á sama hljóðinu. Þetta gengur svona ágætlega, mér finnst ekki erfitt að bera þetta fram nema nokkur hljóð sem eru erfið.
Á fimmtudaginn bættist við áströlsk kona í litla hópinn okkar og kona á skrifstofu skólans sagði að það gæti bæst við enn ein wife/eiginkona í næstu viku. Það lítur út fyrir að allar konur í kínverskutímum í Shanghai séu eiginkonur manna í vinnu hér. Þetta er semsagt nýi titillinn minn, eiginkona.
Á miðvikudaginn fór ég í morgunkaffi með mæðrum úr Stirnis bekk, það eru mjög fínar konur þarna. Við mættum sjö af ellefu. Við spjölluðum heilmikið.
Á eftir tók Lethe mig með sér í innkaup, við fórum í risastórmarkað fyrir utan bæinn og á matarmarkað líka. Það var margt að sjá á þessum matarmarkaði, mikið af sjávardýrum og lyktin ansi sterk. Kjartan sagði að ég sæi meira af Kína en hann þegar ég sagði honum frá ferðinni. Hann situr inni á skrifstofu meðan ég skoða mig um. Eftir þetta innkaupastúss bauð Lethe mér heim þar sem mamma hennar eldaði ofan í okkur hádegismat. Hún bar fram steikt lótusblóm með kjötfarsi/hakki á milli, eggja og tómatarétt sem er uppáhaldið hans Stirnis og líka svínarétt. Það var gaman að fara í heimahús og borða þessa kínversku rétti sem maður hefur smakkað á veitingastöðum en ég hafði ekki smakkað lótusblómaréttinn áður.
Við höfum hitt frönsku krakkana nágranna okkar á hverjum degi síðan á mánudag. Við fórum í heimsókn til þeirra og svo hittum við þau úti á leiksvæðunum. Strákunum kemur vel saman, það er kraftur í Arthúri eins og Huga og þeir hlæja mikið saman allir þrír. Við kíktum upp til þeirra á föstudaginn og fengum lánaða barbapapateiknimynd en Hugi og Stirnir höfðu aldrei séð lifandi myndir af barbapapa, bara gömlu bækurnar mína síðan ég var lítil. Þeir elska þær bækur.
Á föstudagsmorgun skipulagði ég morgunkaffi með foreldrum úr Huga bekk. Mætingin var nú ekki eins góð og í Stirnis bekk, bara 5 af 15. En þetta er fínar konur, tvær frá Taivan, önnur þeirra starfaði sem fréttapródúsent í heimalandinu. Ein þeirra er kínversk en hefur búið í Bandaríkjunum og önnur er japönsk gift Svía.
Við náðum bara vel saman en ég hafði varla hitt þær áður. Ein þessara kvenna á unga tvíbura auk dóttur sem er með Huga í bekk. Hún hefur tvær Ayi á heimilinu allan sólarhringinn til að aðstoða við húsverk og barnaumönnun og börnin sofa inni hjá sitthvorri Ayi-inni. Hún þarf þessvegna ekki að vakna til barnanna. Hún talaði um það hvílíkur lúxus það væri að geta veitt sér þetta. Í heimalandinu gat hún einungis fengið húshjálp til að þrífa hjá sér einu sinni í viku fyrir sömu upphæð og að hafa tvær konur á heimilinu allan sólarhringinn. Svona líf efast ég um að geta stillt mig inn á.
Næst ætlum við að hittast í hádegismat, þá ætti að vera auðveldara fyrir þær mæður sem eru útivinnandi að koma líka.
Á föstudagskvöldið fórum við Kjartan út að borða með foreldrum í bekknum og kennara Stirnis. Kjartan var nú ekki spenntur fyrir því að þekkja engan en þetta varð mjög skemmtilegt kvöld. Þarna komu m.a. hjónin sem bjuggu á Íslandi fyrir tíu árum, frekar skrýtið að vera spurður af kínverja hvað maður segi gott. Þau trúlofuðu sig á Íslandi og bera því sterkar tilfinningar til landsins.
Hundurinn Table er í pössun hjá okkur þessa dagana. Hann pissar á bleiu á svölunum, það finnst bræðrunum frekar fyndið. Hann er nú búinn að gera nokkur skammarstrik hérna inni í kúk og pissmálunum en honum fer fram. Hann hefur tekið ástfóstri við mig og sefur við lappirnar á mér núna.
Moli okkar á Íslandi fór í stóra aðgerð á mánudag og lifði hana af. Vegna veiks hjarta var það tvísýnt hvort hann þyldi skurðaðgerð. Amma Ragnheiður og afi Jóhann eru með hann í gjörgæslu og við fáum fréttir af honum daglega eða jafnvel oft á dag. Hann er að skríða saman og verður vonandi í fullu fjöri þegar við hittum hann aftur.
Helgin var róleg hjá okkur, við héldum okkur heima vegna rigningar í gær. Í dag fórum við á sushistað í hádeginu og Hugi borðaði yfir sig. Stirnir smakkaði litla kolkrabba, spurning hvort honum varð illt í maganum af þeim en hann gubbaði þegar við vorum á hundagöngu seinnipartinn. Hann hafði nú alveg lyst á fiski í kvöldmatinn svo þetta hefur verið tilfallandi.
Dalla
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment