Wednesday, September 20, 2006

Best að byrja á veðurfréttum. Veðrið hefur verið yndislegt síðan á sunnudag, 25 stiga hiti og gola og nokkuð sólríkt. Svona á september að vera, ekki þessi rigning sem var í síðustu viku.
Kjartan flýgur í áttina að fellibyl á morgun, hann fer til Tókýó en þar hefur fellibylur gengið yfir og annar eða sá sami á leiðinni aftur. Stirnir kom með fína mynd heim úr skólanum um daginn. Þar var hann sjálfur staddur og sólin skein, það rigndi og hvirfilbylir voru á víð og dreif um myndina, þessir fínu spíralar eins og Kjartan stúderaði í Frakklandi á sínum tíma.
Meðan ég er að tala um Stirni kom það skýrt fram um daginn hvað hann er mikill mömmustrákur. Hugi var að gera sig líklegan til að príla á svölunum. Stirnir varaði við því, hann gæti dáið ef hann dytti: "Þá sérðu mömmu aldrei aftur!". Það er það versta sem gæti gerst, að hann sæi aldrei mömmu aftur.
Við Hugi lentum í því að týna Stirni í gær þegar við komum heim úr sundi. Við héldum að hann hefði hlaupið á undan okkur heim að húsinu en hann var ekki þar þegar við komum heim. Við leituðum í báðum stigunum, kölluðum og enginn Stirnir fannst. Við fórum út og ég talaði við vörð á minni bjöguðu kínversku, þar komu orðin litli bróðir og stóri bróðir sér vel. Hann benti upp í húsið eins og hann hefði séð Stirni fara inn. Þarna bar að kínverskumælandi útlending sem hjálpaði mér að láta vörðinn skilja að ég hefði týnt litla bróður, dídí. Vörðurinn kallaði upp þessar fréttir til annarra varða og við Hugi rukum aftur að sundlauginni til að leita af okkur allan grun. Ekki bætti úr skák að ég var nýbúin að lesa frétt á mbl um barnsrán í Kína. Hugi brast í grát á leiðinni og sagðist ekki vilja að Stirnir dæi.
Þegar við komum aftur í laugina var allt með kyrrum kjörum og enginn dídí sjáanlegur. Konan í afgreiðslunni kannaðist ekki við það að Stirnir væri þar. Þegar ég var að tala við hana heyrði ég grát, þá stóð Stirnir allur útgrátinn bak við vegg. Hann hefur líklega orðið eftir og grátið þegar hann fann okkur ekki. Enginn skipti sér greinilega af honum. Við Hugi urðum svo fegin að því verður ekki lýst. Í millitíðinni var ég búin að hringja í Kjartan sem var á leiðinni heim sem hringdi í Horace samstarfsmann sinn sem hringdi í mig til að aðstoða við túlkun við verðina.
Huga varð að orði þegar við vorum á leið heim öll þrjú að ef Stirnir myndi deyja myndi hann líka vilja deyja. Hann er kannski svolítið dramatískur... en bróðurástin er sterk.
Hugi var stoltur þegar hann kom heim úr skólanum í dag. Hann var spurður út úr í landafræðigrógrammi sem hann er í, það heitir Passport club. Hann fékk vegabréf (plat) og heimskort og á að læra landafræði heima, foreldrar sjá um þetta prógramm. Hann átti að læra nöfn heimsálfanna þennan mánuðinn og stóðst þetta próf, benti á álfurnar eins og herforingi. Hann fékk stimpil og frímerki í vegabréfið sitt að launum.
Hann er farinn að nota enskuna meira, ég heyri það sérstaklega þegar hann talar við Arthúr hinn franska hérna heima. Frasar eins og: This is cool, it´s great, it´s easy, look at me og fleiri bunast upp úr honum.
Stirnir fræddi mig um það hvernig maður segir bók á ensku áðan. Hann kom heim með geisladisk um daginn með lögum sem krakkarnir syngja í skólanum. Hann settist niður og söng hástöfum með fjórum lögum og gerði hreyfingar með.
Ég fór á fyrirlestur í skóla strákanna í dag, fyrir foreldra sem eru nýkomnir til Shanghai. Það var þýsk kona sem talaði en ég var nú ekkert sérstaklega hrifin. Hún virtist hafa kvartað og grátið fyrstu vikurnar og mánuðina, algjört fórnarlamb. Svo kom þar fram að við ættum að búa mönnunum okkar hlýlegt heimili því þeir ynnu svo mikið og undir álagi. Að auki vilja kínverskar konur ná sér í útlendinga svo við þurfum að passa kallana líka. Það sem bjargaði þessari konu var að hafa samband við Lifeline Shanghai sem hún er nú orðin fyrirlesari hjá og fá ráð hjá þeim.
Ég fann mig ekki í þessu, mér finnst ég ekki vera fórnarlamb, ég valdi sjálf að koma hingað og lít á þetta sem góða reynslu fyrir alla fjölskylduna.
Við settumst niður yfir hádegismat eftir fundinn, dönsk kona og sænsk og ein amerísk líka. Það var mjög gott að tala við þær. Elin, sú sænska er búin að vera hérna í 1 ár og hafði miklu að miðla til okkar Christinu sem erum báðar nýkomnar. Við vorum allar konur með karríer áður en við komum hingað en núna erum við eiginkonur eins og ég sagði í fyrri pistli. Elin talaði einmitt um það að fyrst hefði henni fundist hún þurfa að segja fólki hver hennar starfsvettvangur væri en svo komst hún að því að flestar konur yfirgefa sitt starf til að fylgja eiginmönnunum hingað. Og verða þá eiginkonur, mæður, expats, taitais sem er eiginlega móðgunarorð fyrir okkur kellurnar sem förum í nudd, handsnyrtingu og annað dekur til að láta dagana líða.
Ég hitti líka par á fundinum, þau eru frá New York, hún myndlistarmaður og hann kvikmyndagerðarmaður, þau eru búin að ferðast um heiminn með börnin sín tvö í eitt ár og ætla að dvelja í Shanghai næsta árið. Hún er búin að fá inni í galleríi fyrir sýningu og bauð mér að koma, það er í gallerísgötu norðarlega í Shanghai. Við Christina ætlum að fara í næstu viku og skoða þessa götu.
Daisy, mín elskulega ætlar að vinna fyrir Sylvie mömmu Arthurs og Zoe líka. Hún er nefnilega að missa flesta kúnnana sína burt frá Kína í október og það kemur sér vel að vera með tvö heimili í sama húsinu.
Ég þarf víst að setjast yfir mandarínið/kínverskuna í kvöld, ég verð spurð út úr í fyrramálið, engin miskunn. Ég man a.m.k. vel hvernig á að segja litli bróðir og stóri bróðir, dídi og gége.
Dalla

2 comments:

Anonymous said...

Geturu ekki bara safnað þessum "eginkonum" saman og stofnað eithvað stórveldi í viðskiptaheiminum ? fjölmiðla risa or something :D

kær kveðja
Finnur
CCP HQ

Anonymous said...

Hæ hæ elsku Dalla og fjölskylda
Takk fyrir skilaboðin á síðunni okkar. Ég lagðist í að lesa bloggið sem hafði misst af s.l. vikur (verið alveg klikkað að gera) þetta er nú meira ævintýrið allt saman. Ég fékk alveg í magann að lesa um þegar Stirnir týndist, ég held það geti ekki verið til verri tilfinning en sú að halda að börnin manns séu týnd, úffffffff!! Ég segi bara enn og aftur Dalla þú ert þvílík hetja að standa í þessu öllu! Gangi ykkur allt sem best. Kærar kveðjur,
Vera og co